Jónsbók/Farmannalög

Úr LagaWiki
Jónsbók ÞingfararbálkurKristinn réttur og konungserfðirKonungs þegnskyldaMannhelgiKvennagiftingarErfðatalFramfærslubálkurLandabirgðabálkurBúnaðarbálkurRekaþátturKaupabálkurFarmannalögÞjófabálkur

Hér hefur upp hinn tólfta hlut lögbókar er heitir farmannalög

1.

Sú ein er löglig fartekja en engi önnur að í hönd skal taka stýrimanni eður hans lögligum umboðsmanni og nefna vitni við, tvau eður fleiri, og segi sá til áhafnar sinnar er fari tekur en hinn til leigu er skip byggir. En ef þá skilur á um kaupmála, hafi sá sitt mál er vitni fylgir og þeir sverja svo: Vær heyrðum orð ykkur og voru þið þá sáttir og samkaupa um fartekju, svo um lest og leigu, þá er það vitni lögliga borið og að fullu far tekið eftir farmannalögum réttum.

2. Hér segir hversu lekt skip skal fært í kaupfarar

Skip það er ausa þarf þrysvar á tveimur dægrum er talt fært í allar farar, nema hásetar vili hlíta lekara skipi. En ef stýrimenn láta ausa skip um nætur á laun fyrir hásetum, þá heyrir það til svika við þá og eiga stýrimenn að bæta þann skaða allan er af því gerist, hvort er það er um fé manna eður fjör eður hvort tveggja, því að það fals á hver að bæta er sjálfur gjörði. Nú er farmur á skip kominn, föt og matur og drykkur. Hann skal eigi minni en tveir menn hafi þrjá bjórverpla með vatn og allt annað það sem til er ætlað. Og ef þá sýnist hásetum sem skip sé ofhlaðið undir þeim en stýrimenn kalla mundanghlaðið vera, þá skulu þeir nefna tvo stýrimenn af öðrum skipum ef til eru. Og ef þeir vilja því til guðs skjóta að þeir vildu fara á svo hlöðnu skipi jafnlanga leið, þá eiga hásetar eigi að vanda um þá hlöðslu fyrir stýrimanni og fari þá við svo búið. En ef stýrimönnum af öðrum skipum þikkir ofhlaðið skip, þá skulu stýrimenn af bera alla sína vöru aðra en þá er þeir höfðu ætlað sér til reiðakaups, því að skip er hvergi fært ef reiða skortir. En ef skip er þá enn ofhlaðið, þá skal sá fyrst af ganga og af bera er efst tók fari og hver að öðrum sem tekið hefir til þess er þeim þikkir mundangliga skip hlaðið er þessu máli skulu skipta og til voru nefndir. En ef stýrimenn af öðrum skipum eru eigi svo nær að þeir megi til koma, þá skal bændur til nefna þá er næstir búa og helst hafa vit til, og vanir eru í kaupferðum, að skýra þetta mál eftir því sem fyrr segir. En hverjum manni er af skipi gengur með föt sín og fé, þá eru stýrimenn skyldir að fá þeim föruneyti jafngott til þess lands sem þeir höfðu sig til ætlað. En ef það fæst eigi, þá greiði stýrimenn þeim slíkt fé sem þeir skyldu taka af þeim ef þeir færi þannig sem þeir höfðu sér fari tekið, og gjaldi aftur leigu slíka alla sem hinir höfðu áður af hendi greitt.

3. Hér segir um skipdráttu

Þá er stýrimenn vilja skip sitt fram setja eður upp, þá skal hann skera boð upp sjau náttum fyrir og svo víða bera láta sem hann þikkist þurfa. En hver sá bóndi er það boð kemur til er skyldur til að fara og húskarlar hans nema sauðamaður. En hver er eigi kemur forfallalaust er sekur tveimur aurum við konung. En ef bóndi dvelur húskarl sinn frá þessi ferð, þá svari hann þeirri sekt er við liggur. En griðmenn skulu sjálfir fá sér eyki ef þeir hafa til. En ef þeir eiga eigi til, þá skulu bændur fá þeim eyki ef þeir eiga til. Eigi eru bændur skyldir að fá griðmönnum eyki fyrr en sex vikur eru af sumri og eigi síðar en fjórar vikur lifa sumars. En þegar boð kemur, þá eru allir skyldir að fara. Ef skip er í öræfi komið þar sem firðir eru fyrir eður sund, þá er bóndi skyldur að fá þeim skip ef hann hefir til, enda eru þeir skyldir að fara þó að stýrimaður fái þeim skip. Eru og stýrimenn skyldir að ala þá menn í tvau mál er eigi megu fara tvívegis heim frá skipdrætti eður heim að kveldi. Stýrimenn eigu að gjöra hróf ef þeir vilja, svo og að skjóta hlunni og festar til að fá og um skip að búa að öllu með háseta fulltingi. Stýrimenn eigu og að ferja þá menn heim er fara eigu yfir fjörðu eður ár ófærar, ella eru þeir sekir hálfri mörk hver, hálft konungi en hálft þeim er til skipdráttar voru kvaddir og fars misstu, og hafi þó skip að ósekju og ábyrgist að öngu, þá skulu menn á festum taka er stýrimaður vill og leiti við þrysvar af öllu afli. Og ef þá gengur eigi skip upp eður út þá eru þeir allir ósekir er þar eru við þó að ekki gjöri þar meira að. Og sé menn til kvaddir í öðru sinni ef þarf. En þeirra ábyrgð er á skipi sem heima sátu lögliga til kvaddir og þó sekir sem fyrr vottar.

