Járnsíða/Kvennagiftingar
Járnsíða | Þingfararbálkur • Kristindómsbálkur • Mannhelgi • Kvennagiftingar • Erfðatal • Landabrigðabálkur • Rekabálkur • Kaupabálkur • Þjófabálkur |
1. [Um rétt föður og móður til giftingar dætra sinnar]
Faðir og móðir skal ráða gyftingum dætra sinna ef þau eru til. En ef þeirra missir við, þá eigu frændur hinir nánustu giftingum að ráða. Giftingarmaður skal ráða heimanfylgju og tilgjöf firi frændkonu sinni svá sem þeim kemur ásamt. Þeir skulu þá og eindaga nær brúðlaup skal vera. En ef þá skil á um máldaga, þá láti giftingarmaður bera tveggja manna vitni um heimanfylgju, hvað mælt var, þeir er hjá váru. En ef þá skil á um tilgjöf, þá njóti festarmaður tveggja vátta með fyrra skilorði. En enga heimanfylgju má arfi gyftingarmanns rjúfa, þá er svá er gör sem nú var skilt. En ef dætur verða föður síns arfar eða móður eða bróður eða hverskis arfar sem þær verða, sumar giftar en sumar ógiftar, þá skulu þær er ógiftar eru taka svá mikið af óskiptum arfi sem þær höfðu er heiman eru giftar. En þó að allar sé heiman giftar og er eigi skipt heimanfylgju til jafnaðar þeirra í millum, þá taki þær af óskiptum arfi jamnmikið sem sú hafði heiman æ meðan fé vinnst til. Gripir þeir allir er lagðir eru til heimanfylgju, og eru þeir metnir og myndir í hendur þeim er konu fær, þá á hann þá jafnheimila sem faðir eða móðir léti heiman fylgja. En ef maður segir að hann léði eigi til þess þá gripu, þá sveri hann einseiði, svá karl sem kona. En sæki til jafnmikils giftingarmann konunnar og skerði það tilgjöf hennar eftir réttri tiltölu. En ef ekkja gifti sig heiman og lætur hon virða fé annarra manna til heimanfylgju sér, og lér sá til er átti, þá á hann það jafnheimilt sem það er ekkjan átti, en ef maður kveðst eigi til þess léð hafa, þá syni með einseiði, en heimanfylgja hennar því minni.
2. [Um kvenna fé]
Fé konu sinnar skal maður eigi færa af landi brott nema hon vili. Ráða skal hann fé þeirra öllu til þarfa þeim. Hvárki skal þeirra firimæla né firigera annars fé. Slíkan rétt á hverr á konu sinni sem á sjálfum sér ef henni verður með öfund misþyrmt. Eigi á kona að synja bónda sínum félags. Nú fær maður meyjar, eigi megu þau félag leggja sín í millum nema þeir menn játi er til arfs þeirra eru komnir. En ef þau ala börn til arfs síns, þá megu þau leggja félag sín í millum slíkt sem þau vilja. Nú fær maður ekkju og á hon börn til arfs síns og eru þau í ómegð, og vil hann þó leggja félag sitt við hana, þá skal hann gera stefnu til höfuðsbarmsmönnum barnanna og leggja félag þeirra saman að fjármagni, leggja jörð jörðu í gegn og eyri eyri í gegn, meta og föng hans, hvárt þau eru meiri eða hennar föng sé. Nú má þar eigi rjúfa er svá er lagt, en ef þau leggja annan veg félag sitt saman, þá má rjúfa hvárt sem vil hans erfingi eða hennar, á þá lund að fara á þing fram fyrr en þau hafi verið tuttugu vetur ásamt, þá á hann aldregi uppreist þess máls síðan. En ef maður fær ekkju barnlausa og ala þau sér börn saman til arfs síns, þá megu þau leggja félag sitt saman, þá skal það haldast eftir því sem löglegir váttar vitu. Sú tilgjöf skal konu heimil vera er til hennar var gefin og váttar vitu að lýst var á giftingardegi ef hon lifir lengur, en ef hann missir hennar við, þá taki arfar hennar heimanfylgju en tilgjöf falli niður.
