Munur á milli breytinga „Lagasafn handa alþýðu (1885)/Sveitastjórnar-lögin“
(Enginn munur)
|
Núverandi breyting frá og með 13. október 2024 kl. 03:25
Lagasafn handa alþýðu | Stjórnar-stöðu-lögin • Stjórnarskráin • Kosninga-lögin • Sveitastjórnar-lögin |
1. gr. Stjórn sveitamálefna í sveitum Íslands skal falin á hendr hreppsnefnd í hverjum hreppi, sýslunefnd í sýslu hverri, og amtsráði í hverju amti.
2. gr. Í hreppsnefndinni skulu vera 3, 5 eða 7 menn eftir stærð hreppsins og fólkstölu; þeir skulu kosnir af þeim hreppsbúum, sem samkvæmt því, sem síðar er mælt fyrir, hafa kosningarrétt. — Amtmaðr ákveðr, áðr en kosning fram fer í fyrst skifti, hve margir hreppsnefndarmenn skuli vera í hverjum einstökum hreppi, eftir að hann um það hefir leitað álits vel metinna manna þar. Ef hreppsnefndin fer þess á leit eða samþykkir það, getr sýslunefndin breytt þeirra tölu nefndarmanna, sem þannig hefir verið sett. — 3. gr. Kosningarrétt og kjörgengi til hreppsnefndar á hver búandi maðr í hreppnum, sem hefir óflekkað mannorð, er 25 ára að aldri og er ekki öðrum háðr sem hjú, ef hann síðasta árið hefir haft fast aðsetr í hreppnum og goldið til hans þarfa, stendr ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk, og er fjár síns ráðandi. — 4. gr. Feðr og afkomendr mega ekki sitja í hreppsnefndinni í senn. — 5. gr. Nefndarmenn eru valdir fyrir 6 ár. Af þeim, sem kosnir eru í fyrsta skifti, skulu, að 3 árum liðnum, 2, 3 eða 4 ganga úr nefndinni, eftir því hvert tala nefndarmanna er 3, 5 eða 7 samkvæmt 2. gr. Geti nefndarmenn ekki komið sér saman um, hverjir úr skuli ganga, ræðr hlutkesti, en hinn hlutinn skal fyrst fara frá að 6 árum liðnum. Samkvæmt þessu fara síðan ávalt hinar tvær deildir nefndarmanna frá 3. hvert ár á víxl. Ef nefndarmaðr deyr, eða fer frá sérlegra orsaka vegna, áðr en þau 6 ár eru liðin, er hann var kosinn fyrir, skal sá, er kosinn er í hans stað (samanbr. 9. gr. 2. atriði), að eins vera í nefndinni þann tíma af inum 6 árum, sem enn er eftir. — Þann, sem gengr úr nefndinni, má kjósa á ný; en hafi hann verið í nefndinni í 3 ár eða lengr, er hann ekki skyldr til að taka aftr við kosningu, fyr en að liðinn er jafnlangr tími, og hann hafði verið í nefndinni. Eins skal sá, sem orðinn er sextugr, mega skorast undan kosningu. Saman rétt hefir sá, sem sitr í sýslunefnd. — 6. gr. Kosningarnar skulu ávallt — nema þegar aukakosninga við þarf — fara fram á hreppskilaþingum á vorin, eftir skrá, sem kjörstjórnin býr til; í kjörstjórninni eru í fyrsta skifti hreppstjórinn og tveir búsettir menn í hreppnum, sem hafa kosningarrétt, er sýslumaðr til nefnir, en upp frá því oddviti hreppsnefndarinnar og tveir nefndarmenn, sem hún sjálf kýs til þess. — Skráin skal liggja öllum til sýnis um 3 vikur á undan kjördegi á þeim stað, sem er hentugr hreppsbúum, eða eftir atvikum á fleiri slíkum stöðum. — Finni nokkur, að einhver er á skránni, sem ekki hefir rétt til þess, eða einhverjum slept, sem þar á að standa, skal hann í síðasta lagi á sjálfum kjördeginum koma fram með mótbárur sínar eða kröfur, sem kjörstjórnin þá leggr úrskurð sinn á, áðr en atkvæðagreiðsla byrjar. — 7. gr. Dag og stund, þá kosningar skulu fram fara, skal auglýsa með þingboði um allan hreppinn að minnsta kosti 8 dögum áðr. Kosningar skulu fara fram í heyrandi hljóði, og hver kjósandi, sem vill nota kosningarrétt sinn, skal sjálfr koma á fund, og skýra munnlega frá, hverja hann kjósi, og skal það jafnóðum ritað í kosningarbókin. Þegar allir kjósendur, sem við eru staddir, hafa átt kost á að greiða atkvæði sín, og þau eru bókuð, skal atkvæðagreiðsu lokið, þó ekki fyr en stund er liðin frá því að kosningargjörðin byrjaði. Formaðr kjörstjórnarinnar skal þá lesa greinilega upp öll atkvæði, sem greidd eru, en hinir í kjörstjórninni skulu rita þau upp og telja þau saman. Skal segja þá kjörna hreppsnefndarmenn, sem hafa flest atkvæði, þegar búið er að telja upp. Ef fleiri hafa jafnmörg atkvæði, ræðr hlutkesti. — 8. gr. Skorist sá, sem orðinn er fyrir kosningu, á einhvern hátt undan því, að taka við henni, skal kjörstjórnin skera úr því, hvort afsökun hans er gild. Ef kjörstjórnin tekr hana til greina, skal ný kosning fram fara; að öðrum kosti getr sá, sem kjörinn er, borið afsökun sína undir sýslunefndina; samt skal í fyrsta skifti, er kosningar fram fara, sýslumaðr einn skera úr málinu. Kjörstjórnin skal skýra sýslunefndinni frá því, hvernig kosningar hafi farið. — Hver sá, sem nokkuð hefir að kæra yfir kosningargjörð þeirri, sem fram hefir farið, eða yfir úrskurðum þeim, sem gefnir hafa verið, verðr, ef kæran á að geta komið til greina, að hafa sent skriflega umkvörtun til formanns kjörstjórnarinnar innan 8 daga, eftir að úrskurðrinn er feldr, eða kosningargjörðinni er lokið. Kjörstjórnin skal síðan tafarlaust senda umkvörtunina með áliti sínu til sýslunefndarinnar, til þess hún leggi úrskurð sinn á málið. Úrskurði sýslunefndin, að kosningin sé ólögmæt, skal kjósa á ný. — 9. gr. Missi hreppsnefndarmaðr kosningarrétt eða kjörgengi eftir 3. gr., skal hann víkja úr nefndinni. Missi hann aðeins um hríð réttindi þessi, má víkja honum um stundar sakir frá nefndarstörfum. Hinir hreppsnefndarmennirnir eiga að skera úr ágreiningi þeim, sem kann að verða í þessum efnum eða af því, að nefndarmaðr brjóti svo mjög á móti skyldum sínum, að nauðsyn beri til að víkja honum úr nefndinni. Þó skal hlutaðeiganda heimilt, að skjóta úrskurði nefndarinnar til sýslunefndarinnar. Ef hreppsnefndarmaðr af annari orsök þykist hafa tilefni til að breiðast lausnar úr nefndinni, áðr en sá tími, er hann var kosinn fyrir, er liðinn, getr hún eða í öllu falli sýslunefndin veitt honum það. — Deyi nefndarmaðr