4. Hér segir um skipleigur

Á þeim degi er stýrimaður vill út leggja þá skulu allir skiparar til koma forfallalaust. En það eru forföll sem lög votta. En þegar þar kemur skutstafn sem áður var framstafn og horfir skip á leið, þá á stýrimaður skipleigur allar nema hann vili betur gjört hafa, hvað sem af skipi verður síðan, nema þau skip setist hér upp sem til Noregs ætla, þá skulu þeir bíða byrjar til Maríumessu síðarri, því að héðan skal eigi síðar sigla. Nú þó að skip setist þá upp, þá skal öllum víst far að vori þeim er tekið hafa fyrir þá leigu er þeir greiddu fyrra sumarið. Deyja og nökkurir þeir sem sér hafa fari tekið eða fara eigi, þá eignast stýrimaður þá leigu alla er þeir skyldu hið fyrra sumarið greitt hafa. Engi íslenskur maður skal héðan fara með minna fé en hann hafi til tíu hundraða, sekur mörk við konung sá er við þeim tekur en annarri mörk sá er fari tók, nema hann þjóni eða fari til skóla eða fari fyrir nökkura nauðsyn, þá er rétt að flytja þó að alllítið fé hafi.

5. Hér segir hver uppsát skipa skulu vera

Þar skulu menn til hafna halda sem skipauppsát eru fyrir ef þeir megu komast. Þar eiga þeir að grafa fyrir hlunni og gera hróf og hlaða vegg fyrir skip sitt, vatns að neyta og haga, og svo þeir menn er þangað koma til kaupa við þá, nema þeir sé lengur en þrjár nætur þar með eyki sína, þá bæti landnámi þeir er til kaupa koma. Öngvan toll skulu kaupmenn greiða fyrir þetta.

6. Hér segir um sekt stýrimanns ef hann villir fartekju

Ef menn taka sér fari af stýrimanni og segir hann sitt hverjum hvert hann vill farið hafa. Nú þar sem leið skilur og vill hver þannig fara sem sér tók fari og hefst upp þræta með þeim, þá skulu þeir sitt mál hafa er fleiri eru þó að einum auki. En stýrimaður skal öngu um ráða. En ef hvorir verða jafnmargir, þá skulu þeir bera hluti í skaut og hluta, og skulu þeir ráða er hlutur fylgir. Nú vilja þeir af skipi ganga er lygi var fyrir borin og lausungarorð, þá skal stýrimaður gjalda mörk hverjum þeirra er af gengur skipi og skipleigur þær umfram er hann tók af þeim. En hinum sem eftir eru á skipi skal hann fá svo marga menn að þeir sé vel liðfærir og halda þá með sínum kosti þangað til kaupstaðar sem þeir hafa sér fari tekið.

7. Hér segir um áhöfn stýrimanna

Einn skal vera stýrimaður á skipi hverju, nema á Íslandsförum, þar mega fleiri vera. Stýrimaður skal þriðjungi meiri lest hafa en hásetar og þó ekki meira upp leggja en hásetar, fyrir því að hann á þriðjung að hafa til reiðakaups sér ef hann þarf. Það eiga allir hásetar að flytja. Því skal hlaða í klofarúmi. Stýrimaður skal leiðsögumann til fá en allir túlk. Allar lestir skulu jafnstórar vera að fullu fari, nema sumum hásetum sé skild meiri lest en sumum minni. Svo skal hver maður hafa margra punda þunga í lest sína og svo mikla vöru sem hann hefir sér fari undir tekið og leigu fyrir fest. Hver maður skal húðir fá yfir vöru sína svo að jafnmargir sekkir skulu vera undir jafnmikilli húð.

