Kristinréttur Árna Þorlákssonar
1. Um barnaskírn
Ala skal barn hvert er borið verður og mannshöfuð er á, þó að nokkur örkyml sé á, og til kirkju færa svá sem fyrst kemst við og skíra láta prest ef honum náir. Elligar skulu konur svá fyrir sjá þegar er þær eru nær barnburðinum að þar sé vatn í hjá. En ef barn er með litlum mætti fætt og nær eigi presti, þá skal skíra hverr sem hjá verður staddur, jafnvel faðir eða móðir ef eigi eru aðrir menn til, og dýfa barninu í vatnið þrysvar og mæla þessor orð meðan: Jón eða Guðrún. Eg skíri þig í nafni föður og sonar og heilags anda. Og skal við þessor orð ekki auka og ekki af taka og eigi skíra nema í vatni. Þó er rétt þó að um sinn sé í drepið eða hellt vatni á eða ausið, ef eigi er ráðrúm að öðru. Raki gerir önga skírn. Íss eða snær gerir og önga skírn nema það þiðni svá að þar verði vatn af. Hann skal bræða ís eða snjó svá að það verði að vatni og ríða eða stökkva á barnið, og því betur er víðara kemur á barnið, og skíri með þeim orðum sem áður var sagt. Berist svá að, að móðir eða faðir skíri barn í þeima nauðsynjum, þá skulu eigi þess kyns guðsifjar skilja hjúskap þeirra. Deyr og barn áður en til prests sé komið og kveðst sá skírt hafa sem með ferr eða í hjá verið þeim er skírði og sannar sögn sína með einseiði, og þikki presti rétt skírt, þá skal það barn kirkjugræft vera en eigi elligar. Kemur barn lífs til prests, þá skal hann veita því alla reiðu þá sem hann er skyldur til, hvárt sem barn virðist honum áður hafa verið rétt skírt eða eigi. Á hverjum degi og sem þarf, jafnvel jóladag eða páskadag, má barn skíra. En hver sem guðsifjar veitir barni, þá er skyldugur til að kenna því credo og pater noster, en faðir og móðir eru skyldug að gæta fyrir alls konar lífsháska fyrir utan sótt sjau vetur. En ef maður heldur barni óskírðu um fimm nætur nauðsynjalaust, gjaldi byskupi sex aura. Heldur hann aðrar fimm nætur, gjaldi byskupi tólf aura. Heldur hann inar þriðju fimm nætur, gjaldi byskupi þrjár merkur. Heldur hann inar fjórðu fimm nætur, gjaldi fimmtán merkur, á hálft konungur en hálft byskup. Heldur hann lengur og deyr barn heiðið, þá er hann útlægur og allt fé hans, á hálft konungur en hálft byskup. Ef skaparfi barns er hjá, þá skal hann færa barn til skírnar og sá maður sem hann biður til. En ef hann er eigi hjá, þá skal bóndi sá færa barn til skírnar sem vist veitir konu þeirri sem barn fæddi. En ef hvárki er þeirra hjá, þá skulu þeir menn færa barn til skírnar sem þar eru lögfastir innanhúss. Ef þeir hafa eigi lið til, þá skulu þeir sem næstir eru. Bóndi er skyldur að ala þá menn sem barn færa til skírnar, þrjá menn fulltíða og barn inn fjórða mann og eyk ef þeim fylgir. En ef hann á minna fé en þingfararkaupi gegni, þá skal hann veita þeim húsrúm og selja þeim mat og hey svá sem búar virða. Goldið skal á fjögurtán nóttum matarverð og heys. En ef bóndi synjar þeim vistar eða þess beina sem hann er skyldur, þá er hann sekur þrim aurum viður þá er vistar er synjað. Ef barn elst í úteyjum þá eru þeir menn skyldir að færa barn til skírnar sem áður var sagt. Sá er skyldur að ljá skips sem beðinn er. Sekur er hann þrim mörkum við byskup ef hann synjar og fara á með þeim hverr sem beðinn er svá sem fyrst má fyrir veðurs sökum. Bóndi er skyldur að ala þá menn, sem utan eru komnir, fimm og barn inn sétta mann. Þeir skulu ferja þá menn aftur út sem utan færðu er barn færðu til skírnar. Ef kona verður léttari á förnum vegi, þá eru förunautar hennar skyldir að færa barn til skírnar eða þeir sem fyrst eru beðnir til. Hverjum manni sjau vetra gömlum eða ellra er skylt að kunna barn að skíra, svá og að kunna credo og pater noster og ave Maria. En ef maður kann eigi fyrir órækðar sakir og hefir hann vit til, þá er hann er tólf vetra gamall, þá er hann sekur þrim mörkum við byskup, því aðeins skal yngri maður barn skíra en sjau vetra ef hann kann atferli og sé engi ellri karlmaður í hjá. Skíra skal kona barn ef eigi eru karlar til og varðar henni slíkt sem karlmanni ef hon kann eigi eða verði eigi rétt að farið þá er þörf verður.
2. Um föður að barni
Sá skal faðir vera að barni sem móðir segir á hendur, nema hann færist undan með lýritareiði ef það sýnist byskupi eða hans umboðsmanni réttliga vera mega með skynsamra manna ráði. En ef kona deyr og hefir hon eigi sagt til faðernis barni sínu, þá sæki sá sem rétt á á henni þann sem honum þikki líkligastur til vera bæði réttar síns og viðtöku barns og prófast fyrir byskupi. Nú ef hann fellst að prófan, þá haldi sá fyrir lýritareiði sem barn er kennt. En ef sá deyr sem hon kennir barn, þá skal það standa sem hon sagði til á sæingarferð sinni, ef hon sagði eigi tvennt til, og það skal hon sanna með eiði og þær konur sem þá vóru í hjá henni og þá heyrðu orð hennar. Ef þær eru eigi til, þá skal prófa ef nokkurir vissu samvist þeirra eða hvárt nakkvað svari það því sem barnið var fætt að réttri tiltölu. Nú líkist barn í þess ætt, þó að síðarr sé, sem með eiði synjaði, og sýnist svá byskupi og öðrum skilvænum mönnum, þá berr það sér sjálft vitni með prófan samvistar þeirra, svá sem til getnaðartímans heyrir, þá taki sá við barni sínu og bæti meinsæri sitt, en fái þeim fulla fúlgu með sem barn hefir þar til fætt. En ef kona vill eigi segja til faðernis barni sínu, þá sekist hon þrim mörkum við byskup, en barn skal fylgja móður og taka rétt eftir móðurfeður sínum.
3. Um yfirferð biskups
Næst skírn er helgan sú sem ferming heitir en sumir kalla byskupan; er það staðfesting viðurtekinnar trúar. Skulu allir kristnir menn eftir skírn taka í þessarri staðfesting inn helga anda við álögu byskups handar með crismo. Eru þessar helganir, skírn og ferming, svá samtengðar að hvárgi má annarrar án vera nema dauði komi í millum, því að svá sem hinn helgi andi, er niður ferr af himnaríki yfir vötnin með heilsamligri tilkvámu, gefur fullkomliga hreinsan synðanna í fontinum, svá lér hann og öllum í þessarri staðfesting trúarinnar aukan framleiðiss til miskunnar, og þó að skírnin nægist meinalausum framfarandi til eilífs fagnaðar, þá er þó hjálp þessarrar helganar lifandi mönnum nauðsynlig til styrks og framgöngu móti andskotanum, og vápnar oss með miskunn sjaufalligra dyggða heilags anda. Skulu allir kristnir menn, þeir sem skynsemð og aldur hafa til þess, fastandi og vel skriftaðir taka þessa helgan með mikilli virðing, og eigi oftarr en eitt sinn. Má ferming af öngum fremjast né fullkomast nema af byskupi, og fyrir því og margrar annarrar skyldu sakir skal byskup vitja nauðsynjalaust svá víða sem hann getur á hverjum tólf mánuðum guðligrar hjarðar, hverrar hann er með guðs miskunn og hjálp skyldugur að geyma og leiða til rétts vegar með heilsamligum kenningum, svá sem elskuligur faðir sín börn. En þá er byskup ferr í sýslu sína börn að ferma eða kirkjur að vígja eða aðra þjónustu mönnum að veita hvárt sem hann ferr langt eða skammt, þá eru allir skyldir, þeir sem til eigu og kvaddir verða, að fá honum reiðskjóta tólf ef hann þarf svá, en sá sem fellir þenna skjót er sekur sex aurum við byskup, en sá sem byskupi veitir skal láta krefja reiðskjóta með tvá vátta.
4. Um forræði byskups á kirkjum og eignum þeirra
Byskup várr skal kirkjum ráða og öllum eignum þeirra og öllum kristnum dómi, svá og tíundum og tilgjöfum þeim sem menn gefa guði og hans helgum mönnum lögliga sér til sáluhjálpar, því að ekki vald megu leikmenn yfir slíkum hlutum eiga utan byskupa skipan. Presta og lærða menn skal byskup til kirkna skipa svá sem máldagar standa til. Ef kirkja brenn eða lestist svá að aðra þarf að gera, þá skal kirkju þar gera sem byskup lofar og svá mikla sem hann vill og þar kirkju kalla sem hann vill. En sá sem kirkju vill gera skal ætla henni áður svá miklar tillögur og heimanfylgju sem byskupi sýnist að hon megi haldast af og hennar þjónustumenn. Hann skal svá hefja smíð að innan tólf mánaða frá því er lestist sé gör svá að tíðir megi í veita ef hann má það. Landeigandi er skyldur að láta gera kirkju á bæ sínum, hverr sem fyrr lét gera, þá skal byskup vígja kirkju er hann vill. Bóndi skal halda kirkjudag þann að jafnlengð hverri of sinn á tólf mánuðum og hjú hans og gestir þeir sem þar eru fyrir um nóttina og þeir menn sem þangað leggja tíund sína svá að byskup vill. Guði skal hverr maður kirkju gera en eigi sjálfum sér til afla eða nokkurra forræða.
5. Um kirkjuvígslu
Vígja skal kirkju síðan er gör er, en sá sem vígja lætur skal gera sæmiliga veislu móti byskupi og fái til þá hluti sem hafa þarf. En þar sem ef er á hvárt kirkja er vígð eða eigi, þá skal vígja láta, því að eigi er það endurnýjað sem engi veit fyrr gört vera. En ef kirkja brenn upp eða annars kostar lestist svá að niður fellur öll eða meiri hlutur, þá skal vígja endurgörva kirkju. En þó að kirkjuráf brenni upp, funi og niður falli lítill hlutur af veggjum, þá skal eigi vígja endurbætta kirkju, því að í veggjum vígist kirkja þó að altari sé niður fallið, ruglað eða úr stað fært, eða altarissteinn sé ljótliga brotinn. Þá skal það vígja, en eigi raskar það kirkjuvígslunni, þó má og syngja í kirkju að óvígð sé. En ef spillt hefir kirkju eða kirkjugarði öfundarblóð, hóran eða annarr líkamslosti, þá má eigi syngja í þeirri kirkju, hvárt sem hon hefir verið vígð eða óvígð, fyrr en byskup hefir hreinsað með vígðu vatni og slíkum söng sem þar er til settur. Svá hið sama skal hreinsa þar sem bannsettur maður hefir verið grafinn í kirkjugarði, svá og ef maður er lostinn heiftugri hendi í kirkju eða kirkjugarði, þó að eigi komi blóð út, en hvergi spillir kirkju öfundarlaust blóð.
