Jónsbók/Þingfararbálkur

Úr LagaWiki
Jónsbók ÞingfararbálkurKristinn réttur og konungserfðirKonungs þegnskyldaMannhelgiKvennagiftingarErfðatalFramfærslubálkurLandabirgðabálkurBúnaðarbálkurRekaþátturKaupabálkurFarmannalögÞjófabálkur

Hér hefur þingfararbálk, hinn fyrsta hlut lögbókar Íslendinga, og segir fyrst um eið sýslumanna og um nefndir þingmanna

1.

Friður og blessan vors herra Jhesu Christi og árnaðarorð vorrar frú sancte Marie og hins heilaga Ólafs konungs, Þorláks byskups og allra guðs heilagra manna sé með öllum oss lögþingismönnum nú og jafnan. En vær skulum lögþingi vort eiga að Öxará, á þingstað réttum, á tólf mánuðum hverjum, og koma þar á Pétursmessuaftan. Þar skulu allir komnir að forfallalausu þeir sem til lögþingis eru nefndir. En valdsmenn skulu nefnt hafa til alþingis fyrir páskir svo marga menn úr þingi hverju sem hér vottar, eður þeirra lögligir umboðsmenn, og nefna þá er forverksmenn eigu og þeim þikkja vænastir til skila og sé færir að þingmanna dagleiðum, svo að þeir megi það með eiðum sanna. En þann eið skulu þeir sverja fyrir lögmanni fyrstan særan dag er þeir koma til þings, með þessum eiðstaf: Að til þess leggur hann hönd á helga bók og því skýtur hann til guðs að þá menn hefir hann til þings nefnda að því sinni sem honum þóttu vel til fallnir og vænastir til skila eftir sinni samvisku, og eigi tók hann þar aðra muni til, og svo skal hann jafnan gera meðan hann hefir þetta starf. Þenna eið þarf engi oftar að sverja en um sinn.

2. Hér segir hversu marga menn skal nefna úr þingi hverju

Nú skal valdsmaður nefna sex menn úr Múlaþingi, skal hver nefndarmaður þaðan fyrir norðan Öxarheiði hafa átján aura í farareyri, en tvær merkur fyrir sunnan. Úr Skaftafellsþingi skal nefna sex menn, skal hver nefndarmaður fyrir austan Lómagnúpssand hafa tólf aura í farareyri, en tíu aura fyrir vestan. Úr Rangárþingi skal nefna átta menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa sex aura. Úr Árnessþingi skal nefna tólf menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa hálfa mörk. Úr Kjalarnessþingi skal nefna níu menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa hálfa mörk. Úr Þverárþingi skal nefna átta menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa hálfa mörk fyrir sunnan Hvítá, en fimm aura fyrir vestan. Úr Þórsnessþingi skal nefna sex menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa mörk í farareyri fyrir sunnan Hvammsfjörð, en tíu aura fyrir vestan. Úr Þorskafjarðarþingi skal nefna fimm menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa fyrir sunnan Glámu í farareyri tólf aura, en tvær merkur fyrir vestan. Úr Húnavatnsþingi skal nefna sex menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa í farareyri sjau aura. Úr Hegranessþingi skal nefna átta menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa mörk. Úr Vöðlaþingi skal nefna sex menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa tíu aura. Úr Þingeyjarþingi skal nefna fjóra menn, skal hver nefndarmaður þaðan hafa tólf aura. Skal hver sýslumaður í sinni sýslu þetta greiða sem nefndarmönnum er ætlað með góðum greiðskap af sínum hlut þingfararkaups. En hver sem það geldur eigi nefndarmönnum er þeim er skipað, þá er sekur sex aurum, hálft eiganda en hálft lögréttumönnum, og sæki sem vitafé. Nefndarmenn allir skulu með lögmanni á alþing ríða, þeir sem samleiða eigu við hann. Eigi skal handgengna menn til Öxarárþings nefna nema fyrir konungs örindi. Nú ef valdsmaður nefnir eigi svo menn til þings sem hér vottar, eður hans lögligur umboðsmaður, þá er hann sekur tólf aurum fyrir hvern þann mann sem ónefndur er eða rangnefndur, hálft konungi en hálft lögréttumönnum. Engan skal til lausnar nefna og því aðeins skipti á gjöra að þeim gangi löglig forföll til er áður var nefndur. Valdsmenn allir og sóknarmenn þeirra eru skyldir að koma til lögþingis eður skilríkir umboðsmenn þeirra. Skulu þeir vera umfram nefndarmenn og taka öngvan farareyri. En ef þeir koma eigi forfallalaust, sekist hver þeirra þrimur mörkum, hálft konungi en hálft lögréttumönnum, og riti lögmaður til konungs slík tilfelli. Hver bóndi er skyldur sá er á tíu hundruð eður meira fé að fæða þá menn er til lögþingisreiðar eru skyldir, hálfu færi hjónum, bæði er þeir ríða til þings og frá. Ella er hann sekur tveim aurum fyrir hvern þann mann sem eigi er alinn eftir lögum forfallalaust. Nú eftir því sem áður var greint þá skulu þingmenn allir til þings komnir fyrir Pétursmessu og Páls. Á lögmaður þar fyrir að vera forfallalaust. En hver nefndarmaður er síðar kemur til lögþingis en særi eru flutt, sekur tólf aurum nema nauðsyn banni, meti lögmaður og lögréttumenn þær nauðsynjar.