8. Hér segir um skipanarrof háseta

Ef háseti rýfur skipan undir stýrimanni og verður hann að því vitnissannur. Rýfur hann innan lands, þá er hann sekur mörk við stýrimann fyrir lest hverja er hann ber af. En ef hann rýfur skipan undir stýrimanni í Danmörk eða í Gautlandi eða Svíþjóð, gjaldi tvær merkur, aðra konungi en aðra stýrimanni fyrir lest hverja er af berst. En ef maður rýfur skipan í Gotlandi eður Smálandi eða sunnar á Saxlandi, sekur fjórum mörkum, hálft konungi en hálft stýrimanni. Rýfur hann skipan í Englandi eður Skotlandi, Orkneyjum eður Dyflinni, Færeyjum eður Hjaltlandi, gjaldi átta merkur, hálft konungi en hálft stýrimanni. Nú rýfur maður skipan á Grænlandi eða hér á Íslandi sjá er útlenskur er eður austur í Görðum, sekur átta örtögum og þrettán mörkum silfurs, hálft konungi en hálft stýrimanni. Nú heitir þegar skipan rofin er skipari kemur eigi til skips með varning sinn í þær stefnur er aðrir skiparar koma og stýrimaður gjörir ráð fyrir, og hafa slík lög öll í heimferð sem þeir höfðu í heimanferð og skip í allra þeirra ábyrgð þar til sem upp er sett, nema stýrimaður vili betur gjört hafa.

9. Hér segir hversu lengi bíða skal háseta og stýrimanns

Nú kemur byr á, þá skulu hásetar bíða stýrimanns síns um þrjú sjóvarföll en síðan megu þeir fara hvert er þeir vilja að ósekju. Nú kemur byr á og er háseti genginn frá skipi utan leyfi stýrimanns og háseta, þá skulu þeir bíða hans tvau sjóvarföll, þá megu þeir fara að ósekju. Nú gengur háseti frá skipi og kemur byr á, þá skulu þrír menn ganga á land upp og skal einn þeirra standa við bryggjusporð og annar upp frá honum en hinn þriði lengst upp, svo að hver megi heyra annars kall og æpi þrysvar sinnum, og gangi síðan til skips. En ef hann kemur þá eigi, þá mega þeir fara að ósekju ef hann er á kristnu landi staddur. En ef hann er á heiðnu landi, þá skal bíða hans tvau sjóvarföll ef þeim er óhætt fyrir heiðnum mönnum. Nú stendur maður eftir í byggðri ey, þá skulu þeir leiga honum far til meginlands með fé hans. En ef hann stendur eftir í óbyggðri eyju, þá skal leggja honum upp sjau nátta vist og eldfæri, bát og bolexi og hversdagsskikkju. Nú stendur maður eftir en mötunautar hans bjóða mann á lest hans og hafa við það votta. En stýrimaður og hásetar kveðast eigi þurfa, þá frjálsar það fé hans við stýrimann og háseta, hvað sem í hverigu gjörist. Nú koma hermenn að þeim og kemur eitthvert hervopn innanborðs af ófriði og verða menn sárir eður drepnir, og hafa þeir eigi boðið mann á lest hans er eftir stóð, þá hefir hann fyrirgjört hverjum peningi fjár síns þeim er hann átti þar í skipi. Nú fara menn frá skipi með ráði stýrimanns og háseta og kemur ófriður að þeim, þá hafi þó fé sitt þeir er fjarri voru staddir ef hinir fá varið er á skipi voru.

10. Hér segir hversu kasta skal ef menn hitta í storma

Ef menn hitta í storma eður volk eða þann vanda að þeir þurfa að létta skip sitt, þá skal öllum yfirburð fyrst kasta. En ef meira þarf fyrir borð að kasta, þá skal því fyrst kasta er þungast er og féminnst, hver sem þann varning á ef honum má ná, og skulu allir þeir sem innanborðs eru gjalda þeim verð fyrir er átti, svo mikið sem þeir mætti fyrir fá í þeim kaupstað er þá koma þeir til, svo að allra þeirra skaði verði jafnmikill að jöfnu fé, því að eftir fjármegni skal fé kasta en eigi eftir mannmergð eður lestatali. En ef þeir koma meður heilum búlka til kaupstaðar og hafa öngu kastað, þá skal svo yfirburð skipta að jafnt skulu allir af hafa, jafnt stýrimenn sem aðrir hásetar, nema þeir skulu meiri skipleigu hafa fyrir þá lest en fyrir aðrar þær er þeim voru vegnar út í skip, svo margar sem þær verða. En það er yfirburður er þá liggur eftir er hver hefir vegið sína lest fulla.

