Forsíða
LagaWiki er verkefni sem hefur það markmið að birta íslensk lög frá þjóðveldisöld til dagsins í dag á wiki-sniði. Áhersla er lög fyrst og fremst á birtingu laga frekar en lögskýringar eða söguskýringar. Ábyrgðarmaður verkefnisins er Stefán Örvar Sigmundsson en Svavar Kjarrval er sérlegur ráðgjafi. Allt efni hér hefur einnig verið gefið til Wikiheimilda.
Efnisyfirlit
Lög
Grágás | |
---|---|
Lagasafn þjóðveldistímabilsins (930 – 1262/64) og fram að lögtöku Járnsíðu. Byggt á Gulaþingslögum frá Noregi. | Alþingi |
Járnsíða | |
Lögbók lögtekin 1271 til 1273. Feldi úr gildi lög þjóðveldisins. Í gildi fram að lögtöku Jónsbókar. Byggt á Frostaþingslögum frá Noregi. | Alþingi Noregskonungur |
Kristinréttur Árna Þorlákssonar | |
Guðslög samþykkt 1275. Samin af Árna Þorlákssyni (1237–1298) biskupi í Skálholti. Í gildi fram að lögtöku kirkjuordinansíu Kristjáns III. Eru enn í gildi að hluta. | Alþingi Noregskonungur Erkibiskup í Niðarósi |
Jónsbók | |
Lögbók lögtekin 1281. Feldi úr gildi Járnsíðu. Er enn í gildi að hluta. | Alþingi Noregskonungur |
Dönsk lög | |
Lögbók lögtekin 1683 í Danmörku. Lögtekin að hluta á Íslandi. | Alþingi Dana- og Noregskonungur |
Norsk lög | |
Lögbók færð Noregi 1687. Lögtekin að hluta á Íslandi. | Alþingi Dana- og Noregskonungur |
Stjórnartíðindi | |
Tímarit birtinga laga og stjórnvaldaerinda. Gefið út síðan 1874. | Alþingi Forseti Íslands |
Sáttmálar
Kílarsáttmálinn | |
---|---|
Sáttmáli undirritaður 1814 sem færði yfirráð yfir Íslandi formlega frá Noregi til Danmerkur. | Danmörk–Noregur Sameinað konungsríki Stóra-Bretlands og Írlands Svíþjóð |
Hugtök og útgáfur
Orðskýringar |
---|
Lög Lög eru samstæða reglna sem eru búin til og framfylgt af félagslegum eða opinberum stofnunum í ákveðinni lögsögu. Sá einstaklingur eða stofnun sem setur lög er nefndur löggjafi. Lögbók Lögbók er heildstætt safn allra gildandi laga fyrir ákveðna lögsögu. Slíkar bækur voru algengar á fyrri tímum þegar fá lög giltu og hægt var að koma þeim öllum fyrir í einni bók. Lagasafn Lagasafn er safn laga fyrir ákveðna lögsögu sem annað hvort tekur til afmarkaðra málefna eða inniheldur öll gildandi lög. Slíkt söfn eru uppfærð eftir því sem lög taka breytingum. |
Alþingi |
Hvað eru Alþingistíðindi? Fyrir hvert þing Alþingis milli 1845 og 2009 voru gefin út á prent Alþingistíðindi. Þau innihalda efni þingfunda og þingskjala sem og ýmisleg yfirlit yfir starfsemi þingsins. Eftir 2009 er slíkt efni einungis fáanlegt á vef Alþingis undir heitinu Þingtíðindi. Birting samþykktra lagafrumvarpa í formi þingskjala í Alþingistíðindum/Þingtíðindum telst ekki formleg birting þeirra enda hafa þau ekki hlotið staðfestingu forseta Íslands í ríkisráði né laganúmer af hálfu Stjórnarráðs Íslands. |
Helstu útgáfur stjórnvalda |
Stjórnartíðindi Til þess að lög taki gildi á Íslandi skulu þau birt í Stjórnartíðindum eftir samþykki Alþingis og staðfestingu forseta Íslands. Í Stjórnartíðindum eru einnig birtar reglugerðir, forsetaúrskurðir og samningar við erlend ríki. Dómsmálaráðuneytið annast birtingu Stjórnartíðinda. Lagasafn: Íslensk lög Tvisvar til þrisvar á ári er útbúið lagasafn þar sem öll ný íslensk lög og breytingar á lögum eru felldar inn í heildstætt safn allra gildandi laga. Nefnd á vegum dómsmálaráðuneytisins annast uppfærslu lagasafnsins sem Alþingi birtir á vef sínum. Milli 1931 og 2007 var lagasafnið gefið út á prent 11 sinnum. Lögbirtingablað Ólíkt því sem nafnið kann að gefa til kynna þá er Lögbirtingablað ekki blað þar sem lög eru birt heldur blað þar sem auglýsingar eru birtar samkvæmt lögum. Sýslumaðurinn á Suðurlandi annast birtingu Lögbirtingablaðs. Hver er munurinn á Stjórnartíðindum og Lagasafni: Íslensk lög? Í Stjórnartíðindum eru lög birt eins og þau eru samþykkt af Alþingi og staðfest af forseta Íslands. Í Lagasafni: Íslensk lög eru einungis gildandi lög hvers tíma. Þegar breytingar eru gerðar á lögum er textanum í lagasafninu breytt í samræmi við þær – svo sem með því að fella út lagagreinar eða jafnvel lög í heild sinni – en efni Stjórnartíðinda taka aldrei breytingum. Þegar ný lög eru samþykkt eru þau birt í Stjórnartíðindum og í lagasafninu. Á þeim tímapunkti eru þau eins í báðum útgáfum og nefnast þau stofnlög. Þegar breytingar eru gerðar á áðurnefndum lögum eru breytingarlögin birt í Stjórnartíðindum – þau lýsa hvaða breytingar skulu gerðar á stofnlögunum – en lagasafnið er síðan uppfært með þeim breytingum sem fyrirskipaðar eru. |