eða gangi úr nefndinni, skal kjósa á ný, nema nefndarmenn í einu hljóði komi sér saman um, að fresta megi að skipa annan í hans stað, þangað til almennar kosningar fara fram í næsta sinn. — 10. gr. Undir eins og kosningu nefndarmanna er lokið samkvæmt því, sem greint er hér að framan, skal inn elzti af þeim, sem kjörnir eru, kveðja hreppsnefndarmennina til fundar, til að velja oddvita; hann skal kosinn fyrir fardaga-árið, og skal því sá, sem hefir á hendi oddvita störf, á síðasta ársfundi láta velja oddvita fyrir það ár, sem fer í hönd. Þó skal þessi kosning á þeim árum, er kjósa skal nýja nefndar-deild, og inn kjörni oddviti fer frá, án þess að verða kosinn aftr, að eins vera til bráðabirgða, þangað til nýja hreppsnefndin getr látið ina endilegu kosningu fram fara á fyrstu fundi sínum. — Sérhver nefndarmaðr er skyldr til, að taka við kosningu sem oddviti, eða framkvæma önnur sérstakleg störf, sem hreppsnefndin felr honum á hendr. Þó getr sá, sem hefir verið oddviti í 3 ár að minsta kosti, skorazt undan því, að taka við kosningu til þess starfs um jafnlangan tíma, og hann hefir verið oddviti. Til þess að vera í oddvita stað í forföllum hans, skjal kjósa vara-oddvita. — Til þess að kosning oddvita og vara-oddvita sé gild, útheimtist, að sá, sem kjörinn er, hafi fengið yfir helminginn af þeim atkvæðum, sem inir viðstöddu hreppsnefndarmenn hafa greitt. Verði þessum atkvæðafjölda ekki náð, skal kjósa á ný. Fái þá ekki heldr neinn yfir helming atkvæða, skal fram fara bundin kosning milli þeirra tveggja, sem við kosninguna á undan hafa fengið flest atkvæði. Ef atkvæði eru jöfn við síðari kosninguna, ræðr hlutkesti, um hverja tvo skuli velja, er in bundna kosning fram fer. Sömuleiðis skal hlutkesti ráða, þegar atkvæði eru jöfn við ina bundnu kosningu. — 11. gr. Oddviti skal sjá um, að nefndarmenn verði kvaddir til fundar; hann skal stjórna umræðunum, sjá um, að ritað sé í gjörðabókina, og að ályktanir nefndarinnar verði nákvæmlega bókaðar. Ef hreppsnefndin ákveðr ekki sérstaklega um einstök mál eða einstakar greinir mála, að einstökum nefndarmönnum skuli falið á hendr, að sjá um bréfagjörð um þessi efni, eða framkvæma einhverjar ályktanir, skal oddviti gjöra ráðstafanir til, að ályktanir nefndarinnar verði framkvæmdar, annast bréfagjörð, og sjá um, að reikningar, sem með þarf, verði samdir og um aðra bókun. Sömuleiðis skal hann varðveita allar gjörðabækr nefndarinnar, bréf og önnur skjöl eða skilríki, er snerta þau mál, sem eru lögð undir hreppsnefndina. — 12. gr. Hreppsnefndin skal eiga að minsta kosti 2 fundi með sér á ári hverju, vor og haust, og auk þess svo oft, sem oddvita þykir þörf á, eða þegar annaðhvort helmingr nefndarmanna, eða prestrinn eða fátækrastjórinn krefjast þess, að því er snertir kenslu- eða fákækramál. — Hreppsnefndin ákveðr sjálf, hvenær og hvar halda skuli aðalfundi, en aftr á móti skal það vera komið undir oddvita, að ákveða þetta um aukafundi. Birta skal fundina, ef því verðr við komið, með þingboði, eða á annan hátt, sem tíðkanlegt er þar í hreppnum; fundi skal halda í heyrandi hljóði. Þó má hreppsnefndin í stöku tilfellum álykta, að ræða einstök mál innan luktra dyra. — 13. gr. Hreppsnefnd getr enga ályktun gjört, nema að minsta kosti helmingr hennar sé við staddr. Þegar nefndarmenn eru ekki á eitt sáttir um eitthvert mál, skal farið eftir atkvæðafjölda. Ef jafnmörg eru atkvæði, skal atkvæði oddvita ráða. Fái fleiri jafnmörg atkvæði við kosningar, skal hlutkesti fram fara (samanbr. þó 10. grein). Sérhver nefndarmaðr, sem er ekki hinum samdóma, má heimta, að ágreiningsálit hans verði ritað með fám orðum í gjörðabókina, og skulu allir hreppsnefndarmenn, sem eru við, rita nöfn sín undir hana. — 14. gr. Hreppsnefndirnar skulu eftirleiðis takst á hendr stjórn fátækramála hreppsins samkvæmt því, sem fyrir er mælt í reglugjörð 8. janúar 1834 og seinni tilskipunum, sem gengið hafa út um þetta, með þeim breytingum, sem leiðir af því, sem fyrir skipað er í þessari tilskipun. Hreppsnefndin getr falið á hendr einum eða tveimr fátækrastjórum eitt ár í senn, að hafa ina nánari tilsjón um framfærslu þurftamanna, og skal hreppsnefndin sjálf kjósa fátækrastjórana úr sínum flokki. — Þá tilsjón, sem sóknarprestrinn eftir gildandi lögum á að hafa um uppfóstr og uppeldi barna, skal hann framvegis hafa á hendi, og hvort sem prestrinn er í hreppsnefndinni eða ekki, skal hún, þegar hún getr ekki orðið prestinum samdóma um þessi mál, án tillits til atkvæðafjölda taka uppástungu prestsins til greina, að minsta kosti þangað til úrskurðr sýslunefndarinnar fæst um ágreining þann, sem er milli prestsins og hreppsnefndarinnar um þessi mál. — 15. gr. Hreppsnefndirnar skulu hver í sínum hreppi hafa gætr á heilbrigðis-ásigkomulaginu í hreppnum, samkvæmt þeim reglum, sem amtsráðið eða landshöfðinginn skipa fyrir um það. — 16. gr. Hreppsnefndin skal taka að sér skyldur þær, sem hvíla á hreppstjórum samkvæmt tilskipun 15. marz 1861 með tilliti til viðhalds á aukavegum, og má hún fela einum eða tveimr nefndarmönnum á hendr ina nánari tilsjón um þetta. Að því, er snertir viðhald á þjóðvegum, skal hreppsnefndin fyrir árs lok senda sýslunefndinni uppástungur þær, sem með þarf, um það, sem á næsta sumri þar á eftir skal vinna að þjóðvegum í hreppnum, og skal þar með fylgja áætlun um störfin sjálf, og kostnað þann við þetta, sem gjöra má ráð fyrir. Vegabótagjaldi því, sem samkvæmt tilskipun 15. marz 1861 hvílir á hreppsjóðnum, skal nefndin jafna niðr, og skal það goldið til sýslumannsins. — Ið sama er og um gjald það, sem fyrir er mælt um í 40. grein þessarar tilskipunar. — 17. gr. Hreppsnefndin skal takast á hendr skyldur þær, sem hvílt