11. Hér segir sektir þeirra er eigi vilja skipi fylgja eftir

Ef menn hitta í volk eður þann vanda að þeir lesta skip sitt svo mjög að farm þarf af að bera, og er þó bætanda, þá skulu allir hásetar bíða hálfan mánað virka daga. En ef nökkurir skiljast fyrri við skip en nú er skilt, fyrir utan ráð og leyfi stýrimanns, þá eru þeir sekir þrettán mörkum við konung og stýrimenn er fyrst rjúfa skipan. En hver hinna mörk er síðan gengur af, þar til er þeir eru svo fámennir að skip er ófært eftir fyrir liðleysis sakir. En þeir eru ekki sekir er síðar ganga af. En ef skip brýtur í spón og eru menn á friðlandi, þá skilist menn eigi fyrri við en reiða er borgið þeim er þá má ná og svo skiphræi.

12. Hér segir sektir þeirra er eigi vilja bjarga skipbrotsmönnum

Hvervetna þar sem menn brjóta skip sitt og þikkjast eigi sjálfir fá borgið sér, þá skeri þeir boð upp þeim er næstir búa, svo mörgum sem þeir þikkjast þurfa með eykjum sínum þeim er því megu við koma. Þeir skulu hafa sex aura fyrir lest hverja er þeir vinna upp og kost til fæðu sér umfram. Þeir eiga og að bjarga skipi og reiða fyrir jafnaðarleigu. En hver er eigi kemur eftir boði forfallalaust er sekur sex aurum, hálft konungi en hálft skipbrotsmönnum.

13. Hér segir um fartekju ef háseti byggir sitt far

Ef maður leigir eins punds far að háseta og byggir hann að lögum, og æ meðan hann á eins punds rúm innanborðs, þá á sá það er leigði. En ef maður leigir tveggja punda far að háseta og svo þó að fleiri sé, þá á hann slíkt að hafa sem hann keypti af hinum, hvort sem það er far hans eða færing eður annað fé, það er sá á er seldi, æ meðan sá á til. En ef háseti vill eigi fara þar sem hann tók sér fari og hefir ekki áður á skip borið, þá skal hann greiða stýrimanni slíka leigu sem hann festi honum og færi þangað sem hann hafði fari tekið. En ef stýrimaður rýfur skipan undir háseta, þá svari hann slíku fyrir við háseta sem háseti ætti við stýrimann ef hann hefði slíkt við hann rofið. Nú tekur maður sér fari og ber áhöfn sína á skip, og ber þær nauðsynjar til að honum er sýnn fjárskaði í ef hann fer, þá fái hann stýrimanni annan háseta jafngóðan í stað sinn og jafnmikla lest og leigu. En ef hann fær öngvan, þá fari hann sjálfur eður svari slíku fyrir sem fyrr segir, nema stýrimaður lofi honum.

14. Hér segir hversu menn skulu sættast þeir sem í kaupferðum berjast

Ef menn berjast í kaupferðum og sættast þar eftir ráði stýrimanns og háseta, þá á hvorgi að rjúfa þá sætt, en Noregs konungur á sekt þá sem við liggur og sæki sá konungs umboðsmaður sem þar hefir lén, er þeir rjúfa búlka sinn og bera af skipi. En ef Noregs konungs menn berjast eður gjöra önnur þau verk er sekt liggur við í Danmörk eða í öðrum löndum, og bæta þeir þeim konungs umboðsmönnum er þar hafa lén yfir, þá eru þeir ósekir við Noregs konung er þeir koma heim, ef þeir hafa til þess tveggja manna vitni að þeir bættu þar slíkt er þeir brutu, ef þeir hafa við útlenskan mann átt. En ef Norðmenn berjast sín í milli, bæti Noregs konungi friðbrot er þeir koma heim, því að á hans þegni var unnið, og sjái því meir viður sundurþykki síðan sín í milli.