Eldri útgáfur stjórnarfyrirmæla |
Lovsamling for Island Jón Sigurðsson (1811–1879) ásamt fleirum gáfu út á árunum 1853 til 1889 alls 21 bindi sem innihéldu „úrval á mikilvægustu eldri og nýrri lögum og tilskipunum, ályktunum, fyrirmælum og reglugerðum, Alþingisdómum og -samþykktum, stjórnarbréfum, stofnbréfum og gjafabréfum, svo og öðrum skjölum til upplýsingar um réttarfar og stjórnsýslu Íslands“ eins og segir á tiltilblaði bindanna. Meginhluti efnisins er á dönsku og nær yfir tímabilið 1098 til 1874. Tíðindi um stjórnarmálefni Íslands Hið íslenzka bókmenntafélag gaf út á árunum 1855 til 1875 árleg hefti sem innihéldu „helztu konúngsúrksurði, stjórnarráða bréf o. fl.“ eins og segir í formála fyrsta bindisins. Heftin voru síðan gefin út í þremur bindum yfir tímabilið (1864, 1870 og 1875). Við stofnun stjórnarráðs fyrir Ísland 1874 hófst útgáfa Stjórnartíðinda fyrir Ísland og var því ekki ástæða fyrir áframhaldandi útgáfu þessa ritsafns. |
Eldri útgáfur lagasafna |
Á árunum 1887 til 1910 komu út 6 bindi sem innihéldu gildandi lög og stjórnvaldsfyrirmæli frá árunum 1672 til 1909. Að útgáfunni stóðu Magnús Stephensen (1836–1917), Jón Jensson (1855–1915) og Jón Magnússon (1859–1926). Tveimur árum áður hafði Hið íslenzka þjóðvinafélag gefið út eitt bindi undir sama titli í umsjón Jóns Ólafssonar en fyrirhugað áframhald verksins varð aldrei að veruleika. Lög Íslands: Öll þau, er nú gilda Árin 1914 og 1924 komu út bindin Lög Íslands: Öll þau, er nú gilda í umsjón Einars Arnórssonar. Hið fyrra var gefið út af Fjallkonuútgáfunni og innihélt gildandi lög og stjórnvaldsfyrirmæli frá árunum 1275 til 1856 og hið síðara var gefið út af Agli Guttormssyni með efni frá árunum 1874 til 1908. |
Eldri útgáfur fornra skjala |
Íslenzkt fornbréfasafn (Diplomatarium Islandicum) Hið íslenzka bókmenntafélag gaf út á árunum 1857 til 1972 í 16 bindum íslenskt fornbréfasafn „sem hefir inni að halda bréf og gjörninga, dóma og máldaga, og aðrar skrár, er snerta Ísland eða íslenska menn“ eins og segir á tiltilblaði bindanna. Meginhluti efnisins er á íslensku og nær yfir tímabilið 834 til 1589. Alþingisbækur Íslands Sögufélag gaf út 17 binda ritröð á 20. öld kallað Alþingisbækur Íslands. Samanstendur hún af gerðabókum Alþingis frá 1570 til 1800 og er unnin upp úr handritum sem Árni Magnússon safnaði saman. Hluti handritanna brann í Árnasafni í Kaupmannahöfn í stórbrunanum 1728. |
Norges gamle Love Norska Stórþingið samþykkti árið 1830 að fjármagna útgáfu hinna fornu laga og réttarbóta Noregs. Kom verkið út í fimm bindum og spannar tímabilið frá fyrstu skráðu lögum Noregs til ársins 1387 og inniheldur meðal annars Járnsíðu og Jónsbók hvað Ísland varðar. Margrét Valdimarsdóttir varð handshafi konungsvaldsins í Danmörku 1387 og hófst þá tímabil danskra yfirráða á Norðurlöndum. Hún tók við völdum í Noregi 1388 og í Svíþjóð 1389 en Kalmarsambandið varð að veruleika 1397 og við það sameinuðust Norðurlöndin undir einn konung. |
Diplomatarium Norvegicum Norskt fornbréfasafn var gefið út á árunum 1848 til 2011 í 23 bindum og inniheldur texta fornra skjala og bréfa sem varða málefni Noregs. Í einhverjum tilfellum inniheldur safnið einnig efni sem varðar málefni Íslands. Meginhluti efnisins er á fornorrænu, fornnorsku og forndönsku og nær yfir tímabilið frá miðri 11. öld til loka 16. aldar. Regesta Norvegica Norsk skrá var gefin út á árunum 1989 til 2015 í 10 bindum og inniheldur yfirlitsskrá fornra skjala og bréfa sem varða málefni Noregs. Í einhverjum tilfellum inniheldur skráin einnig efni sem varðar málefni Íslands. Verkið svipar til Norsks fornbréfasafns en er þó uppflettirit með samantektum á nútíma norsku í stað þess að birta allt efni skjala og bréfa í heild sinni á frummáli. |