3. Hér segir af alþingisskipan og þeim sið er þar á að vera

Þing skal standa svo lengi sem lögmaður vill og honum þikkir nauðsynja fyrir mála sakir og lögréttumenn samþykkja. Lögmaður skal láta gjöra vébönd á þinginu í þingstað réttum, svo víð að þeir menn hafi rúm að sitja fyrir innan sem í lögréttu eru nefndir. Það skulu vera þrennar tylftir manna. Skal lögmaður og valdsmenn nefna þrjá menn úr þingi hverju, þá sem þeim þikkja best til fallnir. Þeir menn sem í lögréttu eru nefndir skulu eið sverja fyrir lögmanni áður þeir ganga í lögréttu með þessum eiðstaf: Að því skýtur hann til guðs að hann skal svo til allra manna mála leggja sem hann veit sannast fyrir guði, eftir lögum og sinni samvisku, svo með sökuðum sem sifjuðum, og svo skal hann jafnan gjöra þá er hann er í lögréttu nefndur. Fyrstan tíma skal hann þenna eið sverja er hann er til lögréttu nefndur en eigi oftar þó að hann sé nefndur. Enginn þeirra manna sem eigi eru í lögréttu nefndir skulu ganga innan vébanda utan orlof. En ef hann sest og gengur eigi út þegar við hann er mælt, þá sekist hann hálfri mörk. Allir menn eiga að ganga til lögréttu þegar lögmaður lætur hringja hinni miklu klokku og sitja þar svo lengi sem lögmaður vill þing hafa. En hver sá maður er eigi kemur til lögréttu sem nú er mælt er sekur hálfri mörk. En ef nökkur maður slæst í mat eða mungát og rækir það meir en þingið, hann skal öngva uppreist eiga síns máls á þeim degi hvað máli sem hann á að drífa á Öxarárþingi. Drykk skal engi maður til lögréttu bera, hvorki til sölu né til annars. En ef borinn verður, þá er hann uppnæmur og eigu þingmenn hann. Allir þeir menn sem í lögréttu eru nefndir skulu sitja svo sem nú er mælt, nema þeir gangi út sakir nauðsynja eyrinda sinna. En ef menn ganga úr lögréttu utan vébanda nauðsynjalaust, þá er hver þeirra sekur tveimur aurum. Þeir menn sem eru utan vébanda og gera þar hark eður háreysti svo að lögmenn og lögréttumenn megu eigi náðuliga geyma dóma sinna, eða þeir menn kæra mál sín sem lögmenn og lögréttumenn hafa orlof til gefið, sekur er hver eyri er að því verður sannur, ef honum er til sagt áður.