15. Hér segir um hafnarrán, hversu fara skal

Sá á höfn er rær, en hinn lægi er fyrstur kemur landfestum um festarhæl. Ef maður rænir mann höfn, þá sekist hver þeirra mörk er á því skipi er, jafnt stýrimaður sem hásetar, þá sekt á hálfa konungur en hálfa þeir er hafnarrán var veitt, og skipti að mannmergð. Það heitir hafnarrán er maður höggur eður leysir festar manns eður bægir þeim úr lægi er áður lágu fyrir. Nú eru margir menn á skipi saman þeir er síðar koma og búa eigi allir um eitt lyndi, og segja sumir svo að eigi mundi að róið ef þeir réði, þá syni með einseiði vilja síns hver þeirra og sé þá saklausir. En ef þeir vilja eigi gjalda er hafnarrán veittu þá sekt er við liggur, sæki sem vitafé, þar sem þeir rjúfa búlka sinn til uppskipanar.

16. Hér greinir hvað hafnarrán er

Það heitir hafnarrán ef menn sigla í akkerislægi í höfn og sigla aðrir eftir svo nær að eigi er skipi hinna svifrúm. Nú tala þeir um er fyrri komu til hafnar og biðja hina brott leggja er síðar komu, svo að skip þeirra hafi svifrúm og eigi liggi skip á strengjum þeirra. Nú vilja þeir eigi í brott leggja, þá er það hafnarrán, svo og ef skip brýtur undir þeim, þá liggur hér við þetta hafnarrán slíkt sem hið fyrra. Ef þeir brjóta skip undir mönnum er síðar koma, hvort er þeir brjóta í akkerissæti eður landfestum eða gjöra reiðaspell, þá skulu þeir bæta sem vert er og öfundarbót með eftir lagadómi. Ef maður höggur skýlihögg á hafskip manns og hvatki sem hann meiðir að skipinu eða reiða eður viðum, bæti spell sem vert er og öfundarbót með eftir lagadómi. En ef þeir vilja eigi bæta, þá liggur hin sama sök við sem áður var nefnd.

17. Hér segir sekt þess er bát tekur utan orlof

Nú skal stýrimaður báti ráða og ef þeir liggja um akkeri, þá skal hann láta flytja háseta til lands eitt sinn um dag og út aftur, en matsveina þrysvar, eitt sinn að taka vatn en tysvar að matbúa. Sá skal bát festa er síðast gengur úr báti. En bátfestur skal taka fram að búlkabrún þá er bátur er heimtur að skipi. Nú ef brestur úr borði eður barði eður brestur röng eður viðjar slitna eður bátfestur, þá ábyrgist stýrimaður sjálfur bát sinn og fái hásetum annan bát, ella ábyrgist allt það er á skipi er, ef nökkuð kann að bresta fyrir bátleysis sakir. En ef knútur losnar, gjaldi sá bát er þann knút knýtti ef eigi kemur aftur eður fái annan bát. En ef hann vill eigi ábyrgjast bát, þá sæki stýrimaður sem vitafé. En ef nökkur tekur bát að óvilja stýrimanns, þá lýsi hann ráni undir tvo votta á hendur honum, þá er hann sekur hálfri mörk við stýrimann. En ef hann tekur bát leyfislaust og rær í brott svo langt að leita þarf, þá er hann sekur mörk við stýrimann og færi jafngóðan aftur bát sem hann tók. En ef nökkuð grandar skipi fyrir bátleysis sakir meðan bátur er í brottu, þá er hann sekur þrettán mörkum, hálft konungi en hálft stýrimanni, ef í spán brýtur, og bæti skaða allan eftir því sem menn meta. En ef skip er bætanda, þá láti sá bæta er báti röri í brott og gjaldi sex merkur, hálft konungi en hálft stýrimanni. En fyrir mann hvern er týnist fyrir bátleysis sakir, gjaldi sá er báti röri í brott slíkt þegngildi og slíkar bætur sem konungs umboðsmaður leggur til með bestu manna ráði.

18. Hér segir um þrábeiting, hversu fara skal

Ef menn sigla með landi fram í samfloti, þá skulu þeir vægja er ytri sigla svo að eigi bægi hinum að landi er nærri sigla. Ef menn beita þrábeiting og sigla hinir á veður þeim og bægja þeim að bergi eður boða eða nesi, og lestist skip þeirra fyrir þá sök eða brýtur í spán, bæti hann spell er hinum bægði af leið að landi eftir því sem sex skynsamir menn meta og öfundarbót með eftir lagadómi. En ef menn beita þrábeiting og ber þá að boðum er á hlé sigla, og vilja þeir heldur á þá sigla en í boða brjóta. Nú ef skip þeirra brotnar eður reiði slitnar er á veður sigldu og eigi vildu vægja, þá koma þar öngvar bætur fyrir, því að hinum var ærin nauðsyn til. Nú sigla menn til mjóra sunda með miklu samfloti, þá skulu þeir sigling minnka er síðar sigla, þar hver sem staddur er, svo að öngum verði farartálmi að. Minnka skal sigling meður hálsan og heflaskurð, heldur skal niður leggja en á aðra sigla.