6. Um kirkna þyrmsl og kirkjugarða
Eftir heilagra feðra setning og skipan guðs laga og manna skulum vér þyrma kirkjum og kirkjugörðum svá að hvað sem hverr hefir gört og flýr hann í kirkju eða kirkjugarð sér til hjálpar, þá skal hann friðheilagur vera fyrir hverjum manni meðan hann er þar, utan þá menn sem drepa menn til fjár sér eða í kirkju eða kirkjugarði drepa menn eða særa, því að í þeim hlut sem maður brýtur lögin þá er hann eigi verður þeirra að njóta. Nú að þessum fráteknum, þá skal prestur sá er að þeirri kirkju syngur hjálpa honum svá að hann deyi eigi af frosti, matleysi eða drykkleysi, ef honum geta eigi frændur eða vinir hólpið. En hverr sem meinar presti eða öðrum þessar hjálpir að veita þeim sem í kirkju eða kirkjugarð flýr eða draga hann út úr kirkju eða kirkjugarði með valdi eða vælum eða með einshverjum svikum, þá skulu slíku sakaðir vera sem þeir hafi drepið hann í kirkju og vera í banni þar til sem þeir verða leystir eftir byskups ráði. Skal byskup eða aðrir forstjórar heilagrar kirkju þiggja þeim sem til kirkju flýr lífs grið og lima, en annars kostar skulu þeir bæta fyrir afbrot sín eftir lögum sem misgerðu. Svá er skylt að veita allar þyrmslur óvígðum kirkjum sem þeim er vígðar eru, þar sem messur eru sungnar að ráði byskups þess sem þar átti vald yfir, því að eigi er það þolandi að þeir staðir sé saurgaðir með ofdirfð í vándum verkum sem áður eru helgaðir með inni æðstu guðs þjónustu. Svá og ef menn berjast í kirkju eða kapellu eða kirkjugarði vígðum, þá eru þeir óbótamenn og á byskup á því og kirkja fimmtán merkur en konungur það sem auk er, nema eigi sé meira, þá skipti þeir konungur og byskup með sér í helminga, nema þeir vili meiri miskunn við þá gera. Hverr sá maður sem brýtur eða brenn heiftugri hendi helga kirkju eða klaustra staði eða í því takmarki umhverfis kirkju sem guðs lög segja, þá er bannsettur og á til páfa lausn að sækja ef hann bætir eigi áður byskup boðar hann bannsettan þar um. Það er og mælt í lögum að maður skal eigi bera vápn í kirkju nauðsynjalaust og eigi setja við kirkjuvegg og eigi leggja á kirkjupalla þá sem fyrir kirkju eru. Slík þyrmsl eru á bænhúsum öllum þeim sem byskup lofar tíðir að. En ef af er brugðið, þá leysi hverr út sitt vápn þrim aurum sá er þangað bar eða láti þau ef hann leysir eigi út innan tveggja mánaða. Taki byskup hálft en kirkja hálft. Ekki varðar um brynjur eða skjöldu eða önnur hlífðarvápn þó að í kirkju komi. Kirkjusóknarmenn skulu halda garði um graftarkirkju hverja eða gjalda þrjár merkur, en hver bóndi sá sem það nemst gjaldi þrjá aura.
7. Um kennimanna þyrmsl og kirkjufjár
Enn eru fleiri hlutir þeir sem vér erum skyldugir að þyrma rétti heilagrar kirkju og lærðra manna, því að hverr er heiftugri hendi misþyrmir klerk eða klaustramanni, þá er hann í banni af sjálfs síns verki þar til er hann fær lausn eftir guðs lögum með forsjá byskups. Nú eru þeir nokkurir atburðir er maður fellur eigi í bann þó að þess háttar manni veiti tilræði eða högg og skal byskup það skýra og skipa eftir því sem guðs lög segja. Nú þarf að greina um eigur kirkna eða það sem varðveitt er í heilagri kirkju, þó að aðrir eigi, hver refsing á liggur ef því er rangliga raskað. En þessor refsing á tveföld að vera, forboð og fégjald, því að hverr sá sem heldur rangliga með illvilja eða rænir fé heilagrar kirkju, þá er hann fyrir það forboðandi. Í annan stað skal hann bæta fé slíku sem dæmir á hendur honum byskup eða lögligur hans dómandi um þetta mál, svá sem hann sér réttast fyrir guði eða þeir sem hann skipar til. Svá og hverr sem rænir eða stel úr kirkju, hverr sem á þá skal þessor tvæföld hegning fyrir koma að guðs lögum, forboð og fégjald, og forðast hann eigi því heldur réttliga refsing af veraldarhöfðingjum.
8. Um það ef maður lýstur mann í kirkju eða garði
Ef maður lýstur mann heiftugri hendi, með hverju sem hann lýstur eða særir eða til dauðs drepur, í kirkju eða kirkjugarði, eða innan þeirra takmarka sem hver kirkja eignast umhverfis sig, sér til sæmðar en þeim til friðar er þangað flýja og verðugir eru kirkjufriðar að njóta, þá er sá óbótamaður sem fyrr segir sem friðinn braut, en sá sem lostinn var eða særður taki rétt sinn hálfu meira, en í öngum stað öðrum, en fé þess sem víg vakði skal fá til kirkjuvígslu, fyrr en í konungs garð gangi eða byskups. Ef maður veitir manni athlaup eða sár með einshverju vápni því sem fyrirboðið er að bera í kirkju eða í kirkjugarð eða til dauðs drepur, og verði hann í því aftekinn. Hann og hans sár eru ógild að því sinni bæði konungi og svá frændum þó að hann verði í því aftekinn og eigi að kirkju græfur. Svá er og mælt um alla þá menn sem honum veita lið með vápnum ef þeir fá mein af. En ef þeir verða grafnir í kirkjugarði að nauðgum forræðismönnum, þá standi kirkjan þjónustulaus til þess sem kirkjusóknarmenn flytja þá í brott. Enn er svá mælt að ef sá maður hefir fyrri spekðarmaður verið og bjóða frændur að sæma kirkju þá sem friður var á brotinn af gjöldum ef nokkur verða, eða öðrum fjárhlutum ins dauða, þá sé byskup það sem honum sýnist.
9. Af testamentis
Skipan sú sem menn gera á síðustum dögum heitir testamentum; er það birting og vitnisburður hugskotsins, og er skipað af helgum feðrum í guðs lögum, og eigi síður af keisurum og konungum í veraldligum lögum svá vítt sem kristnin er, að síðasti vili mannsins skal frjáls vera og alls kostar geymandi, og fyrir því að sálin er öllum hlutum veraldligum mætari og ágætari og á eigi að rænast sínu góðu og að manninum er ekki jafn skylduligt sem að hann megi frjálsliga með mildleiks verkum búa vel fyrir henni, þá setjum vér og skipum af guðs hálfu með ráði og samþykkt virðuligs herra Magnúss konungs, byskupanna og allra annarra viskumanna að skipan sú sem menn gera á síðustum dögum fyrir sér, nærverandi tveimur eða þrimur skilvænum mönnum og fyrir presti, ef honum nær, skal standa heðan af og óbrigðiliga haldast svá sem lögmál. En ef erfingjar fullkoma eigi svá görva skipan framfarins manns innan tólf mánaða, ef þeir eru útarfar, skal þeim fyrirbjóðast af byskups hálfu allar þær eignir sér að nýta sem þeir tóku eftir hinn sem skipan gerði, með öllum afla og ávexti. En ef það hefta skilgetnir synir, þá skulu þeir missa alls, nema þess hlutar sem þeim hæfir til að lögum, sem síðarr segir. Nú harðna þeir í þrjósku sem eigi vilja framfarins manns heit efna, þá hæfir byskupi með meirum harðindum að taka á þeim, því að páfinn fyrirbýður það með undir bandsetningar pínu, að engi rjúfi þær skipanir sem framfarnir menn gera fyrir sálu sína, allra hölst til heilagra staða eða fátækra manna. Það var lögliga ritað og fullkomliga staðfest á Íslandi að þar sem á greindi guðs lög og lands lög, þá skyldu guðs lög ráða, þá er liðnir vóru frá hingaðburð várs herra Jhesu Christs þúsund vetra og tvau hundruð og fimmtíu og þrír vetur.
10. Hverir eigi megu gjöra testamentum
Þessir menn megu eigi gera skipan fyrir sér á síðustum dögum, því að þeir eigu eigi sjálfs síns vilja að ráða: þræll og ærir menn, dumba sá er ekki mælir eða daufur sá er ekki heyrir, ómagi sá er eigi er fulltíða eða sá sun sem eigi er leystur af föðurgarði, nema af þeim nokkurum afla sem hann hefir umfram mat og klæði og faðir fær honum, og þeir sem eigur hafa upp gefið, sem eru klaustramenn, því að sá gaf allt er sig offraði guði. En allir aðrir frjálsir og fulltíða menn og vits vitandi megu gera skipan fyrir sér á síðustum dögum af öllu sínu góðs, hvárt sem hann vil gefa höfuðtíund eða annars kostar, vill hann skipta með kirkjum eða klaustrum, frændum eða fátækum mönnum, svá þó að hverr sem á fimm syni eða börn löglig eftir sig, eða fleiri, þá má hann eigi meira gefa en til helmings alls þess sem hann á, en helmingi skipti þeir sín í milli réttliga. Á hann fjögur börn skilgetin eða færi, þá má hann gefa tvá hluti, en þeir skipti þriðjungi réttliga. En ef hann á engi löglig börn, þá má hann gefa þrjá hluti, en þeir skipti fjórðungi sem næstir eru erfðum sín á milli réttliga.
