Jónsbók/Þjófabálkur
Hér hefur hinn þrettánda hlut lögbókar er heitir þjófabálkur og segir fyrst hver sekt við liggur hvinnsku
1.
Það er nú því næst að vor skal engi annan stela. Nú er það greinanda, að ef sá maður stelur mat er eigi fær sér vinnu til fósturs og helpur svo lífi sínu fyrir hungurs sakir, þá er sá stuldur fyrir öngvan mun refsingar verður. En ef maður stelur hundi manns eður ketti, knífi eður belti og öllu því er minna er vert en til eyris, það er hvinnska, og ef maður verður sannur að því, gjaldi konungi tvo aura en þeim eyri er átti og heiti maður að verri. En ef sá maður stelur til eyris er sér fær vinnu til fósturs, sá er áður var eigi að slíku kenndur, þá skal hann á þing færa og leysi húð sína þrimur mörkum við konung. Nú stelur hann annað sinn til eyriss, leysi húð sína sex mörkum. En ef hann leysir eigi, láti húðina og sé brugðið lukli á kinn honum. Nú stelur hann hið þriðja sinn til eyris, láti húð sína. En konungur taki sex merkur af fé hans. En ef sá maður hinn sami stelur oftar, þá er hann dræpur. En ef sá maður stelur til merkur er ekki var fyrr að þýfsku kenndur, þá skal hann á þing færa og leysi sig þrettán mörkum við konung eða fari útlægur sem þingmenn dæma. En ef hann stelur oftar, þá er hann dræpur. Nú ef þjófur stelur til tveggja marka í fyrsta bragði, þá hefir hann fyrirstolið lausafé sínu öllu. En ef hann á í jörðu, þá virði úr til þrettán marka og hafi að auk slíka refsing sem sá maður leggur á hann eftir dómi er konungs vald hefir í hendi til réttra refsinga og haldi þó lífinu. En ef sá hinn sami stelur oftar, þá hefir hann fyrirstolið landi og lausum eyri og lífinu með. Jafnsekur er sá maður sem tekur við fé þjófstolnu víss vitandi að gjöf, kaupi eður láni, hefir hann það og hirðir og leggur laun á, sem hinn er stal, utan eigi verður hann dræpur fyrir. Sá heitir þjófsnautur. En hálfu minna er sá sekur sem ræður þjófráðum, nema hann vísi ómaga sínum yngra en sextán vetra til að stela, þá svari fullri sekt sem hann hafi sjálfur stolið. Skylt er að vondum mönnum sé refst þar sem þeir verða teknir, ef þar er áður lögligt próf á komið, ella færist þeir í hendur sýslumanni þar sem þeir verða teknir og sendi þá hver sýslumaður frá sér til annars í góðri geymslu og sinni ábyrgð, þar til er hann kemur til þess sýslumanns er misgjört var að.
2. Hér segir hversu þjóf skal refsa að lögum
Ef þjófur er fundinn, þá skal binda fóla á bak honum í þeim hrepp sem þjófur er tekinn og færa hann umboðsmanni bundinn, og haldi konungs umboðsmaður honum til þings og af þingi í fjöru eður hraun eður nökkurn þann stað sem hent þikkir. En umboðsmaður fái mann til að drepa hann og svo alla þjófa. En bændur eru skyldir að fylgja þjófi til dráps, þá er af þeirra ábyrgð. En ef þeir vilja eigi fylgja þjófi til dráps, þá er hver þeirra sekur hálfri mörk við konung. En sá er eigi vill þjóf á þingi dæma lögliga til kvaddur, sekur hálfri mörk við konung, þó að sýslumaður vili eigi refsing á leggja. Fé það allt er tekið verður af þjófi, þá á sá það er þjóf tók ef eigi berst öðrum vitni til, en alla aðra lausa aura á konungur. Sá ábyrgist þjóf er hann bindur fjórum mörkum við konung þar til er hann setur hann bundinn á flet umboðsmanns og hafi vitni við. En ef þjófur vill verjast þá fellur hann útlægur. Ef maður lætur þjóf lausan, þá sekist hann fjórum mörkum við konung, svo umboðsmaður sem annar maður. En ef einn maður tekur þjóf, þá liggur honum ekki við þó að hann verði laus. Eigi er maður skyldur að taka þjóf nema hann standi hann með þýfi því er binda megi fóla á bak honum eður granni hans kveði hann til sá er hann veit að stolið er frá. Þar skal hvern þjóf dæma sem hann stal ef eigi fær áður lögligu prófi á komið þar sem hann er tekinn.
