Munur á milli breytinga „Grágás/Vígslóði“

Úr LagaWiki
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 25. júlí 2024 kl. 01:52

Grágás Kristinna laga þátturErfðaþátturÓmagabálkurFestaþátturUm fjárleigurVígslóðiLandabrigðisþátturÞingskapaþátturBaugatalLögsögumannsþátturLögréttuþátturRannsóknaþátturStakir kaflar úr KonungsbókStakir kaflar úr handritsbroti (AM 315 d fol.)

1. UM LÖGMÆT FRUMHLAUP.

Fjörbaugsgarður varðar ef maður hleypur til manns lögmætu frumhlaupi. En þau eru fimm hlaup, ef maður höggur til manns eða drepur eða leggur eða skýtur eða kastar. Þá varða öll fjörbaugsgarð ef eigi kemur á, en skóggang ef á kemur.

En þá er frumhlaup lögmætt ef maður reiðir fram þann vígvöl er hann vill öðrum mein með gera, og væri hann svo nær að hann mundi taka til hins ef hann hæfði, eða ekki stöðvaði á gangi. Það er enn frumhlaup, hverju sem hann skýtur eða verpur, ef hann væri svo nær að hann mundi því koma til þess ef hann hæfði eða ekki stöðvaði.

2. UM ÞAÐ EF FRUMHLAUP ER Á GANGI STÖÐVAÐ.

Þá er frumhlaup á gangi stöðvað ef kemur á vopn eða voðir eða á völl, eða taki menn við á lofti. Ef menn þræta um frumhlaup, hvort á hafi komið eða eigi, og skal því að einu drep vera ef kviður ber það að á hinn mundi koma ef hann stæði ber fyrir.

En um þau frumhlaup fimm, er nú eru talið og fjörbaugsgarð varða, þá er eigi sókn til nema þau sé lýst fyrir búum fimm fyrir þriðju sól, eða nefndir að sýnarvottar ella á hinum sama vettvangi.

3. UM ÞAÐ FRUMHLAUP ER MAÐUR FELLIR MANN.

Það er hið sétta frumhlaup ef maður fellir mann, og varðar það skóggang. En það er fall ef hinn styður niður kné eða hendi, allra helst ef hann fellur meir.

En það er hið sjönda frumhlaup, ef maður rænir mann handráni. En það er handrán ef maður slítur úr höndum manni það er hinn heldur á áður, eða af baki honum. Það varðar og skóggang. En það er hið áttunda ef maður ryskir mann, og varðar það skóggang. Það er hið níunda ef hann kyrkir mann, og varðar það skóggang.

Um frumhlaup þau níu, sem þar eru nú talið, þar er vígt í gegn þeim öllum á hinum sama vettvangi, og eigi lengur en svo.

4. UM HANDRÁN OG FELLING OG RYSKING OG KYRKING.

Það er mælt um þau frumhlaup fjögur er skóggang varða, felling og handrán, rysking og kyrking, að þau er eigi skylt að lýsa ef þau fara ein saman, og gerist ekki fleira af á þeim vettvangi. En þó skal búa kveðja heiman til. Nú gerist fleira af á þeim vettvangi. Þá skal þau lýsa sem önnur frumhlaup, og mest til óhelgi þeim manni er hljóp fyrir öndverðu nokkuru því frumhlaupi.

5. UM ÞAÐ FRUMHLAUP ER ÁUNNIN VERK VERÐA.

Ef maður hleypur lögmætu frumhlaupi til manns á þeim vettvangi er áunnin verk verða með mönnum af því síðan, og varðar það skóggang þótt það varði fjörbaugsgarð ef það færi eitt saman.

Það er enn, ef maður hleypur lögmætu frumhlaupi til manns, og hleypur hann til óhelgi sér og sínum lagsmönnum, þeim er vissu með honum að hann mundi því hlaupi hlaupa á þeim vettvangi, nema hann hlaupi til þess manns er áður hefir til óhelgi sér verkað. Nú hleypur maður í gegn úr öðrum flokki, og hleypur sá til þess manns er eigi vissi með honum ráð, og verða þá frumhlaup í báða flokka. Ef menn verða vegnir eða sárir í hvorntveggja flokk, og verða alls sárir þrír eða fleiri, þá skal í þann flokk frumhlaup bera er fyrri var úr hlaupið, en hvorirtveggju eru ælir til dóms.

6. UM SÁR.

Ef maður særir mann, og varðar það skóggang. En það er sár ef þar blæðir sem á kom. En þó að maður ljósti mann á meðal herða eða á nasir, svo að blóð hrjóti úr munni eða nösum, og er það eigi sár ef eigi blæðir þar sem á kom.

7. UM VÍG.

Ef maður vegur mann, og varðar það skóggang. Sá maður er óæll til dóms er hann vegur mann eða veitir hin meiri sár. En þau eru hin meiri sár, heilund og holund og mergund. Það er heilund er rauf er á hausi til heila, hvort sem hann er höggvinn eða rifnaður eða brotinn. En þá er holund ef blóð má falla á hol úr sári. En þá er mergund ef bein er í sundur til mergjar, það sem mergur er í, hvort sem það er höggvið eða brotið.

Það mest sem hin meiri sár ef maður sker tungu úr höfði manni eða stingur augu úr höfði eða sker af manni nef eða eyru eða brýtur tenn úr höfði manni. En þá er skorið er skeður beini eða brjóski. Svo er og ef maður geldir mann eða höggur klámhögg um þjó þver. Ef maður lýstur mann svo að bein brotni, og mest það sem hin meiri sár þótt eigi blæði, með hverigu sem maður lýstur mann, og varðar það skóggang. Slíkt skal og allt hið sama þótt hann veiti hinum af öðrum hlutum beinbrot.

8. UM HEIMANFARAR TIL ÁVERKA.

Hvar þess er menn fara með þann hug heiman að þeir vilja á mönnum vinna, og varðar skóggang ef fram kemur en fjörbaugsgarð ella. Þeir verða og óhelgir við áverkum öllum, er fyrri koma á för til þess fundar er þeir hittast á, þótt hinir hlaupi fyrri er síðar fóru heiman.

9. EF MAÐUR STENDUR FYRIR VEGANDA.

Ef maður stendur fyrir þeim manni er mann hefir vegið eða á manni hefir unnið eða veitir hann honum lið á þeim vettvangi, og varðar það skóggang. Hann verður þá óheilagur fyrir öllum áverkum á þeim vettvangi við þá menn alla er hins vilja hefna þar er á er unnið, nema hann vildi skilja þá réttum skilnaði, og verði hinum það að liði er á hefir unnið, og varðar honum ekki sú veisla. En þá skill hann þá réttum skilnaði ef hann getur þann kvið að hann mundi svo skilja þá, þótt sá hefði slíkan svo áverka á sér fengið er nú hefir öðrum veitt, sem hinn hefir er þá er fyrir orðinn. Þótt eigi verði fleiri menn vegnir eða sárir eða lostnir, svo að blátt eða rautt sé eftir, en tveir, og sé úr sínum flokki hvor, þá eru hvorirtveggju ælir til dóms ef þeir bregðast frumhlaupum við, hverngan veg er um frumhlaup berst.

Nýmæli: Ef menn forða fjörvi frumhlaupsmanns þess er áverk lét fylgja svo að þeir veri hann oddi eða eggju, og varðar það fjörbaugsgarð ef eigi er á vettvangi. Nú hleypur áverkamaður í einstigi, og standa menn fyrir honum þar. Þá eigu þeir er eftir sækja að beiða hina frágöngu eða framsölu að honum. Þá varðar svo fyrirstaða sem nú var tínt, ef nokkur maður sækir sá eftir er sín á að hefna þar að lögum, eða annars manns, en þeygi verða þeir óhelgir fyrir áverkum er fyrir standa, ef eigi er á vettvangi. Um þau áverk varðar fyrirstaða fyrir utan vettvang, er lýst verða annaðtveggja áður eða síðan, svo að bjargir varða. Um þá fyrirstöðu alla er eigi er á vettvangi, og eru það allt stefnusakir, og skal kveðja til níu búa á þingi þaðan frá er sök gerðist.

10. UM DREP ÞAÐ ER BEIN BROTNA.

Ef maður drepur mann svo að bein brotna, og mest sem hin meiri sár, hvargi er maður drepur mann, og varðar það skóggang.

Það er drep ef maður lýstur annan með öxarhamri, og svo hverngi vígvöl er maður hefir. Jafnt er drep þótt maður leggi til eða kasti, ef á kemur. Slíkt er þótt klæði verði á milli, brynja eða hjálmur, ef á myndi koma ef eigi yrði það fyrir. Drep er og þótt maður spyrni fæti á öðrum, eða hvoti hnefa. Drep er og þótt maður reiði þann vígvöl frá manni er hann veit að þá mundi hlaupa að honum sjálft ef hann lætur laust. Svo er og ef hann fellir á mann það er hann fær högg af.

11. UM DREP ÞAÐ ER EIGI VERÐUR ÁSÝNT.

Þrjú eru drep og varða öll skóggang, og skal sækja við tylftarkvið. Það er eitt ef svo lítt kemur á að eigi verður ásýnt eftir. Þess dreps skal hefna á hinum sama vettvangi, og eigi lengur en svo, og skal lýsa ef fleira gerist af, sem felling eða kyrking, og verður sá þá óheilagur er drap.

Svo skal sækja um drep þetta að maður skal stefna um það að hann hafi drepið hann og hlaupið til hans lögmætu frumhlaupi, og láta varða skóggang. Eigi má tvær sakir úr því drepi gera þótt tvennum sé lýst, en sækja um frumhlaup eitt til fjörbaugsgarðs, ef vill, og kveðja búa heiman. Nú vænist sá maður því, er drap, að hinum yrði ásýnt þar er eigi varð. Þá verður hann svo óheilagur fyrir áverkum sem ásýnt yrði.

Það er drep annað er áverk heitir, ef maður lýstur mann svo að blátt eða rautt verður eftir, eða þrútnar hörund eða stökkur undan hold eða hrýtur blóð úr munni eða úr nösum eða undan nöglum. Þess dreps á maður að hefna jafnlengi sem sára, og svo þeir menn er honum fylgja til, og er rétt að aðrir menn hefni til jafnlengdar annars dægurs þótt þeir fari eigi sjálfir til. Slíkt er þótt hnefa sé lostið eða spyrnt, ef ásýnt verður.

12. UM ÞAÐ DREP ER HEYRN EÐA SÝN SPILLIST.

Það er og áverkadrep ef heyrn eða sýn meiðist af. Svo er og ef maður er lostinn í öngvit fyrir bringspölum eða á böll þótt ekki verði ásýnt, og svo er jafnan ef maður er lostinn í svima. Því drepi skal stefna svo að öllu sem hinu áður, nema þá skal telja rétt úr fé hans. Þar er kostur að lýsa sér hvort, frumhlaup og drep, og verða þá tvær sakir, og á skal kveða hver áverk þau hafa fylgt drepinu er nú voru tínd. En ef í einni lýsingu er haft bæði drep og frumhlaup, eða annað verður lýst eða bæði ólýst, þá er ein sök.

Það er drep hið þriðja ef bein brotna, og verður sá óæll til dóms er drepið hefir og á eigi þingreitt. Svo skal sækja sem um sár hin meiri um björg, ef lýst verður, og skal á kveða ef maður lýsir það drep að beinbrot hafa fylgt. Tvær eru sakir ef tvennum er lýst.

Ef maður vill um frumhlaup sækja, og skal kveðja níu búa heiman. Um drep það skal stefna og kveða á það að hinn hafi veitt honum beinbrot í því drepi og láta varða skóggang og telja rétt úr fé hins. Ef maður heldur manni undir drep, og varðar það skóggang, og skal kveðja níu vettvangsbúa heiman. Ef tveir menn eða fleiri verða vegnir eða sárir eða drepnir svo að blátt eða rautt verður eftir, og úr sínum flokki hvor, þá eru ælir hvorirtveggju til dóms ef þeir bregðast frumhlaupum við, hvegi er um hlaup berst.

13. UM ÞAÐ HVERSU MAÐUR Á AÐ HEFNA SÁRA SINNA.

Sá maður er á er unnið á að hefna sín til þess alþingis er hann er skyldur að sækja um sár sín, eða þann áverka sem hann fékk, og svo skulu þeir menn er vígs eigu að hefna. Sá maður fellur óheilagur fyrir honum sjálfum, er á honum vann, og svo fyrir þeim mönnum öllum er honum fylgja til vettvangs, enda er rétt að aðrir menn hefni hans ef vilja, til jafnlengdar annars dægurs. Þeir menn eigu vígs að hefna er aðiljar eru vígsakar og þeir menn er þeim fylgja til vettvangs, enda á hver að hefna er vill til annars dægurs.

Hvatki er maður gerir þess að öðrum manni er þar blæðir er á kemur, og skal sár lýsa, en ben ef að bana gerist. Maður er óæll til dóms af vöðvasári ef hann er með votta inni staðinn. En ef maður lýgst sári á eða særir hann sig sjálfur, svo og ef hann ræður annan mann til, og svo hvatki sem hann gerir þess er hann fær af því sár, og varðar það fjörbaugsgarð. Sá á sök er hann kennir sár, eða sá hver er vill, þeirra manna er í andskotaflokki hans voru, þá er hann kvaðst sár fá, enda kvað hann á engan um.

Þess á maður og kost, ef hann verður fyrir drepi, að sækja um frumhlaup til fjörbaugsgarðs, ef honum þykja þau atkvæði betri að hann sæki eigi um drep. Nú vænist hinn því að hann hafi drepið hann, og verður honum það ekki sakarvörn. En það varðar fjörbaugsgarð, og skal það sækja sem annað illmæli. Verður hann þar dæmdur skógarmaður af fjörbaugssökum tveim, ef í einn dóm eru báðar sóttar, því að einn er aðili að báðum sökunum.

14. UM VETTVANG.

Svo er mælt að það skal vettvangur vera er öru má skjóta á fjóra vega úr þeim stað er hið fyrsta hlaupið varð, hvort sem það er úti eða inni. Og skal það vettvangur vera þó að þeir hafi víðara farið áður þeir eru skildir. En þá eru þeir skildir, er aðrirtveggju eru lengra í brott komnir en ördrag úr þeim stað sem þeir hljópust síðast til, og er þeirra lengra á meðal en ördrag.

[Tr: En þá eru menn skildir að lögum að aðrir hvörjir eru lengra burt komnir en ördrag úr þeim stað er þeir hlupu síðast til. En það er ördrag er ör er sett á bogastreng og sé svo skotið frá þeim stað er síðasta hlaupið varð og til þess staðar er örin fellur sjálf niður, ef ei stæði þar fyrir svo henni megi hamla.]

15. UM ÞAÐ HVERSU GRIÐA SKAL BEIÐA.

Hvarvetna þess er vegnar sakir standa óbættar á milli manna, enda vili menn sættast á þau mál, þeir er hlut eigu í, hvorirtveggju sem fyrst má, sækjendur og verjendur og hollendur. Hvatki er sátt þeirra dvelur, hverigra hluta er þeir beiða, þá eigu menn grið að selja hvorir öðrum ef menn vilja þess beitt hafa. Það eru forn lög á Íslandi. Ef vegandi beiðir sér griða nás nið eða nefa, eða hans frændur honum, eða sér, fyrir þriðju sól eftir vígið með votta og til heilla sátta við frændur veganda eða vini, fulltíða menn og frjálsborna, þá skulu þeir eigi griða varna ef að lögum er beitt. Rétt er mönnum að beiða griða, hvargi er menn eru staddir þar er áunnin verk verða með mönnum, þótt engir sé vegnir. En þá er að lögum beitt griða ef maður nefnir sér votta fimm eða fleiri, lögsjáendur, mann tólf vetra gamlan eða eldra, frjálsan og heimilisfastan, áttræðan eða yngra, svo heilan og hraustan að hann sé bæði vegandi og verjandi fjörs síns og fjár, skildi að valda eða skjóta af bendum boga: „Nefni eg í það vætti, að eg beiði N. og hans lagsmenn, vini og frændur, fégriða og fjörgriða mér og mínum mönnum til farnaðar og til ferðar, til happs og heilla sátta.“ Þá varðar fjörbaugsgarð ef hinn varnar griða, hvegi er hann svarar, eða svo ef hann svarar engu. Þá skal votta að nefna, enda varðar jafnmikið hverngi veg sem hann varnar griða. Griða er eigi varnað þótt sá nefni sér fimm votta eða fleiri. Þá skal svo vanda að öllu sem hina fyrri tvo, þá er griða var beitt. Sá nefnir í það vætti, er griða var beiddur, að hann spyr votta hins, og nefna hann eða vitnismenn, hvort þeir sé hyggjendur eða hollendur hvorratveggju þeirra er tveim megin standa að þessu máli, til heilla sátta og hollrar veislu, eða sé þeir eigi. Nú svara þeir öngu vottarnir, eða öðru en þeim er í hug. Þá varðar þeim fjörbaugsgarð, enda er hann eigi skyldur að láta þeim grið uppi. Nú grunar hann það að þeir vili eigi heilar sáttir við hann. Þá skal hann beiða með votta þann er hann beiddi griða, og svo votta hans, að þeir vinni tryggðaeið að því að eigi sé undirmál við hann af þeirra hendi, áður hann láti þeim grið uppi. Nú vilja þeir vinna eiðinn, þá skal gefa eiðinn, nema þeir vili vinna hvorirtveggju. Þá skulu þeir á þessa lund að kveða að vitni Guðs og allra heilagra manna hans: „Sé mér Guð hollur ef eg satt segi, en gramur ef eg lýg. Sé mér Guð hollur.“ Þá skal hann grið láta þeim uppi. En ef þeir varna eiðanna, þá er það fjörbaugssök um eiðfallið. En önnur fjörbaugssök er sú við þá er þeir vilja véla hann í nokkuru og heitir það griðabrek ef eigi kemur fram. En fram komið griðarof varðar skóggang. Á sá sakir þær er griða beiddi, og við votta hans. En ef hann vill eigi sækja, þá varðar honum þriggja marka útlegð. Þá er sá sóknaraðili um griðarof er vígsökina á að sækja, eða um eiðfallið, nema sá sé allur einn er griðanna var beiddur og vígsakaraðilinn er eða áverkans. En ef sá vill eigi sækja, þá varðar þeim fjörbaugsgarð er fyrst átti sökina um griðarof og um eiðfallið, er vottar eru þess er griða var beitt. En ef þeir vilja eigi sækja, þá varðar skóggang þeim er fyrstur átti sökina um griðarof. Sá á sök við hann er griðanna beiddi. En honum varðar eigi við lög þótt hann stefni eigi um niðurfallið sakanna. En því aðeins eyðir hann fyrir honum dæmd mál ef hann stefnir honum af sökum, enda væri sá eigi óæll til dóms. Því aðeins eru mál hans mæt ef hann er eigi sannur að griðarofinu eða eiðfalli. En ef sá er óæll er griða beiddi, enda sé hann sannur að griðarofi, þá á nokkur votta hans að stefna honum af sökum, og helpur honum þó því aðeins það, ef eigi er á vettvangi svo að hann verði æll til dóms, enda sé hann eigi að griðarofi sannur, hvort sem þeir eru á vettvangi eða annars staðar, enda sé griða að lögum beitt, hvergi sem beiðir. Þá verður vegandi æll til dóms, nema nokkur þeirra sé er þrem mörkum væri gildur ef sekur yrði. Þá varðar það eigi við lög að þeim sé griða varnað.

