Grágás/Erfðaþáttur
1.
Sonur á að taka arf að föður sinn og móður, frjálsborinn og arfgengur. Nú er eigi sonur til, þá skal dóttir. Þá skal faðir. Þá skal bróðir samfeðri. Þá skal móðir. Þá skal systir samfeðra. Þá skal bróðir sammæðri. Þá skal systir sammæðra. Hinn níundi maður skal arf taka sonur laungetinn og honum næst dóttir laungetin. Þá bróðir samfeðri laungetinn. Þá systir samfeðra laungetin. Þá bróðir sammæðri laungetinn. Þá systir sammæðra laungetin. Eftir firnari menn eru skírgetnir menn til arfs og til ómegðar, ef eigi taka systkin. Þá eru næstir arfi föðurfaðir og móðurfaðir, sonarsonur og dóttursonur. Þeim næst eigu arf að taka föðurmóðir og móðurmóðir, sonardóttir og dótturdóttir. Þá eru föðurbróðir og móðurbróðir, bróðursonur og systursonur. Síðast skal taka föðursystir og móðursystir, bróðurdóttir og systurdóttir.
Nú eru þessir menn eigi til, þá skulu taka jöfnum höndum bræðrungar og systrungar nema einn maður sé úr móðurætt eða föðurátt, en fleiri menn úr annarri hálfu, þá tekur hann að helmingi við þá. Nú lifir ekki þeirra manna, þá skal hinn nánasti niður frjálsborinna manna og arfgengra. Nú er bæði jafnnáið kona og karlmaður, þá skal karlmaður.
Jafnt skal arfi skipta í alla knérunna, en það er knérunnur að telja frá systkinum. Ef konur eru nánastar, og er þar og deildararfur með þeim. Þeir menn eru fjórtán er taldir heita til arfs í lögum er fyrst eru tíndir af því að þar ræður eigi frændsemi. Þeirra er fyrst sonur skírborinn, en efst systir sammæðra laungetin.
2. ARFSKIPTI.
Ef synir eru til arfs alnir, þá á faðir og móðir eigi að gera dóttur sína heiman meira fé fyrir ráð sonanna en komi jafnmikið fé á hlut hvers þeirra ef þá væri erfðinni skipt. Ef annaðtveggja fellur frá, faðir eða móðir, enda sé dóttir þeirra í ómegð, og skal hún að slíkum hlut hverfa á hendur bræðrum sínum að varðveislu sem þeir taka aura til eftir það þeirra sem andað er.
Það er og þar er móðir gefur syni sínum, eða sá maður er hún verður erfingi eftir, til fósturs eða læringar eða farar eða kvonarmundar eða geldur gjöld fyrir hann, og allt það er hún leggur fyrir hann í fémunum, eða sá maður er hún tekur féið eftir, að hún skal taka það fé eftir hann barnlausan jafnmikið sem hún gaf, ávaxtalaust, og svo hennar börn, ef hún er önduð, skulu taka fyrr en faðirinn.
Ef menn hafa gefið sonum sínum til farar eða til kvonarmundar, og svo ef hann hefir goldið gjöld fyrir hann, og svo ef hann hefir æxt honum fé fyrr en hann er sextán vetra gamall, þá skulu hinir aðrir taka slíkt af ódeildum arfi sem það var þá er hann var sextán vetra gamall. Þá skal hver þeirra taka af fénu er þeim tæmist arfurinn. Nú hefir þeim æxt verið fleirum féið eða gefið, en sumum meira en sumum, og skulu þeir svo skipta sem þeim væri jafnmikið öllum gefið féið eða æxt. Þeir skulu ávaxtalausan þann mismuna heimta sem þeirra var í því ger lengur er þeim tæmist. Nú hefir meiri munur þeirra ger verið en í arfinum megi jafna hlut þeirra, þá eigu þeir heimting sinna aura, jafnmargra sem í það missir, við þá er áður höfðu af fénu haft.
Það er og þar er systur taka arf að föður sinn eða að móður, og voru sumar gervar heiman áður en sumar eigi. Þá skulu hinar aðrar taka jafnmikið fé af ódeildu sem hinar höfðu áður haft, ávaxtalaust, enda skal slíkt með þeim fara sem áður var tínt með bræðrunum, hverngi veg er, og hefir þeirra misjafnaður ger verið í því.
Móðir á að taka af fé slíkt eftir dóttur sína barnlausa sem hún hafi hana heiman gerva og svo mundinn ávaxtalausan, þann er þar kom til, og svo hennar börn fyrr en faðirinn. Nú hvergi maður er gefur til heimanfylgjunnar, þá skal sá taka gjöf þá eftir hana barnlausa og svo viðgjöldin ef hann lýsir að festamálum eða að eiginorði.
Ef móðir gefur fé til farar syni sínum eða til kvonarmundar, þá á hún að taka það fé að hann barnlausan, jafnmikið sem hún gaf, ávaxtalaust, og svo hennar börn fyrr en faðirinn.
3. UM ÞÁ MENN ER EIGI ERU ARFGENGIR.
Eigi eru allir menn arfgengir þótt frjálsbornir sé. Sá maður er eigi arfgengur er móðir hans er eigi mundi keypt, mörk eða meira fé, eða eigi brullaup til gert eða eigi föstnuð.
Þá er kona mundi keypt er mörk sex álna aura er goldin að mundi eða handsöluð eða meira fé ella. Þá er brullaup gert að lögum ef lögráðandi fastnar konu, enda sé sex menn að brullaupi hið fæsta og gangi brúðgumi í ljósi í sama sæng konu.
Sá maður er og eigi arfgengur, er eigi veit hvort trýjusöðull skal fram horfa á hrossi eða aftur, eða hvort hann skal horfa á hrossinu fram eða aftur. En ef hann er hyggnari, þá skal honum arf deila. En ef hann kann eigi til fulls eyris ráða, þá skal hinn nánasti niður hafa varðveislu fjár hans sem ómagaeyris. Þeir eigu að stefna honum, þá er hann er sextán vetra gamall, til skila og til raunar um það að hann kunni fé sínu eigi að ráða til fulls eyris, og telja hann af ráðunum fjár síns alls, og telja sér ráðin fjárins ef kviður ber hann sannan að því. Þar skal kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er, hvort hann kunni ráða fé sínu til fulls eyris eða eigi, enda á að dæma að því sem kviðurinn ber. Nú ber það kviður, að hann kunni eigi að ráða fé sínu til fulls eyris. Þá skal dæma þeim manni fjárvarðveislu hans er stefna lét, en sá skal láta virða fé það sem ómagaeyri, og svo hafa að öllu.
En ef honum batnar hyggjandi, þá skal hann stefna þeim er féin hefir að varðveita, þá er hann er tuttugu vetra gamall, til gjalda og til útgöngu um féið, og skal hann kveðja heimilisbúa sína níu á þingi, hvort hann kann ráða til fulls eyris fé sínu eða eigi. Ef það ber kviður í hag honum að hann kunni ráða fé sínu til fulls eyris, þá skal hann enn kveðja heimilisbúa níu á þingi þess er hann sækir að bera um það við hve miklum aurum sá tók, þeim er hann átti. Skal síðan dæma honum fjárvarðveislu þess er hinn tók við, ávaxtalaust, ef kviður ber það að hann kunni þá ráða til fulls eyris, en eigi ella, enda skal hann eigi oftar til reyna. Nú skal dæma honum fjárvarðveislu sína þá, ef kviðurinn ber í hag honum, en eigi ella, en eigi á hann tilkall oftar.
4. EF MAÐUR KVONGAST.
Ef sá maður kvongast fyrir ráð skaparfa síns, þá á það barn eigi arf að taka, enda á barn það að hverfa í móðurátt að framfærslu til þess er það er sextán vetra gamalt, en hinum varðar fjörbaugsgarð er konu fastnaði honum, ef ráðin takast, og á sá sökina er fjárvarðveislu á þess hins heimska manns. En eigi er sókn til nema ráðin takist, enda er eigi mundurinn heimill, sá er hann handsalar hinn heimski maður. Það er stefnusök, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.
Nýmæli: Ef sá maður andast er barn á í vonum, þá er barnið eigi arfgengt nema lifanda komi í ljós og matur komist niður.