11. Um gröft í kirkjugarði
Hvern mann kristinn, sem deyr, skal jarða í kirkjugarði vígðum, en eigi í kirkju nema byskups sé lof til. Ódáðamenn skal eigi í kirkjugarði grafa sem eru drottinssvikar, morðingjar, tryggrofar, griðníðingar, þjófar dæmðir, flugumenn, bannsettir menn og opinberir ránsmenn, og þeir sem deyja í forboði heilagrar kirkju, og þeir sem hendur leggja á sig og týna sjálfum sér, nema váðaverk verði. Svá þeir og sem telja eða fremja rangan átrúnað fyrir mönnum. Svá og opinberir okurkarlar og þeir menn eða börn sem eigi fá skírn fyrir dauða. En þessa menn skal grafa utan garðs eigi nærr en í örskotshelgi við túngarð þar er hvárki sé akur né eng og eigi falli þaðan vötn til bólstaða, og syngja eigi líksöng yfir. En nokkurr af þessum sem nú vóru upp talðir, utan þjófa dæmða og morðingja og óskírða menn, megu koma í kirkjugarð ef þeir fá lausn fyrir dauðann. En ef vitni er til að þeir kalla til prests eða er séð áður en þeir deyi nokkuð iðrunarmark á þeim að þeir vildu leiðrétta sig og ef svá prófast fyrir byskupi eða hans umboðsmanni, þá má prestur sá er byskup býður um það leysa þá dauða og grafa síðan í kirkjugarði, nema bannsetta menn af byskupi eða þá sem opinberliga hafa fellt á sig páfabann af sínum tilverknað, þá má engi leysa þá eftir dauðann, nema sá sem vald hefir til að leysa þá lifandi og utan lífsháska. En erfingjar ins dauða skulu leiðrétta afbrot hans eftir lögum og byskups ráði, en ef hinn kemst úr þeim lífsháska þá skal hann til byskups fara og hans ráð hafa til umbóta með lögum. Verða nokkurir af þeim sem nú vóru fráskilðir grafnir í kirkjugarði fyrr en þeir hafa leiðrétt sig og eru sáttir við byskup, þá skal hverr þeirra sem þess lík flytur eða niður grefur í kirkjugarði gjalda byskupi þrjár merkur og grafa upp og kasta úr kirkjugarði ef skilja má frá kristinna beinum. Hverr og sá sem grefur þann fyrir utan kirkjugarð sem í á að vera, þá skal slíku sama sakaður við byskup og skal þó grafa þann mann í kirkjugarði. Finnur og ómagi eða fátækur maður þess kyns lík, þá skal sá sem býr á næstum eignum þegar hann verður varr véla um lík og flytja til kirkju þeirrar sem næst er og krefja liðs ef hann er liðþrota, elligar gjaldi slíkt sem við liggur. En ef nokkurr neitar kirkjugarð þá skírskoti hann undir tvá vátta og feli þeim ábyrgð á hendi sem kirkjugarð bannaði og varðar honum það mál og öngu síðan. Engi skal og efast í því, að ef kona er með barni dauð þá skal hana svá grafa í kirkjugarði sem aðra menn og eigi skera né frá taka. Á hverjum degi má og lík grafa sem vil nema jóladag og langafrjádag og páskadag. Eigi skal lík inni standa yfir fimmt nauðsynjalaust, en ef stendur lengur, þá skal hann bæta fyrir þrjá aura byskupi og færa lík til kirkju. En ef hann vill það eigi og lætur inni rotna mann dauðan, þá hefir hann fyrirgert fé sínu öllu nema hann vili bæta. En ef hann býr svá ofarliga á fjalli eða utarliga í eyjum og nema hann þær nauðsynjar að hann má eigi færa lík fyrir sjó ófærum eða veg ófærum, þá skal lík færa í úthús og festa upp á fjöl og láta eigi á jörðu standa, en ef sá er mannþrota sem lík á að færa, þá krefi hann manna á næstum bæjum eftir þörf. En hverr sá sem nemst, gjaldi byskupi þrjá aura. Slík skylda er bóndum að ala þá menn fimm eða færi sem lík flytja til graftar, sem fyrr var sagt um þá sem barn færa til skírnar og svá um allan farargreiða. Lík skal eigi grafa áður kólnað er. Þar skal grafa hvert lík sem kirkjuprestur kveður á, þar á hverr kristinn maður lögligan gröft sem hann er í kirkjusókn, nema hann kjósi sér legstað að annarri graftarkirkju með sjálfs síns minni og með skynsemð heill að viti. Engi maður skal meta kaups leg að kirkju eða líksöng og hvárki skal dvelja fyrir það þó að eigi sé sálugjafir gefnar fyrir hinum dauða. En fyrir því að það er hvervetna háttur góðra kristinna manna að gefa nokkuð til kirkna eða kennimönnum til bænahalds fyrir þeim sem fram eru farnir af heiminum, þá á byskup að þrýsta þeim til sem elligar vilja vanrækja að gera slíkar minningar sem að fornu hafa hér yfir gengið, því að hvern góðan og löglegan siðvanða sem menn vilja niður fella utan skynsemð, þann sem til kristins dóms heyrir, þá skal byskup þröngva þeim til upp að halda.
12. Um heit
Nú er næst um heit að tala, en heit eru tvefaldlig, önnur nauðsynlig en önnur viljaleg. Nauðsynleg eru þau sem allir heita í skírn, að hafna fjandanum og halda kristiliga trú, geymandi guðs boðorða. Viljaleg eru þau sem maður heitur með vilja sínum, gefa eða gera þá hluti sem hann var eigi fyrr skyldur til, svá sem menn heita hreinleika, í klaustur að fara eða pílagrímsferðum, eða annað að gera fyrir guðs sakir. Svá eru og ölmusugerðir. En þó að öllum sé frjálst og sjálfsvaldi að heita því einu að vili, þá er þó svá nauðsynligt að efna heitin að öngum er sjálfum lofað að brigða né um að skipta, utan heilsu tapanar sinnar sálu, nema það sé gert með byskups orlofi til hvers sem heyrir að skoða nauðsyn mannsins, og sök skiptissins má hann í því finna hvárt lausnin sé betri og guði þægiligri en sjálf heitin.
13. Um ölmusugerðir
Ölmusugerð er ið mesta miskunnar verk, hverr sem þetta gerir réttliga og með góðum vilja, þá biður hon og þiggur af guði miskunn sínum gjafara og slökkvir svá hans synðir sem vatn slökkvir eld, en þó að flestar allar ölmusur sé í sjálfs valdi, þá eru þó af fornum heitum og skipan landslaganna allir skyldugir til þessa ölmusugerða sem hér fylgja. Tíunda fé sitt allt svá sem síðan segir: Lýsistollur, Rúmaskattur og sálugjafir. Hverr maður og sá sem sig og sín hjón heldur af sínum kosti og þarf eigi mat í ölmusu að þiggja, þá er skyldur að gefa fjóra málsverða sína og sinna hjóna á hverjum tólf mánuðum þeirra daga sem hann er skyldur að vatnfasta, sem er langafrjádagur, Ólafsmessu aftan, Maríumessu aftan, allraheilagramessu aftan, fyrir því að engi skal hirða það til eftirkomandi magfyllar á öðrum degi, sér eða sínum skuldarmönnum, sem hann þarfnast eða hans heimamenn, fyrir guðs sakir á þessum dögum sem nú vóru upp taldir. Skal langafrjádagsverður gefast fátækum mönnum með ráði sóknarprests síns, með því að taka mann einn inn eða fleiri á þann sama dag og láta vera meðan vinnst matgjöfin. En hinna þriggja messuaftna málverðu skulu skipta bændur á samkvámu með tíundum sínum ölmusumönnum til handa. En þá er fyrir þessa messudaga má eigi vatnfasta sakir drottinsdags, þá er þó lögskyldugt að vatnfasta þrjár vatnföstunætur í þessa ölmusugerð þær sem byskup lætur bjóða og lýsa á prestastefnu, og skal þeim lukt vera hið síðasta fyrir jól. En fyrir svá marga er hverr skyldur að gefa sem lög skylda til föstu, og hann er skyldur að fæða þá er fastað er. En sá sem eigi vill gera þessa ölmusu gjaldi byskupi þrjá aura fyrir hvert hjóna sinna.
14. Um tíundargjörð
Það er að lögum skyldugt að menn skulu tíunda fé sitt allt lögtíund hér á landi. En það er lögtíund að sá maður greiði sex álna eyri á tólf mánuðum sem hann á tíutigi sex álna aura. Sá maður sem á tíu sex álna aura skuldlausa fyrir utan hversdagligan búning skal greiða alin vaðmáls. En sá maður sem á tuttugu aura skuldlausa þá skal greiða tvær álnar. En sá sem fjörutigi aura á, sá skal þrjár álnar. En sá sem hálft hundrað aura á skal fjórar álnar. Sá sem á áttatigi aura skal fimm álnar, sá sem tíutigi aura á greiði sex álnar. Og á hverjum fimm hundruðum skal aukast tíund sex álnum utan þá hluti sem eigi skyldast tíundargjörð af og hér skýrir. Prestar þurfu eigi að tíunda það fé sem þeir eigu í helgum bókum eða messuklæðum og það allt sem þeir hafa til guðs þjónustu. Tíunda skulu þeir annað fé. En ef þeir eru í Noregi eða öðrum löndum sem eignir eigu á Íslandi, þá skal þar tíund af gerast guði og heilagri kirkju og hennar þjónustumönnum sem eignin liggur, hvárt sem greiðir sá er jörð á eða sá sem býr á. En á þeim er löglig heimta sem á jörðu býr. Bús afleifar er eigi skylt að tíunda um vár ef hann heldur búi sínu, en ef hann bregður eða sell hann úr búi, þá skal hann það tíunda. Bændur allir skulu tíund gera, þeir sem þingfararkaupi eigu að gegna af fé sínu skuldlausu. Eigi skal ómögum fé ætla þó að hann eigi fram að færa. En þó að hann hafi minna fé, ef hann á tíu aura skuldlausa, þá skal hann tíund af gera hvárt sem hann er bóndi eða griðmaður, nema hann eigi ómaga þá sem hann verður á verkum sínum fram að færa. Rétt er að fátækir menn allir þiggi tíund, þeir sem eigi skulu gera. Svá skulu konur tíunda fé sitt sem karlar. Samkvámur skulu menn eiga um haust í hrepp hverjum, eigi fyrr en fjórar vikur eru til vetrar, og skipta tíundum. Skipt skal tíundum drottinsdag inn fyrsta í vetri. Fimm menn skal taka til í hrepp hverjum að skipta tíundum og matgjöfum með fátækum mönnum og sjá eiða að mönnum, þá sem best þikkja til fallnir, hvárt sem þeir eru bændur eða griðmenn. Skyldur er hverr maður til þeirrar samkvámu að fara, sá er tíund á að gera, eða fá annan mann fyrir sig, þann sem lögskilum haldi upp fyrir hann og handsöl sé að þiggjandi. Ef hann kemur eigi sjálfur fyrir miðjan dag forfallalaust og engi af hans hendi, þá verður hann sekur um það aurum þrimur og skal hann þá tíund gjalda sem skipt er á hendur honum. Þar skal telja fé manna, hversu mikið hverr á. Skal virða lönd og lausa aura, það sem að fardögum var skuldlaust. Sjálfur skal hverr telja fé sitt og láta virða tvá bændur skilríka eða fleiri. En á samkvámu skal hann taka í hönd sér guðspjallabók eða kross vígðan og nefna vátta tvá eða fleiri. Að því vætti skal hann segja að eg vinn eið að bók og segi eg það guði að eg á svá fé sem nú hefi eg talt eða minna. En sá sem eigi vill eið vinna að fé sínu þá sem hann er réttliga beiddur, þá sekist þrim mörkum. En sá sem sverr fjórðungi minna en sé, þá verður hann sekur um það tólf mörkum, og skal hann þó svá mikla tíund gera sem samkvámumenn skipta og telja á hönd honum eiðlaust. Ef fé manns þverr þaðan í frá sem hann hefir til svarið, og er honum rétt að fara til samkvámu og telja fé sitt og vinna eið að, og gera svá tíund af. Nú vex fé hans tíutigum eða meira, þá er hann skyldur að segja til þess á samkvámu og gera tíund af.