3. Hér segir sekt ránsmanna og ef maður er ræntur konungs fanga
Nú eru ránsmenn óbótamenn, hvar sem þeir verða teknir, og svo hver sem þeim veitir lið til þess eftir því sem segir í óbótamálum í mannhelgi. Ef maður rænir mann þjófi eður útlægum manni, svari landráðasök við konung. En hver annar er í gengur óhæfu og að er með honum er sekur mörk við konung. Nú kennir maður fé sitt þjófstolið í hendi öðrum manni og tekur við fé sínu, og skilur svo fyrir að hann drepur hvergi konungs rétti niður og hefir þar votta við, þá er hinn sannur að sök en sá ósekur er við tekur fé sínu. Ef maður leynir þjófi og tekur við fé sínu þjófstolnu af honum, þá er hann sekur fjórum mörkum við konung. Nú mælir það sýslumaður eður lendur maður að þeir hafi sætt gjörva sá er stal og hinn er stolið var frá, og hafa drepið niður konungs rétti, þá skal sá er stolinn var synja með lýritareiði, fellur til fjögurra marka ef fellur, en hinn er þjófur sem áður.
4. Hér segir hversu þjófstolið fé skal aftur sækja
Nú stendur maður fé sitt þjófstolið í hendi öðrum manni, en sá vænist heimild að og kallar kaup sitt, þá skal beiða hann vörslumann fyrir hann, og svo fyrir það er hann kallar sér og gera eindaga til, þá skal hann færa fram vitni sín að það er hans fé og eigi gaf hann það né galt og eigi sölum seldi, og engi sá er hann bauð um, þá er honum féið uppnæmt, þá skal hann gjöra hvort er hann vill, að fara brott með fé sitt eður reyni heimildartöku hins. En ef hon brestur honum, þá er hann þjófur að. Hvervetna þar sem maður hefir heimild til þess gripar er tekinn er frá manni eður stolinn, og hugði hann sér heimilan mundu vera þó að hann fregni annað síðar, og er honum rétt að halda til þings eður lögmanns úrskurðar eða annars rétts rannsaks. En ef hann lætur grip fyrr lausan en dómur dæmir af honum, þá á hann öngva heimting til þess er hann gaf við. En þá hefir hann heimild til ef sá heimilar honum er hann á aura sinna forráð og hann hugði að sá mætti honum heimilan vinna þann grip en eigi elligar. Nú riftir maður grip undan manni, þann er hann hefir heimildartöku fyrir sér, þá sæki hver sitt af sínum heimildarmanni þar til er til prófs kemur og svari sá fyrir stuld sem fyrir á að svara að lögum.
5. Hér segir hversu maður skal undan stuld færast
Nú kennir maður öðrum manni stuld, þá skal hann gjöra hvort er hann vill, að stefna honum heim og þaðan til þings eður lýsa þýfi hans á þingi. Þá eiga þingmenn að gjöra honum stefnu til næsta þings ef hann er innan héraðs. En ef hann er utan héraðs, þá skal gjöra honum lagastefnu aftur til þings um hvert mál og eindaga það þing, og ef hann kemur eigi, þá ber hann á baki sök nema nauðsynjavitni berist honum. Nú kemur hann sjálfur, þá skal hann eið festa, fellur til sektar ef fellur, eftir því sem áður segir eftir fjármagni.