hafa á hreppstjórum, að sjá um notkun afrétta, fjallskil, fjárheimtur og ráðstafanir til að eyða refum, og jafna niðr gjöldum, sem af því leiðir. Fela má nefndin einum nefndarmanna á hendr að framkvæma það, sem að þessu lýtr. — 18. gr. Hreppsnefndin skal hafa umsjón um þinghús hreppsins og aðrar fasteignir, sem hann á, eða hefir not af (t. d. kristfjárjarðir), og sjá um, að þeim sé haldið í tilhlýðilegu standi. Ef meiri kostnaðr útheimtist til þessa, en svo, að hann geti borgazt með inni venjulegu árlegu niðrjöfnun, skal nefndin útvega samþykki sýslunefndarinnar til þess. — 19. gr. [Fallin úr gildi við 1. gr. l. 9. jan. 1880. Sjá hér á eftir.] — 20. gr. Oddviti hreppsnefndarinnar skal einnig vera féhirðir nefndarinnar og reikningshaldari, nema því að eins að hreppsnefndin feli öðrum nefndarmanni þessi störf á hendr. — Reikningsárið nær frá fardögum til fardaga. Reikningshaldarinn skal fyrir lok júním. gjöra reikning um tekjur og útgjöld hreppsins á árinu, sem leið, samkvæmt fyrirmynd þeirri, sem ina árlegu áætlun skal sníða eftir. Öll hreppsnefndin skal síðan rannsaka reikninginn, eða kjósa mann til þess að endrskoða hann. Athugasemdir þær, sem gjörðar eru við reikninginn, ásamt svörum reikningshaldarans og sjálfum reikningum, skal síðan leggja fram fyrir lok septemberm. hvers árs til sýnis hreppsbúum í 3 vikur á sama hátt, og mælt er fyrir í 19. gr. um það, að leggja fram niðrjöfnunina. Í reikningnum skal telja upp allar eigur hreppsins, og rita yfirlit yfir efni hans og skuldir. — Fyrir lok nóvemberm. skal senda sýslunefndinni reikninginn ásamt fylgiskjölum, athugasemdum og svörum; hún skal láta rannsaka reikninginn, og sker úr þeim athugasemdum, sem gjörðar hafa verið við endrskoðun hreppsnefndarinnar, eða þá, er hún sjálf lét yfirfara reikninginn. — 21. gr. Öll hreppsnefndin hefir ábyrgð á, að reikningrinn sé réttr. Hún skal og ábyrgjast innistæðufé, skuldabréf og aðrar eigur hreppsins. — Án samþykkis hreppsnefndarinnar má ekki borga nein útgjöld af hreppssjóðnum, sem lög eða tilskipun er ekki fyrir, eða sem sýslunefndin eða amtsráðið hefir ekki samþykt samkvæmt þessari tilskipun. — 22. gr. Hreppsnefndin skal með hverju móti, sem hún getr, leitast við, að koma í veg fyrir húsgang og flakk, og að öðru leyti styðja að því, að góð regla eflist og við haldist í hreppnum. — 23. gr. Þar að auki skal bera undir hreppsnefndina önnur mál, sem snerta sveitina sjálfa, án þess að nefndin eigi að gjöra út um þau, að svo miklu leyti þeim er svo varið, að því verði við komið, til dæmis um stofnun heilbrigðisnefnda, um fyrirkomulag á þeim málefnum, er snerta yfirsetukonur, um varnir gegn hallæri og fl., og skal nefndin einnig hafa heimild til þess, að gjöra uppástungur og senda bænarskjöl til stjórnarinnar um alt það, sem getr verið sveitinni til gagns. — Breytingar á hreppaskipun má ekki gjöra án samþykkis nefnda þeirra, sem í hlut eiga, hvort heldr breytingin er fólgin í því, að leggja saman tvo eða fleiri hreppa, eða skifta einum hreppi í tvær eða fleiri sveitir. Bænarskjöl frá hlutaðeigndi hreppsnefnd um þess konar breytingar skal senda sýslunefndinni, sem skal láta álit sitt fylgja með bænarskjalinu, og þar á eftir skal amtmaðr taka við því og leggja það undir úrskurð landshöfðingja. — 24. gr. Hreppsnefndin hefir heimild til án milligöngu sýslumanns að halda undirboðsþing á vega-störfum og viðhaldi á þinghúsum og öðrum eignum hreppsins, og ennfremr á því, að fá til verk og varning í þarfir sveitarinnar. — 25. gr. Útgjöld til skriffæra, gjörðabóka, til þess að borga undir bréf, og til sendiferða í sveitar þarfir skal endrgjalda oddvitanum eftir reikningi, sem hann gjörir um það. — 26. gr. Samþykki sýslunefndarinnar útheimtist til þess, að ályktun hreppsnefndarinnar sé gild í þeim greinum, sem nú skal telja: — 1. til þess á ári því, sem yfir stendr, að hækka upphæðir þær, sem eru á niðrjöfnunarskránni; — 2. til þess að sveitin takist á hendr nokkra skuldbinding til langframa, sem ekki beinlínis hvílir á henni samkvæmt lögum; — 3. til þess að nokkuð verði borgað úr sveitarsjóðnum fyrir aðstoð við sveitarstjórnarstörf, sem einhverjum ber að leysa af hendi, af því hann er kjörinn til þess; — 4. til þess að á nokkru ári verði að samtöldu lögð á hreppsbúa meiri útgjöld en svo, að nemi þriðjungi fram yfir útgjaldaupphæð sama hrepps að meðtölu um næstu 3 ár á undan. Upphæð sú, sem eitthvert ár kann verða lögð á með samþykki sýslunefndarinnar fram yfir þetta, má ekki teljast með, þegar síðar meir á að finna áðrgreinda meðaltalsupphæð; — 5. til þess að selja megi eða veðsetja fasteignir sveitarinnar, ellegar til þess að kaupa nýjar fasteignir handa sveitinni; — 6. til þess að eyða innstæðufé sveitarinnar; — 7. til þess að taka lán handa sveitinni, sem nemi meiru eða sé fyrir lengra tíma, en að það verði borgað aftr fyrir lok næsta reikningsárs, eða endrnýja slíkt lán eða lengja þann tíma, er á að borga það aftr. — 27. gr. Komist sýslumaðr af áætlunum þeim og reikningum, sem honum hafa verið sendir, eða á annan hátt að raun um, að einhver ályktun hreppsnefndarinnar fer fram yfir það, sem hún hefir vald til, eða að öðru leyti er lögum gagnstæð, eða miðar til, að gjöra einhverja ráðstöfun, sem sveitin getr haft tjón af, eða skorast undan að gegna skyldu þeirri, er á sveitinni hvílir, getr hann með bréfi til oddvita hreppsnefndarinnar fyrst um sinn ónýtt ályktunina, ef ekki er enn búið að framkvæma hana, og skal hann þar á eftir, jafnskjótt og því verðr við komið, senda skýrslu um þetta til amtmannsins, sem aftr kemr henni til landshöfðingja, og leggr hann úrskurð sinn á málið. Eftirrit af skýrslunni skal jafnframt sent hreppsnefndinni.