Sá maður er og eigi arfgengur er á verðgangi er alinn. Sá maður er eigi arfgengur er þræll getur barn með frjálsri konu. Það barn er og eigi arfgengt er kvikt er í kviði áður mæðurinni sé frelsi gefið, og er þó það barn frjálsborið, enda skal þeim manni gefa frelsi í annað sinn. Sá maður heitir hrísungur. En ef konunni er gefið frelsi áður barnið er kvikt orðið í kviði henni, og þarf eigi að gefa þeim manni frelsi. Ef kona gefur frelsi þræli sínum, til þess að hún vill ganga með honum og eiga hann, þá er það barn og eigi arfgengt er þau geta. Sá maður heitir hornungur. Það barn er og eigi arfgengt er sá maður getur er sekur er orðinn skógarmaður, þó að hann geti við sinni konu sjálfs. Sá maður heitir vargdropi. Það barn er og eigi arfgengt er sú kona getur er sek er orðin skógarmaður, þó að hún geti við búanda sínum ósekjum, og heitir sá maður bæsingur.
Ef sá maður kvongast er áttræður er eða eldri, fyrir ráð skaparfa síns, hann á eigi mund að gjalda meira en tólf aura. En það barn er þau ala skal eigi hans arf taka, en það skal taka allan annan.
Ef maður skilst við konu sína, og er talið einlát á hendur honum, og lofar biskup honum eigi að kvongast ef hann ræður ráði sínu í annað sinn, og varðar honum það fjörbaugsgarð, enda verða börnin eigi arfgeng ef hann á við þeirri konu.
Ef kona skilst við búanda sinn svo að einlát er talið á hendur henni, ef hún giftist öðrum manni svo að eigi lofar biskup, og varðar henni fjörbaugsgarð, og eru börn þau öll eigi arfgeng er hún á við þeim manni. Sakir þær á að sækja hver er vill. Stefna skal heiman og kveðja til níu búa á þingi.
Nú hverngi hlut er maður vill þessa til þess færa að telja mann eigi arfgengjan, þá skal hann stefna honum til skila og til raunar, og kveðja níu heimilisbúa til á þingi þess er sóttur er, um það sem hann vill helst til færa.
Svo fremi á karlmaður arf að taka er hann er sextán vetra gamall. En kona sú er gefin er, hvort sem hún er sextán vetra gömul eða yngri, og á hún arf að taka þegar er undir hana ber, og svo fjárvarðveislu annarra manna. Ef hún er ekkja yngri en sextán vetra gömul, og á hún arf að taka og svo fjárvarðveislu annarra manna ef undir hana ber, ef lögráðandi hefir fyrir ráðið. En ef karlmaðurinn er yngri en sextán vetra, þá er arfurinn tæmist, og á hann að taka þann arf þá er hann er sextán vetra gamall, og svo varðveislu. Þá á hann og að ráða fyrir vistafari sínu en eigi annarra manna fjár áður hann er tvítugur, ef hann vex upp til erfðarinnar. En ef hann var það vor sextán vetra eða eldri, er erfðin tæmdist, þá á hann varðveislu annarra manna fjár þegar er undir hann ber. Mær á að taka arf þegar er hún er sextán vetra gömul og svo vöxtu á sínu fé, en eigi varðveislu, hvorki síns fjár né annarra manna, og eigi ráða fyrir vistafari sínu fyrr en hún er tvítug.
Sá maður er kvongast í annars konungs veldi en Noregskonungs og á konu hér, þá á það barn eigi arf að taka hér er hann getur þar. Ef maður kvongast í Noregskonungs veldi, enda eigi hann aðra konu hér, og eigu þau börn að taka arf hingað er hann getur þar, ef hann kvongast að lögum réttum. En ef maður á eigi hér á landi konu, og kvongast hann erlendis, hvargi er hann kvongast ef það er á vora tungu og sé það þar gert að lögum, þá á það barn er hann getur þar arf að taka út hingað. Ef maður á konur tvær hér á landi, eða í vorum lögum, þá varðar það fjörbaugsgarð, enda eru börn þau eigi arfgeng er hann elur við þeirri konu er hann tók síðar. En þá á hann konur tvær ef hann gengur að eiga og gerir brullaup til eða geldur mund við, enda á hann aðra konu áður. Það er stefnusök. Skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er, og á sá sök er vill.
Ef skógarmenn eða fjörbaugsmenn fara utan héðan og kvongast erlendis, þá eru börn þeirra öll arfgeng hér, þau er þeir geta þar, ef þeir kvongast þar að landslögum réttum. Svo er og hið sama ef kvongaðir menn fara utan héðan, og taka þeir aðrar konur í Noregskonungs veldi að landslögum, þá eigu þau börn er þar alast að taka arf út hingað.
Ef þeim manni tæmist erfð er erlendis er, þá á sá maður að taka það fé er hinn nánasti niður er hér hinum andaða. Skal hann láta virða fé það fimm landeigendur, jafnt sem ómagaeyri, og svo að öllu hafa fé það sem ómagaeyri. [K: Hann á ávöxtu á fénu, enda ábyrgist hann.] En ef sá maður kemur út er féið á að taka, þá á hann að taka innstæðann ávaxtalausan. En ef sá maður andast er erlendis er, þá skulu erfingjar þess er erlendis andast stefna þeim manni er féið er undir og láta sanna dauða hans. Það er og ef ekki spyrst til manns, og skal svo vera sem hann lifi til þess er dauðinn er sannaður.
Nú á þess þeirra erfingi féið að taka er lengur lifir. En ef þeir verða eigi á sáttir hvor síðar andast, þá á það tylftarkviður að skilja, goða þess er sá er í þingi með er sækir. Hinn nánasti niður skal láta virða fé það og arf, er hinn dauði hafði átt, búa fimm, landeigendur, allt nema land, þá er sjö vikur eru af sumri. Hann á vöxtu á fénu, enda ábyrgist hann.
Nú spyrst ekki til manns, og skal svo vera sem hann sé lifandi meðan hann er eigi andaður sagður. Svo skal vanda sögu sem um erlendisvíg. Nú spyrst ekki til á þrem sumrum, og er spurt úr Noregskonungs veldi og Svíakonungs og Danmörk og Englandi og úr Eyjum og af Grænlandi og af Hjaltlandi, þá skal hið fjórða sumar brigða féið. Hann skal til fá vora landa fimm, þá er það leggi undir þegnskap sinn að ekki er til spurt, „og vér hyggjum hann andaðan og vér berum það“. Þá á dómur að dæma undan hinum féið. Nú kemur hann aftur, og verður hinum þá rétt lagt undir þegnskap sinn.
Þar er menn drukkna, þá er svo sem allir deyi senn, eða þar er eitt gengur yfir alla. Ekki skiptir það arfi.
Ef sá maður kemur út úr för er fé það á að heimta er annar maður hefir tekið til vaxta hér, og vill sá eigi laust láta, þá á hinn að stefna til útgöngu um féið, þá er hann heyrir eða að heimili hans, og láta varða útlegð, og sækja við níu búa kvið og kveðja á þingi.
Ef sá maður spyr er erlendis er að erfð hefir borið undir hann út hér, og skal hann innstæðann einn hafa þá er hann kemur til, ef rétt virt var féið og rétt tekið. Nú verða þeir eigi á sáttir, erfingjar þess manns er erlendis var, og sá maður er féið er undir, hvort sá er andaður er erlendur var eða eigi, eða svo hvort fyrr var að erfðin tæmdist eða sá andaðist er erlendis var, og skulu þá erfingjar þess er erlendis andaðist stefna þeim manni um er féið er undir, til gjalda og til útgöngu. Þeir skulu láta sanna dauða þess manns að dómi er erlendis er, en goði sá skal bera tylftarkvið, er hann er þingi með er sóttur er, um það hvort fyrr var að erfðin tæmdist eða sá andaðist er erlendis var, og eigu þess þeirra erfingjar að taka féið er síðar andaðist.
5. UM LEYSINGJAERFÐIR.
Arf á maður að taka eftir leysing sinn og eftir leysingju sína, nema þau hafi alið sér son eða dóttur. Ef þau eru skírgetin, þá á sonur að taka. En ef eigi er sonur til þá skal taka dóttir. En ef þau deyja barnlaus, þá á það fé enn aftur að hverfa undir frjálsgjafann. En ef börn leysingsins andast barnlaus, þá á það fé enn aftur að hverfa undir frjálsgjafann jafnmikið sem þau leysinginn áttu, þá er þau önduðust. En ef féið er meira, þá eigu það að taka frændur leysingsbarna. En ef undir barnabörnin kemur arfur leysingsins, þá á það fé jafnt að hverfa í átt þeirra leysingsins.