4. Um vitni manna hver tæk eru

Eftir gögnum og vitnum skal hvert mál dæma. Svo er ef einn ber vitni með manni sem engi beri en tveir sem tíu, ef maður uggir eigi andvitni í móti. Nú eru þau vitni er eigi skulu andvitni í móti koma. Það eru heimstefnuvitni, þingstefnuvitni, kvöðuvitni, forsagnarvitni og nauðsynjavitni ef vitnað verður undir mann, og þau vitni er menn bera um deild manna á samkundum. Þeir menn sem í lögréttu eru nefndir skulu dæma lög um öll þau mál sem í lögréttu verða kærð og þar eru lögliga fram borin. Þau mál skal fyrst dæma er til lögþingis eru lögð, eftir því sem lögbók segir og stærst eru. Eftir það þau sem þangað eru stefnd og öll þau mál er menn leggja hendur sínar saman fyrir vottum tveimur eður fleirum, ef þau mál og vitni koma þar fram á þinginu. Síðan þau er þar verður á sæst og smæst eru. En allt það er lögbók sker eigi skilríkliga úr, þá skal það hafa af hverju máli sem lögréttumenn allir verða á eitt sáttir. En ef þá skilur á, þá skal lögmaður ráða og þeir sem honum samþykkja, nema konungi sýnist annað lögligra með vitrustu manna ráði.

5. Hér segir um vopnaburð á Öxarárþingi

Allir þeir menn sem í Öxarárþingför eru, þá skulu í griðum vera hver við annan þar til er þeir koma heim til síns heimilis. En ef einnhver gengur á þessi grið og vegur mann eða veitir lemstrarsár, þá hefir sá fyrirgjört fé og friði, landi og lausum eyri. En ef menn verða særðir á Öxarárþingi eða fá einnhvern vansa eða óhlut af manna völdum og vilja, þá eykst að helmingi réttur þeirra, en konungi þrettán merkur. Ef menn bera vopn á Öxarárþingi, þá gjaldi þeir hálfa mörk og láti vopnin, eigi konungur hálf vopnin og hálfa sektina en þingmenn hálfa, því að í öllum stöðum hæfir mönnum að gæta spektar og siðsemdar, en þó einkanliga í þeim stöðum mest er til skynsemdar og sætta eru skipaðir fyrir öndverðu af góðum mönnum og flestum verður mestur skaði að ef nökkuð skerst í. Hvervetna þar sem menn verða víttir á Öxarárþingi, það fé á hálft konungur en hálft lögréttumenn, utan þegngildi og þrettán marka mál eða meiri, þau á konungur. En öll þingvíti þau er til falla og eigi greiðast á því þingi, þá dæmi lögþingismenn að greiðist á öðru Öxarárþingi og taki þá við sýslumaður hver í sinni sýslu og færi það fé til Öxarárþings. En þeir menn sem þetta fé greiða eigi fyrir þrjósku sakir, þá sé þeim sjálfstefnt til næsta Öxarárþings og svari þar sektum og dómrofum ef þá greiðist eigi, og hafi þann helming er þingmenn eigu til þess er valdsmönnum með lögmanns ráði þikkir mest nauðsyn á vera þá tólf mánaði. Þingvíti skulu leggjast til þinghúsgjörðar svo lengi sem þarf. Nú ef maður rýfur dóm þann sem dæmdur er á Öxarárþingi og vopnatak er að átt innan lögréttu og utan, þá er sá sekur fjórum mörkum við konung en mörk við sakarábera. Því skal sýslumaður hver lýsa á Öxarárþingi hversu margir manndráparar eða aðrir ódáðamenn urðu í hans sýslu á næstum tólf mánuðum og segja skil á um vöxt þeirra og yfirlit sem hinum urðu að skaða, að þeir megi því heldur að líkindum kenndir verða hvar sem þeir kunnu fram að koma.