28. gr. [Fallin úr gildi við 2. gr. l. 9. jan. 1880.] — 29. gr. Hver hreppr er kjördæmi út af fyrir sig og kýs mann til sýslunefndar. Kosningin skal fara fram á inum árlegu manntalsþingum með óbundinni atkvæðagreiðslu, er kjörstjórnin skipar fyrir utan. Í kjörstjórninni er sýslumaðrinn og 2 menn, sem til þess eru kjörnir í fyrsta skifti af amtmanni, en síðan af sýslunefndinni. — Að lokinni kosningu kveðr kjörstjórnin upp, hver verði sýslunefndarmaðr. . . . — [Síðasti liðr þessarar greinar er fallinn úr gildi við 2. gr. l. 9. jan. 1880]. — 30. gr. Um kosningarrétt og kjörgengi til sýslunefndar, og um það, hvernig haga skuli kosningunni, gildir að öðru leyti ið sama, sem fyrir er mælt í þessu efni að framan um hreppsnefndirnar; sömuleiðis skal farið eftir hreppsnefndarkjörskránum, þegar kjósa á í sýslunefndirnar (samanbr. 3.—7. gr.). — Um það, hvernig kosningin fer, skal senda hlutaðeiganda amtmanni skýrslu, svo það verði tilkynt amtsráðinu. — 31. gr. Sýslunefndin skal skera úr mótmælum gegn lögmæti kosningarinnar, en til þess þeim verði gaumr gefinn, skal bera þau upp skriflega fyrir oddvita nefndarinnar innan 14 daga frá því, að kosningagjörðinni er lokið. Sýslunefndin skal sömuleiðis skera úr þeim málum, sem af því rísa, þegar einhver beiðist, að ganga úr nefndinni, og eins þegar spursmál er um, að víkja einhverjum úr nefndinni. Sé hlutaðeigandi óánægðr með úrskurð nefndarinnar um þessi mál, má hann innan 4 vikna frá því, að úrskurðrinn er birtr honum, skjóta honum til amtráðsins, sem þá leggr endilega úrskurð á málið. — 32. gr. Nefndarmenn skal kjósa fyrir 6 ár. Af þeim, sem valdir eru í fyrsta skifti, skal meiri hlutinn, ef á stöku stendr, en annars helmingrinn, ganga úr nefndinni að 3 árum liðnum, og skal einnig, að því snertir sýslunefndirnar, farið eftir því, sem fyrir er mælt í 5. gr. um það, hvað lengi hreppsnefndarmenn hafa störf sín á hendi, og um endrkosningar þeirra (svo og um það, nær þeir geti skorazt undan að taka við kosningu). — 33. gr. Sýslunefndin skal eiga að minsta kosti einn fund á ári, eftir því, sem oddviti ákveðr nákvæmar; þar að auki má hann, ef honum þykir þörf á því, kveðja til aukafundar og hann er skyldr til þess, þegar helmingr nefndarmanna heimtar það. — Í fyrsta skifti sem nefndin á fund, ákveðr oddviti, hvar hann skal haldinn; síðar ályktar nefndin sjálf, hvar fundir skuli vera. — Í þóknunarskyni fyrir fæðispeninga og í ferðakostnað skulu nefndarmenn fá 1 rd. [2 kr.] fyrir hvern dag frá því að þeir byrja ferð sína á sýslufund og til þess að þeir eru komnir heim aftr, eftir þeim reikningi, sem hver þeirra þar um gjörir og sýslumaðr rannsakar og sem greiðist úr sjóði sýslunnar upp á væntanlegt samþykki amtráðsins. Oddvita skal eftir reikningi hans endrgjalda það, sem hann hefir borgað til skriffæra, gjörðabóka, undir bréf, til sendiferða og fl., og skal öll nefndin ávísa honum féð. — 34. gr. Þegar gjöra skal einhverja ályktun, skal atkvæðafjöldi ráða, þó útheimtist til þessa, að við sé staddr meiri hluti allra nefndarmanna. Ef atkvæði eru jöfn, skal atkvæði oddvita ráða. Sérhver nefndarmaðr hefir heimtingu á, að ágreiningsálit hans verði ritað með fám orðum í gjörðabókina, og skulu allir nefndarmenn, sem við eru, rita nöfn sín undir hana, þegar fundi er slitið. — 35. gr. Skyldur oddvita með tilliti til þess, að stjórna umræðum nefndarinnar og fl., eru inar sömu, og tilgreindar eru viðvíkjandi hreppsnefndunum í 11. gr. — 36. gr. Þyki oddvita, að einhver ályktun nefndarinnar fari fram yfir það, sem hún hefir vald til, eða að öðru leyti sé lögum gagnstæð, eða að hún miði til, að gjöra einhverja ráðstöfun, sem sýslufélagið geti haft tjón af, eða skorast undan að gegna skyldu, sem hvílir á því, skal honum heimilt, að fella ályktunina úr gildi, og skal hann tafarlaust senda amtmanni skýrslu um það. Jafnframt skal hann senda sýslunefndinni eftirrit af skýrslunni. Ef amtmaðr er á sömu skoðun um málið og sýslumaðr, skal hann leggja það undir úrskurð landshöfðingja. Finnist amtmanni aftr á móti, að eigi að ónýta það, að ályktun nefndarinnar var gjörð ógild, má hann gjöra þetta með úrskurði sínum. — 37. gr. Með næsta pósti eftir fundarhald sýslunefndarinnar, skal oddviti senda amtmanni endrrit af gjörðabókinni, og hefir amtmaðr vald til í þeim tilfellum, sem nefnd eru í greininni á undan, að fella úr gildi ályktun nefndarinnar fyrst um sinn með bréfi til oddvita, og skal hann þar á eftir á þann hátt, sem getið er um að framan, leggja málið undir úrskurð landshöfðingja. Jafnframt skal senda sýslunefndinni eftirrit af skýrslunni. — 38. gr. Sýslunefndin sker úr þeim málum og gjörir ráðstafnir þær, sem samkvæmt 2., 8., 9., 14., 18., 21., og 26. grein þessarar tilskipunar eru faldar henni á hendr með tilliti til hreppsnefndanna, og hefir hún almenna umsjón með því, að hreppsnefndirnar í stjórnarathöfnum sínum hegði sér eftir þeim boðum, sem fyrir skipuð eru. Virðist sýslunefndinni, að hreppsnefndin hafi látið greiða ólögmæt útgjöld, eða neitað að borga það, sem hún á að greiða, eða leitt hjá sér að framkvæma nokkra aðra ráðstöfun, sem hún er skyld til, eða hún á annan hátt hafi farið fram yfir það, sem hún hefir vald til, skal hún gjöra þær ráðstafanir, sem með þarf í þessu efni, og getr hún, ef nauðsyn ber til þess, beitt þvingunar-sektum, til þess boðum hennar verði fram fylgt, og þar að auki komið fram ábyrgð á hendr inum einstöku hreppsnefndarmönnum við dómstólana. — Þegar sýslunefndin er búin að leggja úrskurð á reikninga allra hreppsnefndanna, býr hún til formlegt yfirlit yfir efnahag hreppanna og sendir amtmanni það áleiðis til landshöfðingja. — 39. gr. Enn fremr stjórnar sýslunefndin öllum sveitarmálefnum sýslunnar, t. a. m.: — 1.) Hún hefir umsjón þá, sem hvílir á sýslumönnum samkvæmt tilsk. 