19. Hér segir ef menn sigla eða róa á menn

Ef menn sigla á aðra nauðsynjalaust, hvort sem þeir sigla til hafna eður með hafi eða með landi, og gera þeim mönnum spellvirki, í hverju sem það verður, þá bæti sem sex skynsamir menn meta, nema menn rói fyrir barð þeim. En ef maður siglir upp á mann og brýtur skip hans svo að eigi er bætanda, bæti skip sem menn meta og svo farm allan þann sem á er, og öfundarbót með eftir lagadómi, hverjum sem skaði var gjör og á var ef hann braut að vild sinni. En ef voðaverk verður, þá sanni með eineiði og falli þá niður öfundarbót. Engi maður skal á annan róa heldur en sigla eður það gjöra sem öðrum er skaði að. En ef hann rær þá liggur hin sama sekt við og áður var sögð.

20. Hér segir hver lægi á eður höfn í bryggjulægi

Nú leggur maður úr lægi og fer örinda sinna og lætur bryggju eftir liggja, þá á sá lægi þegar hann kemur til er bryggju lét eftir liggja. Ef menn leggja samflot sitt saman að farmannalögum réttum, þá skal engi frá öðrum sigla lengra en sjá megi ás á borði. En ef þeir sigla lengra, gjaldi mörk þeim er frá var siglt, jafnt stýrimaður sem hásetar. En þær eru nauðsynjar ef skipsháski liggur við, fjörs eður fjár. En ef þessar nauðsynjar liggja við, þá má sektalaust frá sigla ef hinir vilja það sverja er í samfloti voru með þeim aðrir. En ef öngir eru aðrir til, þá sanni sögu sína með lýritareiði og sé sýknir saka. En ef eiður fellur, gjaldi sem fyrr segir.

21. Hér segir hver það akkeri skal eiga er finnst

Ef menn draga upp akkeri með sínu akkeri og fylgir hvorki strengur né hnakkmiði, þá á stýrimaður það hálft en hásetar hálft, nema nökkur maður kenni sér og kalli til með tveggja manna vitnisburð, og leysi út af þeim er fundu með hálfvirði, þá er vitna er notið. Lýsa skal fundi hverjum samdægriss fyrir vottum ef menn liggja þar sem byggt er. En ef eigi er svo lýst, þá má sá þjófssök á gefa er á. En ef maður dregur upp akkeri með sókn eður kafar til og kemur reipi í hring, þá leysi af honum með hálfvirði. En ef eigandi kemur eigi til eður hans umboðsmaður, þá eiga þeir akkeri er upp drógu.

22. Hér segir hversu kaupmenn skulu félag leggja

Nú leggja menn félag sitt saman, þá skulu það vottar vita, það félag má við öngvan auka sektalaust nema hinn lofi. En ef hann eykur, þá skal sá er fyrri lagði félag taka mörk silfurs í Noregi af óskiptu, en hundrað á Íslandi, og eigi skal hann fara lengra nauðsynjalaust en skilt var, nema hann vili ábyrgjast við hann hvern pening, og eigi skal hann höggva í brott það félag né ljósta, og eigi legorðssakir af gjalda, og öngar aðrar óskuldir eður afneyslur, nema beggja sé vili til. En ef þeir skipta fé sínu og félagi, þá leggi hann fram slíkt fé er hann vill og mæli svo: Hér er nú allur ávöxtur og innstæða er við eigum báðir saman, og sveri síðan eineiði að, og slíkan klæðnað skal hann hafa þá er þeir skipta félagi sínu sem þá hafði hann er þeir lögðu saman og eigi verra. Nú leggja menn hjáfélag, þá skal sá er við tekur klæðast af sínu fé en ekki af hins fé taka er hjáfélag lagði við hann, nema skipleigu og uppburð og útburð fyrir það er í hjáfélag var lagt, það skal hann ábyrgjast sem sitt fé. En hálfan ávöxt skal hvor þeirra hafa. En sá innstæðueyri sinn fyrst af er hjáfélag lagði. Nú skilja þeir sem þeir verða ásáttir hvert hann skal með fara. En ef hann flytur það eður færir á annan veg, þá ábyrgist hann það fé að öllu. En ef hann hittir í harða kaupstefnu og fær eigi svo dýrt selt sem virt var í hendur honum, þá skal hann heim fara og færa þeim fé sitt er á. En ef hann selur ódýrra, þá skal það þess skaði er með fer en eigi þess er fé á.