Griðabeiðandanum er rétt að stefna í þeim stað er griða var beitt um það er griða var varnað, og svo um það allt er þar gerist af. En ellegar nefna votta að og stefna að heimili þess er sóttur er, og skal þá við vottorð sækja, það er að var nefnt, ef eigi var stefnt, nema þar sé stefnt er griða var beitt, þá skal við hin fyrri vottorðin sækja jafnan, þau önnur sem fylgt hafa en stefnuvætti, nema á vettvangi sé, þá skulu vettvangsbúar níu skilja, þeir er um víg eða áverka eigu kviðu að bera um fjörbaugssakir og um skóggangssakir, en fimm annars staðar. Nú ber svo að þeir vitu eigi hvort búar munu heiman kvaddir um víg eða áverka. Þá skal spyrja með votta áður þeir skili, hvort hinir ætli búa að kveðja heiman eða eigi, eða hverja þeir vilja kveðja. Ef þeir svara engu eða óskilum, þá skal nefna að votta níu, og varðar lögvilla slíkt svo þar.

16. UM LÝSINGAR.

Lagalöstu þessa alla sem hér eru taldir, um víg og um sár og um drep og um öll frumhlaup, er rétt að lýsa fyrir vettvangsbúum fimm, þeim er réttir sé að leiðarlengd í níu búa kvið frá vettvangi, og vanda að engu annars, og skal lýst fyrir þriðju sól þaðan í frá er frumhlaup eða áverk gerðust og þeir skildust. [K: Að engu skal búa vanda til lýsingar nema að leiðarlengd, og að því að þeim sé eigi áverk kennd né lagalestir.]

Rétt er að lýsa sár og frumhlaup um nótt sem um dag, og svo á helgum tíðum og um langaföstu. En ef ólýst verður eða ranglýst, og verða þeir þá ælir til dóms er áverk hafa veitt og eiga þingreitt.

Manni er rétt að lýsa frumhlaup á hönd öllum þeim mönnum er í andskotaflokki honum voru þá er hlaupið var til hans, ef hann veit eigi víst hver til hans hljóp. Ef maður veit eigi víst hvort er hið meira eða hið minna sár, og skal þá hið meira sár lýsa, en slíkt varða bjargir hins sem sár reynist til. [K: Það er mælt, ef maður lýsir hið meira sár þars hið minna er, og verður þó rétt lýst hið minna sárið, en það skiptir um eldi sem sárið reynist.] Nú lýsir maður hið minna sár þar sem hið meira er, og skal þá svo sækja um björgina sem hið minna hafi verið sárið, en svo mest að öllu öðru sem áður.

Ef maður er einu sári sár, og skal hann einum á hönd lýsa. Rétt er að hann lýsi tveim mönnum á hönd ef hann er tveim sárum sár, enda er rétt að hann lýsi þrimur á hendur ef hann er þrem sárum sár, en eigi skal hann fleirum á hendur lýsa en þrem mönnum, þótt hann sé fleirum sár sárunum.

Svo er enn mælt, hvort sem er að maður vill eigi lýsa eða má hann eigi lýsa, þá er honum rétt að hann seli öðrum manni í hönd að lýsa sár sitt, og svo þótt hann hafi fleiri sár en eitt, og allan þann áverka sem hann fékk. Nú selur hann í hönd öðrum manni að lýsa áverka sinn, svo að hann er eigi í för sjálfur, enda lýsir sá rangt er til er fenginn, þá skal hann lýsa sjálfur í annað sinn. En hann skal svo fara að lýsingu þeirri að hefja upp ferð sína á næsta hálfum mánaði er hann er fær og hafa lýst fyrir þriðju sól þaðan frá er hann kemur til vettvangs, enda skal hann slík atferli hafa öll hin sömu, ef hann fékk engan mann til fyrir öndverðu að lýsa, þá er hann varð vanhluti. Nú selur hann svo í hönd öðrum manni að lýsa áverka sinn að hann er í ferð sjálfur, enda lýsi hinn rangt, þá á hann eigi að taka upp lýsingina í annað sinn.

17. UM ÞAÐ EF MAÐUR VERÐUR ÓMÁLI AF SÁRUM.

Ef maður er ómáli af áverkum eða óviti, þá skal sá maður lýsa er aðili væri vígsakar eftir hinn sára ef hann væri veginn. Hann skal spyrja hinn sára mann hvort hann megi mæla eða eigi. En síðan skal hann nefna votta að því að hinn má eigi mæla eða mælir eigi af viti ella. Hann skal lýst hafa fyrir þriðju sól. Nú verður sá eigi við staddur, og er rétt að lýsi hver er vill, þeirra er fulltingja hinum sára manni, og skal sá slík atferli hafa öll um lýsingina sem áður var tínt.

Nú batnar hinum sára manni, og er honum rétt að hafa hina sömu lýsing, enda er honum rétt að hann lýsi í annað sinn sjálfur, og fara svo að lýsingu sem hinum var til handa mælt er hann seldi lýsingina.

18. UM VÍG OG BENJAVÆTTI.

Ef maður verður veginn og er þar sakaraðili hjá, þá skal hann lýst hafa fyrir hina þriðju sól og svo nefnt votta að benjum. Honum er rétt að lýsa jafnmörgum mönnum á hendur sem benjar eru á hinum dauða manni, þeim er í andskotaflokki hinum voru á þeim vettvangi er sá fékk banasár. Svo skal nefna jafnmarga menn til benja, ef hann vill, sem benjar eru á hinum dauða. Hann skal nefna votta að benjum og sýna þeim benjar [K: eigi eigu þeir það að bera hve margar voru] og kveða á til hverrar benjar hann nefnir hvern þeirra sem hann vill til hafa nefndan. „Nefni eg mér benjavætti þetta að lögum,“ skal hann segja, „eða þeim manni hverjum er njóta þarf þessa vættis.“ Honum er rétt að hafa eina vottnefnu þar sem hann nefnir votta að benjum, enda er rétt að nefna sér að hverri ben ef hann vill. Benjavotta skal svo vanda að þeir sé réttir að tengdum í níu búa kvið við sakaraðilja. Þeir eigu þá að bera hve margar benjar eru, en búakviður hverir sannir eru að.

Nú verða eigi vottar nefndir að benjum. Þá skal búakviður skilja um hvorttveggja, hve margar benjar eru og hverir sannir eru að benjum, og skulu níu vettvangsbúar skilja það, heiman kvaddir, hverir sannir eru að benjum. En fimm búar úr þeim sóknarkvið, þeir sem næstir búa vettvangi, skulu það skilja hve margar benjar eru.

19. UM BENJALÝSING.

Þar skal ben lýsa er þau sár finnast á dauðum manni er metast ætti sem hin meiri sár ef hann lifði. En eigi það sem hin smærri sár eru, nema því að einu ef kviður ber að það sár sé að bana orðið er minna sé ásýnar.

Nú verður aðili eigi við staddur þar er maður er veginn, og er rétt að hver lýsi er vill og nefni votta að benjum, þeirra manna er fulltingja vilja aðiljanum, og hafa þau atferli sem áður var tínt.

Nú spyr sakaraðili vígið, og er honum rétt að hafa þann tilbúning sem aðrir menn hafa til búið. Enda er honum rétt að hefja upp ferð sína á hinum fyrsta hálfum mánaði er hann spyr og hafa lýst og nefnda votta að benjum fyrir þriðju sól þaðan í frá er hann kemur til að lýsa. Hann á þá kost að lýsa öðrum mönnum öllum á hendur en áður sé lýst, og svo nefna alla menn aðra til benja en áður væri nefndir. Búakviður á þá að skilja hve margar benjar eru, enda er rétt að hann nýti það allt er áður hefir verið til búið, ef hann vill, hvort sem hann vill allt eða sumt. Svo skal nefna votta að sárum sem að benjum, og svo skal þar vanda votta.

Ef rétt lýst er hinu meira sári á hönd manni, og gerist það að banasári, og þó að eigi verði víginu lýst á hönd hinum sama manni, þá er jöfn sókn til um bjargir sem áður. Ef maður lýsir sár sín sjálfur og gerist það að vígi síðar, og á sakaraðili þó að lýsa víginu ef hann vill, og nefna votta að benjum. Honum er þá rétt að lýsa öllum öðrum mönnum á hendur en áður sé lýst, og svo nefna aðra menn til benja ef hann vill.

20. UM ÁVERKALÝSING Á MANNFUNDUM.

Ef menn vinnast á á mannafundum þeim er búendur eru við staddir níu eða fleiri, og er rétt að lýsa fyrir þeim öllum saman níu sem þar eru við staddir, þó að þeir sé eigi vettvangsbúar, ef þeim eru eigi áverk kennd á þeim vettvangi. Enda er rétt að lýsa fyrir fimm vettvangsbúum ef það þykir betra, og jafnrétt er þó að þeir hafi á vettvangi verið, ef þeim eru eigi áverk kennd.

Nú finnast menn á fjöllum eða á fjörðum, þá skal lýst fyrir þriðju sól þaðan frá er þeir koma af fjalli eða af firði.

Svo skal að lýsingu fara sem nú var tínt, hvar þess er lögsegjendur eða lögsjáendur ganga hvorntveggja veg frá vígi, en þeir eru lögsegjendur eða lögsjáendur karlar tólf vetra gamlir eða eldri, þeir er fyrir eiði og orði kunnu hyggja, frjálsir menn og heimilisfastir. Hvar þess er menn ganga annan veg aðeins frá vígi, þá skal vegandi lýsa samdægris á hönd sér víginu nema það hafi verið á firði eða fjalli, þá skal hann samdægris lýst hafa er hann kemur þaðan. Hann skal fara til næsta bæjar, þess er hann hyggi óhætt fjörvi sínu vera munu fyrir þá sök og aðra, og segja þar til lögföstum manni einum eða fleirum, og nefna hann á nafn hinn sára ef hann veit, og kveða á þessa lund að: „Fundur okkar N. N-sonar varð,“ og kveða á hvar varð, „og lýsi eg mér á hönd allan þann áverka sem á honum er unninn. Lýsi eg sár ef að sárum gerist en víg ef að vígi gerist.“

Ef hann fer frá dauðum manni, þá skal hann hræ hylja svo að hvortki eti dýr né fuglar. [K: Hann skal segja hvar það er.] En ef hann hylur eigi hræ, og varðar það fjörbaugsgarð [K: og er það stefnusök, og skal kveðja níu búa á þingi, þá er næstir eru hræjum]. En ef hinn sári maður gengur síðan ördrag eða lengra frá fundi þeirra og segir öðrum mönnum frá þeirra skiptum, þá þarf hinn eigi að lýsa. Nú má hinn sári maður eigi finna lögfasta menn svo að hann mæli við þá, þó að hann sé gengur ördrag eða lengra. Þá skal sá er áverka hefir veitt honum lýsa fyrir búum fimm, þeim er næstir eru þeim stað sem hann er, þá er hann spyr dauða hins, ef hann lýsti eigi fyrr. En ef hann lýsir annan veg en nú er tínt, og mest það þá sem morð að því að hinn hafði ekki þess til saka gert er hann félli fyrir því óheilagur.

Ef maður verður lostinn svo að eigi verður lýst, og er hann samvistum við þann mann er lostið hefir hann, svo að hann væri fær í brott, og á hann eigi þá að taka rétt sinn úr fé hins, en það eru átta aurar hins fimmta tigar, nema sá maður sé er eigi á sjálfur forráð saka sinna, hvað sem til þess ber, og á sá þó að taka rétt sinn.

En þó á hinn að sækja sök sína til skógar, en rétt skal eigi dæma úr fé hins. Ef manni verður svo banað að eigi er á sýnt á honum og finnast eigi ben á honum, verður hann eltur á vötn eða fyrir björg eða kyrktur eða kafður í nokkuru til heljar, og svo hverngi dauða er þeir deyða hann, þess er hann fær af þeirra völdum bana, enda verði honum eigi á sýnt, þá á því vígi eigi fleirum mönnum á hendur að lýsa en þrem, svo að þingfarar stöðvi, þó að fleiri hafi að verið.

21. UM ÞAÐ AÐ LÝSA FRUMHLAUP EÐA SÁR EÐA VÍG.

Sá maður er hann vill lýsa frumhlaup á hönd manni, eða drep eða sár eða víg, hann skal nefna sér votta tvo eða fleiri „í það vætti, að eg lýsi lögmæt frumhlaup á hönd honum,“ og skal hann nefna þann er hljóp og svo þann er hlaupið var til og þann hinn þriðja er hann lýsir fyrir, og hann lýsir löglýsing. Hann á kost að hafa hvort sem vill í einni lýsingu frumhlaup og þann áverka er í því hefir gerst, og skal hann á kveða hver áverk fylgt hafa, hvort sem verið hafa drep eða sár, eða hann særði hann því sári er að ben gerðist þar sem hann fékk bana af, enda skal hann þá eina sök úr gera ef hann hafði í einni lýsingu. Honum er og rétt að lýsa sér hvort, frumhlaup og þann áverka sem fylgt hefir, og skulu þá vera tvær sakir.

Sá maður er hann lýsir sár eða drep, hann skal nefna sér votta tvo eða fleiri í það vætti, að hann lýsir löglýsing á hönd N., sár eða drep, og kveða á hver áverk eru, hvort sem er heilund eða holund eða mergund, eða svo þótt þau sé önnur áverk er metast ætti sem hin meiri sár, og svo ef hin minni sár eru, að nefna þá til. Hann skal nefna hvorntveggja, þann er hann lýsir á hönd og þann er á er unnið, og þann hinn þriðja er hann lýsir fyrir.

Ef maður vill gera tvær sakir úr vígi og frumhlaupi, þá skal hann nefna sér votta tvo eða fleiri. „Nefni eg í það vætti,“ skal hann segja, „að eg lýsi lögmætt frumhlaup á hönd N. um það að hann hafi hlaupið til N. á þeim vettvangi er hann særði N. því sári er að ben gerðist, og N. fékk bana af. Lýsi eg fyrir N., lýsi eg löglýsing.“ Síðan skal hann enn nefna votta tvo eða fleiri „í það vætti, að eg lýsi á hönd N. að hann hafi veitt sár N. það er að ben gerðist og að bana á þeim vettvangi er N. hljóp lögmætu frumhlaupi til N. Lýsi eg löglýsing.“

Rétt er að maður lýsi frumhlaup og áverk fyrir öllum búum saman, þeim er hann náir fundi í einum stað og hann vill fyrir hafa lýst, og skal hann nefna þá alla á nafn og hafa þar eina vottnefnu, enda er rétt að lýsa fyrir sérhverjum. Þar er maður vill selja öðrum í hönd að lýsa frumhlaup eða áverk, þá skulu þeir nefna votta sín á milli að því að hann selur hinum í hönd að lýsa frumhlaup eða áverk löglýsingu. Selur hann að lögum, en hinn tekur að lögum.

Nýmæli: Ef áverk eru ólýst, þá skal eina sökina úr gera og kveðja búa heiman um það hvort hann hafi hlaupið lögmætu frumhlaupi til hans og særðan hann því sári sem hann hafði fengið, og skal á kveða hvert sár er.

Nýmæli: Þar er menn skulu lýsa frumhlaup eða áverk, þá er rétt að lýsa þaðan frá er sá atburður gerðist, þann hinn sama dag og þá nótt er þá kemur eftir og tvo daga þaðan frá og tvær nætur. Þá er lýst fyrir hina þriðju sól sem að kveður í uppsögu ef það er rétt skilt sem þar kveður að.

22. UM KVAÐIR.

Það er mælt um sakir þær allar sem hér eru taldar, um frumhlaup og um sár og um víg og lagalöstu alla er á þeim vettvangi gerast er áunnin verk verða með mönnum bæði í ráðum og tilför og aðvist og fyrirstöðu, þar skal um það allt kveðja til níu vettvangsbúa heiman.

En ef maður drepur mann, og er það stefnusök, og skal kveðja til tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er, nema allt verði á einum vettvangi, drep og sár eða víg. Þá skulu vettvangsbúar níu, heiman kvaddir, skilja um hvorttveggja, en tylftarkviðar á jafnan á þingi að kveðja þar sem hann kemur til saka.

Ef maður hefnir drepi dreps á hinum sama vettvangi, svo að þeir bregðast frumhlaupum við, þá skal tylftarkviður skilja um drepin. En vettvangsbúar níu, heiman kvaddir, skulu um það skilja hvor þeirra fyrri hljóp. Nú hefnir maður drepi dreps á öðrum vettvangi. Þá skulu enn tylftarkviðir skilja um drep, en sá skal kveðja, er síðar drap, fimm heimilisbúa sína á þingi til bjargkviðar sér að bera um það hvor þeirra fyrri var drepinn. Nú hefnir maður vígi eða sárum dreps á öðrum vettvangi. Þá skulu vettvangsbúar níu, heiman kvaddir, skilja um víg eða sár, hvort sem var, en tólftarkviður um drep. Vegandi, eða sá er sár hefir veitt, skal kveðja sér bjargkviðar fimm búa þá er næstir eru vettvangi, úr þeim sóknarkvið er á hann bar áður víg eða sár, að bera um það hvort fyrr var að hann var drepinn eða hann vann á hinum vegna eða hinum sára. Níu vettvangsbúa skal kveðja heiman um áverk þau öll sem nú eru tínd. Þá skal kveðja er réttir sé að tengdum við þá menn alla er áverk eru kennd, og svo við sakaraðilja.

23. UM BÚAKVÖÐ.

Ef maður vill búa kveðja, og skal hann nefna sér votta tvo eða fleiri „í það vætti,“ skal hann segja, „að eg kveð þig, N., búakviðar að bera um það,“ og skal á það kveða um hvað hann kveður, og til hvers þings hann kveður hinn. „Kveð eg þig að bera kvið þann að dómi og í dóm fram, þar er sök er áður fram sögð með nauta þína átta, en þú sér sjálfur hinn níundi, og bera annaðhvort á eða af. Kveð eg lögkvöð,“ svo að hann heyrir á sjálfur eða að lögheimili hans ella svo að lögfastir menn heyra. „Kveð eg um handselda sök,“ ef svo er. Svo skal að því máli fara í hvert sinn, þar til er allir eru kvaddir.