15. marz 1861 um viðhald á þjóðvegum í sýslunni, og má til þess ráða því, hvernig verja eigi vegabótagjaldi því, sem heimt er saman í sýslunni á hverju ári, þó þannig, að amtsráðið hefir vald til þess, að ákveða að verja megi alt að þriðjungi af inu árlega vegabótagjaldi sýslunnar um skemri eða lengri tíma til starfa að þjóðvegum amtsins án tillits til, í hverri sýslu þeir eru. Eftir uppástungu nefndarinnar ákveðr amtsráðið, hverjir vegir skuli vera þjóðvegir, og gjörir breytingar á reglugjörð þeirri, sem gildir um þetta. Enn fremr skal nefndin hafa umsjón um ferjur í sýslunni, brýr og lendingar, og gjöra ráðstafanir þær, sem með þarf í þessu tilliti; lögferju má ei leggja niðr, nema amtsráðið leyfi. — 2.) Hún skal semja reglugjörðir um notkun afrétta, fjallaskil, fjárheimtur, ráðstafanir til þess að eyða refum, og fl. Sömuleiðis skal hún annast um, að nákvæmar fjármarkatöflur fyrir sýsluna verði prentaðar, þegar henni þykir þörf á, og að minnst kosti einu sinni hvert 10. ár. — 3.) Nefndin tekr þátt í hreppstjórakosningu þannig, að hún stingr uppá 3 hæfum mönnum í hvert skifti, er á að velja hreppstjóra, og velr amtmaðr þá einn af þeim. Hún stingr uppá, hvort hreppstjórar skuli vera 1 eða 2 í einhverjum hreppi, og leggr amtsráðið síðan á það fullnaðarúrskurð. — 4.) Nefndin skal hafa eftirlit með bólusetningum, skipun ljósmæðra og framkvæmdum inna sérstaklegu heilbrigðisnefnda. — 5.) Hún skal gjöra ráðstafanir til þess að afstýra hallæri í sýslunni, eftir að hafa leitað álita hlutaðeigandi hreppsnefnda. Ef meira þarf til þess, en að það verði borgað með helmingnum af öllum inum venjulegu árstekjum sýslunnar (eftir meðaltölu fyrir 3 ár), verðr að leita samþykkis amtsráðsins til þess, sem nefndin ræðr af. Þegar á liggr, er amtmanni samt heimilt að samþykkja, að þau útgjöld verði greidd, sem ekki má fresta. — 40. gr. Sýslunefndin skal semja áætlun fyrir hvert reikningsár frá 1. jan. til 31. des. yfir allar tekjur og útgjöld sýslunnar, og jafna því niðr, sem þarf til lúkningar gjaldanna. Að því leyti, sem ekki er heimild fyrir greiðslu einstakra gjalda með niðrjöfnun á annan hátt, skal jafna því, er með þarf, niðr á hreppa sýslunnar eftir samanlagðri tölu allra lausafjárhundraða og allra jarðarhundraða, eftir inni nýju jarðabók, í hverjum hreppi, eftir réttri tiltölu. Því, sem hverjum hreppi þannig ber að gjalda, skal jafna niðr á hreppsbúa eftir inum sömu reglum, sem gilda um önnur útgjöld hreppsins, og skal oddviti hreppsnefndarinnar greiða sýslumanni gjaldið á næsta manntalsþingi (samanbr. 16. gr). Áætlunina skal semja eftir fyrirmynd, sem amtsráðið ákveðr, og í fyrsta skifti eftir fyrirmynd til bráðabirgða, sem amtmaðr býr til. — 41. gr. Sýslumaðr skal gjöra árlegan reikning um útgjöld og tekjur sýslunnar, og skal senda hann innan janúarmán. loka endrskoðunarmanni, sem nefndin hefir kosið; skal hann aftr senda sýslumanni reikninginn fyrir lok febrúarmán. með þeim athugasemdum, sem hann hefir fundið ástæðu til að gjöra við reikninginn. Síðan skal nefndin yfir fara athugasemdirnar ásamt svörum sýslumannsins og reikninginn með fylgiskjölum, og skal síðan senda amtmanni öll hér að lútandi skjöl; eftir að hann hefir sjálfr yfirfarið þau, og heimtað ítarlegri skýrslur, sem honum þykir við þurfa, leggr hann reikninginn undir úrskurð amtsráðsins á næsta fundi þess. Reikninginn skal semja samkvæmt áætlun þeirri, sem nefnd er í næstu grein að undan, og skal honum fylgja skrá yfir eignir sýslunnar og yfirlitsreikningr um eigur og skuldir hennar. Fyrir lok maímán. skal senda hverri hreppsnefnd í sýslunni eftirrit af reikningnum, og skal nefndin sjá um, að hreppsbúar fái að lesa það. Fyrir það að búa til þessi eftirrit, ber sýslumanni í þóknum 24 sk. [50 a.] fyrir hverju örk, og skal þetta borgað úr sýslusjóðnum. — 42. gr. Öll sýslunefndin hefir ábyrgð á, að reikningrinn sé réttr. Hún ábyrgist einnig innstæðufé, skuldabréf og aðrar eigur sýslufélagsins. — Ekkert gjalda má greiða úr sýslusjóðnum, nema heimild sé fyrir því í lögum eða tilskipun, eða það sé ákveðið af sýslunefndinni eða amtsráðinu. — 43. gr. Í inum sömu greinum, er staðfesting sýslunefndarinnar samkvæmt 26. gr. útheimtist til ályktana hreppsnefndarinnar, útheimtist samþykki amtsráðsins til þess, sem sýslunefndin ályktar.