23. Hér segir hversu félagsfé skal skipta

Nú leggja menn félag sitt saman og verja úr einum sjóði, og bera föt sín á skip og fara þangað sem þeir tóku fari. Nú leggst annar sjúkur og gerist hættur við dauða, þá skal félagi hans ganga til stýrimanns og háseta og biðja þá ganga til hins sjúka manns. Þá skal hann segja til fjár síns og til félags þeirra. Nú ef hann andast síðan, þá skulu þeir vitnismenn er þá eru þar viðstaddir ef nökkur verður tortryggð þar á, og skal fé virða þegar á land kemur og skal sá virt taka er við tekur og færa framleiðis sér til ávaxtar, ef hann flytur innstæðueyri til arfa rétts eða hans umboðsmanns. Nú kemur hann eigi þeim vottum að sér er fé virðu, þá auki hann vitni sín með þeim mönnum er þangað fara sem arfi situr fyrir. Nú andast félagi hans síðan búlki var bundinn og áður en þeir sé á ferð komnir, þá skal hann setja mann á lest hans þann er upp haldi róðri og austri, tjaldan og öllum kostnaði af fé hins dauða. En ekki á hann fleira af að hafa nema erfingi lofi honum.

24. Hér segir um varðhald og austurmál

Nú ef þeir eru á leið komnir og þurfa þeir varðhalds við og varhygðar, eigi síður um daga en um nætur, þá skulu þeir bergvörð halda og hefja í stafni fram, og fara aftur eftir skipi á stjórnborða og fara fram eftir skipi á bakborða. Hafnaraustur skal hefja aftur á búlkabrún á bakborða og fara fram eftir skipi, og fari svo aftur á stjórnborða. Siglingaraustur og rávörður á að hefjast hjá siglu á bakborða og fara fram eftir skipi og svo aftur á stjórnborða. Þau embætti eru nú töld í farmannalögum er vera eigu á hverju löglöngu skipi. En það er löglangt skip er sessum má telja eður áhöfnum skipa.

25. Hér segir um skipti á skipum

Ef menn eigu hafskip saman og vilja sumir fara en sumir eigi, þá skal sá er fara vill stefna þeim öllum til skips er í móti eigu, svo löngu fyrir að um lið megi sýsla, og fara svo að þessu skipti sem segir í jarðaskiptum og um aðra gripi fer í kaupabelki. En ef þeir menn eiga hafskip saman er hvorgi hefir kost til að kaupa, og vilja eigi aðrir kaupa, haldi sá til gagns er vill og greiði þeim sinn hluta skipleigu er til móts eigu við hann, og taki af henni það er hann þurfti til kostnaðar að hafa á hans hluta. Svo skal og fara ef menn eigu minni skip saman en hafskip og vill annar halda til fiskjar eður fengjar skipinu en annar vill eigi, þá skal svo um það skip fara sem fyrr segir um hafskip. Hvervetna þar sem menn skulu skipta með mönnum einshverjum grip eður virða, þar sem þeir eru að lögum til kvaddir, þá skulu þeir jafnan til skipta koma fyrir miðjan dag eður virðingar, ella sekur tveimur aurum, hálft konungi en hálft þeim er virðingar kvaddi lögliga, nema nauðsyn banni. En um skipreiða allan og vatnskeruld er þeir áttu báðir saman með skipinu, þá skulu skynsamir menn meta og skal það allt skipi fylgja. Nú vill hvor tveggi halda skipinu til fiskjar eður fengjar, og á sinn veg hvor, þá skal svo að fara sá er eign vill skilja um skipið við annan sem áður vottar, fyrir utan það að þá skulu skynsamir menn hluta, hvor þeirra hafa skal skip eður verð ef þeir verða eigi sjálfir ásáttir. Og ef annar heldur skipinu til fiskjar eður fengjar, svo að annar veit eigi eður er eigi að spurður, þá ábyrgist sá skip er hefir eður hafa lætur, en hinn hafi þó fullan hlut af sínum hluta skipsins er öngu réð fyrir eður leigu slíka sem skynsamir menn meta, ef skipið er undir farma lagt. En ef beggja þeirra ráð voru til í fyrstu, þá ábyrgist hvor að þeim hluta skipið sem hlut hefir af því tekið. En ef eigi gelst þeim verð fyrir skipið er hafa á, þá sæki sem vitafé. En ef menn eiga vatnbáta saman eður þau skip er svo eru vond að eigi eru sjófær til fiskjar að halda, og vilja þeir þó skilja eign með sér, þá skal svo að þessu skipti fara að öllu sem fyrr segir um meira skip. Ef maður setur fram hafskip manns og svo þó að annar maður eigi með honum, að óvilja þess er á með honum skipið, og svo ef hann fer í brott með, svo og ef maður höggur skýlihögg á annars manns skip og hvað er hann meiðir að skipinu, reiða þess eður viðum, svari slíku fyrir sem sex skynsamir menn dæma, lögliga til nefndir, og hvervetna þar sem maður gjörir öðrum manni fjárskaða með heift og öfund, bæti sá fullrétti eftir dómi er gjörir og fjárskaða með ef vitni eru til. Það er allt fullréttisskaði er menn meta til hálfrar merkur. En ef minni er, þá er öfundarbót eftir dómi þeim er skaðinn var gjör. Réttari skal jafnan nefna menn til dóms ef lögmaður er eigi nær. Nú dylur hinn en eigi eru vitni til, syni lýritareiði hinum meira fyrir fullréttisskaða. En ef eiður fellur, gjaldi slíkt sem áður var talt. En ef verr tekst en hann vill, gjaldi skaða sektalaust innan sjau nátta þeim er fé átti.