15. Um tíundargreiðslu
Ef maður hefir ómaga eyri að varðveita þann er hann tekur vöxtu af og skal hann það fé allt tíunda, svá sem þá er hann ætti sjálfur. En ef útlendir menn koma hingað, þá er þeim eigi skylt að tíunda fé sitt hér, áður þeir hafa hér verið þrjá vetur samfast nema þeir geri fyrr bú. En það vár skulu þeir gera tíund sem þeir gera bú og þau misseri eftir. Nú ef várir landsmenn fara heðan og eigu fé eftir, þá skal sá maður gera tíund af sem fjárvarðveislu hans hefir á því fé, en eigi er hann skyldur að gera hér tíund af hinu sem hann hefir með sér í brott. En ef hann kemur aftur, þá skal gjalda hinn næsta vetur eftir tíund af því fé sem hann hefir út með sér haft áður um sumarið, þó að hann eigi garða eða eignir utanlands. Ef vaxið hefir fé manns eða þorrið í utanferð, þá er hann skyldur að vinna eið að fjáreign sinni ef hann er beiddur að lögum. Ef hjú eigu fé saman, þá skal karlmaður þar vinna eið fyrir fé þeirra beggja. Ef karlmaður og kona eigu fé saman, þó að þau sé eigi hjóna, þá skal karlmaður þar vinna eið. Ef karlar eigu fé saman, og er rétt þó að annarr vinni þar eið að. En ef þeir metast við og vil hvárgi sverja, þá er við hvárntveggja sökin. Sá skal eið vinna fyrir fé hverju sem lögráðandi er fjárins. Þar skal maður tíund gjalda sem hann á lögheimili þau misseri þar sem skipt er tíundum á haust. En ef eigi er skipt, þá skal þar gjalda alla tíund sem hann er heimilisfastur Marteinsmessu. Nú ef maður situr svá tólf mánuði að hann gerir eigi byskupstíund sína rétta, sá sem gera á, þá er hann sekur þrim mörkum við byskup. En ef hann situr svá aðra tólf mánaði að hann gerir eigi tíund sína rétta, þá er hann sekur sex mörkum við byskup. En ef hann situr svá þrjá vetur að hann gerir eigi tíund sína rétta, þá hefir hann fyrirgert löndum og lausum aurum og öllu því sem hann á, og á hálft konungur en hálft byskup. En ef maður gerir af sumu tíund en sumu eigi, þá er hans það sem tíundað er, en svá mikið uppnæmt konungi og byskupi sem eigi var tíundað. Slíka sök og álögu á hverr á sínum fjórðungi tíundar sem byskup þar til sem á þriðja ári fellur fé undir konung og byskup, hverjum hluta tíundar sem haldið er. Tíund skal svá skipta að byskup skal hafa fjórðung og fátækir menn fjórðung, prestur fjórðung og kirkja fjórðung. Þann fjórðung tíundar, sem byskup á að taka, skal greiða í vaðmálum eða vararfeldum eða í lambagærum, í gulli eða í brenndu silfri. Eindagi er mæltur að því fé sem menn skulu byskupi greiða í tíund, hinn fimmta dag viku, þá er fjórar vikur eru af sumri, að lögheimili þess manns sem byskup bauð um að taka við fé því, eða þar sem þeir sættast áður á. Rétt er og þótt fyrr sé greitt. Vita skal byskup láta eða þeir menn sem fyrir eru byskupsstólum jafnan er þeir skipta um þá menn sem við taka byskupstíundum. Hreppstjórar skulu skipta á samkvámu um haust fjórðungi tíundar með þurfamönnum innan hrepps, þeim sem til ómagabjargar þurfu að hafa þau misseri, gefa þeim meira sem meiri er þörf. Eigi á tíund úr hrepp að skipta nema samkvámumenn verði á það sáttir að þikki utanhreppsmönnum meiri þörf. Það fé skal greiða þurfamönnum í vaðmálum eða vararfeldum, í ullu eða gærum, mat eða kvikfé, nema hross skal eigi greiða. Það skal goldið þeim sem hafa skulu, eigi seinna en að Marteinsmessu. Ef eigi er þá fram komið, þá verður það tíundarhald. En þeir sem fátækra manna tíundum skulu skipta skulu heimta þeirra hlut og hafa helming álaga. Öll sú tíund, er minni er en eyriss tíund, skal hverfa til fátækra manna, nema byskup vili hana heldur til kirkna leggja og sýnist honum það nauðsynligra. Þangað skal hverr maður leggja kirkjutíund sína sem byskup kveður á og skal byskup skipta heraði til þess, til hverrar kirkju hverr skal gjalda tíund sína. Heimilt á byskup að taka tíund frá kirkju ef hann vil, þó að hann hafi til lagt áður, ef þær eru verr varðveittar en mælt er. Sá sem kirkjutíund og preststíund skal af höndum inna, hann skal gjalda þar í túni fyrir kalldyrum á kirkjubænum hinn fimmta dag viku er fjórar vikur eru af sumri. Hann skal gjalda það fé í vaðmálum eða vararfeldum, í gulli eða í brenndu silfri, gjaldi kirkju fjórðung ef honum líkar, í viði eða í vaxi, í tjöru eða reykelsi, eða í léreftum góðum, svá sem fær að kaupa með vaðmálum í því heraði. Kost á hann að gjalda allt í vaðmálum. Þar sem maður leggur fé til kirkna, hvárt sem það er í löndum eða lausum aurum eða búfé, þá skal sá maður, sem kirkju varðveitir, láta það rita allt í máldaga þeirrar kirkju. Hann skal láta lesa þann máldaga upp allan hvern kirkmessudag firir tíðasóknarmönnum. En ef kirkjan er óvígð, þá sé lýst þó á hverjum tólf mánuðum þá er flestir sækja þangað tíðir. Hverr maður, sá sem greiða á álnar tíund eða meiri, er skyldur að gjalda á hverjum tólf mánuðum tvá aura vax heilagri kirkju til lýsingar þeirri sem byskup kveður á eða þá lausn sem vaxið geldur í þeirri sveit eftir skynsamra manna yfirsýn. En ef ólærðir menn taka lýsistoll og kirkjutíund og prestsfjórðung, þá skulu þeir lúka presti tíðakaup fyrir hans fjórðung en kaupa kirkju sæmiliga gripi fyrir hennar fjórðung svá sem fé það vinnst til, nema kirkja þurfi öðru víss sér til uppheldis. Rétt er og að byskup skipi hennar tíund til prestskaups ef honum þykkir nauðsyn til standa. Ekki bænahús skal tíund taka, það sem eigi er kirkjuvígsla á.
16. Um kvánfang og lýsingar
Hjúskapur er heilagt regluhald ef hann er lögliga samtengður og réttliga haldinn. Var hann af öndverðu fyrir synðina skipaður millum karls og konu af guði sjálfum í paradiso að það skyldi vera synðalauss félagsskapur til getnaðar afsprings, utan allrar saurganar og brunalosta girnðar og allrar sorgar og sóttar burðarins ef þau hefði eigi synðgast. En eftir synðina var það skipað utan paradísar að svikleikur óleyfðrar lostagirnðar, framlútur í saurlífis ratan, skyldi af takast með sæmiligu sambandi heilags hjúskapar, og af því synðgast sá sárliga sem með því ferr eigi réttliga eða geymir eigi rækiliga. En hverr sem sér vill kvánfangs leita, þá skal biðja þeirrar meyjar eða konu með hygli og góðri forsjá sem eigi sé meinbugir á svá að viti. Og ef honum semst um það mál við þá sem ráða eigu, þá skal sá sem konu vill fá nefna vátta tvá eða fleiri, að þessor ráð skulu takast að höldnum skildaga og ákveðnum tíma forfallalaust eftir guðs lögum. En af því að leyniligur hjúskapur er forboðaður af helgum feðrum þá er fyrir því skipað í guðs lögum að þau sem lögliga vilja saman bindast skulu lýsa láta áður samband fullgerist sóknarpresta sína opinberliga í kirkju þrjá sunnudaga, eða svá löngum stefnudegi tilskipuðum, að þeir sem skil vitu á megi til koma og segi ef þeir vitu nokkura meinbugi á, og eigi síður leiti prestarnir eftir ef það megi nakkvað tálma, og ef það finnst þá skal presturinn fyrirbjóða saman að binda, fyrr en prófað er hvað af því megi gerast. En ef þeir sem meinbugi vissu og lýsing heyrðu segja eigi til fyrir brúðlaup, þá skulu þeir ekki þar um heyrast, nema þeir hafi verið fjarlægir svá að þau tíðindi hafi eigi til þeirra komið eða eigi vorðið varir við þá er lýst var. En ef öngir finnast á meinbugir, þá skal sá halda í hönd meyju eða konu sem sér skal hana festa og nefna vátta tvá eða fleiri, og mæla þessi orð eða önnur þvílík: Eg festi þig mér til eiginnar konu eftir guðs lögum og heilagra feðra setning og ertu mín löglig eiginkona heðan af. Heyra skulu og góðir menn jáyrði meyjar þeirrar eða konu sem fest verður og skilorð þess er festir, fyrir því að það er forboðað af guðs hálfu að nokkurr maður festi mey eða konu nauðga. Rétt er og að faðir eða annarr frændi festi mey eða konu ef það er hennar vili þá er festar fara fram. Síðan skal prestur syngja yfir hjónum. En þegar sem maður festir sér konu að guðs lögum og með samþykkt beggja þeirra, þá eru börn öll skilgetin þau sem hann á við þeirri konu, hvárt sem þau vóru getin fyrir festing eða eftir, nema nokkuð stæði það fyrir þá er þau gátu þau börn að þau máttu þann tíma með öngu móti réttliga eigast. En ef hjúskapur binst saman með nokkurum meinbugum og er eigi lýst eða síðan dirfast þau að saman að binda er meinbugir koma upp, þó að þau viti eigi, þá skulu þeirra börn, sem svá verða samtengð, ólöglig verða, því að þau vildu eigi meinbugi vita er eigi vildu lýsa láta og svá hið sama þeirra börn er bæði vitu meinbugi í sambandi sínu, þó að það sé opinberliga gert með yfirfarandi lýsing. En ef meinbugir koma síðan upp í þeim hjúskap sem áður hefir lýst verið lögliga í kirkju og vissu þau ekki til þess þá er þau bundu saman hjúskap, þá skulu þeirra börn þó lögleg vera að þau verði að skiljast. Nú gleymir sóknarprestur að firirbjóða saman binda leyniligan hjúskap eða dirfist að vera að þeim brúðlaupum sem eigi hefir lýst verið sem fyrr er sagt, þá skal honum fyrirbjóðast messusöngur um þrjá vetur. En ef nokkurir vilja tálma lögligt samband með illvilja og röngu upplosti, þá skulu þeir eigi missa hefnðar heilagrar kirkju. En hverr sem móti skipan og forboði heilagrar kirkju bindur hjúskap saman, þó að meinbugalaust sé, þá skal hann skrift taka af byskupi. Maður skal eigi festa sér konu fyrr en að brullaupi sínu. Ef maður festir sér fyrr en þrysvar sé lýst, þá gjaldi tólf aura byskupi fyrir óhlýðni, ef engi finnast önnur mein. En ef mein finnast síðan, þá skipi byskup eftir málavöxtum. En ef maður festir konu eftir lýsingar og frestar síðan brúðlaupum nauðsynjalaust, þá skal byskup eða hans umboðsmaður gera honum stefnu til brullaupsgerðar. En ef hann gerir eigi, gjaldi tólf aura byskupi á hverjum tólf mánuðum þar til sem brullaup er gört. Engi er skyldur til að gera brullaup sitt með meira kostnaði en hann er fangaður til.