6. Hér segir hversu rannsaka skal eftir þjófstolnu fé
Ef maður er stolinn fé sínu og sér hann manna farveg liggja frá, þá skal hann ganga eftir héraðsmönnum sínum og lýsa torreki sínu, og æsta sér liðs til eftirfarar svo mikils sem honum líkar og spyrja til garðs manns. Þá skulu þeir setjast utan túngarðs eða túnvallar ef eigi er garður um og gjöra einn mann til húss og segja til örindis og æsta rannsaks. Nú býður bóndi rannsókn, þá skal hinn ganga eftir grönnum sínum, þá eigu þeir að ganga í ullskyrtum einum og lausgyrðir inn. En ef bóndi býður rannsókn og finnst eigi fóli að hans, syni séttareiði ef þeir vilja honum kennt hafa. En ef eiður fellur, falli til fjögurra marka. Bóndi skal fá þeim lýsi sem þeir þurfu meðan þeir rannsaka. Þeir menn sem eigi vilja láta lukla til að lúka upp hirslum sínum, þá eru lok þeirra óheilög við broti. Skulu hinir sömu menn rannsaka í öllum stöðum, bæði úti og inni, og gera þeim eigi skaða í rannsókn er fyrir búa, en stanga skulu þeir jörð og grafa í öllum stöðum og leita þar sem þeir vilja, og ef þeir finna fé sitt í þeim húsum sem menn eru í, þá er fóli inni fundinn. Svo og ef þýfi finnst í þeim gröfum er úti eru og er innan til grafið, eður finnst í úthýsum eður útifylgsnum öðrum þeim er lykkjuspor liggja til og frá húsum þeim er menn eru í. En ef menn finna í gegn durum eður vindaugum svo að kasta má inn, þá hafi sá fyrir sér séttareið sem fyrr segir. En ef þeir menn er rannsaka bera þá ofríki sem fyrir eru eða fara ólögum að rannsókn, eður annan veg en nú var mælt, og verður bóndi ósannur að sök, svari höfðingi honum fullrétti eftir lagadómi en konungi fjórar merkur, en öngu ef hann verður sannur að. En ef sá einnhver er rannsakar ber eða bera lætur fóla í hús manns eður hirslur, svari fullrétti eftir lagadómi þeim er hús eða hirslur átti en konungi slíku sem sá ætti að svara ef hann hefði stolið jafnmiklu.
7. Hér segir hversu maður má fé sitt af þjófi taka
Ef maður finnur fé sitt þjófstolið og fylgir eigi þjófur, þá skal hann hafa við návistarmenn sína er hann tekur fé sitt. En ef sýslumaður mistrúir og segir að þjófur hefir fylgt, þá láti hinn bera vitni um að þar var eigi þjófur við er hann tók fé sitt. Taka má maður fé sitt eður grip sinn að heimilu hvar sem hann finnur, ef eigi er á haldið. Ef maður rænir mann handráni eða gerir fornæmi, bæti þeim er ræntur var slíku sem sex skynsamir menn dæma lögliga til nefndir af réttaranum. En það er handrán er maður tekur eður slítur úr höndum manni eður af honum hvar sem á honum er. Það heitir fornæmi er maður heldur eigi á og þikkist eiga, en hinn tekur svo í brott að hann sér á. Eigi á maður sitt að taka ef á er haldið fyrr en vitni eru til borin, en ef hann tekur, bæti öfundarbót eftir lögligum dómi.
8. Hér segir um stuld ómaga
Nú kennir maður manni stuld en öðrum viðtöku, að hann hafi tekið við fé hans þjófstolnu, en sá kveður nei við, þá skal hann synja með séttareiði. En sá eiður fellur til slíkrar sektar sem fyrr segir eftir fjármegni ef hann vissi að þjófstolið var. Ef maður sækir annan mann um stuld og er eigi lýst þýfð eftir, þá skal sá er fyrir sök verður synja með séttareiði. Sá eiður fellur til fjögurra marka. En ef ómagi stelur sextán vetrum yngri, þá skal bæta aftur verk hans, ekki á konungur á því. Ef maður er stolinn fé sínu, þá á sá er stolinn er full gjöld fjár síns af fé hins seka og kostnað þann allan sem hann þarf til eftirfarar, og rétt sinn eftir lagadómi sem hann sé lögræntur jafnmiklu.