En ef fleiri menn gefa manni frelsi, þá skal þvílíkan hlut hafa hvert þeirra við annað úr arfi hans sem þau gáfu frelsi til.
Leysingur á að taka arf eftir leysing sinn jafnt sem frjálsborinn maður, enda svo leysingja. En er deyr barnlaus leysingur leysingsins, þá skal það fé aftur hverfa undir frjálsgjafann, þann er frelsi gaf hinum fyrra. Það fé á leysingur að taka eftir börn sín er hann gefur syni sínum til farar eða kvonarmundar, og svo á hann það fé að taka er hann gerir heiman dóttur sína, og svo það er við er goldið, ávaxtalaust, ef þau deyja barnlaus, og á svo leysingja að taka jafnt sem leysinginn.
6. UM ERFÐIR ÚTLENDRA MANNA.
Ef sá maður [K: Ef austmaður] andast út hér er engi á frænda hér á landi [K: og andast að skipi], þá á félagi hans að taka arf ef þeir gerðu það félag að sá lagði allt sitt fé til er óauðgari var, það er hann hafði í þeirri för. En ef hann á eigi félaga þá skal taka mötunautur hans. En ef mötunautar hans eru fleiri en einn þá skal sá taka er oftast hefir átt mat við hann. Skipta skulu þeir með sér ef þeir áttu allir jafnoft. En ef hann var sér einn í mötuneyti, þá skal taka stýrimaður. Nú eru stýrimenn fleiri en einn, þá eigu þeir svo að taka sem þeir eigu í skipi til. En ef hinn andaði átti einn skip og engi félaga né mötunaut, þá á goði sá er sá maður er í þingi með er land það á er þeir tjalda búðir á.
En ef hann tekur sér vist og andast hann á götunni er hann fer frá skipi, þá skal það fé svo fara sem hann andist að skipi, er hann hafði átt. En ef hann kemur í vistina, og andast hann þar, þá á félagi hans það fé að taka, nema þeir hafi til þess gert félagið að aðrir menn skyldu eigi taka arf eftir þá, og er þá sem þeir hafi ekki um mælt. En ef eigi er félagi þá á að taka búandinn, sá er hann var í vist með. En ef hann var í vist með konu er hann andast, þá á hún að taka jafnt sem búandinn. En ef hann andast er hann fer til skips, þá á það fé svo að fara sem hann væri eigi heiman farinn. En ef þeir sitja búðsetu, og andast maður svo að hann á eigi sér félaga, þá á goði sá að taka það fé er bóndi er í þingi með, sá er land á það er þeir búa á.
En ef maður býr hér og andast hann svo að hann á engi erfingja hér á landi, þá á goði sá að taka það fé er hann var í þingi með.
Ef sá maður ræður eða gerir fjörlöst hinum útlenda, er nú er áður til erfðar taliður, þá skal sá arf taka og bætur er næstur er til taldur eftir.
Ef goði sá er til arftöku er taldur vegur mann, þá eigu arf og bætur samþingsgoðar hans. Ef síðar koma út erfingjar, þeir er eru af danskri tungu, þá eigu þeir að taka arf og bætur ef þær eru, vaxtalausar. Enda á sá maður jafnan arf að taka eftir útlenda menn hér og frændlausa er bætur ætti að hafa ef þeir væri vegnir.
Norrænir menn og danskir og sænskir eigu hér arf að taka eftir frændur sína þriðjabræðra og nánari, en að frændsemi af öllum öðrum tungum en danskri tungu skal engi maður hér arf taka nema faðir eða sonur eða bróðir, og því að einu þeir, ef þeir höfðu kennst hér áður svo að menn vissu deili á því. Nú taka vorir landar fyrst arf eftir útlenda menn hér, en frændur hans koma til síðan og heimta féið. Þá skulu þeir hafa innstæðuna eina ef rétt var að fjártekju farið, ella verða að rakna leigurnar allar fyrst.
Ef sá maður andast hér er engi á frænda hér á landi, og skal jafnt arfur fara sem vígsök ef hann væri veginn. Nú andast hann að bónda, og skal hann láta virða fé þá er sjö vikur eru af sumri og á hann vöxtu til þess er erfingi kemur til. Nú kalla frændur hins til, og er eigi skylt að selja.
Nú andast enskir menn hér, eða þeir er hingað eru enn ókunnari, og er eigi skylt að selja þeim, nema hér hafi verið fyrr sonur eða faðir eða bróðir þeirra, og kannast þeir þá við.
Allt fé það er eigi taka erfingjar, hvort sem eru vígsakabætur eða arfur, þá skal virða láta sem ómagaeyri, og eignast þeir þá vöxtuna. En ef eigi er rétt að virðingu farið, þá verða að rakna leigurnar.
Ef maður andast hér, og sé arftökumaður hans erlendis, þá á sá maður fé að taka er hinum andaða er nánastur. En sá skal virða láta fé jafnt sem ungs manns fé, og á hann varðveislu og vöxtu á meðan hinn er erlendis, en þá er sá kemur út, þá skal hann heimta innstæða að hinum næstum gjalddögum. Engum manni á hann að selja arfinn meðan hann er erlendis. Ef sá andast er erlendis er, og verða menn eigi á sáttir hvor fyrr andast, þá skal kveðja tylftarkviðar goða þann er sá var í þingi með er hér andaðist. En ef engi goði gengur við því, þá skal þann kveðja er sá er í þingi með er sækir. Svo skal að því fara að erfingjar þess er austur andaðist skulu stefna þeim er féið hafa til gjalda og til útgöngu, en láta sanna að dómi dauða þess er erlendis var. Nú ber það kviður að sá dó fyrr er hér var. Þá raknar undan þeim er áður höfðu, en ellegar geta þeir haldið.
7. UM FARMANNAERFÐIR.
Ef maður vill fara af landi á brott þá skal hann selja sókn og vörn ef hann vill, og svo varðveislu fjár síns, þess er hann á hér eftir. Þau handsöl skulu haldast þrjá vetur, en síðan eigu erfingjar fé að varðveita.
Ef maður fær líflát erlendis, sá er fé á út hér, og verði menn eigi á sáttir, hvort hann er andaður eða eigi, þá eigu erfingjar kost að láta sanna dauða. Þeir skulu leiða fram að dómi fimm vora landa. Skulu þeir menn tveir í því liði er í þess konungs veldi væri, þá er hinn dó eða síðan, sem sá var. Allir skulu þeir menn réttir að tengdum. Svo skulu þeir að kveða „að vér leggjum það undir þegnskap vorn að vér hyggjum þann mann dauðan“.
Ef sá maður tekur arf eftir mann er menn ætla réttan erfingja, enda verði kyn annarstveggja þeirra annað síðar, þá skal hann gjalda erfingjum, er það reynist, fé það allt leigulaust er hann tók. Svo skal og hvar þess er aðrir taka fyrst arf en erfingi réttur fyrir því að kyn var villt.
8. UM GÖNGUMANNAERFÐIR.
Ef göngumaður verður dauður inni að manns þá á sá maður það fé að taka er inni hefir hann, bæði það er hann hefir á sér, og svo það er hann spyr til að hann hefir átt. En ef erfingjar göngumannsins kalla til fjárins í hendur þeim er hefir, þeir skulu kveðja til heimilisbúa sína fimm, er til fjárins kalla. Nú ef það ber kviður fimm heimilisbúa hans er sækir að honum væri sú vist uppi látin er honum væri vært við að vera, og gengi hann þó heiman að sjálfræði sínu og að óvilja hans, og á þá erfingjanum að dæma féið, það er hann átti í öðrum stöðum, en eigi ella.
En ef ómagi andast eða göngumaður í haga úti eða á landi manns, þá á sá það fé að taka er landið á, er hann hefir á sér, en erfingjar það er í öðrum stöðum er, og á sá það fé er hann fer þar með er skylstur er að færa lík hans til kirkju, en frændur annað fé.
Sá maður er með húsum fer landsofringi réttur, og er hann hvorki til ungur né til gamall að vinna, eða fara þeir að sjálfræði sínu þó að þeir sé gamlir, og skulu þeir eigi arf taka meðan þeir fara svo, og eru réttlausir.
9. UM FJÁRVARÐVEISLU UNGRA MANNA OG ÓMAGAEYRI.
Faðir skal hafa fjárvarðveislu barns síns og svo vöxtu. En ef eigi lifir faðir þá skal bróðir samfeðri. En ef eigi er bróðir samfeðri þá skal taka móðir. Nú eru þeir menn svo þrír að eigi býður undan fjárvarðveisluna né svo vöxtuna. Svo skal til fjárvarðveislu taka sem til arfs.