Honum er þar rétt búa að kveðja sem hann hittir þá að máli og að heimili þeirra. Ef nokkurir heyra eigi, lögfastir menn, á kvöð hans, þá skal hann lýsa kvöðina fyrir búum þrem, þeim er engir sé níu nærri, þeir er lögbú hafi og á götu hans eru, og nefna votta að því að hann lýsir kvöð þá löglýsing fyrir N., og skal hann kveða á um hvað hann kvaddi og til hvers þings hann kvaddi og hann kvaddi lögkvöð.

Það er manni rétt, hvort sem hann hefir handselda sök eða eigi, að selja öðrum manni í hönd búakvöð, hvort sem hann vill um alla eða suma, og svo þótt votta skyli kveðja, og skal hann með votta selja, og selja kvöðina eina af sökinni. Selur hann að lögum, en hinn tekur að lögum.

24. UM ÞAÐ HVERJA BÚA KVEÐJA SKAL.

Búar eru í kvöð rangir, þeir er næstabræðra eða nánari eru sakaraðilja, eða þeim er sök er á hendi, og námágar þrír, ef maður á móður manns eða dóttur eða systur, hvor sem annars frændkonu á, og guðsifjar þrír, sá er heldur manni undir prímsignan eða undir skírn eða undir biskupshönd. Maður skal kvið ryðja við sjálfan sig að frændsemi og að mægðum, en að guðsifjum skal eigi ryðja við sjálfan sig. Skal-a maður kvið bera um hýja sinn. Búa skal ryðja jafnan að frændsemi og að mægðum og að guðsifjum og að sökum við sóknaraðilja og við varnaraðilja, hvergi sem með sókn eða vörn fer. Svo skulu búar að sökum réttir sem að frændsemi þar er vegnar sakir eru, og skal við þann mann einn að sökum ryðja er kosinn er til veganda að lögum, en eigi við fleiri menn þótt að vígi hafi verið.

Sá maður er rangur í kviðum er kosinn er til veganda jafnan síðan við sakaraðilja, og frændur hans og mágar hans þrír, svo nánir hvorirtveggju sem áður var tínt. En svo skal að hrörum fara við þá menn að telja skal frændsemi með þeim er kvaddur er og veganda, og með aðilja og hinum vegna, og skal leggja það undir þegnskap síðan að sú er frændsemistala sönn og rétt, er þá er talið, með hvorumtveggjum. „En þær sakir eru með þeim er kvaddur er og aðilja,“ og skal nefna þá báða. Búar eru í kvöð réttir þótt þeir hafi á vettvangi verið, ef þeim eru engir lagalestir kenndir á þeim vettvangi.

Ef maður býr sök á hönd manni af því að hann vill hann úr kviðum ráða, en eigi af því að hann hyggi hinn að sökum sannan, og varðar það fjörbaugsgarð, og á sá maður sök þá er að meðferð hefir frumsökina, þá er sjá gerist af. Það er stefnusök, og skal kveðja til heimilisbúa á þingi þess manns er sóttur er.

25. UM ÞAÐ HVERIR ÞINGFARARKAUPI EIGU AÐ GEGNA.

Þá skal búa kveðja er fé eigu svo að þingfararkaupi eigi að gegna. En þeir eiga að gjalda þingfararkaup, og eru þess skyldir, er skuldahjón hans á hvert kú eða kúgildi, skip eða net, og skal hann eiga umfram eyk, oxa eða hross, og alla búsbúhluti þá er það bú má eigi þarfnast. En skuldahjú hans eru þeir menn allir er hann á fram að færa, og þeir verkmenn sem þar þurfu að skyldu fyrir að vinna.

26. UM EINVIRKJA.

Nýmæli: Einvirki er réttur í kvöð ef hann á svo fé að hvert skyldahjóna hans hljóti tvö kúgildi.

Sá er eigi einvirki, er hann tekur við manni að lögfardögum til tveggja missera vistar, og er sá með honum þar til er liðið er alþingi eða lengur, karlmanni tólf vetra gömlum eða eldra, svo hraustum að hann sé matlauni eða betur, svo að hann megi heim reka smala hans svo að það sé skaðalaust, ef hann vill.

Of kvaðir þær allar er kveðja skal fyrir fardaga, og er hann því að einu réttur í kvöð ef maður var hið fyrra sumarið þar, sem sá er þá er með honum, tólf vetra gamall eða eldri, nema sá væri fúlgumaður. Ef tveir menn búa í einu húsi, og er rétt að kveðja báða ef þarf, en þann sem nær er vettvangi ef í því deilir, enda þarf eigi báða. En ef þeir hafa einn smalamann báðir og eigi fleiri verkmenn, þá er einvirki hvortveggi, nema annar einn fæði hann, og er sá þá réttur í kviðnum. Ef tveir menn eigu bú saman þeir er báðir eru réttir í kvöð, og skal landeiganda þar kveðja ef annar er leiglendingur en annar landeigandi. Ef tveir landeigendur eða tveir leiglendingar eigu bú saman, þeir er réttir eru í kvöð, þá skal þann kveðja er meira á í búi. En ef þeir eiga jafnmikið í búi, þá skal kveðja hvorn sem vill af hvorumtveggjum. Ef tveir menn eigu bú saman, þeir er gjalda eiga þingfararkaup, og hafa þeir enga griðmenn, og er þótt réttur annar þeirra í kvöð ef hinn er matlauni eða betur, er heima situr, en gegna skal hálfum kostnaði hvor.

Þann mann skal eigi kveðja er eigi er þingfær. En sá maður er þingfær er hann má ríða fullum dagleiðum og taka hest sinn á áiföngum, og sé hann svo skyggn að hann megi hitta leið sína þar sem honum er kunnigt. Þótt maður sé sár eða sjúkur, og er rétt að kveðja hann fyrir þeim sökum ef von er að þess batnaðar, að hann megi þingfær verða á því méli er þar til er sem hann skal heiman ríða. En hvertki veilindi sem maður hefir, það sem batnaðar er eigi að von, svo að hann verði þingfær þá er hann skal heiman ríða, og skal þann mann eigi kveðja.

27. UM ÞAÐ HVERN ER AÐ KVEÐJA FYRIR ÓFÆRS MANNS BÚ.

Fyr bú ófærs manns er rétt að kveðja fjóra menn ef þeir eru þar heimilisfastir með honum. Einn er sonur, annar stjúpsonur hans, þriði er námágur búanda sá er dóttur hans á, fjórði er fóstri hans sá er hann tók að fæða átta vetra gamlan eða yngra, og var það þá ráðið þegar að hann skyldi fæða hann þar til er hann væri sextán vetra gamall. [K: Það er lögfóstur er maður tekur við manni átta vetra gömlum eða yngra og fæði til þess er hann er sextán vetra gamall.] Þá eru þeir menn fjórir þingheyjendur fyrir bú hans ef þeir eru tólf vetra gamlir eða eldri og svo vitugir að þeir kunni að ráða fyrir orði og eiði, og sé frjálsir menn. Þeir skulu og réttir hvorirtveggju að tengdum og að sökum, búandinn og sá þeirra fjögurra sem kvaddur er.

Kvöð skal yfir hefja þar sem kona býr, nema þar sé nokkur þeirra manna með henni er þingheyjandi sé fyrir bú hennar. Þeir menn hinir sömu fjórir, er kveðja skyldi fyrir ófærs manns bú, eru réttir fyrir konu að kveðja, enda er réttur búandi hennar hinn fimmti maður, ef þeir eru þar heimilisfastir.

Þar er býr fyrir ófær maður eða kona, og hefir það þeirra er kvöðin tekur til ráðið sér griðmann til tveggja missara vistar, og hafi hann þar verið um alþingi, enda væri hann tólf vetra gamall eða eldri og matlauni eða betur, enda komi út nokkur þeirra er þingheyjandi sé fyrir bú hennar, eða þess þeirra er kveðja þarf, og sé þar heimilisfastur, og er rétt að kveðja hann ef hann kemur þar fyrr til vistar en kvöðin sé upp hafið.

Eigi skal kveðja þann mann er aðili er á vist með, og eigi þann er sá er í vist með er mál er á hendi, og eigi þann er hinn vegni var í vist með.

Þá skal búa kveðja er réttir sé fyrir alls sakir, og sé eigi nefndir til sára né benja. En ef maður ifar um hvort maður sé réttur í kviðum eða eigi, þá skal hann nefna sér votta tvo eða fleiri. „Nefni eg í það vætti,“ skal hann segja, „að eg spyr þig, N., hvort þú sér réttur þingheyjandi eða eigi að gegna lögskilum fyrir bú þitt,“ eða svo fyrir ófærs manns bú eða fyrir konu bú, ef þess þarf heldur að spyrja. „Spyr eg lögspurning.“ Hann skal nefna votta að svörum þeim sem verða. Honum er rétt þá að skipa svo kvöðinni sem hinn svarar. En sá verður útlagur þrem mörkum er spurður var ef hann lýgur eða svarar hann engu, og á sá maður að sækja þá sök er lögfréttar spurði hann. Nú vill hann eigi sækja hann, þá á búi sá sökina er kvaddur er í stað hins. En ef hann vill eigi sækja, þá skal sá þeirra sækja þá sök er vill. En ef þeir bregðast um, þá skulu þeir hluta. Það er stefnusök, og skal kveðja til fimm búa á þingi þess er sóttur er.

Hvar þess er menn kveðja búa heiman og sitja feðgar fyrir, og þó að annar einn eigi í búi, þá er þó rétt að kveðja hvorn er vill, þar er þeir eru réttir í kviðinum, og skal kveðja hinn elsta sonanna ef þeir eru fleiri. Rétt verður og þó að sá leysi kviðinn af hendi er til þings kemur, þótt hinn hafi kvaddur verið er heima situr. En þann skal sækja um heimasetuna er kvaddur var, ef hvorgi þeirra fer. En við þann þeirra er sök er á för kemur, hvatki sem að þrýtur.

Þar er menn kveðja búa um þá lagalöstu er á þeim vettvangi gerast er menn bregðast frumhlaupum við, þá skal kvöð upp hefja um morguninn og kveðja hvern búa að öðrum þar til er allir eru kvaddir, og skal hann á einum degi kveðja ef því má við koma. Þeir skulu og hina sömu búa kveðja er síðar hefja upp kvöðina, sem hinir kvöddu áður, enda eigu þeir ruðningar allar er síðar kvöddu. Nú bregðast menn við um búakvöð og fara að sínum enda hvorir, og ef þeir hittast á, þá eru hvorirtveggju skyldir að segja hverja þeir kvöddu og svo hverja þeir ætla enn að kveðja. Þeir eiga eina búa allir að kveðja, enda eiga þeir hvorirtveggju ruðningar, og um þá búa hvorir er þeir kvöddu síðar.

Nú hittast þeir og verða eigi á sáttir hverjum búum við skal auka, þeim er þeir hafa áður hvorigir kvadda, og eiga þeir fyrir kvöð að ráða er fleiri höfðu kvadda búana, þá er þeir fundust. En ef þeir hafa jafnmarga búa kvadda, þá skulu þeir fyrir kvöð ráða er fyrri hófu upp kvöðina. Nú finnast þeir svo að þeir hafa jafnmarga búa kvaddir hvorirtveggju, enda verða þeir eigi á sáttir hvorir fyrri hófu upp kvöðina. Þá skulu það skilja níu búar, þeir sem réttastir verða vettvangsbúar um sakir þær sem þeir kveðja um ef þeir kveðja um einn vettvang, enda kveðja þeir eigi eina búa allir — hvorir fyrr tóku til. En mál þeirra verða öll ónýt, þau er þeir kveðja um, er kviður ber þann vanhag að síðar hæfi upp kvöðina eða síður ætti fyrir að ráða. En ef þeir hittast á svo að hvorirtveggju hafa svo mjög framað kvöð sinni að fleiri búar verða þá alls kvaddir en níu um þann vettvang, ef þeir kveðja hvorir eftir öðrum sem mælt er, þá skulu þeir er síður áttu fyrir kvöð að ráða þá er þeir fundust — en það skal fara eftir því sem áður var tínt — fara til húss að þeirra búanna er þeir einir kvöddu og nefna sér votta að því að þeir nema af þeim búakvöð þá er þeir kvöddu þá, af því að þeir eru fleiri heiman kvaddir en níu um þann vettvang. Og skulu þeir þá á kveða um hvað þeir kvöddu, og nefna þá, og skulu svo mæla það mál að lögfastir menn heyri eða lýsa ellegar sem búakvöð. Þeir skulu það að hafa gert fyrir þriðju sól þaðan frá er þeir kvöddu.

En ef þeir finnast eigi, og kveðja þeir þó einn dag allir, og eigi eina búa alla, þá skal allt svo fara um mál þeirra sem áður var tínt. En ef þeir nema eigi kvöð af búum er skyldir eru til, þá eru ónýt öll mál þeirra, þau er þeir hafa um kvatt. Enda varðar búum ekki heimaseta, þeim er einir kvöddu, ef kviður ber hinum þann vanhag, er þá kvöddu, að þeir hæfi síðar upp kvöðina. Slíkan kost eiga þeir og við sína búa er kvöð áttu að halda, og öll hin sömu atferli skulu þeir hafa sem hinum var til handa mælt. Enda þó að þeir nemi kvöð af sínum búum er eigi væri skyldir til nema vildi, þá verða ónýt mál þeirra er kviður ber þann vanhag að þeir hæfi síðar upp kvöð, enda fengi þeir eigi af numið kvöð af sínum búum.

En ef þeir verða á sáttir hvorir kvöð eiga að taka af búum sínum, þá skulu þeir segja, er kvöð eiga að halda, af hverjum búum þeir eigu að taka kvöð, og svo hverja þeir skulu kveðja. Enda verður þá hvorigum að sakarspelli þó að fleiri væri kvaddir fyrst en níu um þann vettvang, ef þeir fá þó numið kvöð fyrir þriðju sól af þeim búum sem umfram eru.

28. UM BÚAKVÖÐ.

Ef þeir atburðir verða að svo mjög hæfist á með mönnum um búakvöð að búar vilja það borið hafa að þeir kveddi jafnsnemma hvorir þá búa tvo er þeir kvöddu fyrsta, þá verður hvorigum að sakarspelli, hvar þess er þeir vilja hvorigir glepja fyrir öðrum, enda ráða þeir saman um ef búar eru fleiri kvaddir en níu. Sækjendur verða útlagir þrem mörkum ef þeir leyna kvöð eða ljúga til ef þeir eru með votta spurðir, enda verða öll mál þeirra ónýt, þau sem þeir hafa um kvatt. Búum varðar fjörbaugsgarð ef þeir gera eigi segja hvort þeir eru kvaddir eða eigi, og svo ef þeir ljúga til, enda sé þeir spurðir með votta. Það eru bæði stefnusakar, og skal kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er um fjörbaugssök, en fimm til útlegðar. Þeir menn eigu þær sakir er þá spurðu lögfrétta og meðför höfðu þeirra mála er þeir glöptu. Hvar sem maður spyr mann lögfrétta, þá skal hann nefna sér votta að spurningunni og svo að svörum þeim er verða, og svo þótt engu sé svarað, þá skal þó hafa votta við.

Það er þeim mönnum rétt er síðar kveðja búa að kveðja þá búa er þeir hyggja réttasta, hvar þess er þeir vita eigi víst hverja hinir hafa kvadda er fyrri kvöddu. Ef maður dvelur kvöð sína eða skyndir hann til þess dags er hann veit að aðrir menn vilja búa kveðja, fyrir þeim sökum að hann vill glepja í því sakir þeirra, en hann spillir í því sök þeirri er hann kveður um, enda varðar honum það fjörbaugsgarð. Það er stefnusök, og skal kveðja til á þingi níu heimilisbúa þess er sóttur er. Sá maður á sök er þá hefir meðför þeirra saka er hinn vildi glepja.

29. UM HEIMANKVAÐIR VIÐ VOTTA.

Votta sína á maður að kveðja heiman, hvort sem hann vill hafa þá votta til sóknar eða varnar. Hann skal kveðja meira hlut þeirra votta er hann man að nefndir voru að þeim orðum er hann vill þá vottorð um reyna, nema því að einu að þeir hafi því játt, þá er þeir voru nefndir í vættið, að þeir myndi þó það vætti bera þótt þeir væri eigi fleiri en tveir, og hlýðir honum þá þó að hann hafi minna hlut kvatt votta sinna, og eru þeir jafnskyldir að bera vætti það þótt þeir sé tveir einir kvaddir.

Hann skal kveðja mann vættis þar er hann heyrir á sjálfur, eða að lögheimili þess er hann telur í því vætti. [K: Skal hann kvatt hafa votta sína heiman hinn fimmta dag viku er átta vikur eru af sumri.] Hann skal nefna sér votta tvo eða fleiri „í það vætti, að eg kveð þig vættis þess, N., er eg nefnda þig þá að,“ og kveða á hvað það var. „Kveð eg þig að bera vætti það með neyti það sem eg fæ þér til að dómi og í dóm fram, þar sem eg vil segja fram sókn á hönd N. N-syni,“ eða vörn fyrir þann mann ef þess þarf heldur. „Kveð eg þig lögkvöð.“ Hann skal á kveða til hvers þings hann kveður hinn, og skal lýsa kvöð þá sem stefnu ef eigi heyra lögfastir menn á.

Ef búandi sá er kvaddur vættis er þingfararkaupi á að gegna, og skal hann eigi kveðja í gegn hests né matar. En ef sá bóndi er kvaddur vættis er eigi á þingfararkaupi að gegna, eða griðmaður, þess vættis er hann mætti eigi úr segjast, þá er rétt að kveðja í gegn hvorumtveggja þeirra allrar þeirrar reiðu er til þingfarar þarf að hafa. Ef maður er þess vættis kvaddur er hann vissi von að þingfarar mundi af gerast þá er hann var nefndur, og skal hann enskis kveðja í gegn, nema hann ætti eigi úr að segjast. Ef maður er vættis kvaddur og heyrir á kvöð hins, þá skal hann þegar kveðja þess sem hann vill. Hann skal nefna hins förunauta í vætti, ef eigi eru aðrir til, enda á engi maður að segjast úr því vætti. Ef maður er svo vættis kvaddur að hann heyrir eigi á kvöð hins, eða verður hvimsi við þótt hann heyri, og er honum rétt að fara til lögheimilis þess manns er hann kvaddi vættis eða kvöð seldi og kveðja þann þar þeirrar reiðu sem hann þarf til þingfarar. Svo skal maður kveðja þess að nefna sér votta tvo eða fleiri „í það vætti, að eg kveð þig, N. N-son, hests og söðuls, að komi til lögheimilis míns fyrr en eg ríða heiman,“ og kveða á hvar það er. Matar á hann og að kveðja hann og tjalds og búðarrúms og þeirrar reiðu allrar sem hann þarf á þingi að hafa. „Kveð eg þig lögkvöð svo að þú heyrir á.“ Lýsa skal þá kvöð sem stefnu ef eigi heyra lögfastir menn. [K: Hann á að bjóða honum fylgju sína og þingmenn þá er hann hlýtur, er þeir koma til þings.]

