Grágás/Rannsóknaþáttur
1.
Það skal hver maður hafa á landi ossu er á, nema gefið vili hafa eða goldið. Ef maður tekur það er annar maður á ólofað, og á maður að færa það til gertækis ef pennings er vert eða meira. Svo skal stefna, sá er á gripinn, um gertæki og til gjalda tvennra, slíkra sem búar meta, og láta varða þriggja marka sekt og kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er.
Ef maður tekur fé frá manni það er vert er hálfs eyris eða meira fjár, og leynir sá eigi er tekið hefir, og varðar það skóggang, og skal stefna um tökuna um það að hann vili sér fé nýta, en eigi um þjófskap. Ef maður tekur fé frá manni hálfs eyris vert eða meira, og leynir þjóflaunum, þá er kostur að færa til þjófskapar og stefna og telja hann sekjan skógarmann, ef kviður ber hann sannan að sök, og kveðja til tylftarkviðar. Nú ber kviður af honum, og er eigi sókn til þá að sækja um illmælið, ef hann kvað svo að í stefnunni, enda stefni hann af því að hann hygði hann sannan að, en eigi fyrir háðungar sakir.
Ef maður stefnir manni ifalaust um það að hann hafi því stolið, ef kviður ber hann ósannan að, og er þá sókn til illmælisins. Hann á kost að nefna sér votta þá þegar, ef hann heyrir, og stefna um illmælið og telja varða fjörbaugsgarð og sækja við vottorð. Enda á hann kost að nefna votta að framsögunni og stefna um illmælið að Lögbergi, síðan er kviður bar af honum, og sækja hið sama sumar. Þess er og kostur að stefna síðar um illmælið og sækja við tylftarkvið. Enda nýtur hann eigi bjargkviðar ef hann stefndi ifalaust.
Ef maður stefnir þeim manni um þjófskap er áður hefir kunnur og sannur orðinn að þjófskap, og varðar það eigi við lög þótt þá verði hann ósannur að, ef hann stefndi af því að hann hugði hann sannan að, og hann vissi hann eigi ósannan að. Þjófsök skal sótt á hinu þriðja þingi þaðan frá er hann spyr, sóknaraðilinn. Aldregi fyrnist leynd þjófsök. Svo skal sækja að öllu um fjártökuna, þar er maður lætur skóggang varða, sem þjófsök, fyrir utan atkvæði. Gertækissök fyrnist eigi.
Kost á maður að höfða sök við hvorn er vill, þann er gripinn hefir að halda eða hinn, er hann hyggur að stolið hafi. Jafnmikið varðar manni ef hann þiggur eða kaupir vísvitandi þjófstolið, sem hinum er stal — sá er þjófsnautur, og svo þeim er réð þjófráðum. Þá skal sækja við hin sömu gögn sem þjófinn. Ef maður selur manni eða gefur, það er hann veit að þjófstolið er, og villir hann heimild að, þó að hann vissi eigi þá er honum var heimildur, og varðar skóggang við hvorntveggja, þann er hefir gripinn seldan og svo þann er átti. Skal sækja við tylftarkvið.
Hvar þess er maður hefir heimild til þess gripar er tekinn er frá manni eða stolinn, og hugði hann sér heimilan mundu verða þótt hann fregni síðar annað, og er honum rétt að halda þeim grip til dóms. Þar er maður þermlast síns gripar, og þykist hann vita að maður hefir grip þann að halda, sá er keyptan hefir eða þeginn eða að láni, og náir hann eigi að sjá. Sá er gripinn á skal beiða með votta að hinn sýni honum gripinn eða seli fram. Ef hinn selur eigi fram, þá er kostur að fela ábyrgð á hendi honum til dóms, og stefna honum til brigðar og til útgöngu og láta varða þriggja marka útlegð ef hinn sýnir eigi gripinn lengur er beitt er. Ef maður kennir grip í höndum manni, og kveðst sá eiga að gjöf eða að kaupi eða að varðveislu, ef hinn tekur á brott, og varðar það skóggang.
2. UM RÁN.
Það er handrán ef sá tekur úr hendi honum eða af honum. Ef maður heldur eigi á og kveðst hann þó eiga, en hinn tekur þann grip á brott, og er það rauðarán. Varðar það skóggang. Að hvorritveggju aðferð þeirri, þá sekst maður þar á sínu eigini, ef hann tekur af þeim manni er heimild hefir til. Þá hefir maður heimild til, ef sá maður heimilar honum er forráð á aura sinna, og hann hyggur að sá mætti honum heimilað vinna þann grip, en eigi ellegar. Rauðarán skal svo sækja að kveðja skal til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.