17. Hverir eigi megu kvenna fá
Þessir menn megu eigi kvenna fá: klaustramenn, prestar, djáknar, subdjáknar, vitstolnir menn, geldingar. Heiðnir menn megu eigi fá kristinna kvenna. Sá maður og sem hórar og gefur trú annars manns konu að lifanda bónda hennar að hann skal fá hennar eftir dauða bóndans. Sá og sem hórar annars manns eignarkonu og hefir ráð með henni til þess að ráða bónda hennar til dauða, og að hann fái hennar síðan og deyr bóndi hennar að því ráði. Sá og sem gerir brullaup til eiginnar konu annars manns og veit hann að bóndi hennar lifir, og hefir hana að líkamslosta. Þessir menn megu aldregi síðan þessarra kvenna fá til eiginkvenna. Engi maður má og þá konu fá eða festa sem frændi hans skyldari en að fimmta manni hefir áður fest, þó að hann sé dauður fyrri en þau koma samt. Sá maður má og eigi konu fá er fyrirgert er eða á aðra leið sinfallinn svá að hann má eigi konu hafa að líkamslosta. Svá og ef kona á þess hluta máls, þá má hon eigi giftast. Verði og börn saman bundin að festingu en þó skal það eigi gera nema til friðar eða aðrar stórnauðsynjar beri til, og semur þeim um það ráð þá síðan er hon er tólf vetra, en hann fjögurtán vetra, þá má þann hjúskap eigi skilja. Koma þau og nokkuð saman að líkamslosta áður þau sé svá gömul sem nú var sagt þá megu þau eigi skiljast að hjúskap.
18. Um afbrigði hjúskaparhalds
Nú er hjúskapur karlmanns og konu lögligt samband og má þetta samband engi maður skilja, þó að eigi sé brullaup gert, ef löglig festing er á, nema annað hvárt þeirra gefi sig í klaustur áður en þau hafi samt komið að líkamslosta, og má það þá sem eftir er í veröldunni leita sér forræða ef líkar. En síðan sem þau komu samt að líkamslosta skill þau engi hlutur nema hórdómur, og skill þó eigi hórdómur hjúskapinn fyrir því að það hjóna, sem saklaust er og öngan hórdóm drýgir, má skiljast með atkvæði byskups að samveru við það annað hjóna sem hórdóm hefir drýgt, og lifa síðan rækiliga. En hvárt þeirra sem af bregður meðan þau lifa bæði, þá drýgir það hórdóm og er þeim því það ráð að sættast sem fyrst og búa síðan saman. Brjóta og bæði og gera hórdóm, þá skal byskup bannfæra þau þar til sem þau koma saman aftur. En hverr sem veit konu sína hafa hórað og samþykkir hann henni síðan um sinn að líkamslosta, þá má hann eigi skiljast við hana. En ef hórdómur er leyniligur og óprófaður, þá megu þau eigi skiljast fyrr en prófað er fyrir byskupi, því að hvárki má annað ræna sinni skyldu utan dóms og sannrar prófanar. En það þeirra sem einfaldan hórdóm drýgir sekist þrim mörkum við byskup, kona af sínu fé en eigi af bónda síns, og skal það virða í heimanfylgju hennar ef þau verða sönn að með vátta tvá eða fleiri eða er hon barnshafandi. En það skal vera sjónarvitni, það sem skírskotað er undir. En ef það er eigi til, þá má sækja með heimilisskviðarvitni og skal þá standa fyrir með lýritareiði. Nú er einfaldur hórdómur sem maður tekur einhleypa konu undir sína eignarkonu, og svá ef kona tekur einhleypan mann undir sinn eiginmann. En það er tvefaldur hórdómur ef maður á sér eignarkonu og tekur hann eignarkonu annars manns, og svá ef kona á sér eiginmann og tekur annarrar konu eiginmann. En það þeirra sem svá brýtur gjaldi byskupi sex merkur og taki skriftir.
19. Nær brúðlaup skulu eigi gjörast
Brullaupsgerð sína skal maður eigi hafa á þann dag eða nótt sem um morgininn eftir er heilagur eða föstudagur. Frá því er jólafasta hefst og sjau nóttum eftir þrettánda dag, og frá því er níu vikur eru til páska og til þess er sjau nætur eru frá páskadegi. Frá því er hefst gagndagavika og fram um hvítasunnuviku má eigi brullaup gera né konu fá. Nú hverr sem brullaup gerir eða konu fær á þeima tímum, gjaldi byskupi tólf aura.
20. Um þær konur sem manni hæfir eigi að fá til eigin kvenna
Það er nú því næst að engi má sína frændkonu eða sifkonu fá til eiginnar konu eða hafa að líkamslosta. Hefir maður frændkonu sína eða sifkonu að fjórða manni frá systkinum jafnfarið að telja, þá skulu þau skiljast. Hann skal gjalda byskupi tólf aura og gangi til skrifta. Hefir hann þrímenning sinn að líkamslosta, þá skulu þau skiljast og gjalda byskupi þrjár merkur og gangi til skrifta. Tekur maður að líkamslosta systrung sinn eða bræðrung, þá skulu þau skiljast og skal hann gjalda byskupi fimmtu mörk og gangi til skrifta við byskup sjálfan. En þær konur eru er enn liggur meira við ef vér vinnum á þeim ódáðaverk og leggjumst með þeim. Nú er ein móðir manns. Önnur systir, þriðja dóttir, fjórða stjúpmóðir, fimmta sonarkona, sétta bróðurkona, sjaunda sonardóttir og konur þær allar sem jafnskyldar eru og menn megu ódáðaverk á vinna. Þar er stjúpdóttir, bróðurdóttir, systurdóttir og dótturdóttir, móðurmóðir, föðurmóðir, móðursystir, föðursystir, móðir konu manns og systir konu manns. En ef maður verður að því kunnur og sannur að hann leggst með þeim konum, þá er sá maður friðlauss og bæði þau þar til er þau taka skrift þá er byskup leggur á þau, og bæði hafa þau fyrirgert hverjum peningi fjár síns, bæði í löndum og lausum aurum. Það á hálft konungur en hálft byskup nema þeir vili meiri miskunn á gera. En ef það kennir byskup eða hans umboðsmaður manni að hann hafi það útlagaverk gert, en hann kveður nei við því, þá skal hann synja með tylftareiði, fellur til óbóta ef fellur.
21. Um guðsifja þyrmslur
Það er fyrirboðið af guðs hálfu að nokkurr maður hafi guðsifja sinn að líkamslosta. En þrefaldar eru guðsifjar. Inar fyrstu eru milli barns er skírt er og þess sem skírir eða því heldur til skírnar. Aðrar guðsifjar eru á millum þess sem barn skírir og því heldur til skírnar eða undir byskups hönd og feðgina barnsins. Þriðju eru á millum barnsins er skírt er og millum kjötligs barns þess er skírði eða til skírnar heldur, og því eiga prestar guðsifjar við öll þau börn sem þeir skíra og við öll þeirra feðgin, en prestsins barn má við öngan þann líkamslosta drýgja sem prestur hefir skírt. Heldur maður barni manns til skírnar eða undir byskups hönd, þá er hann fermir, þá á faðir og móðir barnsins og svá barnið guðsifjar við eiginkonu þess sem á heldur barni, því að þau eru svá sem einn maður bæði. Slíkt sama er þó að hon haldi á barni, þá er bóndi hennar í guðsifjum við barn, og svá við föður þess og móður ef þau hafa áður líkamliga saman komið. Hefir maður guðsifja sinn að líkamslosta, þá skulu þau skiljast og gangi til skrifta, og gjaldi hvárt þá þrjár merkur byskupi.
22. Um skriftrof og eiðrof
Ef maður verður eiðrofi eða skriftrofa við byskup, hvárt sem er karlmaður eða kona. En það er skriftrof ef maður gengur aftur til sömu synðar er hann hafði fyrr gert, um þau mál sem sekt bítur eða er eigi af landi farið sem skipað var, gjaldi byskupi þrjár merkur, og svá annað sinni og hið þriðja sinni. En ef það verður oftarr, þá er karlmaður útlægur og fé hans allt, en konan fari útlæg, nema maður renni á hönd henni, en sjálf hafi hon fé sitt.
23. Um meinsæri
Sá maður sem sverr rangan eið, hann er sekur þrim mörkum við byskup. En ef hann leiðir fleiri menn á eið rangan með sér, þá skal hann gjalda sex aura fyrir vátt hvern, en ef þeir vitu að þeir sóru rangt, þá sekist hverr þeirra þrim mörkum. En ef þeir hafa sýn fyrir, þá skulu þeir synja með eiði. En byskups umboðsmaður skal eigi bera hann þeirri sök fyrr en hann hafi heimilisskviðarvitni til, nema mál sé opinbert.
24. Um drottinsdagahald
Drottinsdag hvern skulu vér heilagt halda. Hefst sú helgur á þváttdag þá er sól hefir gengið tvá hluti af suðurs ætt, en einn ógenginn, og heldur til miðrar nætur eftir drottinsdaginn, ef rúmheilagt er annan dag viku. En hverr þeirra sem eigi heldur drottinsdaginn þá gjaldi byskupi sex aura fyrir hvern drottinsdag sem hann brýtur helgi. Nú eru þeir fleiri dagar sem með ýmsum helgum og föstum greinast. Jólahelgi eigum vér að halda, það eru þrettán dagar. Þar skal halda jóladag hinn fyrsta að helgi og hinn átta og hinn þrettánda, sem páskadag hinn fyrsta. En annan dag og hinn þriðja, fjórða og hinn fimmta skal halda sem drottinsdag. Það eigum vér að vinna um jól meðalsdaga að láta fé af það sem um jól þarf að hafa og heita mungát. Rétt er að reiða andvirki ef þarf og hafi maður eigi eyki til fengið fyrir jólin sem þyrfti. Eigi á hann meira fótverk að reiða heys en vel vinni um jól. Páskahelgi eigum vér að halda, það eru dagar fjórir. Páskadag hinn fyrsta skulum vér halda með allri virðing svá sem framast kunnum vér. Annan dag páska, þriðja dag og hinn fjórða skulu vér halda sem drottinsdag. En frá páskadeginum fyrsta skulu vera vikur fimm til drottinsdags þess sem gagndagavika hefst upp. Annan dag viku í gagndögum og hinn þriðja og miðvikudag skal halda að helgi sem þváttdag, ganga um bæ sinn og tún með krossum og vígðu vatni með bænahaldi. Miðvikudaginn skulu menn fasta við þurran mat sem til föstu eru taldir. En tvá daga hina fyrri skal eta einmælt og hvítt, nema krossmessu eða kirkjudag beri á annan hvárn, þá er lofað að hafa tvímælt og eigi slátur. Hinn fimmta dag viku í gagndögum er uppstigningardagur várs herra. Hann skulu vér halda sem páskadag. Frá fyrsta páskadegi skulu vera vikur sjau til hvítdrottinsdags. Laugardag fyrir hvítadaga er mönnum skylt að fasta við þurrt. Hvítdrottinsdag er mönnum skylt að halda sem páskadag. En annan dag viku sem drottinsdag.