Honum er eigi skylt að fara til þings nema honum sé hestur fenginn, sá er honum sé fær til þings að fara fullum dagleiðum með öðrum mönnum. Ef hestur kemur svo til handa honum sem mælt er, þá skal hann þeim manni fylgja, er kvaddi hann, til þings og til búðar, ef sá vill það er kvaddi, enda skal sá er kvaddi hafa þingfararkaup þau er hinn hlýtur er kvaddur var. En ef hann lætur honum eigi uppi matinn, þá er þeir koma til þings, þá skal stefna honum um að Lögbergi og láta varða þriggja marka útlegð og kveðja til fimm búa þess er sóttur er. Hann skal láta bera vætti það í dóm, ef þess er kostur, er hann nefndi að er hann kvaddi matarins. En á þingi skal hann vera þótt hinn haldi matinum fyrir honum, þar til er hann hefir málum lokið, þeim er hann var til kvaddur heiman.

Ef maður kveður mann vættis þess, er sá hyggur það er kveður að hinn væri eigi í er kvaddur er, og vill hann það gera til ógagns hinum, og varðar þar ekki heimaseta, en hinum fjörbaugsgarð er kvatt hefir. Sök þeirri skal stefna heiman og kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.

Ef maður er þess vættis kvaddur er hann þykist eigi í hafa verið, og skal hann þó til þings fara. Hann skal ganga til dóms og vinna eið. Síðan skal hann nefna votta að því að hann berst úr vætti því, og kveða á hvert vætti það er. „Berumk eg úr að lögum. Berumk því úr að eg var eigi í nefndur.“ Ef maður segst úr því vætti er hann var í nefndur, þá er það ljúgvitni, og varðar honum slíkt allt sú meðferð sem hann hafi borið ljúgvætti. Þar er maður kveður mann vættis þess er hann veit að hann var eigi í nefndur, þá á sá kost er vættis er kvaddur að stefna sök þeirri að Lögbergi og sækja hið sama sumar. Enda á hann kost að sækja síðar ef hann vill.

30. UM ÞAÐ HVE HEIMAN SKAL KVATT HIÐ SÍÐASTA.

Maður skal kvatt hafa heiman votta sína eða búa hið síðasta fjórtán nóttum fyrir alþingi en sjö nóttum fyrir vorþing.

Ef vottur manns verður sjúkur eða sár, þá skal hann gera orð þeim manni er hann hefir kvatt þingfarar, að hann komi til fundar við hann þar sem hann kveður á, eða til heimilis hans ella ef hinn sjúki þykist hvergi fær. Hinn sjúki skal bjóða honum að rétta vætti það sem hann var í nefndur við þá menn aðra sem í það vætti voru nefndir með honum. [K: Skal hann bjóða að lögheimili sínu.] Sá maður skal fara, er vættis kvaddi, að finna þá menn aðra er í vætti voru með hinum sjúka, og kveðja þá að þeir fari að finna hinn sjúka mann og rétta vætti við hann. En ef vottar vilja eigi fara að rétta vætti við hinn sjúka mann, og varðar þeim það þriggja marka útlegð. En hinn sjúki skal rétta vætti það fyrir þeim svo sem þeir verða á sáttir, og skal hann eið vinna að hann man vætti rétta sem hann hyggur réttast og sannast og helst að lögum. Þá er hinn sjúki maður hefir unnið eið, þá skal hann á kveða hvert vætti hann mundi bera, og svo skal hann mæla þeim málum öllum sem að dómi.

Ef hinir koma eigi til fundar við hinn sjúka mann, er í vætti voru nefndir með honum, þá skal hann rétta vætti fyrir þeim er kvaddi hann og fyrir þeim mönnum er við vætti hans taka. Þar skulu tveir menn taka við vætti hans, enda er rétt að þrír menn taki við vætti tveggja manna ef tveir eru sjúkir. Þeir menn er við vætti taka skulu styðja með frumvottum á þingi að dómi og kveða á hvert vætti hinn sjúki bar. En þeir skulu þá vætti fram telja og bera að öllu ef engir eru frumvottar á þingi, enda verður það þá jafnrétt er þeir bera sem hinir bæri, er frumvottar voru.

Ef sá maður er kvaddur vættis er hann vill fara af landi, og er hann kominn til skips með vöru sína á fljótandi furu. En þá er hann kominn á fljótandi furu er hann hefir föt sín á skipi og skipverjar hafa meira hlut á skip borið vöru sinnar. Hann skal þá fara með málum sínum og leysa vætti það af hendi svo sem tínt var áður ef maður væri sjúkur, að öllu öðru en hann skal fara til fundar við þann mann er hann hefir kvaddan.

Ef vanheill maður lætur í vætti nefnast, og skal það eigi standa fyrir þingför hans, nema hann hafi þá meiri sótt er hann skal heiman ríða en þá er hann var í vættið nefndur.

31. UM HVERJAR KONUR MAÐUR Á VÍGT.

Svo er mælt í lögum að sex eru konur þær er maður á vígt um. Ein er kona manns, önnur móðir, þriðja dóttir, fjórða systir, fimmta er fóstra sú er maður hefir fædda lögfóstri, sétta er fóstra sú er hann hefir fæddan lögfóstri.

Ef maður kemur þar að er annar maður brýtur konu til svefnis, þá er hann á vígt um, og hafi hinn fellda hana og látið á fallast, eða hittir hann hinn í sama sæng henni svo að þau hvíli bæði samt, og er hinn af því þar kominn að hann vildi misræðu ráða við hana, og á hann þar vígt um í hvorumtveggja stað og á þeim vettvangi en eigi lengur en svo. Hinum varðar það skóggang hvorttveggja þótt eigi hafi tekist misræðan [K: og á sá maður þar vígt um í hvorumtveggja stað þótt misræðan hafi eigi tekist].

Þar er maður vegur um þá konu eða vinnur á manni, er eigi hefir tekist misræða við, og var þó til stýrt, þá eiga einir vettvangsbúar að skilja hvorttveggja, um víg eða um þau áverk sem eru, og svo um það ef hann vill til óhelgi hinum vegna láta færa eða þeim er á var unnið.

Þar er legorðssök hefir tekist, þá á maður vígt um til hins næsta alþingis. Hinn fellur óheilagur fyrir honum og fyrir þeim mönnum öllum er honum fylgja til áverka við hinn og veita honum lið. En þá skulu þar þeir búar skilja um víg eða áverk, er næstir eru þeim vettvangi er það gerðist. En þeir búar skulu skilja um legorð er næstir eru þeim stað er það gerist, nema allt gerist á einum vettvangi. Þá skulu hinir sömu búar skilja hvorttveggja, helgi manns og svo óhelgi.

Hvar þess er maður vegur mann um þá konu er hann á vígt um, eða vinnur á manni, og er annar aðili legorðssakar, sá er eigi vill sækja sök þá. Þá er rétt að sá búi til sökina er vígið hefir vegið, eða áverk veitt manni um konu sakir, og sæki það mál eða seli svo sem hann sé réttur aðili, og slíkt þó að eigi hafi tekist legorð. Þeir menn er verja skulu mál fyrir þá menn er að vígi hafa verið með veganda eða fyrir hann sjálfan — og svo þó að minni áverk hafi verið — fyrir konu sakir, þá skulu þeir kveðja til bjargkviða allra fimm vettvangsbúa, þá er næstir búa vettvangi, í þann sóknarkvið er á ber víg eða áverk, um það sem þeir vilja honum til óhelgi fært hafa, og svo um það allt sem þeir vilja til varna hafa um þau mál.

Þar er maður hefir vegið um þá konu er hann á vígt um, þá skal hann stefna hinum dauða manni þar er lögheimili hans var síðast og mæla svo: „Nefni eg í það vætti, að eg stefni N. N-syni um það,“ og kveða á hvað hann færir til óhelgi hinum, „og tel eg hann hafa óhelgan fallið, tel eg hann eigi eiga kirkjulægt,“ ef hann vill svo að kveða. Þá skal biskup því ráða. „Tel eg sekt fé hans allt,“ og skal hann fara þeirri stefnu sem öðrum og kveða á til hvers þings hann stefnir og stefna lögstefnu. Svo skal það mál að öllu til búa sem þá að hann lifði, nema hann sækir til óhelgi en til sektar ef hann lifir.

32. UM ÞAÐ EF YNGRI MAÐUR VEGUR MANN EN TÓLF VETRA.

Þar er yngri maður vegur mann en sextán vetra [K: en tólf vetra] gamall, og skal hann eigi verða um það víg sekur þó að hinn væri saklaus. Frændur hins unga manns skulu gjalda hinn vegna niðgjöldum, og bæta það víg. Þar skal rekja til baugatal.

Ef yngri maður vinnur á manni en tólf vetra gamall, þá á maður að færa hann úr höfði sér svo sem þá mundi ef hann væri fóstri eða faðir, og skal eigi gera örkumbl að hinum unga manni. En ef hinn vaxni maður gerir örkumbl að hinum unga manni, og verður hinn ungi maður eigi að heldur óheilagur þó að hann hefði áður unnið á hinum vaxna manni saklausum.

33. UM ÓRAVERK.

Ef ær maður vegur mann, og skal það því að einu óraverk berast eða dæmast, ef hann hefir áður unnið á sjálfum sér þau áverk er hætt væri við bana eða örkumblum, eða vinna vildi, og verður þó því að einu óraverk ef búar bera svo. En ef óraverk berst, þá er sá maður þó æll [K: óæll] til dóms, enda verður hann jafnsekur um víg sem óær maður að öllu annars, en þar eigu menn að sættast á fyrir lof fram.

34. UM VOÐAVERK.

Engi skulu vera voðaverk. En eigi sekst sá maður er á vopni heldur kyrru þótt annar maður hrapi á vopn hans og skeinist á, hvar þess er þó ber kviður það að hann vildi eigi að hinn skeindist á, og engi annar maður. Nú ber það kviður að hann heldur af því kyrru vopninu, og brá eigi undan, að hann vildi að hinn skeindist á, og varðar honum það skóggang.

Hvargi sem maður hefir komið vopni sínu og skeinist annar maður á, enda hafi hann eigi sjálfur á haldið, og ábyrgist hann eigi ef það ber kviður að hann hygðist þar hafa látið vopn sitt er hann vænti engum manni skaða af, og hann vildi engum manni að skaða láta verða. Ef maður festir vopn sitt upp þar er það fellur sjálft ofan, og sé eigi komið við það, þá ábyrgist sá er upp festi ef menn fá skaða af. En um þau mál öll skal maður taka bjargkviðu alla úr þeim sóknarkvið er hann er við sóttur og taka fimm búa úr kviðnum, þá er næstir búa vettvanginum.

[K: Hvar þess er maður gengur til fangs að vilja sínum eða leiks, og sé hann eigi lengur að en hann vill, þá skal hann sjálfur sig ábyrgjast ef hinn vill honum eigi mein gera, nema hann fái örkumbl eða bana, og mest þá sem engi leikur sé.]

35. UM AÐILDIR VÍGSAKA.

Sonur manns er fyrst vígsakaraðili eftir föður sinn, sextán vetra gamall eða eldri, frjálsborinn og arfgengur og heimilisfastur, svo hygginn að hann kunni fyrir erfð að ráða og fyrir orði og eiði hyggja. En faðir á næst sök um víg ef sonur er eigi til eða yngri en sextán vetra. Þar næst bróðir samfeðri, þá bróðir sammæðri, en þá er sonur laungetinn þar næst vígsakaraðili, og verður hann hinn fimmti maður.

Ef bræður bregðast um vígsök, og er rétt að þeir búi allir mál til, og þarf engi af öðrum að taka þá sök, enda eiga þeir jöfnum höndum allt það sem þeir taka á. En ef sumir vilja sækja en sumir sættast á, og skulu þeir ráða er sækja vilja til fullra laga. En ef þeir búa allir mál til, þá skal hins elsta mál dæma.

Nú vill hinn eldri bróðir selja sök, og fær hann öðrum manni mál til meðfarar, en hinn yngri sækir sjálfur, og skal hins yngra mál þá dæma. Ef maður hefir handselda sök af jafnnánum manni tekna sem sá er annar er sjálfur sækir, enda vili sá sættast á, þá skal sá ráða er sækja vill. Svo er þar mælt þó að sumir aðiljar hafi sæst á eða vili sættast, eða þeir er með sakar fara, en sumir vili eigi, þá skulu þeir jafnan ráða er sækja vilja til fullra laga.

Ef þeir menn eru eigi til vígsakar sem nú eru taldir, þá á vígsök hinn nánasti karlmaður, samlendur og arfgengur, frjálsborinn og fulltíði, heimilisfastur og hygginn svo sem áður var tínt. En ef fleiri eru jafnnánir, og skal þá vígsök og svo bætur hverfa í knérunna allt jafnt sem erfð, þó að einn maður sé úr öðrum knérunni en fleiri úr öðrum.

Alls hvergi hverfur vígsök undir konu. Þess er kostur að þeir búi allir sök til er jafnnánir eru. Nú vilja allir sækja til fullra laga. Þá skulu þeir hluta um hvers mál dæma skal, nema þeir verði allir á annað sáttir. Hvergi ræður aldur með jafnnánum mönnum öðrum en bræðrum.

Rétt er að sonur sæki vígsök tólf vetra gamall og yngri en sextán vetra, ef aðilja þykir sveinn sá svo röskur að viti að hann vill það lofað hafa, og þarf hinn ungi maður af engum að taka þá sök, enda skal engi af honum taka nema sveinn fái þá vanheilsu er hann ætti að selja handselda sök.

Ef kona verður vegin, sú er gift er, og á hann börn með henni til arfs alin, þá verður búandi konunnar aðili að þeirri vígsök. Ef kona sú átti sonu fulltíða, þá verða þeir aðilja að vígsök þeirri jafnt sem bóndi konunnar, enda eiga þeir hálfar bætur að taka allar, hvorir við aðra. En ef eigi eru synir til, og lifir faðir konunnar eða bróðir samfeðri, og verður annar þeirra senn aðili þeirrar vígsakar að helmingi við bónda konunnar, og svo eigu þeir bætur, og þó búandi fyrri. Nú eru þessir menn eigi til, þá á bóndi konunnar sök. En ef nokkur lifir svo skyldur konunni að til arfs er taliður í lögum, þá á sá bætur hálfar við bónda konunnar. Nú er sá engi til, þá á hann einn bætur.

[K: Ef útlendur maður norrænn eða úr Noregskonungs veldi, hér kvongaður á landi, verður veginn, þá eigu þeir menn vígsök eftir hann er ætti eftir konuna ef hún væri vegin.]

Ef kona sú er vegin er með barni er kviku, og eru þar tvær vígsakir. Skal svo fara um víg barns sem um aðrar vígsakir. Eigi á maður að vega að konu þeirri er hann veit að barn hefir kviknað í kviði, þó að hún hafi áður til óhelgi sér gert, og svo þótt hún sé sek, og er hún þó eigi óheilög.

[K: Bætur allar um vígsakar eigu arftökumenn, hvort sem þeir eru karlar eða konur, hvergi er sök sækir eða hvergi sem aðili er, og er sá réttur seljandi er réttur er sækjandi.]

[K: Ef annar maður sækir réttafarssök en aðili, af því að hann þykist aðili vera, en aðili gefur því engi gaum að, að hann hyggur annan aðilja vera en sig, og skal þá aðili eignast þrjá hluti sáttar, en hinn fjórðung er sótti. Nú þarf hann að leggja fé til sóknar eða til liðs, og skal þar af sátt til taka, en þeir skipta öðru með sér. Nú veit sá er sækir að hann er eigi aðili, þá á hinn heimting til allrar sáttar, slíkrar sem ger var.]

36. UM LÖGSKULDARMENN.

Hvar þess er lögskuldarmaður er arftökumaður hins vegna, og skal hann eigi með sök fara. Hann á jafnmikið af bótum sem hann er skuldfastur. Ef lögskuldarmaður verður veginn, og eigu frændur hans sök þá. Þeir skulu bjóða þeim manni er fé hafði átt að hinum jafnmikið fé sem hinn vegni var skuldfastur. En ef þeir verða eigi á sáttir hve mikið fé hinn vegni átti honum að gjalda, og skulu heimilisbúar hans fimm telja tölur með þeim. Nú bjóða þeir eigi féið á hálfum mánaði hinum næsta. Þá á sá sök er fé átti að hinum vegna.

Ef leysingur verður veginn, þá á sonur hans sök þá, frjálsborinn og fulltíði, en ella frjálsgjafinn. Börn leysings eigu bætur að taka jafnan, ef þau eru til. Ef frjálsgjafi vegur leysingja sinn sonlausan, eða er sonur eigi fulltíði, þá á goði sá sök og bætur er hinn vegni var í þingi með. Nú er sá allur einn, þá eigu samþingisgoðar. Hvar þess er þá skill á, þá skulu þeir hluta. Ef barnlaus leysingur er veginn og sé andaður frjálsgjafinn, þá á sök og bætur erfingi frjálsgjafans. Nú er hann eigi karlmaður fulltíði, þá á goði sá sök er hinn vegni var í þingi með. En ef sá vegur, þá eigu samþingisguðar hans. En þeir skulu hluta ef þeir bregðast um. Ef sá leysingur verður veginn er hann situr búðsetu, og er hann hvergi þingfastur, og á goði sá sök er búandi sá er í þingi með er land það á er hinn átti búð á. En ef goði vegur, þá eigu samþingisguðar hans svo að öllu sem áður var tínt. En ef leysings leysingur verður veginn, og á hinn æðri þar sök og bætur. Ef hann vegur eða lifir hann eigi, þá hverfur sök og bætur undir frjálsgjafa þann er frelsi gaf hinum fyrra leysingja, eða undir hans erfingja ef leysingur leysings var barnlaus.

Nú ber undir þann bætur er eigi er karlmaður fulltíði, þá hverfur undir goða sök, sem áður var tínt. En þá verður svo ef eigi lifa börn hins æðra leysings, enda á slíkt leysingjan að taka bætur eftir leysingja sinn sem leysinginn. Ef fleiri menn gefa manni frelsi en einn, þá skal að slíkum hlut hver þeirra taka af vígsbótum eftir hann sem þeir gáfu honum frelsi til.

37. UM VÍG ÚTLENDRA MANNA.

Ef útlendir menn verða vegnir á landi hér, danskir eða sænskir eða norrænir, úr þeirra konunga veldi þriggja er vor tunga er, þar eigu frændur þeirra þær sakir ef þeir eru út hér. En af öllum tungum öðrum en af danskri tungu þá á engi maður hér vígsök að sækja af frændsemis sökum, nema faðir eða sonur eða bróðir, og því að einu þeir, ef þeir höfðu hér áður við kennst.