9. Hér segir sektir á fálkastuld og sela
Ef maður tekur hauk bundinn í hreiðri og leynir, þá er hann þjófur að ef hinn lýsir er átti. En ef maður stelur sel af jörðu manns, þá er hann þjófur að ef svo mikill er að þjófssök nemur, ella syni meður séttareiði, fellur til fjögurra marka ef fellur, svo hið sama fyrir hauka. Konungur á sekt á því.
10. Hér segir sekt þess er ólofað selur eða kaupir konungs jörð
Ef maður selur jörð konungs að óleyfi hans, þá er hann þjófur, og svo sá er kaupir ef hann veit það, ella syni með séttareiði, fellur til fjögurra marka ef fellur. Nú tekur maður marksteina upp úr jörðu og setur niður í öðrum stað, og færir á þess hlut er í móti honum á, þá er hann sekur aleigu við konung, fyrir utan jarðir, nema lausafé hans vinnist eigi svo að konungur hafi þrettán merkur, þá virðist í jörð ef hann á, og svo skal hvervetna þar sem þrettán marka mál eru. En sex aurum er maður sekur ef hann tekur upp marksteina og setur hvergi niður. Ef maður leggst undir fénað manna og drekkur, þá á hann öngan rétt á sér. Ef maður mjólkar búfé annars manns stelandi hendi, bæti sem fyrir stuld sá er fé hefir til, ella láti húð sína eftir lagadómi og refsing réttarans, nema soltinn sé, þá gjaldi þó nytfall sem vert er þeim er bú á.
11. Hér segir sekt á aldinstuldi
Ef maður gengur í eplagarð manns eður hvannagarð eður næpnarétt, og allt það aldin er menn hegna með görðum eður gæslum, þó að vötn falli um, og vill sá eigi lofa er á, tvígildi þeim skaða er átti og tvo aura í þokkabót. En ef maður tekur til eyris eður meira, sæki sem um annan stuld. En ef þeir menn gera þetta er eigi hafa fé til að bæta fyrir, færi til þings og svari þar fyrir eftir lagadómi.
12. Hér segir hversu áifóður skal taka
Nú fer maður að veg með hrossi, og þó að þeir sé þrír saman, og stendur hey nær götu en bær eigi allnær, þá taki þeir að ósekju það sem hross þeirra þurfa til áifóðurs ef nauðsyn gengur til. En ef maður kemur um nátt til bæjar með eyki sína og er honum synjað fóðurs að gjöf eður kaupi, hafi að ósekju vöndul fyrir hross hvert fyrir öngvan pening ef nauðsyn gengur til.