25. Um messudagahald
Messudaga skulum vér halda heilagt þá sem nú man eg upp telja. Frá hinum þrettánda degi í jólum eru nítján nætur til Pálsmessu. Þaðan eru átta nætur til Maríumessu. Þaðan eru tuttugu nætur til Pétursmessu. Þaðan eru tvær nætur til Mathiasmessu og fasta fyrir við þurrt. Þaðan eru sextán nætur til Gregoriusmessu, sautján ef hlaupár er. Þá eru þrettán nætur til Maríumessu og fasta fyrir við þurrt. Þaðan eru níu nætur og tuttugu til Jóansmessu byskups. Þá eru tvær nætur til gagndags ins eina. Hann skulu vér halda að helgi sem þváttdag og eta einmælt hvítt og ganga með krossum, nema hann beri á páskaviku. Þaðan eru sex nætur til Philippusmessu og Jacobus. Þá eru tvær nætur til krossmessu. Þaðan eru tvær nætur og fimm tigir til Jóansmessu baptista og fasta fyrir við þurrt. Þá eru fimm nætur til Pétursmessu og Páls og fasta fyrir við þurrt. Þaðan er ein nótt og tuttugu til Þorláksmessu. Þaðan eru fimm nætur til Jakobsmessu og fasta fyrir við þurrt. Þá eru fjórar nætur til Ólafsmessu og vatnfasta fyrir. Þaðan eru tólf nætur til Laurentiusmessu og fasta fyrir við þurrt. Þá eru fimm nætur til Maríumessu og vatnfasta fyrir. Þá eru níu nætur til Bartholomeusmessu og fasta fyrir við þurrt. Þaðan eru fimmtán nætur til Maríumessu og fasta fyrir við þurrt. Þá eru sex nætur til krossmessu. Þaðan eru sjau nætur til Matheusmessu og fasta fyrir við þurrt. Þaðan eru átta nætur til Michialsmessu og fasta fyrir við þurrt. Þaðan eru níu nætur og tuttugu til tveggja postula messu Simonis og Jude og fasta fyrir við þurrt. Þá eru fjórar nætur til allraheilagramessu og vatnfasta fyrir. Þaðan eru tíu nætur til Marteinsmessu. Þá eru ellefu nætur til Ceciliumessu, þá ein nótt til Clemensmessu. Þá eru sjau nætur til Andreasmessu og fasta við þurrt. Þaðan eru sex nætur til Nicholasmessu og fasta fyrir við þurrt. Þaðan eru fimmtán nætur til Thomasmessu og fasta fyrir við þurrt. Þaðan eru tvær nætur til Þorláksmessu og fasta fyrir við þurrt. Þá er ein nótt til jólaaftans, þá skal og fasta fyrir við þurrt. Nú eru þeir dagar allir talðir sem vér skulum helga halda í lögum várum.
26. Um sextán daga og hvað lofað er að veiða og vinna helga daga fyrr
Sextán eru dagar þeir á tólf mánuðum er menn skulu eigi fleira veiða en nú mun eg telja: Hvítabjörn eigu menn að veiða og gera heimanferð til og á sá björn er fyrstur kemur banasári á, hverr sem land á. Rosmhval eigu menn að veiða og á sá hálfan sem veiðir en hálfan sá er land á. Rekhval eigu menn að flytja og festa. Ef landgangur er að fiskum og skulu menn taka. Þá er landgangur að fiskum ef menn höggva höggjárnum eða taka höndum. Eigi skal hann hafa við net eða öngla. Fugla er rétt að veiða, fjaðursára ef höndum má taka. Gefa skal af inn fimmta hlut. Jóladag hinn fyrsta skal eigi fleira veiða en nú var talt og hinn átta dag og inn þrettánda. Páskadag inn fyrsta og uppstigningardag og hvítasunnudag, Maríumessur fjórar, Jóansmessu baptista, Pétursmessu og Páls um sumarið, Ólafsmessu ina fyrri, allraheilagramessu, Þorláksmessu um veturinn og kirkjudag. En hverr sem vinnur fleira óleyfiliga á þessum dögum gjaldi byskupi tólf aura. Fyrir alla daga þá sextán, sem þurrfasta er skyld firir, skal eigi lengur vinna en til nóns. En fyrir þá messudaga aðra sem lögskylt er að fasta fyrir við þurrt, þá er rétt að vinna til miðs aftans. En fyrir þá messudaga sem eigi er skyld lögfasta, þá er leyft að vinna til náttmáls, nema fyrir Jóansmessu byskups, Philippusmessu og Jacobus og krossmessu um vár, þá skal eigi lengur vinna en til miðs aftans. Menn eigu að reka búfé sitt á hátíðum heim og heiman og eigu konur að heimta nyt af fé því og bera heim, hvárt sem skal að menn beri heim eða færi á skipi eða á hrossi, og eigu konur að gera nyt þá til. Það er og mælt ef eldur kemur í hús eða andvirki hvert sem er eða ganga vötn að eða skriður eða ofviðri, hverja lund sem ván er að þessir hlutir spilli eign manns, þá skal hann svá bjarga allri björg sem þá að virkur dagur sé. En alla aðra drottinsdaga og messudaga er þetta lofað að vinna sem nú mun eg tína: Ef fé manns verður sjúkt í haga úti og er rétt að reiða heim, ef þá hefir það líf heldur en áður, enda rétt af að láta það fé og gera til sem þá að virkur dagur væri. Menn eigu og að fara ferðum sínum og má hverr þeirra hafa ef vill að ósekju hálfa vætt umfram ígangsklæði sín og söðulreiði. Engi á með öðrum að flytja þó að annarr hafi meira en annarr minna. Þeim er rétt að bera á sjálfum sér eða ferja á skipum eða bera á hrossi. Maður á og að fara með þingföt sín, þó að meira vegi en hálfa vætt. Rétt er að hafa hálfa vætt varnings um fram ef hann vill. Manni er rétt, þó að drottinsdagur sé, að fara til sels með byttur eða sleða og hvað sem hann þarf móti að hafa því sem hann vill úr seli færa eftir helgina. Svá skulu þeir til ætla að eigi sé fleiri hross en maður hafi eitt hverr í togi. Eigi varðar þó að hestar renni lausir eftir. Ber er og rétt að lesa sem vill, en eigi meira heim að hafa en það sem menn bera í höndum sér. Klæði er rétt að þerra úti þó að drottinsdagur sé eða vöru, ef menn eru nauðstaddir að. Þar sem maður færir bú sitt, þá er honum rétt drottinsdag í fardögum að reka málneytu sína til þess bæjar sem hann skal búa þau misseri. Eigi skal þá reiða yfir vötn eða ferja. Ef maður finnur sauð einn í rétt um haust og er honum rétt að fara heim með, hvárt sem hann skal reiða eða fara annan veg með. Ef maður kaupir geldfé um haust og er honum rétt að reka heim þó að drottinsdagur sé, ef hann skal eigi ferja um vötn eða reiða. Ef menn koma af hafi og eru svá staddir að mönnum er háski eða fé þeirra, eða þó að menn færi farma hér fyrir land fram, þá er rétt að hrjóða skip, þó að drottinsdagur sé, og flytja farm af. Hverr þeirra skal gefið hafa á sjau nóttum hinum næstum áln vaðmáls eða annað jafngott. Gefa þeim mönnum sem minna fé eigu en þingfararkaupi eigi að gegna, sekur er hverr þrim aurum við byskup, ef eigi gefur svá, og skal þó gefa að síðarr sé. Ef maður finnur rekatré af skipi og er honum rétt upp að leggja. Og ef tré er meira en hann megi á skip leggja, þá skal hann eigi sundur höggva. Rétt er honum að landi að flytja og gefa af inn fimmta hlut. Ef maður finnur rekatré á fjöru sinni og á hann upp að velta, þó að drottinsdagur sé, úr flæðarmáli. En ef hann má eigi upp velta, þá skal hann marka tréið. Eigi skal í sundur höggva, en hann eignast, hvar sem á land kemur, ef hann hefir lögmark á lagið. Ef maður ferr drottinsdag för sína og kemur að þar sem löghlið er aftur bætt fyrir honum, þá er rétt að höggva upp. Þar sem menn veiða á helgum dögum, þá skal gefa af inn fimmta hlut og hafa gefið á sjau náttum inum næstum þaðan frá sem hann veiddi. Það skal gefa innanhreppsmönnum, þeim sem eigi eigu þingfararkaupi að gegna. En hverr sem eigi gefur svá er sekur sex aurum við byskup. Svá og ef drottinsdags helgur er brotin eða annarra hátíða slíkra að haldi, þá sekist hann sex aurum, en hina lægri daga þrim aurum, og skal gefa af gjöf þó að síðarr sé. En ef af gjöf verður meiri en hundrað í einum stað saman, þá sé henni svá skipt sem tíundum í fjóra staði. Ef maður berr klyfjar laugardag og vill hann heim þreyta og á hann að bera að ósekju þar til er sól er skafthá. Svá og þeir sem fara til brullaups og frá. Farmönnum er og svá lofað að fara til skips eða frá. Bera á maður klyfjar að frjálsu þó að dægur sé heilög, ef honum hefir seinna farist en hann ætlaði til. Ef maður má eigi heim þreyta, þá skal hann hafa tekið sér gisting og ofan lagðar klyfjar, þá er sól er í vestri. Sekur er bóndi þrim aurum ef hann synjar honum vistar. Hinn skal bera klyfjar til næsta bæjar áleiðis og biðja þar vistar. Sekur er bóndi þrim aurum ef hann synjar. Hann skal fara til hins þriðja bónda áleiðiss og leggja þar ofan klyfjar og biðja þar vistar og klæðahirslu. Ef bóndi synjar honum vistar, þá sekst hann þrim aurum og ábyrgist hann klyfjar hans, þó að hinn láti þar eftir liggja sem átti. Rétt er mönnum að fiskja drottinsdaga og alla aðra messudaga eða annað að veiða þeim sem þurfandi eru og eigi gegni þingfararkaupi. Skulu þeir hafa messu um morgininn áður og láta eigi veiðina standa fyrir tíðaferðinni. Gefa skal af inn fimmta hlut sem af annarri heilagra daga veiði, en hverr sem öðru vís gerir, þá gjaldi slíkt sem við liggur, helgi brot þann dag, og gjaldi þó af gjöf sem fyrr var skilt. En þó að fátækir menn þeir sem ekki hafa annað til viðurlifnaðar sér og sínum börnum rói út á helgum degi og fiski sér til matar en eigi til sölu né hirslu og hafi eigi messu haft, þá er það virðanda með skynsemð en eigi harðliga sekð af takandi. Þó skulu undan takast allar hinar stærstu hátíðir.