6. Hér segir hversu rétta skal málaferli rangliga uppborin

Ef annar tveggi frýr á sinn hlut þá er hann kemur heim í hérað og kallar rangt hafa verið uppborið fyrir lögréttumönnum, þá skal þó eigi þeim dómi brigða sektalaust. En hann má stefna hinum er mál á við hann hið næsta ár eftir til Öxarárþings og hafi þá hvor tveggi sitt mál uppi. En ef mál prófast sem fyrr, þá hafi hinn af honum kostnað sinn hálfu aukinn sem ýfði hann til rangs máls, en konungi mörk, og sæki sem aðrar fjársóknir. Prófast og svo að hann hafi rangt uppborið fyrir lögmanni og lögréttumönnum er fyrr dæmdist málið, og dæmist þá hinum, þá hafi sá kostnað sinn hálfu aukinn og mörk konungi, og sæki sem vitafé. Og svo skal hvervetna þar sem lögmaður og skynsamir menn sjá að menn verða rangliga eða aflaga sóttir og til laga stefndir, hvort sem það er til lögmanns eða þingstefnur eða aðrar lagastefnur, og dæmist þeim á hendur er sóttur var hvorki fé né eiðar, nema hinn er sótti sveri eineið að hann hugðist hinn eftir réttu máli sækja. Það skal standa um melrakkaveiðar sem lögréttumenn skipa og aldrei meiri sekt við en sex álnir fyrir einn.

7. Hér segir hversu sýslumenn skulu þing eiga á leiðum

Svo er mælt að sýslumenn skulu þing eiga á leiðum er þeir koma heim af Öxarárþingi og lýsa fyrir mönnum því sem talað var á Öxarárþingi, einkanliga hver lykt féll á þeirra manna mál sem úr hans sýslu eru. Sýslumaður á því þar að lýsa að lögþingi skal uppi vera að Pétursmessu hvert sumar. Því skal hann og þar lýsa að menn skulu eigi taka þá menn í byggðir til sín er hlaupa norðan eða sunnan, austan eða vestan, nema þeir viti áður skyn á að þeir sé skilamenn, því að slíkir menn eru því vanir að vera nökkuru líkt einn vetur eða tvo, eður alla þrjá, og hylla sig svo við menn. Síðan skiljast þeir eigi betur við en svo, að annaðhvort er að þeir stela fé manna eða hlaupa brott með frændkonur manna eða húsfreyjur. En hver er þessa menn tekur framar en lög lofa, þá er sá sekur mörk við konung ef hinn prófast síðan að illum manni.

8. Hér segir um sektir á dómrofum

Alla þá dóma sem um vígaferli skal setja eða þeirra kvenna legorð sem fyrir eigu að koma full manngjöld eða hálf, þá dóma skal alla með lögum og griðum setja til fyrsta sals. Þar sem maður segir sig úr lögsömdum dómi forfallalaust, lögliga tilkrafður af réttaranum, sá er sekur hálfri mörk, hálft konungi en hálft þeim er mál á, utan svo mikið vandamál sé að þeir fái eigi yfirtekið, þá leggi þeir það mál heima til lögmanns ella til alþingis. En sá maður sem rýfur dóm lögsamdan forfallalaust fyrir sal eða á fyrstum sölum, þá gengur sá á grið sín og er tryggrofi, og hefir fyrirgert fé og friði. En þær eru nauðsynjar og forföll þess er greiða á, ef hann er sjúkur eður sár, eður einhverjar aðrar þær stórnauðsynjar beri til með honum að góðir menn bera vitni um að hann mátti eigi til komast í eindaga. En sal það hið fyrsta skal fram koma innan þess mánaðar er dómurinn var dæmdur og flytja heim til þess er taka á, og sé honum þar goldið við votta tvo eða fleiri, en hann taki þá við eða umboðsmaður hans, utan sá vili indælla gera er taka skal. En um öll önnur lagamál þau er menn setja sín í milli lögdóma, þá sekist sá mörk við sakarábera er þann dóm rýfur forfallalaust, og haldi þó dóm sem áður. En fjórum mörkum við konung og sæki sýslumaður hvorum tveggja til handa, og taki hinn fyrst skuld sína slíka sem dómur dæmdi honum, en sektarfé hvors tveggja sé síðan skipt eftir fjármagni þeirra í milli ef eigi vinnst til hvors tveggja. En ef hann vill enn eigi dóm halda, þá skal sýslumaður honum þing stefna og gjöra hann þar útlægan, nema hann gjaldi slíkt sektafé upp sem nú var talt.