26. Hér segir um farargreiða skipamanna

Nú ferja menn farma fyrir land fram eða úr úteyjum. En það er farmur er skip er hálfhlaðið eður meir, þá eru þeim allar hafnir jafnheimilar ef þeir eru eigi meir en þrjár nætur í sömu höfn að veðri færu. Nú eru þeir lengur og eigi veðurfastir, þá bæti landnámi landsdrottni. Rétt er að þeir sé í sömu höfn meðan þeir þurfu að þurrka eður selja varning sinn eða feng, eður færa á land góss sitt til hirslu. Nú brýtur maður skip sitt þá er hann fer með landi fram, árar eður annan tréreiða, þá taki sér við af annars reka svo að hann sé birgur og leggi verð eftir með vitnum eftir skynsamra manna virðingu, ef til eru, að þess bónda er næstur býr reka þeim er viður var á.

27. Hér segir um ábyrgð skipa og fengjar

Ef maður dregur upp skip sitt þar er hann á eigi uppsát og hefur skip upp og lýstur við annars skip, þá á sá að ábyrgjast bæði er upp dró þar er hann átti eigi uppsát. Nú hefur þess skip upp er uppsát átti og lýstur því við þess skip er eigi átti uppsát og brýtur, þá ábyrgist hvor sitt skip. Nú eigu þeir báðir uppsát eður hvorgi þeirra, þá ábyrgist sá bæði skipin ef annað lestist af öðru er það festi er upp tók. En ef bæði hefur senn upp og lýstur á lofti saman, þá ábyrgist hvor sitt skip. Nú dregur maður við upp þar í hjá sem skip standa, þá skal maður svo festa viðinn að eigi taki veður upp. En ef veður tekur við upp og meiðir skip eður reiða, þá ábyrgist sá skip er viðinn átti að festa. Ef maður ber fé sitt eður feng á land og hefur það upp veður og brýtur með skip manna, þá ábyrgist sá skip er það bar upp er spell varð að. Nú dregur maður föng sín á annars land, þar sem eigi standa skip fyrir, og eigi veit hann von til skipa uppsáta, og draga menn þar skip upp síðan, þá ábyrgist hann það eigi þó að viður hans eður föng brjóti skip. Ef við manns eður feng hefur upp fyrir veðurs sökum og kastar á annars manns við eða feng eður hús svo að þar meiðist af, þá ábyrgist sá það er að sköðum verður er við eða feng átti að festa, og skal það svo fara sem um skip skilur. Nú fara menn með landi fram eður með eyjum og setja upp skip sitt í tóft eða naust og kemur sá til síðan er á með skip sitt og vill þar upp draga, þá skulu þeir út draga er eigi áttu uppsát. Nú vilja þeir eigi út draga, þá bæti fullu landnámi þeim er uppsát á, slíku sem hann er maður til, og ábyrgist sjálfur skip sitt að öllu þó að hann dragi út. Rétt er honum að festa skip sitt með torfi og grjóti og vinni það á landi hins þar er hvorki spilli akri né eng, og inni þeim fyrir skaða sinn er þá jörð á. Eigi viljum vær að mikil skreið flytist héðan af landinu meðan hallæri er.