Ef þeim manni tæmist erfð er yngri er en sextán vetra gamall, þá skulu þeir menn varðveita fé það er arf áttu að taka að hinn unga mann, þeirra manna er fjárvarðveislu eigi bæði síns fjár og svo annarra manna ef undir þá ber. Svo skal fjárvarðveislu skipta í knérunna sem arfi. Sá skal ómaga varðveita er fé varðveitir. Þeir menn skulu láta virða fé það við bók er varðveisluna eigu, hinn fimmta dag viku þann er sjö vikur eru af sumri, að heimili hins dauða, og virða til lögeyris. En ef sá er heilagur þá skal virða hinn næsta dag eftir rúmhelgan. Skal kveðja búa fimm, landeigendur, viku fyrr eða meira méli, þá er réttir sé að tengdum í kviðum. Ef búar koma eigi sumir að virða ómagaeyri, þeir er kvaddir eru, og er rétt þeim er kvaddi þá að kveðja aðra búa í staðinn þeirra. Ef þeir eru þó nokkurir þar komnir búarnir, er kvaddir voru, og réttir að tengdum, og verður þá þó jafnrétt þeirra virðing allra saman. Það er og rétt þeim manni er búana kvaddi að fara til heimila þeirra og stefna þeim búum er eigi koma til að virða féið, enda voru þó kvaddir, og skal hann telja þá útlaga þrem mörkum og kveðja til heimilisbúa fimm á þingi þess er sóttur er, enda á dómur að dæma á hendur þeim virðingina fjórtán nóttum eftir vopnatak.
Það er og rétt að virða þar fé það er mest er saman. Þeir skulu þar um kveðja búa er féið skal virða. En ef búar koma eigi til, þeir er kvaddir voru, eða vilja þeir eigi virða, þá varðar hverjum þeirra þriggja marka útlegð, og á dómur að dæma á hendur þeim virðingina fjórtán nóttum eftir vopnatak. Þeir skulu fé það allt láta virða er hinn ungi maður tekur að erfðinni, nema lönd eða goðorð ef til er. Nú skulu þeir menn er féið láta virða sýna búum það fé allt er í gripum er, en telja aðra aura, nema búum sé svo kunnigt fé það að þeir vili þó virt hafa, og verður þá þó virðing þeirra rétt. Þar skal maður engu lóga af því fé áður virt sé, er hinn andaði maður hefir átt, nema sá hafi bú átt, og þurfi að kaupa í búið annaðtveggja mat eða hey, og skal það kaupa sem þarf hvorttveggja.
Sá maður er hins unga manns fé á að varðveita skal nefna sér votta tvo eða fleiri að því hve til mikils fjár búar hafa virt. Búar skulu vinna eið á lengur er þeir hafa virt féið, að því að þeir hafi svo virt sem þeim þótti réttast. En síðan skal nefna votta að því að hann tekur við fé því er hinn ungi maður á, og búar hafa þá virt, til þess að hafa þá ávöxtu af og ábyrgjast að eigi þurfi innstæður, nema ómagar komi á hins unga manns fé.
Ef sá situr utan fjórðungs er féið á að varðveita, og skal hann varðveita, og færa þó hvergi síðan úr þeim fjórðungi sem féið er áður mest saman. Nú ef féið er í fleirum fjórðungum en einum, þá skal hann þangað færa allt féið sem áður var mestur hluti, nema lönd sé í öðrum fjórðungi en í öðrum lausir aurar, þá skal þangað færa sem land er. Nú eru lönd fleiri en eitt, og skal þar virða sem það land er er dýrst er.
Ef hvalur kemur á land hins unga manns [K: eða viður, þar skal hval láta virða og leggja við innstæða hins unga manns], og svo viðarverð það er af því gengur er þar þarf að hafa til húsa á löndum þess hins unga manns, og skulu þeir fimm búar virða, landeigendur, er næstir búa rekanum.
Ef sá maður færir fé það fjórðunga í millum, er varðveita á féið, annan veg en nú er talið, og varðar það fjörbaugsgarð. Það er stefnusök, og skal kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.
Ef erfð ber undir hinn unga mann, þá skal það fé láta virða og fylgja innstæðanum.
Ef óskyldri menn taka til fjárvarðveislu en áður talda eg, og er þá kostur að bjóða undan þeim manni varðveisluna fjárins ef það vill. Sá maður á það að gera er hálfu meira fé á en ómaginn. En ef hann á eigi hálfu meira fé, þá skal hann fá til með sér, hvort er hann má heldur, einn mann eða tvo, þá er þeir eigi allir hálfu meira fé en ómaginn. Sá maður á þó að hafa féið er áður hafði ef hann vill, ef hann á jafnmikið fé sem ómaginn. Eigi skal undan manni bjóða áður undir mann kemur féið, og hann hefir haft tólf mánaði að gjöldum eða handsölum. Við þann kost skal hvortveggi þeirra hafa féið, ef að lögum er undan boðið, að þeir skulu bjóða að leggja lögleigu á féið eða leiga lögleigu, enda skal eigi meta fúlgu við ómagann. Nú eru ómagar aðrir á fénu, þá skulu þeir neyta vaxtanna, nema vextirnir sé minni, þá skal neyta þess af innstæðanum.
10. UM UNDANBOÐ FJÁR.
Ef faðir eða móðir kemur á fé hins unga manns, og skal þeim öllum jafnspart vera. En ef firnari menn koma á fé hans, og þó þeir er hann á arf eftir að taka, og skal hann eiga sér framfærslu umfram þar til er hann er sextán vetra gamall. En áður aðrir ómagar koma á fé hins unga manns, þá skal hann eiga sér fjögurra missera björg á lengur er hann er sextán vetra, og svo þeim ómögum öllum er áður eru á fé hans.
Sá maður er féið vill undan bjóða þeim manni er varðveitir, hann skal stefna honum heim viku fyrir sumar og segja honum að hann man koma þá að bjóða féið undan honum að sumarmálum, en hann skal kjósa þar þegar. Nú kemur hann þar að sumarmálum, og skal hann nefna sér votta að því að hann býður fé hins unga manns undan honum lögboði, og býður vöxtu á féið, enda skal hann undan honum hafa boðið fyrir miðjan dag, en hinn skal hafa kosið að eykt. Ef sá er eigi heima, enda var honum heim stefnt, eða svarar hann engu um, og er þá sem hann kjósi undan sér féið. Ef hann kýs undan sér féið, þá skal hann mæla hins unga manns máli. En ef hann kýs að hafa féið, og skal sá er undan honum bauð féið mæla hins unga manns máli þá. En þá er kjörið er handsalað er. Þeir skulu allir handsalast, sá er þá skal féið hafa og þeir er honum fylgja, að þeim þeirra er eigi skal hafa féið. Þeir skulu og það handsala að hinn ungi maður skal hafa lögvöxtu af fé því, og þeir munu eigi meta fúlgu við hann. En ef hann vill eigi svo bjóða féið undan honum, og frestar hann meir, þá skal hann fara til heimilis þess manns eða finna hann sjálfan að máli, þann er féið varðveitir, viku fyrir þing eða meira méli og segja honum að hann mun bjóða undan honum féið á vorþingi því er sá heyr er féið varðveitir. Hann skal þá bjóða undan honum féið á því vorþingi, og mæla þar í þingbrekku ef hann finnur hann eigi sjálfan að máli. Hann skal svo fara því máli öllu sem áður var tínt.
Slíkan kost eigu og utanfjórðungsmenn ef þeir vilja bjóða undan manni féið, enda eigu þeir kost að bjóða undan féið á alþingi ef þeir vilja, og hafa undan boðið miðvikudag í mitt þing, en hinn skal kjörið hafa áður lýsingum sé lokið. En ef sá er eigi á þingi er féið varðveitir, þá skal hann bjóða undan honum að Lögbergi, en hinn skal kjósa annað sumar þar í mitt þing. En hvort sem undan manni er boðið féið á vorþingi eða á alþingi, þá skal hann reiða af hendi sér féið hið næsta vor eftir það er hinn kýs undan sér féið áður, og gjalda með leigum þá. En ef að sumarmálum er undan honum boðið féið, þá skal hann hið sama vor af hendi leysa og reiða að gjalddögum ef þeir eigu þá saman. En ef þeir eigu eigi gjalddaga saman, þá skal hann gjalda hinn fimmta dag viku, þann er sjö vikur eru af sumri að heimili sínu. Hafa á hann tuttugu aura óleigis.