13. Hér segir hversu misfangi er réttligur
Nú verður manni misfangi, þá sekist hann eigi fyrir það ef hann lýsir fyrir mönnum samdægris síðan hann verður var við, ella verður hann þjófur að ef svo mikill er munur gripa að þjófssök nemur. En það er misfangi er maður tekur það er annar á og lætur sinn grip eftir liggja og sé þeir svo líkir að skynsömum mönnum sé ljóst að hann þóttist sinn grip brott hafa, og skal hann aftur hafa fært innan sjau nátta gripinn síðan hann verður var við, til þess staðar sem hann tók, nema nauðsyn banni, ella er hann sekur hálfri mörk við konung og hinum fyrir skaða sinn er átti það fé. En eigi er það misfangi ef markað er annað frá öðru. Það er misfangi ef maður tekur þess kyns grip í brott sem hann lætur eftir í vopnum og klæðum eður hrossum, þess kyns sem hann átti og svo að lit. Eigi er það misfangi ef maður tekur þar hest sem hann á hross eður berfé þar sem hann á graðsmala, og svo um aðra gripi, þá skal maður þess kyns fé í brott taka sem hann á von og með þeim lit. Nú kemur maður síðar og sér að annar gripur liggur eftir sá er annar á, lýsi fyrir mönnum samdægriss og hafi að ósekju þar til er hans gripur kemur aftur. Ef maður tekur grip manns að misfanga á Öxarárþingi, á fjöllum eður óbyggðum, og finnur eigi fyrr en hann kemur í hérað, þá sekist hann eigi á meðför þess gripar ef hann hefir til Öxarárþings annað sumar hið næsta, en hver ábyrgist það er með fer. Ef manni verður misfangi í þingför eður á Öxarárþingi, þá er þeim rétt er þess gripar saknar eður hross að bíða til þess er menn eru í brottu, og hafi það hross eður annan grip er þá verður eftir ef það er svo líkt hans hrossi að hann ætlar að hinum sé það að misfanga orðið, og lýsi sem fyrr segir. Nú hvar sem misfangi verður í þeim stöðum er maður á heimilt til þings að færa, þá hafi hann með sér þrjú sumur til þings nema fyrr verði réttur eigandi að og lýsi í lögréttu. En ef þá kannast engi við, þá eignast hann þar til er eigandi verður síðar til meður lögligum vitnum.
14. Hér segir hversu fundnu fé skal lýsa
Ef maður finnur fjárhlut manns og hefir eigandi glatað, þá skal hann lýsa fyrir mönnum samdægriss, ella verður hann þjófur ef hann lýsir eigi, ef fé er svo mikið að þjófssök nemur. Maður skal í ljósi hafa fé og nýta sér og þó að eigandi komi þá eftir er slitið er þá bæti hinn öngu. En sá maður er til kallar skal til hafa tvau skilrík vitni að það er hans fé ef hann skal óræntur vera og sveri að fullan eið, þá lætur hann að lögum laust, ella á hann. Nú fara menn að götu saman og finnur sá fund er fyrstur fer, þá eiga þeir allir saman það og þeir er eftir fara. Ekki eiga þeir í er umfram ganga. Ef menn fara á skipi saman og finna þann hlut er fjár er verður, þá skulu þeir skipta að jafnaði sín í milli. Ef maður finnur fé í jörðu manns, hafi sá þriðjung er finnur en landeigandi tvo hluti, en allt ef hinn heldur eigi upp að lögum. Nú finnur maður fé í jörðu í almenningi, hafi sá þriðjung er finnur en þeir tvo hluti er þann almenning eigu. Nú brýtur maður haug eður grefur jörð maður að ólofi þess er á til fjár, færi þeim er jörð á slíkt er hann fann og leggi á landnám og jarðarspell þeim er jörð á. En ef sá mistrúir er jörð á, að hinn hafi honum svo mikið fé fært sem hann fann, þá syni hann með séttareiði, sá eiður fellur til fjögurra marka.
15. Hér segir um þá fjárábyrgð er til hirslu er seld
Ef maður selur fé sitt til hirslu af trúnaði öðrum manni, þá skal sá er við tekur hirða og varðveita sem sitt fé, það sem hann vill vel varðveita. Og ef það fé hverfur eður glatast, þá má sá er það fé á koma þeim til lýritareiðs er við fé tók, utan sá segi það er við fé tók að hann vili að öngu ábyrgjast og eru til þess löglig vitni, svo og ef það fé hverfur úr einni hirslu og hans fé sjálfs. En ef eiður fellur þar sem skildur er um þetta mál, fellur til fjögurra marka.