Ef útlenskur maður verður veginn á skipi er hann fer út hingað, sá er engi á frænda hér, þá á félagi hans sök og svo bætur, nema þeir hefði til þess félag gert að aðrir menn skyldi eigi taka fé eftir þá, og er þá sem þeir hafi ekki um mælt. Sá er félagi að lögum er hinn óauðgari leggur til félags allt sitt fé. Nú er eigi félagi til, eða vegur félagi að honum, þá á mötunautur hans sök og svo bætur, sá er oftast átti mat við hann. Nú eru mötunautar fleiri, þeir er jafnoft áttu mat við hann, og eigu þeir að hluta hver með sök skal fara. En að jafnaði skulu þeir eiga bætur allir. Ef mötunautur er eigi til, eða sá er að honum hefir vegið, þá á stýrimaður sök og svo bætur, sá er mest á í skipi. En jöfnum höndum eigu þeir, er jafnmikið eiga í skipi, bæturnar. En þeir eigu að hluta um sökina með sér.

Ef stýrimaður vegur þann mann er eigi á félaga innanborðs né mötunaut, þá eigu aðrir stýrimenn sök, ef þeir eru til, og svo bætur, og sá þeirra er mest á í skipi, ef í því deilir. Ef stýrimaður sá verður veginn er einn á skip og er einn í mötuneyti og á engan félaga, eða er sá einn stýrimaður er vegur að þeim manni er hvortki á þar félaga né mötunaut, þá á goði sá sök þá hvoratveggju, er búandi sá er í þingi með er land það á er þeir búa á, eða bera flestir föt sín af skipi, ef það varð áður þeir kæmi til lands.

38.

Ef útlendur maður verður veginn þá er hann fer frá skipi til vistar, og skal þá svo fara vígsök sem hann væri að skipi veginn. En ef sá maður verður veginn þá er hann kemur í vist með búanda, og á þá búandi bætur og sök. En ef þeir eiga fleiri bú saman, og á sá sök er mest á í búi. En allir eiga þeir jafnt bætur er jafnmikið eiga í búi, og skulu hluta sök. Ef búandinn er einn, og vegur sá að honum, þá á goði sá bætur og sök er bóndi sá er í þingi með. En ef sá er allur einn, þá eigu samþingisgoðar hans, og skulu þeir hluta sök með sér og eiga báðir bætur að jafnaði.

Ef sá maður var, er á vist með konu, enda sé þar þingheyjandi nokkur fyrir bú hennar heima með henni, þá á sá sök en hún bætur. En ef sá er eigi til, eða vegur sá að honum, þá á goði sá sök er hún er í þingi með, en hún bætur. En ef goði vegur, þá á hún bætur, en samþingisgoðar sök. En ef hún vegur að hinum, þá á sá goði sök og bætur er hún er í þingi með.

Svo skal og fara um sök þá, þó að hann verði á götu veginn er hann fer til skips, sem hann væri á vist veginn, þar til er hann kemur til skips alfari. En þá skal fara sem tínt var um hið fyrra sumarið.

Ef sá hinn útlendi maður situr búðsetu og er hvergi þingfastur, þá á goði sá sök og bætur, ef hinn er veginn, er bóndi sá er í þingi með er land það á sem hinn átti búð á. Ef sá hinn útlendi og hinn frændlausi býr hér á landi, og verður hann veginn, þá á goði sá sök og bætur er hinn var í þingi með. En ef goði vegur hann, þá eigu samþingisgoðar hans sök og bætur og skulu hluta sök með sér. Ef sá hinn útlendi maður á börn eftir, frjálsborin og skírgetin, þá hverfur sú sök, ef hann er veginn, í móðurátt barnanna, og eigu börnin bætur en sök karlmaður sá er nánastur er börnunum, fulltíði og frjálsborinn, heimilisfastur og svo hygginn að hann kunni fyrir sökum ráða. Svo skal fara jafnan um víg útlendra manna sem nú er tínt, nema hér sé maður veginn af danskri tungu eða sé hér frændur hans, þeir er eru þriðjabræðra og nánari, þá eiga þeir sök og bætur þótt þeir komi síðar, vaxtalausar.

Fé það allt sem aðrir menn taka hér en erfingjar, hvort sem er vígsakabætur eða arfur, þá skal láta virða sem ómagaeyri, og eignast þeir þá vöxtuna. En ef eigi er rétt að virðingu farið, þá verða að rakna leigurnar.

39. UM ÞAÐ EF MENN SÆTTAST Á VÍG FYRIR LOF FRAM.

Um víg þau öll sem hér er um tínt og um hin meiri sár, þá varðar fjörbaugsgarð ef menn sættast fyrir alþingislof fram. En ef menn sættast svo um víg, þá eigu hinir nánustu frændur hins vegna þá sök fyrstir. En ef þeir vilja eigi sótt hafa, þá á hver er vill. Það er stefnusök, og skal kveðja til níu búa á þingi þess er sóttur er.

Sá maður er sækir þessa sök skal stefna, hvort sem hann vill, báðum eða öðrum, þeim er á hafa sæst, enda á sá að taka upp frumsökina og sækja til laga. En ef menn vilja heima sættast á þessi mál, þá skal stefna heiman til sáttaleyfis og láta varða skóggang og kveðja til níu búa á þingi.

40. UM ÞÁ MENN ER EIGI EIGU ÞINGREITT.

Þeir menn eiga eigi þingreitt er sár eða ben eru rétt lýst á hönd. En ef þeir menn fara á helguð þing, og varðar það fjörbaugsgarð, enda verða ónýtar sakir þær allar og svo varnir, ef þeir eru aðiljar á því þingi. Svo og þær sakir allar og varnir er sá hefir til búnar, þó að handseldar sé á því þingi, ef hann fer þá með.

Ef þeir menn fara á alþingi, þá skal stefna sök þeirri að Lögbergi og kveðja til níu búa á þingi. En ef þeir fara á önnur þing helguð, þá skal stefna heiman þeirri sök og kveðja níu búa til á þingi, sem um alþingisreið þess er sóttur er, að bera um það hvort hann hafi komið eða eigi á helgað þing síðan er sár eða ben voru lýst á hönd honum. Fjörbaugsgarð varðar og þeim mönnum öllum er ríða með honum á þing helgað af því að þeir vilja hann efla til þingreiðar, og svo ef þeir eru á þingi honum til afla, og skal það svo sækja sem áður var tínt.

41.

Ef þeir menn fara á þing helguð er eigi eiga þingreitt, eða eru þeir á helguðu þingi, og verða þeir þar óhelgir fyrir öllum áverkum, og svo þeir allir er af því eru í þeirra flokki þar að þeim vildu lið veita.

Ef maður hittir þann mann á helguðu þingi er eigi á þingfært, þá er kostur að hann nefni votta að því að hann hafi hann hittan á helguðu þingi, og skal hann sækja þá við vottorð. Ef kviður ber á mann þingreið, og á hann að kveðja sér bjargkviðar fimm heimilisbúa sína að bera um það hvort hinn lýsti af því á hönd honum sár eða ben að sá vildi glepja þingreið hans, en eigi af því að hann hyggi hann að sökum sannan. Ef hann getur þann bjargkvið að honum hafi það til gengið, og verst hann þá þeirri sökinni.

42. UM BJARGIR VEGANDA.

Björg þeirra manna allra varðar fjörbaugsgarð ef rétt lýst er á hönd víg eða sár hin meiri eða hernað hafa drýgðan eða brennda menn inni, svo að hinir höfðu bana af eða örkumbl, eða hvatki sem þeir hafa þess gert að mönnum er þeir verða skyldir til að lögum að gjalda hinn aftur niðgjöldum. Það eru allt stefnusakir, og skal kveðja til tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er.

43.

Þar er maður lýsir hin minni sár á hönd manni, enda komi hann þar að sem hinn er inni staddur, þá skal hann nefna sér votta að því að hann hefir hann inni hittan að þess búanda, N., þann mann, N.N., er hann hefir sár lýst á hönd, og nefnir hann sér vætti það að lögum að njóta og neyta. Enda varðar þá fjörbaugsgarð búandanum, og svo þeim mönnum öllum er þar eru inni með honum og þar hafa verið um nóttina áður með hinum, og sé þar heimamenn. Það er og stefnusök, og skal kveðja til tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er að bera um það hvort hinn hefir þar verið um nóttina áður inni eða eigi, enda skal hann láta bera vætti það í dóm fram er hann nefndi að því er hann hitti hinn inni.

44.

Sú er veganda björg, svo að varðar þeim er spurt hafa, að lýst var víginu, ef maður er alinn eða hefir verið við hann samvistum þar sem þeir deila við hann svefn og mat, en bjargráð varða eigi við lög.

Ekki varðar og eldi þeirra manna við lög, er á óhelgum mönnum hafa unnið, og svo þó að þeir fari á þing helguð.

45. UM ÞAÐ AÐ SELJA VÍGSÖK.

Vígsök á maður að selja í hönd öðrum manni, ef hann vill, til sóknar fullrar eða sáttar, og skal þá sá fyrir ráða er við hefir tekið, svo sem hann sé réttur aðili að, og allar sakir á maður að selja öðrum manni, þær sem hann vill seldar hafa. En svo skal sök selja að þeir skulu takast í hendur, sá er sök tekur og hinn er sell, og nefna sér votta tvo eða fleiri að því að aðili selur sök þá hinum, og kveða á sök þá, að sækja og að sættast á, og svo allra gagna til að neyta sem hann sé réttur aðili að. Selur hann sök þá að lögum, en hinn tekur að lögum.

Frumsök á maður að taka af manni, en um allar þær sakir er af gerast síðan, þá er hann sækjandi þeirra allra og seljandi öðrum manni, og þarf hann þá eigi að taka þær. Frumsök á maður eigi að selja, sá er handselda sök hefir, nema hann seli aðilja þeim er honum seldi. Aðili á þeim að selja sem hann vill og nýta það af því öllu er hinn hafði til búið, sem aðili vill. Hvergi á maður svo fyrir sökum að sjá að þær komi undir þriðja mann, nema sá maður verði sjúkur eða sár er handselda sök hefir, í þingreið eða á þingi, þá á hann að selja handselda sök, en hvergi annars staðar.

Ef maður tekur sök af manni, og verða þau mein á að sök verður eigi sótt fyrir nauðsynjum, þá á aðili sjálfur að taka til sakar sinnar og sækja hið næsta sumar eftir. Ef maður tekur sök af manni, og vill hann eigi sækja og vill svo ónýta fyrir hinum, og varðar honum fjörbaugsgarð við aðilja, og skal kveðja til níu búa á þingi, enda á hann sjálfur þá sök sína að sækja, ef kviður ber hann sannan að því.

46. UM ÞAÐ Í HVERN DÓM SAKIR SKULU KOMA.

Sakir þessar allar sem hér eru taldar um víg og áverk með mönnum skulu koma í þann fjórðungsdóm sem áverk hafa í fjórðungi verið. En ef menn berjast að fjórðungamóti, þá skulu sakir koma í þann fjórðungsdóm sem búar eru fleiri kvaddir úr fjórðungi.

47. UM LÝSINGAR Á VORÞINGUM EÐA LEIÐUM.

Á vorþingum helguðum eða á leiðum helguðum skulu menn lýsa áverk og sár í þingbrekku, eða í þeim stað er menn eru vanir að hafa uppsögu, ef þar eru eftir tuttugu þingheyjendur eða fleiri. Á engi sár eigu menn að sættast fyrir lof fram, þau er þar verða.

Ef menn hlaupa þar í búðir inn, þeir er á mönnum hafa unnið, þá varðar fjörbaugsgarð þeim mönnum öllum er fyrir standa fyrir hinum, ef eigi er á vettvangi, en skóggang varðar ef á vettvangi er. Ef þeir menn standa fyrir þeim þar er búð eigu, og verður óheilög búð þeirra manna þá við broti, ef þeir eru beiddir með votta frágöngu frá búð. Þá skal búa kveðja er næstir búa vettvangi, þeirra manna er eigi sé þar áverk kennd.

48. UM ÞAÐ EF MENN VINNAST Á Í ÞINGFÖR.

Þar er menn hlaupast til eða verða vegnir í þingför, og er rétt þar að lýsa fyrir búum níu, ef þeir eru þar svo til eða fleiri, þeir er hann hyggur að eigi myni þar að áverkum sannir á þeim vettvangi, og þeim sé eigi þar áverk kennd. Enda er rétt að lýsa fyrir vettvangsbúum fimm, þeim er réttir sé í níu búa kvið að leiðarlengd.

Sá er hinn þriði kostur á þingi helguðu að lýsa að Lögbergi, ef það er svo nær alþingi að hann fær þar lýst fyrir þriðju sól. Þeirri sök skal stefna að heimili þess er sóttur er, eða þar ella er hann heyrir á sjálfur, ef hann vill á því þingi sækja, og kveðja til níu vettvangsbúa á þingi.

Nýmæli: Enda er þar rétt að maður stefni fyrr en hann lýsi frumhlaup eða áverk á hendur manni.

Ef lýst eru áverk á hendur manni að Lögbergi, þau er í þingför hafa gerst, og sé maður á þing kominn þá, sá er á hönd er lýst, og á hann eigi þá lengur þingvært. Hann skal fara af þingi samdægris er lýst er á hönd honum. Nú fer hann eigi svo í brott, og varðar honum það fjörbaugsgarð. Sök þeirri skal stefna að Lögbergi og kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er. Þess er og kostur að lýsa þar sök þá að Lögbergi og sækja hið sama sumar og kveðja vettvangsbúa níu til, ef ráðrúm er að því áður dómur fari út til saka.

49. UM ALÞINGISÁVERKA.

Ef menn vinnast á á alþingi, þá skal kveðja til búðakviðar í þær búðir þrjár sem næstar eru því er áverk gerðust, þeirra búða er þó sé þrír menn réttir í hverri að tengdum, og skal eigi kveðja í sútarabúðir né sverðskriðabúðir né trúða né göngumanna og í engar þær búðir er færri menn sé í en fimm.

Þá menn skal fyrst kveðja er búðir eigu, ef þeir eru réttir að tengdum, og þá fyrst þeirra er mest eiga í búð, ef eigi þarf fleiri en þá að kveðja. Þá skal kveðja aðra búendur úr búð ef þess þarf, og sé þeir réttir. Nú eru þeir eigi réttir eða þurfi fleiri, þá skal kveðja griðmenn ef eigi vinnur þörf ella.

50. UM ÞAÐ HVE LÝSA SKAL ALÞINGISÁVERKA.

Um áverk öll og um frumhlaup, og um þann lagalöst allan er menn gera á þeim vettvangi er menn fá sár á alþingi, og skal þær sakir allar lýsa að Lögbergi, enda skal búðakviður um skilja. Þar er menn verða kvaddir búðakviðar á alþingi, og hafa þeir eigi af hendi leyst kviðuna, þá eru þeir skyldir að fara til þings hið næsta sumar eftir, jafnt sem þeir búar er heiman eru kvaddir þingreiðar. Ef maður deyr úr sárum þeim er hann fékk á alþingi, þá er rétt að lýsa fyrir búum fimm víg það, þeim er næstir eru þar sem hinn andast.

51. UM ÞAÐ HVERIR SKÓGARMENN ERU GILDIR ÞREM MÖRKUM.

Ef maður verður sekur um víg það er hann vegur á alþingi, þá er sá skógarmaður gildur þrem mörkum lögaura. Sá maður skal annar svo gildur er menn brennir inni til bana og verður sekur um það. Þriði er þræll eða lögskuldarmaður sá er vegur að drottni sínum eða drottningu eða að börnum þeirra eða að fóstrum. Fjórði er morðvargur sá er menn hefir myrða. En aðrir skógarmenn allir, þá eru gildir átta aurum.

52. UM ÞAÐ AÐ KJÓSA MANN TIL VEGANDA.

Þar er menn verða um víg sekir, þá skal sækjandi kjósa mann til veganda að dómi eða að sættamáli fyrir sáttarmönnum, þann er hann vill, þeirra manna er að vígi voru, og skal hann í þess átt telja til sakbóta, enda á hann þar ruðningar við þann mann. En ef sækjandi ger eigi kjósa mann til veganda, og telur hann eigi þar þá til sakbóta né til ruðninga.

53. UM MORÐ.

Ef maður myrðir mann, og varðar það skóggang. En þá er morð ef maður leynir meira hlut manna í hrepp eða hylur hræ til launar eða gengur eigi í gegn, enda hefir sá er myrður er ekki til saka gert svo að hann félli fyrir því óheilagur, og svo þótt hann væri sekur.

Stefna skal manni um morð og kveðja tylftarkviðar goða þann er sá er í þingi með er sóttur er. Rétt er og að kveðja heiman níu heimilisbúa þess er sóttur er og lýsa sök á þingi því er hann hefir búa til kvadda. Hinn er kostur hinn þriði, að hræjum fundnum, að kveðja níu búa heiman þaðan frá er hræ fundust en lýsa sök á þingi.

Það er og um sár eða ben eða drep þau er þar fylgja morðinu, þá er þar kostur að kveðja vettvangsbúa níu heiman og lýsa sök á þingi og stefna heiman og sækja sem aðrar vígsakir.

54.

Ef sjáendur eða segjendur ganga annan veg aðeins frá vígi, það eru karlar en eigi konur, þá skal vegandi lýsa vígi á hönd sér og kveða á fyrir nokkurum mönnum lögföstum, og þó er rétt að hann segi einum lögföstum karlmanni hvar fundur þeirra varð, og nefna hann, og er þó rétt að hann skýri það eigi meir en hann segist bani hins, ef hann gekk af dauðum manni. Hann skal lýst hafa samdægris ef hann má. En ef hann má eigi svo geta lýst þar er honum sé óhætt, þá skal hann lýsa sem hann má fyrst.

55.

Ef þar er aðili máls við sem maður er veginn, þá skal hann færa lík það til kirkju. Nú er hann eigi þar, þá skulu lagsmenn hins vegna. Nú mega þeir eigi, eða er sá einn hjá þar er að honum vó. Þá skal hann hylja hræ grjóti eða torfi eða klæðum eða snæ, ef eigi er annað til. En ef eigi er hulið fyrir dýrum eða fuglum, þá skal kveðja níu vettvangsbúa heiman, og varðar það fjörbaugsgarð.

56.

Skóggangur varðar manni ef hann vegur karlmann eða konu, hvort sem menn eru yngri eða eldri, þeir sem vegnir eru. Nú átti kona sú sér búanda, er vegin verður, þá á ver hennar tvítylftarbaug úr gjaldinu þó að hann eigi engi börn með henni.

Jafnsek verður kona sem karlmaður ef hún vegur karlmann eða konu, eða vinnur á, og svo er um öll lagaafbrigði mælt.

57.