Nú fylgir skógur landi hins unga manns, og skal hinn þar höggva til húsa við og bæta búsbúhluti og brenna kol til lédengingar. Nú gerir hann nýja búsbúhluti, og á hinn ungi maður þá. Það er og ef fé verður óvirt eða rangvirt, þá á hinn ungi maður vöxtu á fé sínu.
Nýmæli: Eigi á maður að selja arfvon ef sá segir ósátt sína á er næstur stendur nema jafnmæli berist. [Y: Jafnmæli skulu meta fimm búar.]
Þar er maður kaupir arfvon að öðrum, þá á það að haldast hvarvetna þess er þeir kaupa saman, véllaust og breklaust, ef þeir eigu viður að skiptast, eða þeirra erfingjar.
Nú andast sá er arfinn seldi, og standa aðrir menn til arfsins en þeir er kaupið áttust við eða þeirra erfingjar, þá skal arfur sá svo fara sem ekki væri um mælt. En arfkaupið á aftur að hverfa með vöxtum undir þann er reitt hafði, eða hans erfingja, ef hinn andaði átti nokkuð fé til eða hans erfingjar, og á það að heimta hið sama sumar er arfvonin skiptist. En ef hann átti ekki fé eftir eða hans erfingjar, og missir sá þá alls er við hann keypti.
11. OF GJAFAR OG ARFSKOT.
Ef menn gera börn sín heiman, og andast þau barnlaus, þá skal jafnmikið hvort þeirra hafa sem til lagði, faðir og móðir, og svo erfingjar þeirra ef þau eru önduð. Ef maður gefur til heimanfylgju, og á hann kost að mæla annaðtveggja ef hann vill, að festum eða að brullaupi, að það fé skal hann taka heimilt, ef hún andast barnlaus, undir sig eða sína erfingja, og það er við er goldið.
Eigi á maður að selja land undan erfingjum þá er hann er áttræður eða eldri, og svo ef hann liggur í helsótt, nema erfingjar lofi. En þó skal maður sjálfráði fyrir fé sínu meðan hann vill, ef hann ræður til fulls eyris. Sjálfur skal maður ráða fyrir fé sínu meðan hann ræður til fulls eyris.
Tíunda á maður fé sitt hinni meiri tíund til sálubóta sér, ef hann vill. Eigi á hann oftar að tíunda hinni meiri tíund fé sitt en um sinn, fyrir ráð skaparfa síns. Nú ber fé undir þann mann síðar, eða vex honum fé. Þá á hann að tíunda sem hann geri hina meiri tíund um sinn af öllum aurum sínum þeim sem hann á.
Nýmæli: Ef maður gerir eigi hina meiri tíund af fé sínu, þá á hann að gefa sálugjafar jafnmikla aura sem hann hefði tíundað allt fé sitt um sinn hinni meiri tíund. En það eru sálugjafar ef maður gefur þeim mönnum er eigi eigu að gegna þingfararkaupi, og þurfu fé sitt eða verk til ómagabjargar að hafa.
Gefa á maður vingjafar að sér lifanda ef hann vill.
Það er og að erfinginn á kosti tvo ef honum þykir hann til arfskota ráða. Þá skal hann stefna honum til fjörbaugsgarðs, eða telja hann af ráðunum fjárins ella, og telja sér ráðin, og kveðja til níu búa á þingi, hvort hann hafi arfskot í þeim ráðum ráðið eða eigi er hann hefir um stefnt. Þeim varðar og fjörbaugsgarð öllum er við taka, ef þeir hafa allir saman um ráðið, enda berist á hinn arfskotið, enda á að dæma rof gjafanna. Honum á að dæma varðveislu fjár þess alls er hinn átti, og svo ómaga þá er hinn átti fram að færa. Engi maður á að rifta gjöf sína.
Nú sér maður til launa, eða heitur hinn honum fyrir gjöfina, og koma þau eigi fram, en þeir höfðu það í málum sínum haft að launa skyldi, og á hann tilkall til jafnmikilla aura sem kvaddir búar fimm á þingi ráða að bera hvers vert var.
Ef leysingur ræður arf undan frjálsgjafa sínum, þá á hann að brigða honum frelsi og telja sér fé það allt er hann á, ef hann vill, eða hans erfingjar ella.
Maður á að gefa barni sínu laungetnu tólf aura, ef hann vill, fyrir ráð skaparfa síns, en eigi meira fé nema erfingjar lofi. Laungetinn maður skal svo arf taka að börn sín og leysingja sem skírgetinn maður. Ef maður gefur öðrum manni tólf aura fjár eða meira, þeim er hann á hvorki að launa lið né gjafar, enda verði eigi hálflaunuð gjöfin, hann á heimting til síns ef hinn andast. Eigi skal maður meira gefa þeim syni sínum en tólf aura er eigi er skírgetinn, og því aðeins svo ef eigi kemur minna á annarra hlut, nema erfingi lofi. Eigi skal maður meira fé gefa dóttur sinni en von sé að sonur hans hljóti jafnmikið fé af arfi hans, ef honum þverr eigi fé þaðan frá er þá var er hann gaf fé dóttur sinni. En ef von er að synir hljóti allir jafnmikið fé sem dætur hafa, þá er rétt að maður gæði þær sem hann vill fyrir þeirra sakir, þótt þeir sé nærri arfi.
12. UM ARFSÖL.
Ef maður vill seljast arfsali og eigi til þrota, þá á það að halda ef jafnmæli berst, en því aðeins ella ef erfingi segir sátt sína á. En ef erfingjanum þykir eigi jafnmæli, og á hann að stefna um og kveðja til fimm búa á þingi hvort það sé jafnmæli eða eigi. Nú bera þeir eigi jafnmæli, og verður þá rof máls ef fimm aura munur er eða meiri. Ef hins erfingjum þykir of lítið féið tekið, og ræður hann öðrum mönnum eigi á hendur ómagann en sjálfum sér, nema jafnmæli berist, eða erfingjar hafi sátt sína á sagða.
Hvervetna þess er arfsöl rofna, þá á sá maður er við ómaga tekur heimting fjár þess alls er ómagi hefir eigi neytt. Það skulu heimilisbúar fimm ómagans skilja hvers hann hefir neytt af fé því, eða hvað eftir er.
Engi maður á að seljast arfsali frá ómögum sínum, þeim er hann á að ganga í skuld fyrir, né frá þeim er á fé hans eru komnir áður, né frá þeim er hann á arf eftir að taka. Fjörbaugsgarð varðar ef maður selst frá þeim ómögum svo að þeir sé eigi staðfestir.
En nú eru engi arfsöl að lögum nema kvaddir sé heimilisbúar fimm ómagans, þrem nóttum fyrir eða meira méli, að gera máldaga með þeim. En búar skulu vinna eiða síðan er máldaginn er ger, að því að þeim þyki það jafnmæli vera. En hinir skulu að því vinna eiða að þeir hafa sagt búum til allra aura þeirra er ómaginn skal finna með sér, og sé eigi í því undirmál með þeim. Enda skal sá er arfsali selst bregða búi sínu, ef hann býr, og fara heim með hinum, ella er ekki arfsalið. Nú gengur fé af því er hann hefir arfsali selst, eða tekur hann erfðafé síðan, og eigu þar ómagar á því fé að vera ef á hendur honum koma.
Sá maður er arfsali seldist á að taka arf ef í hönd honum ber, en erfingjar hans skulu það fé taka eftir hans daga. Hvorki skal hins hlutur við batna né versna.
13. UM DÁNARFÉ OG UM ERFÐIR ERLENDIS.
Ef maður andast erlendis, þá á sá maður að taka það fé er skylstur er þar hinum andaða, þeirra manna er útfært eigu. Hann skal láta virða fé það til brennds silfurs allt. En ef nokkuð er óvirt, þá er sem allt sé óvirt. Ef erfinginn er þar, þá þarf hann eigi að láta virða ef hann á allan arfinn.