16. Hér segir um ábyrgð á lánsfé
Ef maður lér manni grip sinn, þá á hver láni heilu heim að koma eður gjalda verð eiganda sem sex skynsamir menn meta, nema hinn týnist meður láninu er léð var, þá má hann eigi lán ábyrgjast er hann mátti eigi líf sjálfs síns. Eigi er erfingi skyldur fyrir það lán að gjalda. Heimilt verður skip, hross eður annar gripur þeim er léð er og öllum þeim er hann vill í þeirri ferð ef hann hefir eigi lengur eður víðara en honum var léð, en öngum skal hann ljá ef hinn hefir það frá skilt er léði. Enginn maður skal lán hafa lengur en léð er, ella gjaldi tvo aura þeim sem fyrr segir, nema sá krefi er átti, þá sekist hann fornæmi nema nauðsyn banni. Nú þó að maður fari með eyk annars manns að leigu eður láni, þá skal sá ábyrgjast er hest á þó að hann geri nökkurum manni skaða, ef eigi er af þess völdum eður vangeymslu er með fer. Ef maður tekur grip manns óléðan, hest eða skip, hvort sem það er meira skip eður minna, eyki eður aðra hluti þvílíka, bæti skaða þann allan er hinn hefir af eftir sex manna dómi lögliga til nefndum, og rétt eður öfundarbót með þeim er tekið var fyrir eftir atvikum, hver nauðsyn til bar þann er tók og hver öfund í var gjör eður hver skaði þeim varð að er tekið var fyrir. Jafnan rétt og öfundarbót skal hver maður hafa á fénaði sínum eður öðrum hlutum er tekið er fyrir eður misþyrmt, hvað manni sem hann er að nafnbótum, utan landnám fari eftir því sem fyrr segir og þeir réttir sem til mannhelgi heyra. Handrán og kvenna legorð, það dæmist eftir því sem sá er maður til er þetta er misgert við. Ekki á konungur á þessum fjártökum nema hálfa mörk fyrir handrán. Ef maður tekur skip manns, þá skal hann einni sök fyrir svara, sig og ómaga sína. En ef fleiri menn eru í einni för þar sem óskil verða ger um hrossa reiðir eður hrossa eftirrásir, þá sekjast þeir einir er óskil gera en ekki þeir er skil vilja á gjöra. Ef maður tekur eyk manns og er eigi öðrum um varðveislu boðið, svo að hann viti, og færir þeim er á og fer svo með sem hann ætti, þá sekist hann eigi á því ef hann vildi þeim í því gagn gera er á. Ef tveir menn eður fleiri eigu skip saman, eyk eður aðra gripi, þá ábyrgist sá að öllu er með fer, en hverjum þeirra er heimult í sína þörf. Eigi á hann að ljá eður byggja skip að ólofi þess er á með honum. En ef hann gerir það, þá svari hann þeim er á með honum en hinn er sýkn saka er léð var eður leigði. Ef maður tekur grip manns, skip eður hross og villir heimildir að, þá er hann þjófur að.
17. Hér segir hversu með lánsgripi skal fara
Nú lér maður manni hross sitt eður skip og vill sá hafa að þörf sinni er léð var, en hinn fer til er léði og tekur af honum lánið, þá gjaldi sá hálfa mörk að áfangi er skip eður hross átti. En ef sá hefir víðara eður lengur að veðri færu en honum var léð, þá gjaldi sá hálfa mörk að áfangi þeim er skip eður hross á og bæti þó skaða þann er af verður þeim er léði. Nú lér maður öðrum manni það skip eður hross er honum var léð, þá sekjast þeir er hafa ef þeir vissu að sá átti eigi að ljá. Nú hyggja þeir að sá ætti að ráða skipinu er þeim léði og varðar þá honum einum. Nú koma þeir aftur er með skip manns hafa farið, þá skulu þeir upp setja skip og um búa sem áður var. Nú mega þeir eigi upp koma, þá skulu þeir þeim til segja er á skip og bjóða honum lið sitt. En ef hann vill eigi til fara, þá ábyrgist hann sjálfur skip en þeir ella er með fóru, og svo ef þeir búa eigi um sem áður var er þeir tóku. Ef maður lér manni skip eður selur á leigu, þá verður öllum þeim skip heimilt til meðfarar er hann þarf í þá för að hafa. Þar sem menn rjúfa skipan í veri eða lögferðum, sekur hver hálfri mörk við konung en þeim eftir lagadómi er skip átti. En hver sem tekur vits vitandi annars vinnumann eða skipara, sekur hálfri mörk við konung og skal þó skipari þar vera sem hann réð sig fyrri.