Ef sár eru lýst á hönd manni og gerist það að benjum þá skal ben lýsa á hendur hinum sömum mönnum sem sár voru á hendur lýst, enda er þá og rétt að lýsa öðrum mönnum á hendur, og þó þeim einum er á vettvangi hafa verið.

Ef aðili er utan fjórðungs við víg, þá er það er vegið, þá skal hann hefja upp för sína á hinum næsta mánaði er hann fregn, og hafa lýst fyrir þriðju sól þaðan frá er hann kom til vettvangs, og skal hann fylgja láta frumhlauplýsingu, ef það hefir þar verið.

58. UM ÞINGFERÐIR ÞEIRRA MANNA ER BEN EÐA SÁR ERU RÉTT LÝST Á HENDUR.

Ef þeir menn fara á þing helguð er sár eða ben eru rétt lýst á hönd, og varðar þeim það fjörbaugsgarð, enda verða mál þeirra ónýt öll, þau er þeir fara þá með eða eru aðiljar að.

Nú fara þeir sumir til þings en sumir eru heima og er þó víg eða sár lýst á hendur hvorumtveggjum, þá sekjast þeir hvorirtveggju ef frumhlaup ber á hendur þeim er heima sitja. Ef sá maður er þar á þing kominn er sér fær þann bjargkvið að þeir vissi hann ósannan að áverkum, og væri fyrir þær sakir lýst á hendur honum að þeir vildu glepja þingferð hans en eigi af því að þeir hygði hann að sökum sannan, og verst hann þá þeirri sök um þingreiðina, þó að hinn hafi þar votta þá er að voru nefndir þá er hann lýsti sár eða ben.

59. UM SÁR.

Það eru sár er þar blæðir sem á kom, en drep ef annars staðar blæðir. Lýsa skal jafnan hvort sem eru hin meiri sár eða hin minni. Það varðar fjörbaugsgarð ef maður fylgir þeim manni að sínu ráði er hin meiri sár eða ben eru á hönd lýst.

Þau eru hin meiri sár ef maður er heilundi eða holundi eða mergundi. En þá er maður heilundi er kera kennir inn til heilabasta. Þá er maður holundi er kera kennir inn til himnunnar eða í hol. En þá er mergundi er kera kennir inn til mergjar.

Það er og jafnt hvort sem maður ger eigi lýsa eða lýsir hann rangt. En ef maður hefnir sín á öðrum vettvangi en til hans var hlaupið á, og bregðast þeir frumhlaupum við, þá skal kveðja hvoratveggju vettvangsbúa heiman. En það er vettvangur er örskotslengd er á alla vega þaðan frá er þeir fundust fyrst og hljópust til, og svo er þó að þeir vinnist á í húsum inni.

Nýmæli: Örskotshelgur er nú tvö hundruð lögfaðma tólfræð á sléttum velli.

60. UM ÁVERKA Á ÞINGUM EÐA LEIÐUM.

Situr maður rétti sínum ef hann er vísvitandi að verði eða að virði við þann er drap hann, eða gerir hann ranglýst.

Ef maður drepur mann eða særir á þingum eða á leiðum helguðum, og varðar það skóggang, enda eykst þar réttur manns hálfu. Nú vill maður hefna sín, en hinn er á honum hefir unnið er hlaupinn í búð inn, og standa menn þar fyrir honum. Þá skulu þeir er eftir sækja beiða þess að þeir megi ganga inn í búðina. Nú vilja hinir það eigi og standa fyrir, og varðar það fjörbaugsgarð ef eigi er á vettvangi en skóggang ella, enda er búðin óheilög nema þeir vildi svo skilja þá að sá hafði hlaupið er þá er vanhluti. Þá skal búa kveðja er þar búa næstir þinginu ef eigi eru þeim áverk kennd.

Nú drepast menn eða særast eða vegast á alþingi, og eykst þá hálfu réttur þeirra manna er á er unnið, enda varðar eigi að menn standi þar fyrir mönnum. Nú verður maður veginn á alþingi, eða ómáli eða óviti af áverkum. Þá er sá karlmaður fulltíði sakar þeirrar aðili er skyldastur er þar á þingi, ef sá er þar á þingi, næstabræðri eða nánari, en því að einu firnari ef hann er réttur aðili, og er engi heima skyldari fulltíðra manna. En ef engi er þeirra á þingi, eða vilja þeir eigi sækja, þá skal goði sá með sök fara er sóknaraðili er í þingi með, hvort sem maður er veginn eða ómáli.

Nú verða áverk á alþingi að þinglausnum, þá er menn bregða tjöldum sínum, og er þá eigi skylt að færa dóm út nema vili. Enda er rétt að beiða dóms út meðan eigi er upp sagt misseristal. En ef að öðru þingi er sótt, þá skal búa kveðja þá er næstir búa þingvelli, þeirra manna er réttir sé að hrörum.

61. UM ÞAÐ EF MAÐUR SÆRIR SIG SJÁLFUR.

Það er mælt að þar er maður verður sár að hann skal nefna votta að sárum sínum og sýna þeim hverjum sárum hann er sár. Vettvangsbúar skulu skilja hverjum sárum hann var sár ef eigi eru vottar að nefndir.

Ef maður særir sig sjálfur fyrir öndkost, eða lætur hann annan mann særa sig, og varðar það fjörbaugsgarð, enda er hann eigi þá æll til dóms, heldur en áður, eða hans lagsmenn, þó að hann vildi til þess breyta. Ekki varðar það við lög þó að maður láti ljósta sig ef hann vill.

62. UM VÍGSBÆTUR.

Ef maður verður veginn, og eru þeir karlar erfingjar hans er eigi eru fulltíða eða konur, þá eru þangað ruðningar allar við þá, enda eiga þeir fé það allt sem á tekst. Móðir á þriðjung úr vígsbótum eftir börn sín skírborin, við föður og bræður samfeðra hins vegna.

Nýmæli: Þar er kona á að taka vígsbætur eða sá maður er eigi á að sækja sakir sínar, þá á aðili vígsakar þriðjung vígsbóta.

63. UM ÞAÐ EF MAÐUR LÝSTUR HROSS UNDIR MANNI.

Ef maður lýstur hross undir manni, og varðar það fjörbaugsgarð ef kviður ber það að hann vildi manninn drepa, þó að hann haldist á baki. Ef hross þau færa mann af baki er annar maður fer með, eða fellur hann fyrir þeim þó að hann gangi eða standi áður, þá varðar fjörbaugsgarð þeim er með hross fer, en skóggang ef honum blæðir eða lemst hann, og skal kveðja til níu búa á þingi þess er sóttur er um þær sakir allar. En ef maður fær bana af hrossum, þá skal heiman kveðja búa.

64. UM VOPNAÁBYRGÐ.

Sá maður ábyrgist vopn er upp festir. Nú færa aðrir menn síðan vopnið, og ábyrgjast þeir þá er færa, nema menn hrati á eða hrindist á, þá ábyrgjast þeir er hrinda.

65. UM ÁVERKA Á ÞINGUM.

Ef maður særir mann á skapþingi helguðu, og skal eigi sættast á þótt hin minni sár sé, en þó eigu þeir þingreitt hvorirtveggju á því þingi. Allar sakir þær sem í þingmarki gerast skal lýsa í þingbrekku, og mest að öllu það er í þingmarki er aflaga gert sem það væri á þingvellinum sjálfum.

66. UM SAKATILBÚNING.

Sakar þær allar sem verða með mönnum er rétt að sækja á alþingi. Enda er rétt að sækja á héraðsþingum, hvort sem það er á fjórðungaþingum, þá er þau eru höfð og fjórðungsmenn allir eiga þar saman sóknir. Enda er rétt á vorþingum þeim öllum er aðiljar eru allir samþinga, og svo þeir menn allir er fyrir sökum eru hafðir. Áverkamál þau öll er einir vettvangsbúar eiga um að skilja eru því að einu rétt til vorþings að búa ef þeir menn eru allir á því þingi þingfastir er fyrir sökum eiga að ráða og aðiljar eru, eða leggja leyfi sitt til ella að mál sé til þess þings búin, þótt þeir sé eigi þar allir þingfastir, enda sé þeir menn allir þar þingfastir í því þingi er fyrir sökum eru hafðir, eða hvergi ellegar.

Nú vilja þó sumir búa mál þau til vorþings en sumir til alþingis. Þá skulu þeir er til alþingis vilja búa láta koma lýrit fyrir á vorþinginu. Nú eru aðiljar tveir að einni sök, og vill annar til vorþings búa en annar til alþingis. Þá skal sá hinn er til alþingis vill búa láta koma lýrit fyrir sökina á vorþinginu. En ef annar vill sækja sökina á vorþingi, en annar vill sættast á, þá skal sá ráða er á vorþinginu vill sækja, ef þangað er rétt til að búa.

Sínum lýriti sjálfs skal maður verja þessi mál öll. En ef sökin er búin á hönd honum í það vorþing er hann er eigi þingfastur í, og skal hann goðalýrit láta koma fyrir sök þá á vorþinginu.

67. UM ERLENDISVÍG OG RÁN.

Það er mælt ef vor landi er veginn erlendis, þá er aðilja rétt að lýsa víg það að Lögbergi hið næsta sumar er hann fregn, og verður þá vegandinn þegar óæll er hann kemur út hingað. En svo fremmi varðar skipamönnum er þeir fregna lýsingina. Ef vor landi verður sár eða drepinn austur, enda komi hann eigi út á þrimur sumrum, en sá komi út er á honum vann, þá er rétt að sá maður sæki sök þá er hann væri vígsakaraðili eftir hinn.

Ef maður vill sækja um erlendisvíg eða áverk, þá skal hann spyrja að Lögbergi ef nokkurir menn vilja aðrir sækja um það mál. En síðan skal hann þess spyrja ef fleiri menn vili sækja um þau mál nokkur, er í þess konungs veldi hafa gerst. Nú vilja eigi fleiri menn sækja, þá skal hann í þann dóm sækja sem hann sjálfur er í, ef hann sækir fleiri mál, þau er í þess konungs veldi hafa gerst. Nú sækir hann um eitt mál. Þá skal í þann dóm sækja er sá er í er sóttur er. Ef hann sækir fleiri mál en eitt, og eru þeir allir í einum fjórðungi er sóttir eru, þá skal í þann dóm sækja sem þeir eru í er sóttir eru. Nú vilja þeir fleiri sækja, þá skal hluta í hvern dóm þeir skulu allar sakarnar sækja, þeirra er þeir eru úr fjórðungi er sóttir eru.

Nýmæli: Ef maður verður ræntur erlendis, og varðar það skóggang. Skal svo að sókn fara sem um erlendisvíg, fyrir það fram að hinn var ræntur en eigi veginn.

68. UM RÓG VIÐ HÖFÐINGJA.

Ef maður rægir mann við konung eða jarl eða nokkurn ríkismann erlendis, svo að hann verður landflótti eða lætur hann fé sitt, og varðar það fjörbaugsgarð. Skal sækja við tylftarkvið.

Nú verða varnir þær til þessa mála er metast eigu, er erlendis hafa gerst, og skal fangakvið þar til hafa í öllum stöðum. En ef þær varnir verða til, er hér hafa gerst, og skal þá hafa heimilisbúa fimm til, þess er sóttur er. En ef þær varnir verða til er í hafi hafa gerst, þá er menn fara út hingað, og skal þá hafa til varnar fimm búa, þá er næstir eru höfn þeirri er flestir menn bera föt sín af skipi eða á skip, ef þá verður er þeir fara héðan.

69. UM HRÆ.

Ef maður hylur eigi hræ manns þá er hann gengur frá dauðum manni, og varðar það fjörbaugsgarð, og skal sú sök fylgja vígsökinni að tilbúnaði og kveðja búa heiman.

Nú gengur maður frá dauðum manni, þeim er honum hefir fylgt áður, hvort sem hinn verður dauður af sótt eða af kulda eða af vopnum annarra manna, eða hvatki sem honum verður til bana, þess er hinn þurfti að hylja hræ hans, og varðar það fjörbaugsgarð, og er það stefnusök, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er.

70. UM LÝSINGAR.

Sakar þessar allar sem hér eru taldar, þær skal lýsa á þingi en kveðja búa níu heiman. Svo skal víg lýsa að maður skal nefna sér votta tvo eða fleiri „í það vætti,“ skal hann segja, „að eg lýsi sök á hönd N. N-syni, þá að hann hafi hlaupið lögmætu frumhlaupi til N. N-sonar og veitt honum í því frumhlaupi þau sár er að ben gerðust á þeim vettvangi er N. fékk bana. Tel eg N. eiga að verða um sök þá sekjan skógarmann, óælan, óferjanda, óráðandi öll bjargráð. Tel eg sekt fé hans allt. Tel eg mér rétt úr fé hans, eða þeim manni er aðili er sakarinnar, átta lögaura hins fimmta tigar. Síðan tel eg mér hálft það er eftir er, en hálft öllum fjórðungsmönnum þeim er sektarfé eigu að taka að lögum. Eg lýsi sök þessa til fjórðungsdóms þess er sökin á í að koma að lögum. Lýsi eg nú til sóknar í sumar, en til sektar fullrar á hönd N. N-syni. Lýsi eg löglýsing. Lýsi eg í heyranda hljóði að Lögbergi, og handselda sök,“ ef svo er.

Rétt er að lýsa þær sakir allar er heimankvöð kemur til, enda sé heiman kvaddir búar. Enda er rétt að stefna hvar þess er rétt er að lýsa.

71. UM ÞAÐ HVENÆR SAKIR ERU HÉRAÐFLEYGJAR.

Allar sakar þær er aðili hefir spurt er fjórar vikur eru af sumri eða fyrr, og eru þá héraðfleygjar. En þá eru sakir héraðfleygjar er meiri hlutur hefir spurt, þingheyjanda, í þeim hrepp er sakir koma upp, og hyggi menn að satt sé. Aðili skal og spurt hafa, hvort sem hann er í þeim hrepp eða öðrum þá er sök er héraðfleyg, og skal þeim sökum stefnt vera hið síðasta miðvikudag þann er sex vikur eru af sumri hinn næsta dag eftir, ef heimankvöð kemur til. En búar skulu kvaddir laugardag þann eftir á hinni sjöndu viku hið síðasta.

72. UM BÚAKVAÐIR.

En ef maður spyr síðar sök, eða gerist hún síðar en svo, og þó fyrir hinn efsta fardag, þá er rétt að stefna allt til þess er sjö vikur eru af sumri hið síðasta. En búar skulu kvaddir er átta vikur eru af sumri. En þar er gagnkvöð kemur til, og hafi aðrir kvatt fyrir fardagahelgi, en aðrir vili kveðja eftir, og skulu þeir hina sömu bændur kveðja og á þeim bæjum sem þeir áttu heimili fyrir fardaga, nema þeir hitti þá að máli. En ef maður hefir upp kvöð eftir fardaga um þau mál er eigi er svo til farið sem nú var tínt, og skal hann kveðja þá búa er þau missari er þá eru komin skulu þá næst búa þeim stað sem hann kveður um. Ef maður spyr sök þá er hann er aðili að drottinsdag í fardögum eða síðar, og á hann kost að búa þá sök eigi til sóknar á því sumri, enda er rétt að sækja á hinu næsta alþingi. En ef sú sök er, er heimankvöð kemur til, þá skal hann stefnt hafa, ef hann hyggur, hið síðasta fimmtadag þann er átta vikur eru af sumri, og svo kvadda búa. Annaðhvort skal alla búa kveðja, þá er búið hafa, fyrir hinn fimmta dag í fardögum, eða eftir fardaga ella.

Sakar þær allar er síðar koma upp en átta vikur eru af sumri, þar er eigi heimankvöð til, og svo um þær sakir allar er svo síðarla koma upp, þó að heimankvöð komi til ef fyrr gerðust, að hann má eigi fá kvadda búana þá er átta vikur eru af sumri. Þeim sökum öllum skal stefna heiman, svo nær alþingi sem hann vill, ef hann vill á hinu næsta alþingi sækja. En ef heimankvöð er til sakanna, ef hann hefði fyrr spurt, og skal hann þá kveðja til níu búa á þingi, þá er næstir búa þeim stað er hann á um að kveðja, ef hann kvaddi heiman til hinnar sömu sakarinnar.

Ef aðili er utan fjórðungs, og er honum rétt að hafa þann tilbúning að lýsa sök á þingi um víg og kveðja búa heiman. Enda er honum rétt að stefna heiman og kveðja til níu vettvangsbúa á þingi. Ef svo nær alþingi verður að utanfjórðungsmaður þykist eigi mega komast að búa mál til sóknar á því sumri, hvatki er að þrýtur, og er þá rétt að hann lýsi sök þá að þinglausnum, ef hann vill, til sóknar annað sumar. En hann skal kveðja búa, hvort sem hann vill, heiman eða á þingi. Það er og rétt að lýsa sökina hið sama sumar er hann spyr vígið og sækja hið sama sumar, og skal hann þá kveðja til níu vettvangsbúa á þingi, þá er hann hyggur að réttir sé að öllum tengdum.

Um sakir þær allar er upp koma um alþingi, og svo ef sóknaraðili verður þá hið fyrsta vís, þá er rétt að stefna heiman þeim sökum öllum, hvar þess er maður fær þó gagna til kvatt fyrr en dómur fari út til saka.

73. UM ÞAÐ EF MÁL ER BÚIÐ TIL ÓHELGI HINUM VEGNA.

Ef hinum vegna manni eru sakir á hendur búnar til óhelgi, enda fregni sakaraðili vígið á þingi, eða svo síðarla að honum sé á því sumri eigi skylt að búa mál til sóknar nema hann vili, þá er honum rétt að hann lýsi vígið til sóknar þá þegar og sækja hið sama sumar. Ef hinir hafa þeirra vettvangsbúa kvadda heiman, er næstir búa þeim vettvangi er hinn vegni fékk banasár á, þeirra manna er réttur er að kveðja, þá skal sakaraðili kveðja á þingi þá hina sömu bændur sem hinir kvöddu heiman. Nú búa hinir síðan til, og kveðja þeir búa til óhelgi hinum vegna [K: á þingi] um þann vettvang sem hann fékk banasár á. Þá skulu þeir kveðja nótt fyrr en dómar fari út til saka, eða meira méli. En sá er um víg sækir skal kveðja hina sömu búa sem hinir hafa áður kvadda, og á sá þar jafnan ruðningar er síðar kveður. Nú ef eigi verða allir einir búar, þeir er hinir hafa kvadda til óhelgi hinum vegna, og þess vettvangs búar er hinn dauði fékk banasár á, og skal sá er um vígið sækir kveðja á þingi vettvangsbúa þá er hann hyggur hið réttasta.

Ef vegandi hefir sér til óhelgi hagað á öðrum vettvangi við þann er veginn er, en mál sé búin til óhelgi hinum vegna um þann vettvang sem hann fékk banasár, enda sé vígsakaraðili á þingi, þá er rétt að hann lýsi til sóknar á hönd veganda, bæði vígið og þann lagalöst allan er hinn hafði áður unnið til óhelgi sér við hinn vegna. Sækjandi skal kveðja níu búa til á þingi um það er vegandi hafði sér til óhelgi ráðið við hinn vegna, og kveðja um þann vettvang er það varð með þeim.