27. Um leyfi kardínála
Þetta leyfi gaf Vilhjálmur kardínáli þá er hann kom í Noreg, en síðan staðfesti Innocentius páfi. Ef virka daga má eigi vinna sakir veðráttu, þá skal maður í leyfi hjálpa heyvi sínu og korni og öðrum búföngum, aldini og öllu öðru sektalaust á helgum dögum. En um helga daga gerum vér þessa grein á að það leyfi skal hafa sem nauðsyn stendur til og nytsemð er í og þó hinar stærstu hátíðir undan taka.
28. Leyfi kardínála
Fyrir sakir nauðsynja landsins og fátæktar og ýmisligrar veðráttu, og að menn hjálpi því betur inum fátæka, þá játum vér af guðs hálfu og lofum korn að skera og alls kostar að bjarga, og svá heyvi til kvelds, á öllum nónhelgum dögum utan Ólafsmessu aftan fyrra, Maríumessu aftan hvárntveggja. Svá og ef menn fá veðráttu á laugardögum til útróðrar, þá sé lofað að fiskja til kvelds. Ef maður hefir gert heyhlass fyrir helgi, þá skal heim reiða og inn bera hey þó að heilagt sé. Svá skal og öll önnur hlöss þau sem á veg eru komin heim reiða og þau ein inn bera sem vænta má granda eða stulð má að óttast. En sjóarfloti standi kyrr þar sem hann er kominn að helgi.
29. [Um sunnuhátíðisdaga og aðra helgidaga]
Nú skulu vér sunnuhátíðisdaga og aðra helga daga með mikilli virðing geyma sem fyrr er sagt, svá að á þeim dögum skal ekki óleyfiligt verk gera né kaupsáttir fremja, eigi sekja né þing stefna, og engan til dauða dæma né líkams vananar, og eigi eiða vinna nema til friðar eða sættargerðar. Þessir eiðar leggjast og þar til þrjár vikur fyrir jól, tvær um jól, sjau um langaföstu. Páskavika og gagndagavika, hvítasunnuvika og ymbrudagar þrír fyrir Mikjálsmessu. En allir aðrir í vikum eru sóknardagar. Má á þessum tímum eigi heldur sekja, dæma né eiða fram flytja en á helgum dögum, nema byskup eða hans umboðsmenn sjái til þess nauðsyn. En um kristinn rétt og um allar aðrar fjársóknir, þá skal þann taksetja sem sókn kemur á hönd á þessum tíðum. En það eitt skal sekja eða sverja um mannhelgi eða þýft, ef maður ryður mál til laga og sættar. En ef eiðar verða festir, standi til særra daga. Sókn skal og eigi hefja á þriðja degi því að fimmtin berr á drottinsdag. En sá sem hefur sókn sína á þessum tímum, þá hefir hann fyrirfarið sókn sinni, nema hann skjóti á fimmnætting eða sexnætting þaðan. En ef eiðar verða unnir aðrir en nú eru til skilðir, þá er sá sekur sex aurum í langaföstu, en á öllum öðrum tímum þrimur aurum, ef eigi er sex aura dagur ef maður má ná lagafrestum. Ef maður verður til landsskyldar sinnar að sekja á ósóknardögum, þá skal lög fyrir lóð festa og leggja fimmtarstefnu og ryði hvártveggi sín vitni til bókar og standi til særra daga.
30. Um föstutíðir
Nú eru þeir dagar aðrir að allir fulltíða menn og heilir eru skyldir að fasta. Alla föstudaga er skylt að einmælt sé, nema jóladag inn fyrsta er slátur lofað, og tvímælt, þó að hann beri á föstudag. Verkmönnum en eigi setumönnum er lofað hvítt að eta einmælt föstudaga frá páskum og til ymbrudaga um haust. En þá eina föstudaga skulu menn hvítt hafa ef vilja, utan þá sem löghelgir eru, og þó einmælt. Imbrudagar eru fernir á tólf mánuðum. Hinir fyrstu eru á annarri viku langaföstu. En aðrir eru á hinni helgu viku eftir hvítasunnudag og er lofað að eta hvítan mat miðvikunótt og laugarnótt í hvítadögum. Hinir þriðju hefjast á haust miðvikudag þann sem næstur er eftir krossmessu. Stendur krossmessudagur á miðvikudegi, þá hefjast ymbrudagar á næsta miðvikudegi í annarri viku, og er það þá Matheusmessa. En ymbrudagar á veturinn skulu vera á þriðju viku jólaföstu. En jólaföstutíð hefst þann drottinsdag sem næstur er fyrir Andrésmessu eða eftir. Stendur Andrésmessa á drottinsdag, þá hefur jólaföstu á þeim sama degi. Langaföstu eigum vér að halda rækiligast af öllum föstum og er þá mest synð í að brjóta, því að várr herra Jesus Christus helgaði hana sjálfur með sinni föstu og margt annað dregur þar til fleira. Sjúkir menn og ómagar eru ekki skyldir til þessar föstu og geri ölmusu í staðinn þess eftir ráði prests síns og eftir föngum. En þeir sem fjögurtán vetra eru gamlir eða ellri og heilir menn skulu fasta sem boðið er af byskupum. Etur maður fisk á vatnföstudegi, gjaldi byskupi sex aura. Etur hann hvítt, gjaldi byskupi tólf aura. Etur hann slátur, gjaldi byskupi þrjár merkur. En ef hann etur hvítt á þeim degi sem hann skal fasta fyrir við þurrt, gjaldi byskupi sex aura, nema prestur lofi honum. Etur hann slátur, gjaldi byskupi tólf aura, nema hann sé dagvillur. Í langaföstu má maður eigi kalla sig dagvillan. Ef maður etur hvítt miðvikudag eða föstudag í langaföstu eða laugardag fyrir páska, eða á ymbrudögum nauðsynjalaust, gjaldi byskupi sex aura. Slíkt sama liggur við önnur föstuafbrigð á langaföstu. En fyrir hvern dag sem maður etur kjöt í langaföstu gjaldi byskupi þrjár merkur, nema hann eti nauðigur og hafi hann eigi annan mat til. Heldur skal hann eta kjöt en hann fari lífi sínu, segi til presti innan sjau nátta síðan hann má það. Ef ómagi etur kjöt, þá sé hýddur af presti, en varðveislumaður gjaldi byskupi þrjá aura ef hans völd ganga til. Hefir maður það í venju að eta kjöt um langaföstu, þá er hann útlægur og hverr penningur fjár hans. Fyrir öll föstuafbrot skal maður skrift taka. Í þeima boðorðum og öllum öðrum skal nauðsynjar meta.
31. Um skriftagang og þjónustu og Rómaskatt
Hverr kristinn maður sem vits er vitandi skal ganga til skrifta ið minnsta eitt sinn á tólf mánuðum í langaföstu og segja presti rækiliga til synða sinna og taka síðan þjónustu á páskum, nema hann sé í þeim stórskriftum að hann skal fyrir því eigi þjónustu taka. En hverr sem eigi gengur til skrifta í langaföstu og tekur hann eigi þjónustu á páskum og er hann tólf vetra gamall eða ellri, þá skal sá maður gjalda byskupi slíka skyn fyrir sem hann leggur á hann fyrir hvert sinn þeirra. Slíkt ið sama sá og sem þjónustu tekur í forboðum. Dregur hann í venju þrjá vetur eða þrim vetrum lengur að hann gengur eigi til skrifta í langaföstu og tekur eigi þjónustu á páskum, og er tólf vetra eða tólf vetrum ellri, þá drýgir hann heiðinn dóm og er af því útlægur og fé hans allt. Hverr kristinn maður er og skyldugur að vera hlýðinn við páfann að Rúmi og fyrir því skal hverr maður, sá sem má, gjalda Rúmaskatt, einn penning taldan, og fá presti í hendur fyrir páskir, eða það annað sem fyrir tíu menn gjaldist álnar virði. Það fé skal hafa inn helgi Pétur in Roma. En hverr sem það lýkur eigi, og hefir hann föng til, og svá sá sem við tekur og leynir þar nokkuru af, þá er hvártveggi í páfans banni.
32. Um fæðslufang, hvað etanda er á föstutíðum eða utan föstu
Þessi kvikkvendi er mönnum rétt að nýta til fæðslu þá er slátur ætt er: Naut og færsauði, geitfé og svín. Björn er og rétt að nýta, hvárt sem er viðbjörn eða hvítabjörn, og rauðdýri, hjört og hrein. Rostung og sel. Fugla eigu menn þá og að eta sem slátur ætt er, þá alla sem fljóta á vatni. Klófugla skulu menn eigi eta, þá sem hrækló er á, örnu eða hrafna, vali og smyrla. Rétt er að eta hæns eða rjúpur. Þar eru æt egg undan þeim fuglum sem fuglarnir eru ætir sjálfir. Á þeim dögum er og rétt að eta egg sem menn skulu hafa hvítan mat. Kvikfé eigu menn að nýta, það sem sjálfir láta af, þó er rétt að nýta að eigi láti sjálfir af, ef maður veit hvað verður, nema svidda verði. Gefa skal af inn fimmta hlut öllu, nema menn sævi, og hafa gefið á sjau nóttum inum næstum síðan fannst innanhreppsmönnum, þeim sem eigi gegna þingfararkaupi. Sekur er sá þrim aurum sem eigi gefur svá, og skal hann af gefa þó að síðarr sé. Kálf skal ala þrjár nætur, þó er rétt að hann sé fyrr skorinn, ef honum var matur gefinn, og skal gefa af hinn fimmta hlut, að sama skilorði. Það er fé óætt er mannsbani verður. Hross skulu menn eigi eta og hunda og köttu, melrakka og engi klódýri, nema björnu. En ef maður etur nauðsynjalaust þau kvikkvendi sem frá eru skilð í lögum, þá verður hann sekur þrim mörkum við byskup og taki skriftir. Jafnskylt er þeim mönnum að varna við slátri á föstutíðum sem eigi eru til föstu talðir sem hinum er skyldir eru til föstu. Þá er menn skulu fasta við þurrt þá er rétt að eta aldin og jarðarávöxt allan þann sem ætur er. Þá er og rétt að eta fiska alls kyns, svá hvala alla aðra en rostung og sel. Hrosshval skal á öngum tímum eta, svá náhval og rauðkembing. Ef svín komast á hrossakjöt, þá skal ala þrjá mánaði og fella hold af, en síðan feita aðra þrjá. Ef svín kemur á mannshræ, þá skal ala sex mánaði en feita aðra sex mánaði. Þá er rétt að nýta svín ef vill.