9. Hér segir hversu langar lagastefnur eiga að vera

Hvervetna þar sem menn gera lagastefnur sín í milli á þingi eða heima til lögmanns, þá skal gjöra hálfs mánaðar stefnu ef hann er utan hrepps og innan héraðs, mánaðarstefnu utan héraðs og innan fjórðungs, tveggja mánaða stefnu utan fjórðungs og innan lands. Til Noregs skal gera tólf mánaða stefnu, svo að þar megi rétt af gera þeim málum er lögmenn og sýslumenn fá eigi hér yfirtekið. Erfingi eða umboðsmaður lögligur skal svara málum hans ef hann er utan lands. Nú er erfingi eður umboðsmaður hans skyldur að gera honum boð, ella þingmenn, ef eigi er erfingi eða umboðsmaður á þingi, því að viðurmælis er hver maður verður. Á þessum tímum skal eigi til lögmanns stefna: Frá Maríumessu í föstu, og þó að hana beri allnær páskum, þá skal eigi nær eður síðar stefna en hálfum mánaði fyrir páskir og fram um fardaga. Frá Seljumannamessu og framan til krossmessu á haustið, og eigi nær jólum en stefndur megi vera fyrir lögmanni þrjár nætur fyrir stundar sakir og heim kominn að jólum forfallalaust. Eigi skal um jól stefna. En allir aðrir tímar en nú eru undanskildir eru réttir til lagastefnu. Hver maður sá er rýfur lögmanns úrskurð forfallalaust er sekur fjórum mörkum við konung. En þar sem sá maður stefnir manni til lögmanns með réttri lagastefnu er lögligt mál hefir á hendi honum eða hans lögligur umboðsmaður, þá sekist sá mörk við konung er stefnt var ef hann kemur eigi forfallalaust eða hans lögligur umboðsmaður. En ef stefndur kemur en stefnandi eigi, þá sekist hann þvílíku við konung sem hinn er stefnt var, nema lögligur umboðsmaður hans komi eða sé þar fyrir í rétta lagastefnu. En sá þeirra sem þá fellst að máli, þá haldi hann allt það sem lögmaður hefir skilað þeirra í millum og gjaldi þeim kostnað sem mál dæmist, allan hálfu aukinn, þann sem hann hafði fyrir því máli síðan lögmaður sagði og skilaði þeirra í milli. Nú skýtur nökkur sínu máli undan lögmanni og til Öxarárþings, þá rannsaki lögréttumenn innvirðuliga það mál. Ef þeim sýnist öllum sá úrskurður er lögmaður hefir gert vera eigi lögligur, þá skulu þeir þó eigi þann úrskurð rjúfa mega, en rita skulu þeir til konungs hvað þeim sýnist rétt í því máli og slíkt rannsak sem þeir hafa framast prófað þar um, því að þann úrskurð sem lögmaður gjörir á má engi maður rjúfa, nema konungur sjái að lögbók votti í móti eða sjálfur konungur sjái að annað sé réttara, og þó með hinna vitrustu manna ráði og samþykki, því að hann er yfirskipaður lögin. Nú fær maður eigi réttindi sín í byggðum heima eða fyrir lögmanni, þá má sakaráberi stefna þeim manni til Öxarárþings er hann fær eigi rétt af. Og ef hann hefir til þess löglig vitni að hann hefir þeim þangað stefnt er mál á við hann, og það annað að mál hafi svo farið þeirra í milli sem þá hefir hann hermt, þá skulu þingmenn dæma það mál að lögfullu, hvort sem nær eru báðir eða sá einn sem fram ber, og lögmanni og lögréttumönnum þikkir fyrir bíta, nema full nauðsyn banni þeim að koma er stefnt var og komi þau gögn eða vitni þar fram, og svo skal vera þó að heima sé stefnt til lögmanns. Svo má gjöra lagastefnur til sýslumanns sem til lögmanns og hálfu minni sekt við. Sýslumenn mega gera stundarstefnur til sín andsvaramönnum þeirra manna sem löglig mál hafa á hendi þeim, og svo vitnum þeirra, og gjöri þeim rétt sem mishaldinn er, þó að stefndur komi eigi í réttan stefnudag forfallalaust. Svo viljum vær að rétt sé að menn geri stundarstefnur til lögmanns þá er hann ríður um land að skipa málum manna, svo þó að stefndur megi auðveldliga til koma gögnum sínum og vitnum. Eigi viljum vær að nökkur maður megi skjóta máli sínu undan lögmanni og sýslumanni að tálma með því réttindi manna ef skynsömum mönnum sýnist að þeir fái yfirtekið.