Fé það skulu virða íslenskir menn fimm. En ef eigi náir þeim, þá er þó rétt að húsfastir menn sé tveir til, en þeir skulu virða fé það við bók. En ef þeir gera eigi virða, þá skal hann kveðja að vinna eiða að, enda verður þá þó rétt virðing þeirra ef það ber tylftarkviður, að þeir virði svo sem þá mundu þeir ef þeir virði við bók, enda beiddi hann þá að lögum. En hann skal eigi finna meira af fénu en kaupa leg eða líksöng eða blæju eða kistu. Rétt er að þeir gefi mútur af fénu. Skal hann það taka af, ef hér ber það kviður að hann gaf sem minnst er þó fengi hann féið.
Hann skal allt féið láta virða, það er hann náir. Hann skal vega láta gull eða brennt silfur og það fé allt er að vættum skal kaupa. En hvers kyns vara sem er, sú er menn kaupa álnum, þá skal mæla láta og skulu virðingarmenn mæla, þeir er réttar álnar hafa, og svo vega það er skal og sjá að það sé rétt vegið. Hann er skyldur að sýna þeim fé það allt er hann náir. Hann skal þar láta virða fé það allt er mest er saman þá er hann tekur. Hann skal hvergi færa það fé á brott úr þeim garði áður allt er virt. Hann skal vitni nefna að síðan, er lokið er fjárvirðingum, að hann tekur við fé því er hann lét þar virða og leggur sína ábyrgð á. Hann skal gjalda hálfu minna út hér en hann tekur austur. Það skal virða til sex álna aura, og gjalda hér hálfa mörk fyrir eyri. Nú náir hann eigi öllu senn þar fénu að láta virða. Þá skal hann þar það fé láta virða sem hann tekur, og fara svo að virðingu sem áður var tínt.
Austur skal taka arf vorra landa næstabræðri eða nánari maður, enda er nú heimting til fjárins, hvegi lengi sem það liggur. Sýknir menn, og þeir menn er landvært eigu út hér, skulu taka dánarfé til úthafnar, en eigi aðrir. En ef maður tekur dánarfé austur, þá skal hann eigi kaupa meira í skipi áður virt er en kostur er að selja ef hann vill. Ef fé er á skipi eða að skipi, þá skal hann það fé virða láta að bryggjusporðum og fara svo að virðingu þar sem annars staðar. Ef féið er í búlka þá er hinn andast, og er-at hann skyldur að ábyrgjast það fé. Hann skal og eigi hafa vöxtuna, ef hann lætur eigi virða féið. Enda er þó rétt virðing þeirra, ef þeim er það fé jafnkunnigt, er í búlkanum er, sem þeir sæi.
Ef hann á skip á hlunni þá er hann andaðist, og er-at hinn skyldur að ábyrgjast áður fram er dregið skipslengd. Eigi skal meira kaupa í skipi áður virt er féið en kostur er að selja. Hann skal kjósa með vitni hvort hann vill ábyrgjast féið, eða vill hann eigi. En því aðeins á hann vöxtu á fénu ef hann ábyrgist. En ef hann kýs hvorki um, þá skal hann ábyrgjast féið, og hafa ekki af vöxtunum.
Ef maður andast á Saxlandi eða sunnar, það fé skal eigi láta virða áður það kemur til Danmarkar, en ef þar er hætt fé hans eða fjörvi, þá skal í Noregi. Ef maður andast á Englandi eða í Eyjum vestur eða í Dyflinni, að það fé skal eigi virða áður hann kemur þar er óhætt sé fé hans og fjörvi. Nú kemur hann í Noreg með, og er annar maður þar skyldari. Þá skal hann láta út ganga féið að lögum. Hann skal hafa ávöxtinn allan, þann er orðinn er þangað til, hvargi er hann tók.
Ef maður fer út hingað úr Danmörk eða af öðrum löndum en úr Noregi með dánarfé og treystist hann eigi að láta virða féið, þá skal hann heimta til skipverja þá er hann vill, þegar er þeir eru í haf komnir, og segja þeim hve mikið fé það er og nefna vitni að því að hann tekur fé það til ábyrgðar, og eignast hann þá vöxtu á fénu slíka sem hann tæki í Noregi að lögum, ef hann fær þann kvið að hann mundi virða láta fé það ef hann kæmi til Noregs, og vissi hann það að hann mundi ná út að hafa fyrir Noregsmanna sökum.
14. UM FÉLAG.
Ef menn gera félag með sér hér á landi, og fara á brott, og andast annar, og skal-at hann skilja félagið áður hann hittir erfingjann. Hann skal neyta af fénu öllu sem mælt var með þeim.
Nýmæli: Eigi skal maður austur selja arfvon sína, né þann arf er honum hefir hér tæmst, ef hann hefir eigi sjálfur til komið. En halda eigu þeir önnur kaup öll, sem hér, um þau fé öll er hann á hér eftir, og svo þau er hingað koma.
Nýmæli: Ef maður tekur fé á Grænalandi, og skal hann láta virða féið jafnt sem austur og fara utan á því skipi er fyrst fer. Slík sókn er þar til hin sama, ef hann ger eigi utan fara, sem þá að austur tekið sé féið, og svo vörn.
Ef þeir gera félag með sér erlendis, þá skal hann kost eiga að skilja félagið ef hann vill og láta virða féið og hafa slíka kostu á sem hann væri frændi hins dauða, en laust skal hann láta þegar er nánari maður kemur til.
15. UM HJÓN TVÖ ERLENDIS.
Nú andast annaðtveggja hjóna erlendis. Þá skal það þeirra hafa fé það út er eftir lifir og láta fyrir engum manni laust nema fyrir erfingja. Nú andast þau bæði austur, og koma þeir menn til af hvorratveggja hendi er réttkomnir eru til úthafnar fjárins. Þá skulu þeir svo skipta með sér sem hvort þeirra hafði átt fé við annað, ef þeir vitu það. Ef þeir vitu eigi hvern hlut hvort þeirra hefir átt í því fé, þá skulu frændur konu hafa þriðjung en hinir tvo hluti. Nú koma fleiri menn til jafnnánir, þá skal skipta með þeim að jafnaði í knérunna alla, þeim er lög vinna til þar.
Nú hvar þess er sá maður náir eigi út að hafa féið, er til er kominn, af þeim er út hefir, enda vinni hann lög til austur, þá á hann heimting hér til að þeim er út hafði, til svo mikils fjár sem hann væri til kominn ef hann hefði út haft, enda væri að lögum tekið féið austur. En erfingjar eigu þann hluta sem þeir eru til komnir að heimta af þeim er út hafði, enda ábyrgist sá við þá hvoratveggju er út hafði féið. Hann skal fara út hið næsta sumar, en þá er hann kemur út, ef hann vill utan fara hið sama sumar, þá skal hann gera orð erfingjum, og gjalda þeim þá þegar er þeir koma til, og skal hann gjalda hálfu færri aura hér, brennda, en hann tæki ef hann hefir svo að virðingu látið fara, og að fjártekju, sem nú var talið. En ef eigi er svo að farið, þá er sem óvirt sé. Hann skal gjalda mörk sex álna aura fyrir eyri hvern hér ef hann vill. Það fé skal gjalda hér út í brenndu silfri eða í léreftum nýjum eða vaxi eða vöru íslenskri eða í búfé, og gjalda allt að því lagi sem þar gengur er af hendi skal reiða.
Nú fer hann eigi tvívegis, þá skal hann gjalda hið næsta vor því er hann kemur út, að heimili sínu, og gjalda hinn fimmta dag viku er sjö vikur eru af sumri. Nú leysir hann fé það eigi af hendi sér sem mælt er. Þá á erfinginn kost að stefna um, og um svo mikið fé sem hann ræður á að kveða, og hann getur gögn til að hinn hafi tekið, og kveðja til tylftarkviðar hve mikið fé hann tók, þann goða er sá er í þingi með er sóttur er. Þess á hann og kost að stefna annarri stefnu um vöxtu, svo mikla sem hann getur gögn til að á það fé hefði gengið út hingað, og er rétt að kveðja til hvort er hann vill, heimilisbúa hins níu eða tylftarkviðar, hve miklir vextir sé á því fé. Hinn á að færa þær varnir fram að láta bera vætti þau í dóm er hann nefndi að virðingu fjárins austur, og svo þau er hann tók féið til ábyrgðar, og öll þau vætti er hann nefndi þar austur að fjártekjunni, enda skulu það allt verða vætti hér er austur eru vitni nefnd. En allt það er honum skortir í um vættin, þá skal sá kveðja til tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er, og fylla svo sókn sína ef hann vill að vöxtunum komast. Enda á svo sá er svarar að kveðja til tylftarkviðar til alls þess er hann hefir eigi vitni til. Nú skal dómur að því dæma síðan sem þeir fá gögn til.