33. Um eiða
Af því að guð sjálfur er sannleikur, þá vill hann þars hvers manns með sannleiki já sem já er og það með sannindum nei sem nei er. En þó fyrir breyskleika sakir mannsins, er sjaldan trúir orðinu beru, þá heimtast eiðar oftliga og framflytjast, og er það engi synð er satt er svarið, og fyrir því eru þeir skyldir til sættar, samþykkðar og staðfestu friðar milli þeirra sem fyrir vóru ósáttir, og styrkja hafðan frið millum vina, til þess að sannleikur birtist í því sem váttar bera þeim til skírslu eða undanfærslu er dómari dæmir. En þó að eiðanna sé margfallig grein, þá eiga skylduliga og innvirðiliga þrír hlutir í þeim að geymast. Sannleikur í hreinni samvisku, að hann sveri það eitt er hann veit og ætlar ifanarlaust satt vera. Skynsemð í góðri forhugsan, að hann sveri eigi hvatskeytliga og gangi eigi til að sverja, utan nauðsynjar. Réttvísi, að það sé svarið er lögligt er og rétt, því að hverr sem sverr að drýgja nokkura illsku eða dauðliga synð, þá synðgast hann sverjandi ólögligt, og skal þó þann eið rjúfa sektalaust og ganga til skrifta.
34. Um dóma og prófanir
Til kviðjanar hvatskeytligrar ákefðar óskynsamligra manna er hér til hafa framhleypt óvarliga eiðum og öðrum prófunum ólögliga, sumir sækjandi en sumir verjandi sök, þá er hér skipað að hvervetna þar sem ef er á nökkuru máli að þeir sem deila vilja eigi með samþykkt niður setja, skal það fyrir þeim prófast og niður setjast, er um það mál á að dæma, svá að hinn seki sé sóttur fyrir sínum dómara, því að sá dómur er ólögligur og eigi haldandi er af þeim gerist er um það mál á eigi réttliga að dæma. En sá sem segir eða sök gefur, þá skal hann fá prófan til síns máls, nema hinn sem neitar segi nokkurn hlut í sinni neitan, þann sem hann eigi og fyrir sína hönd að prófa. Nú skulu klerkar um öll mál vera sóttir fyrir herra byskupi eða þeim sem hann hefir til fengið að skipa málum heilagrar kirkju. En leikmenn skulu um öll mál sóttir vera fyrir herra kónginum eða þeim sem hann hefir sína lögsögn í hendur fengið, utan þessi mál sem hér segir eða önnur þvílík sem tilheyra kristins réttar, svá sem er um rán eða stulð úr kirkju og misþyrmsl kirkna og lærðra manna og kirknagóss, um tíundargjörðir og heit öll, um testamenta er menn skipa, einkanliga af því er þeir gefa kirkjum eða öðrum helgum stöðum og fátækum mönnum, um allt kirkjufrelsi er hon á í sér og utan sig, í mönnum og eignum, um vernd pílagríma hins helga Þorláks byskups er vitja hans staðar og aðra helga staði og þeirra mál, um hjúskap og allar þær sakir og málavöxtu sem þar heyra til, og þar sem dæma skal hversu hverr er lögliga getinn, um kvenna legorð, um frændsemisspell, um hórdóma og frillulífi, um meineiða og ef menn byggja dautt fé, um villu alla og vantrú, og þar sem seldir verða eða keyptir andligir hlutir. Skal um öll þessi mál og þau fleiri sem skipuð eru í kristnum rétti hvártveggi verjandi og sækjandi með vitnum sínum og gögnum koma til byskups úrskurðar eða hans umboðsmanns.
35. Hér segir um okur, hvað er
Það er okur er menn byggja dautt fé og krefja framarr af þeim er þeir ljá en innstæðu, og gerist það í öllu því er vegast má með stórum vágum eða smám, svá sem er smjör eða lín, eirr og gull eða silfur og þvílíkir hlutir, og í því öllu er teljast má í álnum sem léreft eða vaðmál, og í öðru tali sem silfur og skreið, og alls kyns vara, og þvílíkir hlutir, og í öllu því sem mælist, svá sem lýsi og hunang, og alls kyns annarr lögur, og svá sem korn og mjöl og þvílíkir hlutir. Svá og þó að maður skili sér leigur fyrir kýrverð, þá gerir hann okur nema hann sjái kúna lifandi og kenni sér til handa eða hans umboðsmaður, og byggi síðan ef vill. Nú í hverju sem maður hverr tekur ávöxt nökkurs hlutar, þann sem hann skilði sér undir þess ábyrgð er lánið þurfti, þá gerir hann í því dauðliga synð okursins jamna við stulð eða rán. Fyrirlátast þessar synðir eigi, þeim sem þær gera, nema þeir fái aftur allt það er þeir hafa eða halda annars, að óvilja þess sem á ef þeir hafa föng til. Skal sá er okur tók þeim greiða er hann tók af eða hans erfingja, ef sá er dauður. En ef engi er þeirra til, þá skal með ráði byskups gefast fátækum mönnum, kirkjum eða klaustrum. Eru allir okurkallar forboðaðir og skilðir af heilagri kirkju eftir guðs lögum í þrim hlutum af sjálfu verkinu. Fyrst að þeir skulu eigi taka hold og blóð várs herra Jhesu Christi, nema þeir bæti yfir. Annað þeim til hafnanar og háðungar skal eigi takast þeirra offur til heilags altaris, þriðja að ef þeir andast í þeirri synd óbættri, skulu þeir missa heilags legsstaðar í kirkjugarði, og svá fram um þetta skal byskup, þegar hann verður varr við, þröngva þeim eða þeirra erfingjum til yfirbóta með hirting heilagrar kirkju. Engi skal og heyra skriftamál opinbers okurkalls né hann leysa fyrr en hann hafi aftur fengið okur eða gefið til þess fulla varðan sem hann er framast fangaður til. En þó að opinberr okurkall bjóði um með ákveðnu eða eigi ákveðnu á síðustum dögum síns lífs upp að lúka tekinn áauka dauðs fjár, þá skal neitast þeim heilagur legstaður í kirkjugarði, þar til sem fulliga er aftur greitt eftir föngum, annaðhvárt þeim sem hafa eigu, ef þeir eru nær, elligar byskupi eða hans umboðsmanni eða sóknarpresti sínum, nærveröndum skilríkum mönnum af sókninni, þeim til handa er hafa skal. En hverr sem okur gerir, sekist sex aurum, á það hálft konungur en hálft byskup, og upptækt allt það er byggt var og skal það hafa hálft konungur en hálft byskup.
36. [Um átta konur óskyldar]
Þessar eru þær konur óskyldar að frændsemi er maður verður útlægur af ef hann tekur en þrjár skyldar. Ein er faðir manns átti. Önnur sú er sun átti. Þriðja sú er bróðir manns átti. En fjórða er móðir konu þeirrar er maður átti. En fimmta er dóttir konu þeirrar er maður átti. En sétta er systir konu þeirrar er maður hefir átta. En sjaunda er sú er þú hóft úr heiðnum dómi, eða hon þig. En átta er við hefir tekið og sig guði gefið. En þessar eru hinar er að frændsemi eru skyldar: Móðir, systir, dóttir. Nú ef maður leggst með einnihverri þeirra, þá útlægist þau bæði, og fyrirgert fé sínu við erkibyskup, nema því aðeins að hann brjótist úr böndum, eða viti menn það með sönnu að æði hefir verið á honum auðsýn eða síðan, og svá ef kona hefir verið nauðigað til, og hefir eigi hennar vili til verið, síðan sekist hon ekki og bæti þó við guð eftir umráði erkibyskups. En ef hann vill eigi í brott fara, þá skal erkibyskups ármaður stefna þeim manni þing og hafa með sér heimiliskviðarvitni til þings, en ef hann kveður nei við, þá festi lýritareið fyrir og standi sá eiður tíu vikur særar. En ef eiður fellst, þá fari hann útlægur og fé hans allt, nema jörð eigi er hann á, og sæki það eiðfall svá sem annað eiðfall. En ef hann vill eigi eið festa, þá geri erkibyskups ármaður honum mánaðarstefnu brott af landi, og svá hon og útlæg, nema runnið sé á hendur henni.
37. [Guðsifjar]
Nú er það því næst að engi maður skal hafa guðsifju sína etc. versus. Slíkar guðsifjar verða og þar er maður tekur guðmóður sína eða guðdóttur, sem fyrr er sagt. En fyrir allar aðrar guðsifjar er fyrr vóru talðar, þá sekist maður sem hann taki systrungu sína eða bræðrungu, bæði við guð og við erkibyskup.
38. Rúma
Rúmaskatt skal hverr maður greiða á hverjum tólf mánuðum, penning talinn þeirra er til þriggja marka talinna eigu fyrir utan vápn og klæði einföld og geri bæði kall og kona eða gjaldi hálfan eyri fyrir hvern penning.
39. Um blandan við búfé
En ef manni er það kennt að hann blandist við einnhvern fénað, það er fyrirboðið hverjum kristnum manni. Þá seki ármaður með heimilisskviðarvitni. En sá syni með lýritareiði eða fari útlægur. Svá skal og allra útlegðarmála synja.
Um Kristinrétt Árna Þorlákssonar
Kristinréttur Árna Þorlákssonar eru guðslög samþykkt 1275. Þau voru samin af Árna Þorlákssyni (1237–1298) biskupi í Skálholti. Lögin giltu uns kirkjuordinansía Kristjáns III var lögleidd í Skálholtsbiskupsdæmi árið 1541 og í Hólabiskupsdæmi árið 1551. Ákvæði úr þeim eru þó í gildi enn. Lögin eru varðveitt í vel á annað hundrað handritum en einungis Jónsbók hefur varðveist betur.
Árið 2005 gaf Sögufélag út Járnsíða og kristinréttur Árna Þorlákssonar eftir Harald Bernharðsson, Magnús Lyngdal Magnússon og Má Jónsson. Inniheldur bókin efni kristinréttar Árna Þorlákssonar í stöðluðu og uppfærðu máli ásamt ýmsum skýringum.
Framsetning þessi á kristinrétti Árna Þorlákssonar byggir á fyrrnefndri bók sem sjálf byggir á efni handritsins AM 49 8vo að nær öllu leyti en á stöku stað hefur verið leiðrétt eftir handritinu GKS 3270 4to.
Bók Haralds, Magnúsar og Más inniheldur mikinn fróðleik um sögu lögbókarinnar. LagaWiki mælir með lestri hennar en leyfir sér að birta meginefni hennar hér þar sem lagatexti getur ekki verið höfundarréttarvarinn, hvort sem hann er í upprunalegu máli eða nútímavæddu.