Ef eigi er vígsakaraðili á þingi, en mál búin á hönd hinum vegna til óhelgi, enda sé þó frændur hins vegna á þingi, næstabræðri eða nánari, þá skal sá þeirra er vill sækja vígsökina, svo sem hann mundi þó að hann væri réttur aðili. En ef þeir bregðast um, þá skal hinn nánasti sækja. Nú eru þeir jafnskyldir, þá skulu þeir hluta með sér. En ef engi er þeirra á þingi, eða vilja þeir eigi sækja, þá skal goði sá með sök fara er sóknaraðili er í þingi með. Hvort sem maður er veginn eða sár svo að hann er eigi fær sjálfur að búa mál sín til, enda fær hann engan annan til, þá eigu frændur þann kost, sem nú var tíndur, á því öllu um sök þá sem sóknaraðili ætti ef hann væri á þingi, enda er slíkt mælt til handa goðanum.

Nú hvergi sem sækir, þeirra manna er nú eru hér taldir, enda berist gögn í hag hinum vegna, þá skal dæma hann sýknan hafa fallið þeirra saka er á hönd honum eru búnar, og svo fé hans allt, en vegandann sekjan fullri sekt.

Ef eigi er vígsakaraðili á þingi, og engi þeirra manna sem nú eru taldir, en málin sé búin á hönd hinum vegna til óhelgi, en vígsökin sé eigi tilbúin, eða vili frændur eða goði eigi þó að þeir sé til, þá á sá er vill að kveðja bjargkviða allra þeirra er þarf, og skal hann svo kveðja búa til þess sem áður var tínt, að sá skyldi kveðja er málin byggi til sóknar þar á þingi. Nú hvatki sem ber í hag hinum vegna, það er vegandinn ætti sekur um að verða ef að lögum væri málin búin á hönd honum, þá á að dæma hinn vegna sýknan hafa fallið þeirra saka, og svo fé hans allt. Sömu leið skal og þar fara er hinn sári maður er ómáli, og sé mál búin á hönd honum til óhelgi.

74. UM SAKIR ÞÆR ER MÆR EÐA EKKJA Á AÐ SELJA.

Ekkjur og meyjar tvítugar og eldri eigu sakar að selja ef hlaupið er til þeirra, og svo um sárin minni ef þær taka fullrétti eða bætur, og svo að sættast á. En ef þær taka eigi fullrétti eða halda eigi til fullnaðar, þá eiga lögráðendur þeirra, og svo um hin meiri sár.

Nýmæli: Nú tekur maður sök af öðrum manni til þess að hann vill eigi sækja, og vill hann í því glepja sökina fyrir hinum, og varðar það fjörbaugsgarð við sakaraðilja, og skal hann stefna heiman sök þeirri og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess manns er sóttur er, enda á aðili að taka upp sök sína og sækja hið næsta sumar.

75. UM ÞAÐ AÐ KVEÐJA VÆTTIS.

Svo er og mælt ef annar maður kveður mann vættis en sá er hann nefndi fyrir öndverðu í vætti, og er honum rétt að kveðja hvorn sem hann vill, þann er kvaddi eða hinn er hann nefndi í vættið fyrir öndverðu, þeirrar reiðu sem hann þarf til þingfarar.

76. UM BYRGING.

Ef maður byrgir mann inni í húsi svo að sá má eigi út komast nema hann lesti húsið að lásum eða að viði eða að torfi, eða heldur manni eða heftir för hans á nokkura lund, svo að hinum verður sú dvöl að hann mundi fara meðan ördrag eða lengra. Það varðar fjörbaugsgarð, og skal kveðja til níu búa á þingi þess er sóttur er, en stefna heiman.

77. UM ÞAÐ EF MAÐUR ELTIR HROSS UNDIR MANNI.

Ef maður eltir hross undir manni svo að hinn fellur ofan eða fælir, eða eltir hann klyfjað hross á hann eða smala, svo að hinn fellur af því af baki, eða á hverngi veg er hann fer þess að er hinn fellur af baki af því, og varðar það fjörbaugsgarð ef hinn kemur standandi niður, og skal kveðja til níu búa á þingi en stefna heiman.

Ef maður lýstur hross undir manni, og varðar það þriggja marka sekt, og skal hann kveðja til fimm búa á þingi þess er sóttur er en stefna heiman. Nú lýstur maður hross undir manni, og varðar fjörbaugsgarð ef kviður ber það að hann vildi manninn drepa, þó að hann haldist á baki. En hvatki sem maður gerir þess er hinn fellur af baki af hans völdum, og varðar það skóggang, og skal þar kveðja heiman búa til um þau mál bæði, og mest sem önnur frumhlaup.

Ef hross þau færa mann af baki er annar maður fer með, eða fellur hann fyrir þeim þó að hann gangi eða standi áður, þá varðar fjörbaugsgarð þeim er með hross fer, en skóggang ef hinum blæðir, eða lemst hann, og skal kveðja til níu búa á þingi þess er sóttur er um þær sakir allar. En ef maður fær bana af hrossum, þá skal heiman kveðja búa.

78. UM ÁVERK VIÐ UNGA MENN.

Ef hlaupið er til ungra manna eða unnið á þeim er eigi eiga forráð fjár síns, þá á sá maður sök þá er vígsök ætti eftir þá ef þeir væri vegnir. En ef konur þær er gefnar eru eiga fjárvarðveislu ungra manna, þeirra er á er unnið, þá eiga bændur þeirra sakirnar. En ef á mannskonu er unnið, og á búandi hennar sök þá.

Nú er unnið á þeim manni er hann er fulltíði að aldri, en hann er svo vitlítill að hann á eigi forráð fjár síns, og á sá maður sök þá er hann er réttur mælandi máls hans, en það skal fara að því sem áður var tínt um hina ungu menn.

Ef unnið er á þeim manni, er hann er tólf vetra eða eldri, og þeygi fulltíði [K: á yngra manni en sextán vetra gömlum], þá er rétt að hann sæki sök þá ef aðili lofar, og skal hann af engum manni taka sök þá, enda skal engi maður af honum taka nema þær nauðsynjar verði er hann ætti að selja handselda sök. Svo skal fara um þær sakir allar er við hann eru gervar sem nú var tínt um áverkin.

En ef maður er eigi fulltíði, enda gerist sök sú er hann væri aðili að ef hann hefði aldur til, þá á sá maður sökina er nánastur er, fulltíði. En ef hann hefir hvortki sök þá selda né til búna hinn fimmta dag þann er fyrstur er í sumri, þá er hinn ungi maður er sextán vetra gamall, þá á hinn ungi maður sök sína að sækja og að sættast á. Ef sá maður andast, er sakaraðili er, fyrr en hann hafi sök selda eða til búna eða sæst á, þó að sök væri upp komin svo að hann hefði fregið, þá á sá maður sökina er nánastur er fulltíðra manna, en því aðeins erfingi aðiljans ef eigi er annar skyldri.

79. UM ÞAÐ EF SÁ MAÐUR ER VEGINN ER EIGI ER Í ÆTT KOMINN.

Ef sá maður verður veginn er eigi er að lögum kominn í föðurátt, þó að hann sé kenndur nokkurum manni að syni, þá eiga móðurfrændur vígsökina og svo bætur, enda fer svo um erfð.

Aldregi skal maður arf taka að þann mann er hann vegur eða ræður bana fram kominn.

80. UM HERVÍGI.

Svo er og mælt, ef menn finnast að brautamóti og gerist það að hervígi er þeir hittast, þá verða þeir allir óhelgir fyrir áverkum, er úr þeim flokki eru sem fyrr var úr hlaupið, nema þeir sé skilnaðarmenn réttir. En það er hervígi er menn verða alls vegnir eða sárir þrír eða fleiri, og sé hlotnir í hvorntveggja flokk. En þeir eru skilnaðarmenn réttir er með hvorigum fóru heiman vísir vitendur, enda vildi þeir svo skilja þá sem þá mundi ef þeim þætti allir jafngóðir á þeim vettvangi, og þó svo að til þeirra væri hlaupið er þá hljópu, enda fylgi þeir hvorigum í braut. Þá er barsmíð skilið er lengra er á meðal þeirra en ördrag.

Hvar þess er svo mikil áverk verða flokka á meðal sem nú voru tínd, þá varðar eigi við lög þaðan frá, þótt menn standi fyrir á þeim vettvangi, enda eru þá hvorirtveggju ælir til dóms.

Ef maður fylgir manni til vettvangs og til áverka við annan mann, og varðar honum það skóggang, enda verður hann þar óheilagur við áverkum. En ef hann fylgir áverkamanni í brott af vettvangi, og varðar það fjörbaugsgarð.

81. UM ÞAÐ EF FORÐAÐ ER FRUMHLAUPSMANNI.

Ef menn forða fjörvi frumhlaupsmanns þess er áverk lét fylgja, svo að þeir veri hann oddi og eggju, og varðar það fjörbaugsgarð ef eigi er á vettvangi. Nú hleypur maður í einstigi, og standa menn þar fyrir honum. Þá eiga þeir er eftir sækja að beiða hina frágöngu eða framsölu að þeim manni. En ef þeir vilja hann eigi framselja þá er beitt var, og varðar það fjörbaugsgarð ef eigi er á vettvangi. Þá varðar svo fyrirstaða, sem nú var tínt, ef nokkur maður sækir sá eftir er sín á að hefna þar að lögum eða annars manns, en þeygi verða óhelgir þeir menn er fyrir standa ef eigi er á vettvangi.

Um þau áverk varðar fyrirstaða fyrir utan vettvang er lýst verða annaðtveggja áður eða síðan, svo að bjargir varða. Fyrirstaða sú öll er eigi verður á vettvangi, það eru allt stefnusakir, og skal kveðja til níu búa á þingi þaðan í frá sem sök gerðist.

Sá maður er æll til dóms á laun er hann veitir öðrum manni vöðvasár. En ef sá stendur hann inni og nefnir votta að, þá varðar fjörbaugsgarð, og skal sækja við það vottorð.

Heyrn sína eða sýn skulu vottar bera með hverju vætti.

Það er sár er odds farvegur er á eða eggjar. Enda er þó sár að maður ljósti til, ef þar blæðir sem við kemur, og svo hvað sem hann gerir þess er blæðir sem við kom.

82. UM DREP.

Ef maður drepur mann og varðar það skóggang, enda á hinn að taka rétt sinn úr fé hans ef ásýnt varð, bauga tvo hina mestu, og eigu menn eigi að standa fyrir þeim manni er drepið hefir annan. En hann er þó æll til dóms, nema drep sé svo mikið að bein brotni, þá er hann óæll ef lýst verður.

83. UM KVAÐIR UM DREPRÁÐ OG SÁRRÁÐ OG BANARÁÐ.

Ef maður ræður um mann drepráðum eða sárráðum eða banaráðum, og varðar fjörbaugsgarð ef eigi kemur fram en skóggang ef fram kemur. Hann skal kveðja heiman níu heimilisbúa þess er sóttur er ef eigi koma ráð fram. En ef fram koma, þá skal kveðja vettvangsbúa níu heiman.

Svo er mælt um drepráð og um sárráð og fjörráð, þau er á þeim vettvangi eru ráðin, sem fram koma, og svo þau er annars staðar eru ráðin og koma þar fram á vettvanginum, að þar skal kveðja jafnan vettvangsbúa níu heiman. Ef maður ræður um mann drepráðum eða sárráðum eða áljótsráðum, hverigu þeirra sem hann ræður, og skal um þau sækja sem fram koma, þó að hann réði þar drep eða sár er ben kemur fram. Ef maður hefnir drepi frumhlaups, þá skulu vettvangsbúar skilja um frumhlaup en tylftarkviður um drep.

Þau eru ráð svo að maður svo ræður um annan, ef hann mælir það fyrir mönnum nokkuð að hinn sé þá bana að nær en heilindi að firr ef það kæmi fram er hann mælti. Það eru og áljótsráð eða fjörráð ef hann gildrar til þess að vopn skyli sjálf falla á mann eða fljúga að honum, eða annar voði nokkur. Svo er og ef maður vísar manni á foröð nokkur, eða þar er ólm kykvendi eru fyrir.

Of þær sakir allar sem nú voru tíndar, þá skal kveðja búa heiman þaðan frá sem sá maður fékk skaða er fyrir varð. En ef honum verður eigi mein að, og hafði hinn þó til þess stýrt, þá skal kveðja heimilisbúa níu heiman, þess er sóttur er.

[K: Það sagði Guðmundur lög að vettvangsbúa níu skal kveðja um áljótsráð þau er á vettvangi eru ráðin og þar koma fram, en heimilisbúa níu um áljótsráð þau öll er eigi koma fram, og skal kveðja níu heimilisbúa til, þess er réð áljótsráð.]

Ef maður vísar að manni ólmum hundi eða alibirni, og varðar það fjörbaugsgarð ef hinum verður ekki mein að. En ef sá verður beystur eða bitinn, svo að blátt eða rautt verður eftir eða blæðir eða fellur hann fyrir, þá varðar skóggang þeim er því dýri vísaði, og skal kveðja vettvangsbúa heiman, en þaðan er dýri var vísað ef eigi verður mein að. Nú fær hinn hin meiri sár eða örkumbl eða bana. Þá varðar þeim slíkt allt, er dýri vísaði, sem hann hafi sjálfur á honum unnið, og svo skal hann að öllu sækja, enda verður hann þegar óheilagur til dóms. Nú fælir maður að manni hross eða naut til þess að hann vildi að hinn yrði stangaður eða undir fótum eða drepinn. Þá varðar slíkt allt, og skal svo að öllu sækja sem áður var tínt, ef maður leysti hund að manni. Svo skal það allt fara hverigum kykvendum er maður vísar eða fælir að manni.

[K: Ef maður fælir hross að manni eða naut eða önnur kykvendi til þess að hann verði undir fótum eða stangaður eða drepinn, og varðar fjörbaugsgarð ef maður fellur eða verður blátt eða rautt eftir eða blæðir, og skal kveðja vettvangsbúa níu heiman.]

84. UM HUNDA.

Svo er mælt í lögum að engir hundar eigu helgi á sér. Ef maður á hund ólman, þá skal hann bundinn vera svo að hann taki eigi til manna þá er þeir fara leiðar sinnar. Ef hundur er bundinn fyrir búri manns eða búð eða stíu til varðar, þá ábyrgist sá sig er í band honum gengur. Og svo þó að fénaður gangi í band hundinum, þá ábyrgist sá eigi er hund á. En band skal eigi lengra vera en tveggja álna á meðal staurs og helsis. Ef hundur er bundinn í seti, þá skal hann eigi taka á stokk fram að bíta menn er ganga á gólfi. Nú er hundur bundinn í kamri, þá skal hann eigi taka til manns er hann gengur til kamars eða sest á tré eða tekur sér borðfæri.

Ef maður bindur hund sinn óvarlegar en nú er mælt, eða er hann laus og bítur mann svo að blátt eða rautt verður eftir, eða kemur blóð út, og varðar það þriggja marka útlegð þeim er hund á. Ef hundur bítur mann í brjósk eða í bein eða í sinar, eða svo að örkumbl verða eftir eða ílit svo að lækningar þarf við, þá varðar það allt fjörbaugsgarð þeim er hund á, en skóggang ef hin meiri sár metast. Það eru allt stefnusakir, og skal kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er til fjörbaugssaka, en fimm til þriggja marka saka.

Ef hundur bítur mann svo að maður fær bana af, þá varðar þeim skóggang er hundinn á, og skal kveðja til níu búa heiman frá vettvangi og sækja að öllu sem aðra vígsök. En ef hundur manns bítur smala manna eða eltir smala manna á foruð út, þá skal sá maður er hund á bjóða hinum, á fjórtán nóttum hinum næstum er hann spyr, þvílíkt fé sem farist hefir að hundsins völdum. En ef hann vill eigi láta í brott hafa féið sitt, þá skal hann bjóða hinum auvislabætur slíkar sem búar hans fimm virða við bók. Nú býður hann eigi þessa kosti. Þá á hinn að stefna honum um það til útlegðar og til gjalda tvennra og kveðja til fimm heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.

Sá maður er hund leysir eða fer með hann svo að hann vill sér láta fylgja, þá ábyrgist sá hundinn þó að annar eigi. En ef hann kemur í för með manni, og biður hann mat gefa honum eða annast um hann er þeir koma til húss, þá ábyrgist hann hundinn þó að annar maður eigi. En eigi ábyrgist hann ef hann veitir sér engi afskipti.

85. UM BJÖRNU.

Ef maður á alibjörn hvítan, og skal hann svo fara með honum sem með hundinum, og svo gjalda skaða alla þá er hann gerir. Ef maður særir hvítabjörn manns saklausan, og varðar honum það þriggja marka útlegð og bæta auvisla sem búar virða. En ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð.

Björn verður óheilagur við áverkum ef hann gerir mönnum skaða. Ef maður höggur hund eða björn til háðungar manni [K: þá er sá heldur á er varðveitir], og varðar fjörbaugsgarð. Það varðar og fjörbaugsgarð ef menn ferja viðbjörn út hingað, þeim manni er björn á og stýrimönnum, en hásetum þriggja marka útlegð, og skal kveðja til níu búa á þingi til fjörbaugssaka en fimm til útlegða.

Ef björn [K: viðbjörn] verður laus út hér, og gerir hann skaða mönnum eða fé manna, og ábyrgist sá björn að öllu er út hafði, svo sem annan alibjörn. Slíkt er og mælt hið sama um úlf og ref, ef þeir eru farðir út hingað.

86. UM GRIÐUNG ÝGJAN.

Hver maður skal sig ábyrgjast við horns gangi og hófs. Ef maður á griðung þrevetran eða eldra, og særir hann menn eða kastar manni svo að honum verður illt við, eða kastar hann fé manna eða særir svo að verður sjúkt af, og varðar það fjörbaugsgarð, nema griðungur sé aktamur og reiði maður með honum saman meira hlut andvirkis síns, og á maður þann að eiga ef hann vill.

Griðungur er óheilagur við áverkum ef hann vinnur á mönnum [K: ef hann er þrevetur eða eldri]. Ef griðungur banar manni, og varðar slíkt þeim er hann á sem björn eða hundur bani manni. Slíkt hið sama varðar og ef hann vinn á manni það er hin meiri sár metast, enda er ekki ætt það er mannsbani verður. Ef griðungur eða björn eða hundur banar manni, og er rétt að sættast á þær sakir allar fyrir lof fram, enda þarf maður eigi að kveðja niðgjalda í þess manns átt er þann grip átti er mannsbani varð. Svo skal sækja sem hann hafi vopnum vegið.