Of þann mann er réttkominn væri til úthafnar fjárins, enda hafi hann til kallað austur að lögum, þá skal sá svo fara að heimtingu fjárins út hér að sækja við hin sömu gögn sem áður var tínt, nema það er hann hefir höfð vitni við tilkallið austur, og skal hann þau öll láta fram bera hér. Nú hefir hann eigi vitni til. Þá skal hann kveðja til tylftarkviðar til þess alls er hann fylli sókn sína við, hve hann hefir farið að tilkalli fjárins austur, og skal hann þann goða kveðja til er hann er sjálfur í þingi með, til þess alls er hann hefir eigi vitni til.
Ef maður andast í hafi eða að skipi, svo að eigi kemur virðingu að fénu, þá eigu þeir menn varðveislu fjárins er taka ætti fé eftir þann mann er frændlaus væri út hér og andaðist að skipi. Þeir eigu að gera orð erfingjum þegar er þeir koma hingað til Íslands, og selja þeim það fé þegar er þeir koma til. Nú koma þeir eigi til áður þeir fara á brott, þá skulu þeir fé það leggja upp og selja þeim manni, landeiganda, er næstur býr þeirri höfn er þeir báru flestir föt sín af skipi. Enda skulu þeir svo fara með því fé, ef maður andast að skipi þá er þeir skulu héðan fara, sem áður var tínt, eða svo ef þeir búa í landfestum við Ísland, eða þær eyjar hér sem byggðar eru, þá eða síðan á því sumri.
Ef þeir fara annan veg með því fé en nú er talið, þá varðar fjörbaugsgarð. Enda varðar og fjörbaugsgarð þeim mönnum öllum er samskipa fénu fara utan vísir vitendur. En ef sumir vilja skil á gera en sumir eigi, þá varðar þeim er óskil gera á. En það eru stefnusakir, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi um þann stað sem sökin gerðist.
Ef maður leysir dánarfé af hendi sér að lögum, þá skal hann segja til allra aura þeirra er hann tók. Ef maður leynir fé því nokkuru, þá á sá orði að ráða um er féið á að taka. Ef maður reiðir dánarfé af hendi, þeim er taka á, og læst úr vera laus, og verða þeir á það sáttir. Nú spyr hinn, er féið átti að taka, að hann hefir leynt sumu fénu, og verður honum það ekki að vörn þótt þeir hafi á sæst.
Ef maður fer á brott með fénu, því er hann tók austur, þá á sá kost er taka á að segja lögleigu á fé það. En ef hann vill eigi það, þá skal hann kost eiga að sækja um innstæðann og um vöxtuna, svo mikla sem tylftarkviður ber, ef hinn á fé út hér, og skal þá sækja í það féið. Þess á hann og kost að stefna um brotthöfn fjárins og láta varða fjörbaugsgarð og sækja við tylftarkvið, enda á svo að fara að féránsdómi sem hann yrði um alþingissáttarhald sekur. Ef hann fer eigi út hið næsta sumar með fénu, þá á erfingi kost að sækja hann til fjörbaugsgarðs. Enda á hann kost að segja lögleigur á féið ef hann vill það heldur. En ef sá maður á fé út hér, er með arfinum fer, þá á erfinginn kost að stefna um ef hann vill, og kveðja til tylftarkviðar til þess hve mikið fé hann tók. Hann skal stefna þeim manni um er fé hans hefir út hér og stefna í það féið er hinn á, er erlendis er, og kveðja níu búa til þess hve mikið fé hann hefir hins er erlendur er. Ef maður vill verja fyrir hann, þá skal hann kveðja til tylftarkviðar hvort hann yrði sæhafi til annarra landa á því sumri er hann vildi út hingað fara, og svo ef hann náði eigi útför fyrir ríkismönnum, eða hann mátti eigi á skip komast, hvatki er til þess gengur.
16. OF ÞAÐ EF SKIP HVERFUR.
Ef skip hverfur, og sé ekki til spurt á þrem sumrum, enda sé spurt af þeim löndum öllum er vor tunga er á og svo af því landi sem þeir fóru af, þá skulu vorir landar það leggja undir þegnskap sinn að ekki sé spurt til þeirra á þrimur sumrum þeim hinum næstum eftir og hyggja þeir þá dauða vera. Enda skal þá svo meta sem þeir sé andaðir, og eigi fyrr, nema reköld sé kennd af skipi þeirra. Þá er þegar rétt að sanna dauða þeirra.
Þótt þeir menn lifi er dauði er sannaður þá er þeir atburðir verða sem nú er talið, að þeim mönnum varðar ekki við lög er þeirra manna dauða hafa sannað, og svo skal um fjárvarðveislu þeirra fara, síðan er dauði þeirra er sannaður, sem þeir sé andaðir.
Ef ekki spyrst til manns, og skal svo vera sem hann lifi þar til er dauði hans er sannaður.
Hvar þess er menn farast, svo að menn viti eigi hver þeirra lengst hefir lifað, þá skal svo vera sem þeir hafi allir senn andast. Engi skal þeirra arf taka eftir annan. Hvort sem er að menn farast á skipum eða verða fyrir skriðum eða vatnagangi eða hverngi bana er þeir fá, þann er aðrir menn vitu eigi misdauða þeirra, hvar þess er það spyrst síðar að þeir hafa sumir lengur lifað en sumir, þá skal svo fara um arftekjur þeirra og um fjárvarðveislur sem það reynist.
17. OF ÞAÐ HVERSU MENN SKULU SANNA DAUÐA MANNA ERLENDIS.
Þar er menn sanna dauða manna erlendis, þá skal svo vanda menn til sem að sanna erlendisvíg. Ef maður fær manni fé austur að kaupi eða að láni og mælir hann fé fyrir, og skal hér tylftarkvið til hafa hve mikið fé það var ef eigi eru vitnismenn til. Stefna skal að festarhælum, enda er rétt að heimili eða þar er hann hittir hann að máli. Enda er kostur að stefna þeim til útgöngu er fé hans hefir hér, og hafa þar til níu búa kvið, hvort hinn hefir jafnmikið fé hins er austur er, sem hann kallar til. En tylftarkviður skal skilja hvað hann fékk honum fjár austur.
Sá einn maður skal arf taka út hér af danskri tungu eftir sinn frænda er hann er réttur arftökumaður hins andaða, enda liggur féið sér hér aldregi.
[K: Ef vor landi andast austur, þá skal féið taka næstabræðri eða nánari, en féið liggur sér jólanótt hina þriðju.]
Ef maður varðveitir land manns þess er hann á fjárvarðveislu, hann skal að húsum gera svo að eigi falli ofan. Nú eru þá verri hús er hann selur af hendi sér en þá er hann tók við, og á hann eigi það að bæta. Ef þau eru betri en þá er hann tók við, og skal eigi honum það bæta. Nú hefir hann ný hús ger, þau er eigi voru áður, og skal hann þau ofan brjóta og hafa á brott við, ef hinn vill eigi kaupa. En ef þar er skógur, og skal hann höggva þar við til húsa og bæta búsbúhlutu og brenna kol til lédengingar. Nú gerir hann þar búsbúhlutu nýja, og á ómaginn þá.
Skuldarmaður sá er í lögskuld er tekinn er arfi hins fríða en eigi hins ófríða. Nú er hann úr skuldinni, og er hann þá hvorstveggja arfi.
Ef maður er lengur á brott héðan en þrjá vetur, þá skulu þeir menn varðveita fé hans er taka ætti ef hann væri andaður, þótt hann hefði áður lengri máldaga á gert.
Ef maður tekur dánarfé austur, þá á hann að gefa mútu til fjártökunnar ef hann náir eigi ella, og gefa sem hann má minnsta.
Ef hér andast útlendur maður af danskri tungu, þá skal fé hans bíða hér erfingja leigulaust. Ef vor landi andast austur, þá skal féið taka næstabræðri eða nánari.
Nýmæli: En féið liggur sér nú aldregi.
18. UM ARFTÖKUR MANNA.
Eftir systur sammæðra og skírgetna skal sonur laungetinn taka arf eftir föður sinn. Því næst dóttir laungetin. Eftir dóttur laungetna skal arf taka bróðir samfeðri laungetinn, þá bróðir sammæðri laungetinn [þá systir samfeðra laungetin]. Síðast systir sammæðra. Þessir fjórir skulu fram færa systkin sín, ef þeir hafa fé til, og skal svo fara ómegð sem arfur.