Ef maður finnur grip sinn úti eða inni og tekur hann á brott, og skal hann segja lögföstum mönnum til, ef þeir eru hjá þar á þeim bæ. En ef þeir eru eigi hjá, þá skal hann fara leið sína og segja á næsta bæ og mæla svo: „Ef nokkur kennir sér þenna grip, komi sá þingað til mín,“ og kveða á hvar hann á heima, „og feli mér ábyrgð á hendi til dóms.“ Því aðeins skal hann svo með fara ef hann átti þá er frá honum villtist. Ef maður vill brigða grip þann, þá skal hann koma til á hinum næsta mánaði og fela honum ábyrgð á hendi til dóms.
Hvorts átuþýfi er meiri eða minni, þá er maður stelur því er ætt er eða blóðugri bráð, þá er kostur að stefna til skógar.
3. UM RANNSÓKNIR.
Hvort er maður missir fjár síns, tveggja aura eða meira við einn mann á tólf mánuðum, þar er kostur að stefna um stuld þann til þrældóms, ef hann hefir þjóflaunum leynt, svo sem þræll væri faðir hans en ambátt móðir, og félli hann ánauðigur á jörð, telja sér fé hans allt. Þar skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er, hvort hann hafi því fé stolið á þeim tólf mánuðum, og nefna hann, og þjóflaunum leynt, eða hafi hann eigi.
Ef kviður ber hann sannan að því, þá á að dæma hann þræl fastan á fótum, og hinum fé hans. Sá skal og hafa ómaga þrælsins, ef eru, er hann sækir til þrældóms. Sá á kost að leggja lögskuld á ómaga þrælsins. Honum skal frelsi gefa ef hann þykir þess verður vera, og skal hann í frjálsgjafa ætt að framfærslu og að arftöku.
4. RANNSÓKNAÞÁTTUR.
Sá maður er missir fjár síns, hann á að rannsaka ef hann vill. Hann skal biðja menn til rannsóknar með sér innan húss og af næstum bæjum, til þess er hann hefir þrjá tigu manna. Ef menn vilja eigi fara með honum, og varðar þeim þriggja marka útlegð. Hann skal eigi fleiri menn hafa en þrjá tigu. Hann skal þar upp hefja rannsókn er hann vill. Ef hann vill fleiri bólstaði rannsaka en einn, og skal hann eigi yfir hefja rannsókn um þá bólstaði er þeim eru næstir er hann hóf upp rannsókn.
Þeir lagsmenn skulu ganga að garði þar er þeir vilja rannsaka. Þeir skulu þrír einir í garð ganga og til húss. Hann skal sjálfur hinn þriði, eða sá maður er hann fær til að mæla málum sínum. Hann skal beiða búanda þann er þar býr, með votta, að hann og þeir er fyrir eru festi þeim og handsali grið að lögum til rannsóknar. Hann skal og eigi hafa fleiri menn fyrir en þrjá tigu. Hann skal og handsala þeim grið, og hvorir öðrum. Ef búandi varnar griða, og varðar það skóggang. Nú lætur hann grið uppi og handsalar. Þá skal hvor þeirra nefna þar sex menn úr annars flokki, þá er hann vill í þau grið. Þá eru tólf menn í griðum af þeim sex tigum manna, en allir þeir sex tigir manna undir griðum. Búandinn er eigi skyldur að láta grið uppi ef þeir eru fleiri saman en þrír tigir. Ef menn ganga í lið þeirra óbeðið, og varðar hverjum þeirra þriggja marka útlegð, og á sá sök er rannsaka vill. Ef hinn hefir fleiri menn fyrir en þrjá tigu, og varðar honum það skóggang, og er þá varnað griða. Nú festa þeir grið með sér, og skulu þeir allir þá til dura ganga er áður voru utan garðs. Þeir skulu þá beiða búandann með votta að hann láti þeim rannsókn uppi. Honum varðar skóggang ef hann varnar rannsóknar. Þeir skulu beiða hann þess að út gangi menn þeir allir er inni eru þar áður, nema sá maður einn er ljós beri fyrir þeim og lúki lásum upp. Þegar er annan veg er beitt rannsóknar en nú er talið, þá er hann eigi skyldur uppi að láta. Ef önnur aðferð er af búandans hendi en sú er hér er nú talið, að þeir eigu hann að beiða, og er þá varnað rannsóknar.
Ef rannsókn er uppi látin, þá skulu þrír menn inn ganga af þeim er rannsaka vilja og einn úr hinna liði. Sá skal bera ljós fyrir og lúka lásum upp. Þeir skulu fjórir menn inn ganga. Menn skulu láta rannsakast áður gangi inn, að eigi beri þeir fóla á hendur mönnum, enda svo þeir er út ganga. Ef þeir vilja eigi láta hafa lukla að lúka lásum upp, og verða lok þeirra óheilög við broti. Þeir skulu hinir sömu rannsaka í öllum stöðum, úti og inni. Þeir skulu eigi auvisla gera í rannsókn, þann er hinum sé mein að, né fjárskaði, er fyrir búa. Ef þeir bera ofurafli eða fara að ólögum að rannsókn annan veg en nú er talið, og varðar skóggang ef þeir finna eigi þar inni, enda verði búandinn ósannur að, en ellegar varðar ekki.
