Stjórnartíðindi
Um Stjórnartíðindi
Stjórnartíðindi er tímarit sem gefið hefur verið út af íslenskum sjórnvöldum síðan árið 1874. Þegar lög og reglugerðir birtast í Stjórnartíðindum er svo á litið að þau hafi verið formlega birt almenningi. Fyrir lýðveldisstofnun árið 1944 var tímaritið titlað Stjórnartíðindi fyrir Ísland.
Hvert ár koma út nokkur tölublöð Stjórnartíðinda sem dreift er til viðeigandi stjórnvalda og aðila í áskrift. Fyrir hvert ár hafa öll tölublöðin verið tekin saman og gefin út sem einn árgangur. Eftir 2004 var hins vegar hætt að prenta C. deild og er hún því einingis fáanleg á rafrænu sniði.
Í ársbyrjun 2002 var ákveðið að gera Stjórnartíðindi aðgengileg á Veraldarvefnum. Við gildistöku laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað var ráðherra heimilað að hætta prentun Stjórnartíðinda og ákveða að réttaráhrif birtingar yrðu bundin við rafrænu útgáfuna. Frá gildistöku reglugerðar nr. 958/2005 um útgáfu Stjórnartíðinda hefur réttaráhrif birtingar verið bundin við rafrænu útgáfuna.
Milli áranna 1906 og 1992 voru gefin út níu efnisyfirit yfir efni Stjórnartíðinda. Var þetta gert að jafnaði á áratugar fresti.