Nú eru systkin þeirra erfðarómagar þeirra, og skulu báðum þar jafnsparir aurar jafnan.
Bróðir samfeðri laungetinn og annar sammæðri laungetinn eru aðiljar vígsaka eftir systkin sín, og þeir eigu festar systra sinna og svo legorðssakir um þær, svo snemma sem eru til arftöku. Systir samfeðra laungetin, og önnur sammæðra, eigu svo réttafar að taka eftir systkin sín sem arf, enda eru svo bændur þeirra, og eigu svo festar ef þess þarf.
Eftir firnari menn eru skírgetnir menn til arfs og ómegðar, ef eigi taka systkin. Þá eru næstir arfi föðurfaðir og móðurfaðir, sonarsonur og dóttursonur. Síðast taka arf föðursystir og móðursystir, bróðurdóttir og systurdóttir. Þaðan frá er jafnan hinn nánasti niður til arftöku.
Þeir menn er til biskupsstóla eða til munklífa vilja ráðast á landi voru, eða hafa ráðist, hversugi mikið fé er þeir gefa með sér eða hafa gefið að erfingja leyfi, og ráði þeir staðfestu ómögum sínum, þá skal engi rifting til þess vera þó að eigi komi búar til að vinna eiða að, og þó að aðrir verði erfingjar en þá voru er arfsalið var, og er þó engi rifting til.
Þar er menn leggja fé til kirkju að biskupa ráði og að erfingja sátt, þá á það jafnt fast að halda sem í lögréttu sé lofað, og eru slík viðurlög ef frá er brugðið.
Barn það er móðir er mundi keypt er þá arfgengt er lifanda kemur í ljós, og matur kemur niður.
Þar er menn verða fyrir skriðum eða vatndauðir eða vopndauðir, eða hverngi veg er þeir fá einn dauða allir, svo að engi maður kemur á braut, og sjá menn eigi misfarar þeirra svo að viti deili á, þar skal meta sem þeir verði allir senn dauðir fyrir því að engi skal arf taka eftir annan. Ef nokkur kemur á brott, og skal það standa er sá segir til hver þeirra lengst lifði.
Áttræður maður eða eldri skal hvorki selja land né goðorð undan erfingja sínum nema hann megi eigi eiga fyrir skuld.
Sá maður er með húsum fer að sjálfræði sínu skal eigi arf taka meðan hann fer svo.
Nú andast enskir menn hér, eða þeir er menn kunnu eigi hér máli eða tungur við, og er eigi skylt að láta arf þeirra út ganga, nema hér á landi hafi verið fyrr faðir eða sonur eða bróðir hins dauða, og hafi þeir þá við kannast. Erfð utanlandsmanna er eigi skylt að láta laust nema fyrir erfingja, sú er hér er að lögum tekin áður.
Þar er maður veitir manni fyrir Guðs sakir, og sé hann eigi til kominn að færa hann fram, og andast ómaginn, og ryðst svo til að ómaginn átti fé eftir, og á sá það að taka ef hann andast, en eigi erfingjar.
19. OF ARFSAL.
Ef menn seljast arfsali, þá skal annartveggi þeirra er saman kaupa vinna eið að því fyrir búum fimm að sá er kaupmáli þeirra sem þeir segja, og eru engi undirmál né lausakör á mælt, en ella verður eigi fast kaup þeirra.
Ekki arfsal á fast að vera nema fimm búar vinni eiða að að þeim þyki jafnmæli, og er sem ómælt sé ellegar. Þótt eiðar sé unnir að, og skal eigi halda ef maður hefur hvortki lagt fyrir menn fé né fjölskyldi á tólf mánuðum hinum næstum eftir kaup þeirra.
Ef kona elur börn með óheimilum manni, og leynir hún frændur, enda gelst þó fé um. Hún á eigi varðveislu fjár þess þótt börn hennar til arfs alin eigi að taka [K: enda á hún eigi arf að taka síðar].
20. OF ÞANN MANN ER Á VERÐGANGI ER ALINN.
Þar aðeins er sá maður arfgengur er á verðgangi er alinn og á að taka erfðir og þau gæði er því fylgja, ef faðir hans eða móðir gengu eigi fyrir ómennsku sökum, og þó eigi fyrr en hann hefir haft vist sex misseri.
Þar er það ber kviður að maður gengur fyrir vanheilsu sökum eða elli, og á hann að taka þá réttafar allt sem vistfastur maður, og skal aðili hafa þriðjung af sátt. Nú órækir sá að sækja eða sættast á er aðili er, og eignast göngumaður sök, þá er reynt er að hinn óræktist.
21. OF ARFSKOT.
Fjárlóg öll þau er arfskot er í, þá er erfingi skyldur að segja ósáttir á ef hann vill rifta, hið síðasta á hinu þriðja alþingi þaðan frá er hann veit. Nú verður annar erfingi að, og skal sá sagt hafa fyrir fimm heimilisbúum sínum ósáttir á, á hálfum mánaði hinum næsta, eða á hinu næsta alþingi þaðan frá er hann veit að hann er erfingi.
Ef maður á land eða annan grip þann er annar á að selja ef sá vill, og skal hann sagt hafa ósáttir á með votta, öðrumtveggja þeim er við hafa keypst á tólf mánuðum hinum næstum eða að Lögbergi hið næsta sumar svo að lögsögumaður heyri, ella er ekki rof til um kaupið.
22. OF ARFSAL.
Maður á þess kost að seljast arfsali eða selja börn sín arfsali. Nú þykir þeim það eigi jafnmæli er til ómegðar stendur, ef hinn þrýtur er við tekur. Þá skal hinn segja ósátt sína á, og skal þá það mál halda með þeim, ef hann hefir eigi til þrots selt.
Nú þykir þeim of mikið til gefið, er arf á að taka eftir hinn, og skal hann kost eiga að rjúfa þann máldaga fyrir hið næsta alþingi. Eigi skal það mál lengur standa. Um það skulu búar bera, hvort þá var jafnmæli er arfsalsmáldaginn var ger, hvegi er síðan hefir skipast.
23. OF KONUR ÞÆR ER EIGI VORU ARFGENGJAR.
Konur þær er óarfgengjar voru af þeim rifjum að þær höfðu leynt barngetnaði sínum eða logið til faðernis barna sinna vísar vitendur, eða hafi þær legið með næstabræðra sínum eða nánara, eða systrungum tveim eða nánarum mönnum að sjálfræði sínu, þær skulu nú allar arfgengjar vera sem það hafi óorðið.
Það er nú af tekið í lögum að kona skyli eigi arf taka þótt hún hafi legið sér svo að einkaleyfis þurfi til að biðja. Það er og af tekið, er ritað var í fornum lögbókum, að um legorð laungetinna kvenna skyldi fjörbaugsgarð varða. Það skal þar skóggang varða sem annars staðar.
24. OF ARFKAUP.
Ef maður kaupir arf sinn sjálfur, þá á það að halda nema erfð skiptist áður hann andist. Þá er sem ómælt sé, og svo ef hann lógar ekki fyrir áður hann andast, eða leggur til guðsþakka. Og er það því að einu rétt ef allir menn lofa, þeir er til arfs standa og til ómaga, eða í lögréttu sé lofað ellegar.
Eigi á maður að selja arfvon sína ef sá segir ósátt á er næst stendur til, nema jafnmæli berist.
25. OF ÞAÐ EF SÁ MAÐUR ANDAST ER ENGI Á HÉR NÆSTABRÆÐRA EÐA NÁNARA.
Ef sá maður andast er engan á þann frænda eftir hér á landi er honum sé næstabræðri eða nánari, þann er arfgengur sé, þá skulu arf taka laungetnir menn næstabræðrar og nánari, og fara svo arftökur milli þeirra, hverir fyrstir eru til taldir eða þar næstir, sem áður er talið í lögum með hinum skírgetnum mönnum. Skulu þeir og skyldir til framfærslu við þá menn alla er þeim eru svo skyldir sem nú var tínt, ef eigi eru skírgetnir menn til framfærslu, og hafi hinir laungetnu menn fé til svo sem mælt er í lögum. En lýsa skal á hendur þessum mönnum á þingi, en eigi eið færa, og engar héraðsfærslur, og sækja svo sem þá menn er lýstir eru á hendur fjórðungsmönnum frændlausir. En búar skulu skipta að Lögbergi með eið við jafnnána, ef þeir hafa fé til.