En þótt þeir finni inni þar fóla, og skal-at drepa þá menn né að þeim gera ekki, nema þeim verði handnumið. Svo skal að sókn fara um þann þjófskap sem þar er eigi er rannsakað. Ef þeir bera inn fóla á hendur mönnum, er rannsaka skulu, eða láta bera aðra menn, þá varðar þeim skóggang, enda varðar þeim þá það allt er þeir fara að rannsókn slíkt sem áður.
Nú skal um sakir þær allar er af rannsókn gerast stefna heiman og kveðja heimilisbúa fimm til á þingi þess er sóttur er.
5. UM GRIPATAK AÐ MISFANGA.
Ef maður tekur grip manns að híbýlum, og vill hann kalla sér misfanga. Þann skal hann þann grip hafa aftur borinn á viku fresti eða fyrr og selja í hönd þeim manni er þar býr næst því er hinn mistók gripinn, ef hinn er eigi þar er á. Nú vill sá eigi við taka, þá skal hann heim hafa með sér og segja til síns heimilis og ábyrgjast, enda hafa til þings hið næsta sumar og segja til að Lögbergi. Svo skal sækja sem um aðrar fjártekjur.
Ef maður fer eigi svo með sem nú er tínt, eða svo ef eigi er misfangi þótt svo sé kallað. Þar á misfanga að bera er maður tekur þess kyns grip á brott sem hann lætur eftir í vopnum, en hross þess kyns sem hann átti og svo litt, enda svo um aðra gripi sem nú er tínt, hvort er kykfé eða aðrir gripir, þá skal hann þess kyns grip á brott hafa sem hann átti, og með þeim lit, og er þó því að einu misfangi ef búar vilja svo borið hafa. Og ef sá maður er þann grip átti tekur og hins grip að misfanga, og skal svo með fara hið sama sem hinum var áður til handa talið, og er þar hvorumtveggja misfangi.
Ef maður tekur grip annars manns á alþingi, eða á fjöllum uppi eða að óbyggðum, að misfanga, og finnur hann eigi áður hann kemur í hérað, þá skal segja til búum þeim þrem er þar eru næstir á götu hans, þegar er hann finnur að hann hefir mistekið, og sekst hann þá eigi á meðför þess gripar. En hann skal ábyrgjast og hafa til alþingis annað sumar ef hann mistók þar. Hinn sekst og eigi á meðför hans gripar, ef sá hafði í ömbun þann á brott hafðan, ef sá fer svo með sem hinum var til handa tínt.
Maður skal fært hafa hinum, er á, á hálfum mánaði þeim er hann veit misfangann ef þeir eru sams fjórðungs, eða svo ef hann má komast á hálfum mánaði fyrir leiðarlengd, þótt eigi sé sams fjórðungs.
6. UM REISLUR.
Það er lögpundari er átta fjórðungar eru í vætt, en tuttugu merkur skulu í fjórðung vera. Ef maður á pundara meira eða minna en mælt er, og varðar það þriggja marka sekt.
Nú reiðir hann rangar vættir eða mælir rangar álnar, svo að munar um öln í tuttugu álnum, þá varðar það fjörbaugsgarð. Sá á sök þá er síns hefir í því misst. En ef hann vill eigi sækja, þá á sá er vill. Níu búa skal til þess kveðja á þingi. Stefnusök er það.
7. UM VERPLAKAST OG TAFL.
Það er mælt í lögum vorum að menn skulu eigi kasta verplum til fjár sér, en ef kasta, og varðar fjörbaugsgarð. Menn skulu og eigi tefla svo að þeir leggi fé við, og enga þá hluti er manni þykir betra að hafa en án að vera. En þeim er fé leggur við tafl eða aðra hluti þá er varðar fjörbaugsgarð, enda er-at heimting til fjár þess. En eigi skal kasta.
Sá á sök þá er vill, innanfjórðungsmanna, og er rétt að lýsa á vorþingi, ef þeir eru samþinga, enda er sá á þingi er sóttur er, og kveðja þar til heimilisbúa fimm þess er sóttur er, og skulu innanfjórðungsmenn lýsa fyrir drottinsdaginn, ef þeir hyggja. En þá á hver er vill eftir helgina, ef sá er á þingi er sóttur er. En ef hann er eigi á þingi, og er rétt að lýsa að þinglausnum og til sóknar annað sumar, og banna för ef vill. En ef tveir sækja einn mann um þann hlut, og á sá að ráða er sækja vill til laga.