44. gr. Í hverju amtsráði eiga sæti amtmaðrinn sem forseti og 2 kjörnir menn. Þessir menn skulu kosnir fyrir 6 ár, þannig að annar þeirra fer frá 3. hvert ár (samanbr. 46. gr.). Allar sýslunefndirnar í amtinu skulu kjósa menn þessa og skal kosning fram fara að tilhlutun amtmannsins í fyrsta skifti, er þær koma saman, og síðan 3. hvert ár. — 45. gr. Kjörgengi til amtráðsins er bundið sömu skilyrðum og kjörgengi til alþingis, þó þannig að til þess einnig útheimtist fast aðsetr innan takmarka þess amts, sem í hlut á. — 46. gr. Kjörstjórn sú, sem fyrir er mælt í tilskipun 6. janúar 1857, 4. gr., skal jafnskjótt og búið er að leiðrétta kjörskrána til alþingis, senda hlutaðeiganda amtmanni skrá yfir þá, sem kjörgengir eru til alþingis. Eftir að amtmaðr er búinn að fá allar þessar skrár, skal hann ásamt með 2 mönnum, sem hann kveðr til þess, semja skrá yfir alla kjörgenga menn, sem búfastir eru í amtinu, og skal síðan senda skrá þessa öllum sýslunefndum amtsins. — Kosning fer þar á eftir fram á þann hátt, að sérhver sýslunefndarmaðr, sem á fundi er, greiðir atkvæði um helmingi fleiri menn, en kjósa skal í amtsráðið. Að af lokinni kosningu sendir hver sýslumaðr amtmanni endrrit af kosningargjörðinni, og skal hann þar næst ásamt með þeim mönnum, sem hann kvaddi til, þegar kjörskráin var samin, telja saman kvæðin, sem greidd eru. Þeir 2 menn, sem hafa fengið flest atkvæði, eru kjörnir til amtráðsins, og þeir tveir, sem næst þeim hafa hlotið flest atkvæði, eru varamenn, sem ganga í amtsráðið í stað hinna í forföllum þeirra. Ef 2 eða fleiri hafa fengið jafnmörg atkvæði við kosninguna, ræðr hlutkesti. — Þegar in fyrstu 3 ár eru liðin, skal ákveðið með hlutkesti, hvort af inum 2 nefndarmönnum og af inum 2 varamönnum skuli fara frá; síðan fara menn þá fyrst frá, er þau 6 ár eru liðin, er þeir eru kosnir fyrir. — 47. gr. Um endrkosningar og undanfærslur undan því að taka við kosningu, gildir ið sama, sem fyrir mælt er í 5. gr. um hreppsnefndirnar. Amtsráðið sker sjálft úr mótmælum gegn lögmæti kosninga, er fram hafa farið, og hvort ástæður þær, er sá, sem kjörinn er í ráðið, þykist hafa til þess að fara frá, sé gildar. Þó skal hlutaðeigandi hafa rétt til að skjóta úrskurði amtsráðsins til landshöfðingja. — 48. gr. Amtsráðið skal halda einn fund á ári hverju í öndverðum júnímán., eftir því, sem forseti ákveðr nákvæmar. Auk þess getr hann kvatt til aukafundar, þegar honum þykir brýn nauðsyn til bera. — Amtsráðið skal venjulega halda fundi sína á amtmannssetrinu, ef það er innan takmarka amtsins; að öðrum kosti ákveðr amtmaðr stefnustað í sjálfu amtinu. — 49. gr. Þeir, sem í amtsráðinu eru, skulu fá fæðispeninga 1 rd. [2 kr.] um hvern dag, sem þeir vegna amtsráðs-fundarins verða að vera frá heimili sínu, og að auki ferðakostnað, eftir reikningi, sem amtmaðr ávísar þegar búið er að rannsaka hann. — 50. gr. Forsetinn stjórnar umræðum ráðsins, sér um að þær ályktanir, sem gjörðar eru, verði framkvæmdar, útvegar gjörðabækr ráðsins o. fl., og varðveitir þær ásamt bréfum ráðsins og öðrum skjölum þess. Ráðið kýs úr sínum flokki skrifara, sem skal rita í gjörðabókina og ásamt með forseta sjá um, að ályktanir ráðsins verði birtar almenningi samkvæmt 55. gr. Það, sem fyrir er mælt er 34. gr. um sýslunefndir, skal og gilda um amtsráðið; þó skal amtsráðið vera fullskipað til þess fullnaðarályktun verði gjörð. — 51. gr. Öll útgjöld við amtsráðið skal greiða úr jafnaðarsjóði amtsins. — 52. gr. Amtsráðið hefir þessi störf á hendi: — 1.) Það skal rannsaka og úrskurða alla reikninga sýslnanna og yfir höfuð með tilliti til yfirstjórnar á sveitamálefnum sýslunnar hafa á hendi það vald, sem getið er um 31., 39.—43. gr. hér að framan. Finni amtsráðið, að sýslunefnd hafi borgað ólögmæt útgjöld eða skorazt undan að greiða útgjöld, sem hún er skyld til, eða látið hjá líða að gjöra einhverja aðra ráðstöfun, sem henni ber að framkvæma, eða á annan hátt farið fram yfir vald sitt, skal það gjöra þær ráðstafanir, sem með þarf í þessu skyni, og getr það, ef nauðsyn ber til þess, beitt þvingunar-sektum, til þess boðum þess verði fram fylgt, og það auki komið fram ábyrgð við dómstólana á hendr sýslunefndarmönnum þeim, sem hafa tekið þátt í þessum ályktunum. — Þegar amtsráðið hefir úrskurðað alla sýslunefndar-reikninga, skal það semja formlegt yfirlit yfir fjárhag sýslnanna, eins og hann verðr samkvæmt þessum reikningum, og senda það landshöfðingja. — 2.) Amtsráðið skal takast á hendr stjórn opinberra stofnana og gjafafjár, sem amtmennirnir einir hingað til hafa stjórnað, að dómsmálasjóðnum undanskildum, nema því að eins að stofnunarskrárnar eða gjafabréfin eða aðrar sérstaklegar ákvarðanir séu því til fyrirstöðu. Það skal sjá um, að fé stofnana þessara verði ávaxtað eftir þeim reglum, sem gilda um lán fjár þess, sem tilheyrir opinberum stofnunum, gjöra ályktun um, hvernig verja eigi inum árlegu tekjum samkvæmt því, sem er fyrir mælt um þetta, og skal sjá um, að reikningar, sem á að gjöra fyrir hvert ár, verði endrskoðaðir og sendir til úrskurðar landshöfðingja ásamt með þeim athugasemdum, sem gjörðar hafa verið við þá, og svörum reikningshaldarans. — 3.) Það skal endrskoða reglugjörðir þær um skiftingu vega í þjóðvegi og aukavegi, sem útgengnar eru samkvæmt tilsk. 