18. Hér segir sekt um dufl og kast
Ef menn dufla eður kasta tenningum um penninga, sé uppnæmt konungs umboðsmanni allt það er við borð liggur og hver þeirra sekur hálfri mörk við konung. En ef menn veðja, hafi að öngu og sé sektalaust.
19. Hér segir um eiðtökur fyrir óbótamál
Ef konungur kennir manni landráð, þá skal hann synja með tylftareiði og svo skal synja allra óbótamála. Nú skal nefna sex menn á hvora hönd hinum er undan skal færast, jafna að rétti við hann, þá sem næstir honum eru og um það mál má kunnast vera, hvorki sakaða né sifjaða, fulltíða menn og valinkunna þá er hvorki sé áður reyndir að röngum eiðum né skrökvottum, og hafi sjau af þeim en sjálfur hinn átti og fjóra fangavotta, og eigi að meinsærum reynda, og sveri innan tíu vikna særra daga. Sá skal sverja fullan eið fyrir sig er fyrir sök verður. En allir aðrir sanni mál hans með því skilyrði að eigi vita þeir annað sannara fyrir guði en hann sór eftir sinni hyggju.
20. Hér segir eiðnefnu þrettán marka mála
Séttareiður skal standa um öll þrettán marka mál og þjófnaðarmál, sem segir í þjófabelki, og svo fyrir tíu marka mál. Nú skal nefna þrjá menn á hvora hönd þeim er fyrir sök er hafður á þann hátt sem sagt er um tylftareið. Hafi þrjá af þeim, sjálfur hinn fjórði, og tvo fangavotta.
21. Hér segir eiðtökur fimm marka mála
Lýritareiður skal standa um öll fimm marka mál og fjögurra, þar sem nefna skal tvo menn á hvora hönd þeim er fyrir sök er hafður, hafi þá tvo af þeim sem hann fær en sjálfur hinn þriði. En fyrir merkurmál og þaðan af smæri skal nefna til lýritareiðs sinn mann á hvora hönd hinum sakaða, hafi annan af þeim en sjálfur annar, fangavottur hinn þriði. Þessi eiður skal standa þar til er hafa skal tveggja manna eið eður eineiði, því að einn skal eyris synja en tveir tveggja, sem lögbók vottar.
22. Hér segir sekt þeirra manna er ranga eiða sverja
Þeir menn er að því verða kunnir og sannir að sverja ranga eiða og prófast það með sannindum, þá skulu þeir vera útlægir til Noregs þrjá vetur, utan konungur vili meiri miskunn á gera. Skulu þeir engis manns eiða eður vitna njóta með því að þeir gjörðu sig sjálfir ónýta og gjaldi konungi fjórar merkur en sex aura fyrir hvern mann er sór með honum, ef þeir vissu eigi að ósært var. En ef þeir vissu að ósært var fyrr en þeir sóru, gjaldi konungi fjórar merkur sem hann. En ef þeir atburðir kunnu til að falla að þeim mönnum verða gefnar þær sakir er við liggur líf eður limar eða sé aleigumál, þá skulu þeir slíkra vitna og undanfærslu njóta sem þess er miskunn til er konungs vald hefir í hendi til réttinda.
23. Hér segir hvað réttgoldið er í sakeyri
Allur sakeyrir lögliga sagður á menn skal goldinn á næstum fardögum eftir. Hann er rétt goldinn í vaðmálum og ullu og í allri skinnavöru, og í öllu kvikfé eftir því sem flestra manna gengur í millum í því héraði, í slátrum og alls kyns mat, í léreftum og öllum austrænum varningi og öllu járnsmíði eftir sex manna virðingu, fella eigi til vöru né búfjár en virða þó til fullra aura.