3. [Um fé öreiga og skiptingu fjárhlutar]
Ef öreigar ganga saman að landslögum og aukast þeim fé, þá á hann tvá hluti en hon þriðjung, bæði í landi og í lausum eyri. En ef annað tveggja hjúna missir annars við og þrýtur samkunduvitni, þá fari það eftir því sem skýrir í þeim kapítula er maður sest í óvirðan eyri og greiðist þá fé upp eftir lögum. En ef maður kaupir jörð með gripum eða lausafé, eða búfé konu sinnar, og lifir hon honum lengur, þá skal hon það eitt hafa úr löndum af arfi hans er hon hafði heiman, og tilgjöf með, og þó svá að hann leiði hana til bókar, skeyting að taka, því að lög rjúfa það mál og lausafé er arfar greiða henni í hönd, en ef hon tekur fé í erfð síðan er þau komu saman og verður það fé firi jörð greitt, þá skal sú jörð hennar vera. Mær sú er arfi verður, hvergis arfi er hon verður, hon má gifta sig sjálf þeim er hon vil þá er hon er fimmtán vetra að aldri með þeirra frænda ráði er nánastir eru og vitrastir, bæði í föðurætt og móðurætt. Hverr er giftingarmaður er réttur að konu láti allt vera heimilt í heimanfylgju. En allt það er sækja skal að lögsóknum, þá skal eigi tilgjöf í móti koma.
4. [Um fjárhald og heimanfylgju]
Ef mær hefir fjárhald bróður síns, þá sé föðurfrændur og móðurfrændur sveinsins slíkt henni til handa í heimanfylgju af fjárhlutum sveinsins sem þeim sýnist er hyggnastir eru. En ef þá skil á, þá ráði þeir föðurfrændur er arfi þeirra eru næstir ef þeir hafa vit til, en ef bróðir gefur þá sök þá er hann er fulltíða að þeir hafi tekið fé á gifting systur hans, þá standi sá firi einseiði er sú sök kemur á hönd. En ef einnhverr verður sannur að því að hann hefir til þess mútu tekið, reiði slíkt sveininum sem hann tók í mútuna og heiti drengur að verri. En umfram ráð þeirra manna er nú eru til skildir, þá skal hon eigi eiga kost meira að taka sér til heimanfylgju. En ef hon tekur annan veg en nú er skilt, þá haldist því aðeins að bróðir hennar vili þá er hann er fulltíða. Ef bróðir giftir systur sína með frænda ráði, sá er ellstur er og eru sumir í ómegð, þá skal það haldast svá sem þeir væri allir fulltíða.
5. [Ef kona leggst með manni undir bónda sinn]
Ef kona leggst með manni undir bónda sinn eða skilst hon við hann saklaust í móti guðs lögum, þá hefir hon firigört mundi sínum og tilgjöf. En ef bóndinn býður henni samvist en hon vil eigi, þá skal hann öllum fjárhlutum hennar varðveita meðan hon lifir. En síðan taki sá heimanfylgju hennar er þá er arfi næstur en enga tilgjöf. En ef þau sættast á mál sín og tekur hann við henni, þá fari mál þeirra sem það væri spellalaust. En ef henni verður sá glæpur oftarr firi, þá skal hann þó fjárhlutum varðveita meðan líf hennar er, að hann vili eigi oftar við henni taka, en síðan fari sem áður var mælt. En ef hon hefir eigi fyrr meirr við þann glæp verið kennd og heitur hon yfirbótum við guð og bónda sinn og býður honum samvist og vil hann eigi eiga hana, þá hafi hon heimanfylgju sína en eigi tilgjöf. En ef bóndi hennar vil firra hana heimanferð sinni og segir svá að hana hafi fyrr meir slíkur glæpur hent, og var sú sakargift eigi fyrr meirr af hans hendi við hana svá að menn vissi, þá standi hon firi einseiði og hafi heimanfylgju sína en eigi tilgjöf, ef hann vil eigi við henni taka. En ef meinleiki sundrar samvist hjúna með þess ráði er sundra á að guðs lögum, hafi sitt fé þá hvárt þeirra. En ef maður sættist við þann mann er legið hefir konu hans, þá skal sá veita tryggðir þeim er konu á. En ef hann tekur konu sína í hjúskap aftur og liggur hinn hana sinn annað meðan þau eru saman, þá er hann tryggrofi, sem sá er vígur á óspilltar tryggðir. En ef bóndi konunnar vinnur síðan á honum, þá vinnur hann á tryggrofa manni og ógildum bæði konungi og frændum, en ef maður fær sér konu að lögum og gefur í móti henni tilgjöf og fellur hann síðan í frá, þá skulu lúkast henni þing sín og heimanfylgja af sjálfs hans fé meðan það vinnst til, en þeir er næstir eru erfðum eftir hann, þá skulu þeir ekki lúka af sínu og ekki taka eftir hann.