15. marz 1861, og gjöra breytingar þær, sem með þarf, á reglugjörðum þeim, sem hingað til hafa verið í gildi. Það ákveðr, hvort verja skuli nokkrum hluta af vegabótagjaldi því, sem heimtað er saman úr einstökum sýslum, til þess að gjöra vegabætr á þjóðvegum, sem eru utan sýslu; þó má ekki verja til þess fram yfir ⅓ af inni árlegu upphæð vegabótagjaldsins. — 4.) Álits amtsráðsins skal leita áðr en landshöfðingi lætr út ganga nýjar reglugjörðir fyrir hreppstjóra. Sömuleiðis skal leita álits þess, þegar er í ráði að stofna fangelsi í einstökum héruðum amtsins, og svo um það, hvernig útvega skuli fé það, sem með þarf til þessa, eða þegar er í ráði að gjöra aðrar almennar ráðstafanir, sem útheimta gjöld annaðhvort fyrir amtið eða einstök sýslufélög í því, t. d. stofnun landbúnaðarskóla eða fyrirmyndarbúa eða þess konar. Þegar búið er að koma á fót þess konar byggingum eða stofnunum, skal amtsráðið hafa umsjón um þær,1 og bera umhyggju fyrir því, að þeim sé haldið við, að þær séu hafðar til þess, sem ætlað er, og að það fé, sem með þarf til þess, verði útvegað eftir þeim ákvörðunum, sem þar um verða settar. — 5.) Það skal, eftir að hafa leitað álita sýslunefndanna, íhuga og gjöra uppástungur um það, hvort stofna skuli amtsfátækrasjóði, annaðhvort til þess að veita einstökum hreppssjóðum eða sýslusjóðum styrk, þegar á þarf að halda, eða til þess að greiða kostnaðinn við kenslu heyrnar- og málleysingja og því um líkt, og svo um það, hverjar tekjur skuli renna í amtsfátækrasjóði þessa, og hver útgjöld skuli greidd úr þeim. — 53. gr. Amtsráðið skal fyrir hvert ár semja áætlun um tekjur og útgjöld jafnaðarsjóðsins; það skal samkvæmt henni ákveða, hve mikið jafnaðarsjóðsgjald, sem eins og hingað til á að jafna niðr á lausafjárhundruðin, skal heimtað saman á því ári. Áætlunina skal semja eftir fyrirmynd, sem ráðið hefir samþykt og landshöfðingi staðfest, og að öðru leyti eftir skýrslum þeim og reikningum, sem amtmaðr leggr fram í hvert skifti. — 54. gr. Sýslumenn skulu heimta saman jafnaðarsjóðsgjaldið á inum árlegu manntalsþingum og senda það ásamt reikningi yfir gjöldin til amtmannanna, sem eru reikningshaldarar fyrir jafnaðarsjóðina. Af þeim má ekki greiða nein útgjöld, án þess að heimild sé til þess í gildandi lögum eða í ályktunum amtsráðsins. Beri nauðsyn til, að greiða nokkurt gjald, sem slík heimild ekki er fyrir, á því tímabili, sem er á milli funda amtráðsins, getr amtmaðr uppá samþykki ráðsins á eigin ábyrgð borgað þetta gjald úr sjóðnum. — Amtmaðr skal fyrir hvert reikningsár, frá 1. janúarmán. til 31. desbrmán., semja reikning um tekjur og útgjöld jafnaðarsjóðsins og senda fyrir lok febrúarmán. eftirrit af honum hinum tveimr, er í amtsráðinu sitja. Þegar amtsráðið næst kemr saman, skal það endrskoða reikninginn, og þar á eftir skal senda hann ásamt með athugasemdum þeim, sem gjörðar hafa verið við endrskoðunina, landshöfðingja innan 4 vikna frá því, að amtsráðsfundi var slitið. Verði hann þess áskynja, þegar hann fer yfir reikninginn, eða á annan hátt, að amtsráðið hafi greitt ólögmæt útgjöld, eða neitað að borga þau útgjöld, sem eftir lögum hvíla á amtssveitarfélaginu, eða á annan hátt farið fram yfir vald sitt, skal hann gjöra þær ráðstafanir, sem með þarf út af þessu, og getr hann, ef nauðsyn ber til þess, beitt þvingunar-sektum, til þess boðum hans verði framfylgt, og þar að auki komið fram ábyrgð við dómstólana á hendr þeim úr amtsráðinu, sem tekið hafa þátt í þessum ályktunum. — 55. gr. Amtsráðið skal sjá um, að stutt ágrip af gjörðum ráðsins, áætlun sú, sem það hefir samþykt, og ennfremr ágrip af inum árlegu reikningum jafnaðarsjóðsins og þeirra sjóða, sem ráðið hefir stjórn yfir, verði birt á prenti og útbýtt meðal allra sýslunefnda. — 56. gr. Amtsráðið getr ekki án samþykkis landshöfðingja tekið stærri lán fyrir hönd jafnaðarsjóðsins eða fyrir lengri tíma, en að lánið verði borgað aftr fyrir lok þess árs, sem fer í hönd, né heldr ráðið yfir innstæðu-fé því, sem það hefir umsjón um, eða selt eða veðsett fasteignir amtsins eða keypt aðrar fasteignir fyrir það. Samþykki landshöfðingja útheimtist einnig til þess, að amtsráðið geti tekizt á hendr nokkra skuldbinding til langframa, sem ekki samkvæmt lögum hvílir á amtssveitarfélaginu, og til þess að leggja á hærra jafnaðarsjóðsgjald að öllu samtöldu, en að það nemi fjórða hluta fram yfir það, sem verið hefir að meðaltali á næstliðnum 3 árum. — 57. gr. Finni forseti, að einhver ályktun amtsráðsins gangi út yfir vald þess, eða að öðru leyti sé lögum gagnstæð, eða að hún miði til ráðstöfunar, sem amtið getr haft tjón af, eða til þess, að skorast undan einhverri skyldu, sem hvílir á amtssveitarfélaginu, getr hann um stund numið ályktunina úr gildi, og skal hann þá tafarlaust skýra landshöfðingja frá þessu, og leggr hann þá úrskurð sinn á málið. Endrrit af þessari skýrslu skal jafnframt leggja fram fyrir amtsráðið. — 58. gr. Á þeim tíma, sem er á milli funda amtsráðsins, skal amtmaðr fyrir hönd þess hafa yfirumsjón þá, sem amtsráðinu ber, yfir sýslunefndunum. Þær skulu því senda amtmanni öll þau mál, sem leggja skal fyrir amtsráðið, til þess hann geti séð um, að skýrslur þær, sem með þarf, verði útvegaðar, og einnig til bráðabirgða gjört þær ráðstafanir, sem eigi má fresta til næsta fundar ráðsins. Jafnskjótt og amtsráðið kemr saman, skal amtmaðr skýra því frá þeim bráðabirgðaráðstöfunum, sem hann hefir gjört fyrir hönd ráðsins. — 59. gr. Nú greinir tvö amtsráð á um eitthvað mál, sem bæði eiga hlut að, og skal þá hvort þeirra fyrir sig senda landshöfðingja álit sitt um málið, og leggr hann síðan úrskurð á það. — 60. gr. Eftirleiðis skal Reykjavíkrbær ekki greiða neitt jafnaðarsjóðsgjald, en aftr á móti tekr bærinn sjálfr að sér þau útgjöld, sem fyrir hann hafa verið goldin úr jafnaðarsjóðnum. — Það skal ákveðið með konungsúrskurði, hvort kaupstaðirnir Akureyri og Ísafjörðr í þessu tilliti skulu njóta sama sjálfræðis og Reykjavík, eftir að bæjarstjórn þessara kaupstaða og hlutaðeigandi amtsráði hefir verið gefinn kostr á að segja álit sitt um það; með sama úrskurði skal einnig ákveðið, í hvaða hlutfalli téð sveitarfélög skuli greiða jafnaðarsjóðsgjald, ef til þess kemr. — 61. gr. Dómsmálastjórnin gjörir nákvæmari ráðstafanir, til þess að koma þessari tilskipun í verk, svo hún geti öðlazt fult gildi svo fljótt sem verða má.
1. gr. Hreppsnefndin í hverjum hreppi skal á ári hverju gjöra áætlun um allar tekjur og útgjöld hreppsins, og að því leyti sem fátækratíundin og aðrar tekjur hreppsins ekki hrökkva fyrir útgjöldum, jafna niðr því, sem vantar, á alla þá, sem eiga lögheimili í hreppnum, eftir efnum og ástandi. Áætlunina skal semja eftir fyrirmynd, sem sýslunefndin hefir til búið, og skal hún liggja á hentugum stað, sem birtr hefir verið fyrir fram á venjulegan hátt, hreppsbúum til sýnis 3 vikur á undan reikningsárinu. Um leið og áætlunin er lögð fram, skal senda sýslunefndinni eftirrit af henni. — Niðrjöfnun hreppsgjaldanna eftir efnum og ástand skal gjörð á tímabilinu frá 1. til 20. októberm. Niðrjöfnunarskráin skal liggja hreppsbúum til sýnis í 4 vikur frá því, er niðurjöfnuninni er lokið, á sama stað og áætlunin. Innan þess tíma skal bera bréflega upp aðfinningar við niðrjöfnunina fyrir oddvita hreppsnefndarinnar, en hann skal kveðja nefndina til fundar ið fyrsta því verðr við komið, og leggja umkvartanirnar fyrir hana til úrskurðar. Sérhverjum er heimilt, sem sveitartillagi er jafnað niðr á, að bera sig upp um það, hvernig skattrinn er lagðr á aðra, og um það, að einherjum hafi verið slept við niðrjöfnunina. — Áðr en nefndin leggr úrskurð sinn á nokkra umkvörtnn, skal gefa bæði kæranda og þeim, sem kært er yfir, tækifæri til á nefndarfundi, sem hann sé kvaddr til með 4 daga fresti, að segja álit sitt um umkvörtun þá, sem upp hefir verið borin, en það má einnig gjöra skriflega. Úrskurði þeim, sem hreppsnefndin leggr á umkvörtun þá, sem upp er borin fyrir henni, má innan þriggja vikna frá því, að hann var birtr hlutaðeiganda, skjóta til sýslunefndarinnar, sem leggr endilegan úrskurð á málið á næsta fundi sínum. Eindagi á sveitargjöldum er 31. desemberm., nema hreppsnefndin gefi lengri frest. — Enginn sá, er gjald á að greiða, getr með því, að skjóta gjaldsálögunni undir úrskurð sýslunefndarinnar, komizt hjá þeirri skyldu, að greiða það, þegar eindagi þess er kominn. Ef sýslunefndin breytir álögunni, skal endrgjalda það, sem gjaldþegninn hefir greitt fram yfir það, sem honum bar, með því að borga honum það aftr, eða láta það ganga upp í þann hluta sveitartillags hans, sem greiða á næst þar á eftir. — 2. gr. Í hverri sýslunefnd skal vera einn kjörinn maðr úr hverjum hreppi sýslufélagsins, auk sýslumanns, sem er oddviti nefndarinnar. Þegar skera á úr þeim málum, sem snerta uppfóstr og uppeldi barna, og um er rætt í 2. kafla 14. gr. í tilsk. um sveitarstjórn á Íslandi 4. maí 1872, skal þar að auki hlutaðeigandi prófastr sitja í nefndinni og hafa atkvæði. — Í Vestmannaeyjasýslu er sýslumaðrinn, sóknarprestrinn og þrír kjörnir menn í nefndinni. — 3. gr. Ef sýslunefnd álítr haganlegt að fela einum eða fleiri úr sínum flokki á hendr, að starfa að einhverju málefni til undirbúnings milli funda, getr hún veitt hæfilega þóknum fyrir þann starfa. — 4. gr. Með lögum þessum eru feldar úr gildi 19. og 28. gr., svo og þriðji kafli 29. gr. í lögum um sveitarstjórn á Íslandi 4. maí 1872.