87. UM ÞAÐ EF MAÐUR MEIÐIR SMALA MANNA.

Ef maður verður að því staðinn að hann meiðir smala manna, og fellur hann þá óheilagur á þeim vettvangi. Hvertki kvikfé er maður meiðir fyrir manni, og verður hann útlagur um það þrem mörkum, og skal bæta auvisla sem búar virða. En ef fimm aura skaði verður að eða meiri, og varðar þá fjörbaugsgarð, og skal kveðja til níu búa á þingi, en fimm til útlegða. En ef fé vinnur á fé, þá ábyrgist að helmingi hvor, sá er fé það á er á vinnur og hinn er það á sem fyrir verður, hið dauða eða hið lamda fé.

88. UM ÞAÐ AÐ SÆKJA UM FRUMHLAUP.

Ef maður vill sækja um frumhlaup, og skal hann kveða á mann hver honum veitti það. En ef þar verður hervígi, þá er eigi skylt að kveða á mann. Um það skal þá kveðja hvort úr þeim flokki var hlaupið til hans eða úr hvorum flokki fyrr kom frumhlaup. Nú verða frumhlaup flokka á milli eða áverk, og þeygi hervígi. Þá skal á mann kveða, hverjum á hönd er lýst.

Ef maður lýsir frumhlaup eða áverk, þá skal hann lýsa svo að búar heyri. Enda er rétt að hann lýsi að heimili búanna, svo að lögfastir menn heyri.

89. UM HEIMANKVÖÐ.

Ef menn kveðja búa heiman þvottdag í fardögum eða fyrr, og skal þá búa kveðja er þau misseri hafa þar búið. Rétt er að kveðja að tóftum ef búar eru á brott farnir. Á einum degi skal alla búa kveðja ef svo má vera, eða láta sem skemmst á meðal ef eigi má á einum degi.

Um þær kvaðir er það mælt að á einum degi skyli kveðja ef svo má, ef menn kveðja um fardaga, nema menn bregðist frumhlaupum við. Þar skal svo jafnan kveðja, nærgi sem það er á misserum.

90. UM VOTTORÐAKVÖÐ.

Kvatt skal vottorða allra, og svo kviða, fjórtán nóttum fyrir alþingi, nema maður láti nefnast nær þingi í það vætti er hann veit þingfarar af von, og skal hann kveðja þess vættis hvegi nær þingi sem það er.

91. UM BÚAKVÖÐ ÞAR ER MENN BREGÐAST FRUMHLAUPUM VIÐ.

Ef menn bregðast frumhlaupum við, þá skulu þeir menn er fyrri vilja búa kveðja hefja svo kvöð upp að þeir fái lokið svo að hinir megi kvatt fá, er eftir kvöddu, fyrir fardagahelgi. Nú hefja menn svo síð kvöð upp að þeir mega eigi fá lokið fyrir fardagahelgina ef þeir bíða þar til er hinir hafa lokið. Þeir skulu þá bíða til þess er hinir hafa lokið, ef þeir vitu að hinir hafa upp hafið kvöðina, enda er þeim þá rétt, ef þeir eiga gagnkvöð, að hefja upp eftir fardaga. Þeir skulu hina sömu búa kveðja sem hinir hafa kvatt, og á þeim bæjum sem þeir áttu bú fyrir fardaga, nema þeir hitti þá að máli.

Sá býr nær vettvangi er í þeim hlut býr húss er til vettvangs horfir, ef í það deilir.

92. UM BJARGKVIÐU.

Jafnrétt er hverjum manni er vill að kveðja þeim manni bjargkviða allra er fyrir sökum er hafður á þingi, ef sá er eigi þar, enda hafi hann engum manni selda vörn fyrir sig. En eigi skal sá maður dóm ryðja, er eigi hefir tekið vörn af þeim manni er sóttur er, en ryðja skal hann kviðu ef hann vill.

Það er og rétt að maður kveði búa nónhelgan dag til nætur ef hann hefur upp árdegis kvöðina, enda megi hann eigi fá lokið kvöð fyrir nónið, ef hann kveður hvern að öðrum. Svo skal að sókn fara við þá menn er lið veita þeim manni á helguðu þingi eða í þingför, er sár eða ben eru á hönd lýst, sem við sjálfan hann, fyrir það utan að eigi skal við vottorð sækja.

Ef maður kveður búa heiman of fardaga eða fyrr, og skal hann þá búa kveðja er um alþingi hafa búið á þeim bæjum er hann kveður, ef þeir lifa og eru samlendir. Hann skal þá á þeim bæjum kveðja þó að þeir sé á brott farnir, og skal lýsa kvöð fyrir þrimur.

Leysingjar og laungetnir menn eiga og jafnt vígsakir að börn sín sem arfbornir menn, og svo bætur allar að taka eftir þau, enda skulu jafnt leysingjur og laungetnar konur bætur taka eftir börn sín sem þeir.

93. UM ÁLJÓTSRÁÐ OG FJÖRRÁÐ.

Ef maður biður annan mann fara til áverka við mann eða til áljótar eða til fjörs manns, eða hann ræður um hinn áljótsráðum eða fjörráðum. Það eru ráð ef maður mælir þeim orðum eða gerir hann það nokkuð er hinn sé fjörvi sínu að firr eða áljóti að nær, ef það væri gert er hann mælti, svo að hann vildi að það kæmi fram, og varðar honum það fjörbaugsgarð, og svo hverjum er heitur. Það eru stefnusakir, og skal kveðja níu búa heiman frá heimili þess er sóttur er.

En ef þeir koma í sát fyrir mann, og skal þá kveðja búa heiman frá sátinni. En þá er sát ef menn bíða af því að þeir hyggja þar til áverka við menn í þeim stað, eða þangað til að ganga. Það er og mælt, ef þeir hittast á, þó að þeir menn hlaupi fyrri er fyrir var setið, og falla hinir óhelgir þá er í sátina gengu, og á þar eigi frumhlaup að ráða. Skóggang varða fjörráð og áljótsráð fram komin.

94. UM BRENNUR.

Ef maður biður mann fara að brenna menn inni eða fé manna, og varðar honum það fjörbaugsgarð, og svo hinum er heitur, og skal kveðja búa heiman frá heimili hvers þeirra.

Ef þeir koma á för og taka eld til brennu, og varðar það skóggang, og skal þá þaðan kveðja búa sem þeir tóku eld. En með eldi teknum til brennu falla þeir óhelgir. Ef brenna tekst, og skal þá þaðan kveðja búa frá brennustaðnum, en skóggang varðar ef þeir brenna fé manna, og eru þeir þó ælir til dóms. En ef þeir brenna menn inni, og eru þeir þá þegar óælir til dóms, en inni brenndum mönnum mest ekki til óhelgi ef þeir eru sýknir.

95. UM ÞAÐ EF AUSIÐ ER ELDI Á MANN.

Ef maður eys eldi á mann eða kastar, eða því nokkuru er hinn mundi brenna ef á bert hörund kæmi, og varðar það skóggang. Og svo ef hann hrindur manni í eld, eða nokkur þess er von er að hinn brenni, eða hellir hann á hinn því nokkuru er svo heitt er, eða leggur hann undir hinn, og á hverngi veg sem hann hagar þess er manni er brennu af von, og varðar það allt skóggang þó að eigi takist brennan. Og svo þó að maður svíði hár af manni. Það eru stefnusakir, og skal kveðja til níu búa á þingi þess manns er sóttur er ef eigi tekst brennan.

96. UM ÞAÐ EF MAÐUR BINDUR MANN.

Ef maður bindur mann eða pínir, þann er hann á eigi að pína, eða brennir hann mann með þeim hlutum er nú voru tíndir, svo að ásýnt verður, og skal hann þá lýsa það sem önnur frumhlaup, og mest til óhelgi ef fleira gerist af, enda skal kveðja þá til níu vettvangsbúa heiman.

97. UM ÞAÐ EF MAÐUR VILL ÖÐRUM BANA RÁÐA.

Hvar sem maður færir mann, eða hvargi sem hann kemur honum, eða svo hvatki sem hann færir þess að hinum er hann hugði að hinn mundi bana af fá eða vanheilsu, eða hann vildi hinum í því bana gera eða ráða, svo og ef hann gerir það að hinum er sá fær bana af eða örkumbl eða vanheilsu, hverngan veg sem hann fer að því, og varðar það allt skóggang þó að eigi særi hann mann. En þó að eigi gerist að vígum, þá skal kveðja til níu búa heiman, þaðan frá sem það var að hinum gert, og stefna heiman.

98. UM ÞAÐ EF MAÐUR HVELFIR SKIPI UNDIR MANNI.

Ef maður hvelfir skipi undir manni eða brýtur farskost hans á djúpi, og varðar það skóggang. Ef menn sigla eða róa á menn hafskipi og brjóta farskost þeirra, og varðar skóggang. Ef þeir vilja héðan fara af landi, þá skal búa kveðja frá höfn þeirri er þeir báru flestir föt sín á skip. En ef þeir eru af öðrum löndum komnir, þá skal hann frá þeirri höfn kveðja er þeir báru flestir föt sín af skipi.

Nú sigla þeir menn eða róa á menn, er fara fyrir land á skipi, þá skal búa þá kveðja er næstir búa á land upp frá fundi þeirra. Hvar þess er menn fá manntapa af því, þá eru það allt stefnusakir, og skal kveðja til níu búa á þingi. En ef manntapi gerist af, þá er rétt að lýsa, og skal kveðja búa heiman til.

Það mest sem maður sé veginn ef hann er færður í hólma eða í sker eða í eyjar óbyggðar þar er djúpt vatn er umhverfis, eða sé hann hengdur eða kyrktur, í gröf settur eða heftur á fjalli eða í flæðarmáli, eða sé stungin augu úr höfði honum eða höggnar af honum hendur eða fætur, eða sé hann geldur. Ef menn setja mann í útsker, sá maður heitir skernár. Ef maður er settur í gröf, og heitir sá grafnár. Ef maður er færður á fjall eða í hella, sá heitir fjallnár. Ef maður er hengdur, og heitir sá gálgnár. Og skal þessa menn alla gjalda niðgjöldum, þó að þeir hafi líf sitt, svo sem þeir sé vegnir.

Ef maður mundar til manns og stöðvar sjálfur, og varðar fjörbaugsgarð, og á hinn eigi vígt í gegn. Skal stefna heiman og kveðja til níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er.

99. UM ÞAÐ EF MAÐUR SKER HÁR AF MANNI.

Ef maður sker hár af höfði manni, eða úlar honum nokkur til háðungar, eða rífur hann klæði af honum eða sker, eða færir hann mann nauðgan ördrag eða lengra, og allt það er maður gerir til háðungar öðrum manni, hverngi veg er hann fer að því, og varðar það allt fjörbaugsgarð. Skal stefna heiman þeim sökum og kveðja til níu búa á þingi þess er sóttur er.

Ef maður hnykkir öðrum manni til sín, og varðar það þriggja marka sekt. Nú hrindur hann honum frá sér, og sekst hann um það öðrum þrem mörkum. En ef hann gerir bæði, og eru þá tvær sakirnar, og skal kveðja til fimm búa á þingi. Ef maður hrindur manni á stokka eða steina, eða hvargi sem hann hrindur honum þess er hart er fyrir, svo að blátt eða rautt verður hörund eftir, eða hrindur maður honum í vatn eða í hland eða í mat eða í saur, og varðar það allt skóggang þótt maður falli eigi, og skal kveðja til níu búa á þingi þess manns er sóttur er.

100. UM ÞAÐ EF MAÐUR HNYKKIR HETTI AF HÖFÐI MANNI.

Ef maður hnykkir hetti af höfði manni, og varðar það þriggja marka sekt. Ef kverkband er í hettinum, og hnykkir hann fram af, þá varðar fjörbaugsgarð. En ef kverkband heldur hettinum, og hnykki hann aftur af höfði manni, það er kyrking og vígt í gegn og varðar skóggang.

Ef maður drepur hross undir manni, og verður hann sekur þrem mörkum. En ef hann fellir mann af baki, hverngi veg er hann hagar þess er það verður af hans völdum, og varðar það skóggang, og er vígt í gegn jafnt sem önnur felling. Ef maður stingur hnefa á manni eða spyrnir fæti, og varðar það skóggang.

101. UM BIT OG KLÝPING.

Ef maður bítur mann eða rífur eða klýpir svo að blátt eða rautt verður eftir, og varðar það fjörbaugsgarð. Sár er ef blæðir.

Ef maður hellir á mann mat eða hlandi eða sauri þeim er á sér eftir, og varðar það skóggang. En ef maður hellir á mann vatni, og varðar það fjörbaugsgarð. Ef maður mígur á mann, og varðar það fjörbaugsgarð, en skóggang varðar ef maður skítur á mann.

Þessum sökum öllum sem nú eru taldar, nema kyrking og felling, er eigi vígt í gegn, og skal stefna heiman og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er til fjörbaugssaka og skóggangssaka, en fimm til útlegðarsaka eða þriggja marka saka.

102. UM LÆKNING.

Ef maður brennir mann eða nemur blóð manni til heilindis honum, og hvatki sem maður gerir til heilindis öðrum manni svo að hann vildi að hinn fengi bót af en eigi vanheilsu, og varðar þeim það eigi við lög er lækna vildi mann þótt hinn fái bana af eða skaða.

103. UM HERNAÐ.

Það er mælt ef menn hlaupa í hernað á landi voru og drýgja það er hernaður berst, á hverngi veg er þeir haga þess — fara þeir í hólma eða í hella eða í virki eða á skipi, hvargi sem þeir hafa hæli, þá er þeir drýgja hernað — að þeir eru þá þegar óælir og óhelgir fyrir hverjum manni, gildir átta aurum, og svo skal hylja hræ þeirra sem skógarmanna, þá er menn hafa spurt, og eru þeir þar óælir þótt eigi sé lýst. En það er hernaður er þeir taka menn eða fé manna af þeim nauðgum, eða berja þeir menn eða binda eða særa, ef þeir afla því.

Ef þeir verða eigi drepnir í hernaði, þá er rétt hvort sem vill að stefna heiman um hernað eða lýsa á þingi og sækja hið sama sumar og láta varða skóggang. Þeir menn er fyrstir verða fyrir hernaði þeirra í þeim fjórðungi skulu kveðja heiman níu búa um þann stað sem upp var hafiður hernaðurinn í þeim fjórðungi. En aðrir menn allir, þeir sem fyrir hernaði þeirra manna verða síðan í þeim fjórðungi, skulu gera hvort sem þeir vilja, að kveðja búa heiman um þann stað sem upp var hafiður hernaðurinn innan fjórðungs, eða kveðja ella á þingi um þann stað sem hernaður var ger við þá, er þeir sækja um. Í þann fjórðungsdóm skal sækja sakir þær sem búar eru fleiri kvaddir úr fjórðungi. En ef þeir menn hinir sömu herja í fleiri fjórðunga en einn, þá skal sömu leið fara að sókn við þá í hverjum fjórðungi sem nú var hér tínt um einn.

104. UM HERNAÐARRÁÐ.

Ef menn eru í hernaðarráðum með þeim er herja, hvort sem þeir eru þar með þeim eða í öðrum stöðum, eða tekur maður við því vís vitandi er þeir hafa í hernaði tekið, þótt það sé eigi þar, og varðar það hvorttveggja slíkt sem þeir hafi hinum fylgt í hernaði.

Ef maður drepur mann í hernaði, þá skal hann kveðja til vettvangsbúa níu um það hvort hinn hafi verið í hernaði síðan hið næsta alþingi áður. Ef það ber kviður að hinn væri í hernaði, þá skal dæma hann óhelgan hafa fallið og sekt fé hans allt, gildan átta aurum, og skal dæma af sektarfé víkingsins skaðabætur þeim mönnum er hinn hafði rænta, slíkan hlut hverjum þeirra sem missti. Ef eigi vinnur svo til, þá skal skerða alla aura jafnt. En ef betur vinnst, þá skal þaðan af taka skógarmannsgjöld. Nú vinnst eigi til þess, og skal hann heimta sem önnur skógarmannsgjöld. Ef maður vill sækja um hernað, þá skal sótt á hinu þriðja alþingi þaðan frá er aðili spurði, en aldregi fyrnist ef leynt er fyrir honum.

105. UM ÞJÓFNAÐ.

Ef maður tekur fé manns og vinnur þjófskap að, enda standi hinn hann að því er fé það á svo, að handnumið verður, og fellur sá óheilagur, er fé hefir tekið fyrir þeim manni er fé það átti er þjófstolið var, á þeim vettvangi, og svo fyrir þeim öllum er honum veita lið að því. Eigi skulu þeir annars hefna en þýfðar þeirrar sem hinn hefir gert, er það fé tók, er þar var handnumið á þeim vettvangi.

Ef aðili býr sök til á hönd þeim manni er áverk hefir veitt hinum, er þýfð var í höndum staðin, þá skal sá er sök er á hönd búin stefna hinum í gegn, er féið hafði tekið, til óhelgi ef hann er veginn en til skóggangs ef hann lifir, og telja óheilög sár hans. Enda eiga vettvangsbúar níu að skilja, heiman kvaddir, um víg og um sár, og svo um það hvort fé þjófstolið væri staðið í höndum þeim manni er á var unnið á þeim vettvangi, eða væri eigi. En ef það ber kviður að fé þjófstolið væri staðið í höndum honum, þá er á honum var unnið, og þeir ynni á honum af því á þeim vettvangi, og fellur hann þá óheilagur ef það var skóggangsþýfi. Rétt er og þeim manni það, er máli skal verjast, að kveðja búa heiman til óhelgi þeim manni er féið hafði tekið og lýsa sök á þingi.

106. UM VÍG Á SKIPI.

Svo er enn mælt í lögum vorum, ef maður verður veginn á skipi er menn fara út hingað, og varðar mönnum eigi samvista við veganda þar til er menn koma til vors lands, þeim megin siglu er menn eigu síður sakir við menn. En sekjast menn þegar á samvistum við veganda er þeir eru náttlengis ásamt við hann síðan er þeir koma til meginlands. Öðrum mönnum öllum varðar eigi samvista við hann né björg fyrr en víginu er lýst.

Búa skal kveðja frá höfn þeirri er þeir setja skip upp. En ef þeir fara tvívegis, þá skal frá þeirri höfn er þeir báru flestir föt sín af skipi. En ef menn vinnast á, er héðan fara, og skal þá kveðja búa frá höfn þeirri er þeir báru flestir föt sín á skip.

107. UM ÞAÐ AÐ SÆKJA UM ERLENDISVÍG.

Ef vor landi verður veginn erlendis, og verður vegandi jafnsekur um víg það sem á voru landi væri vegið. Þó er sókn hér til um erlendisvíg þó að sótt sé erlendis eða sæst á, nema sá maður hafi þar að lögum á sæst er hann er sóknaraðili, og á það þá að haldast hér ef þeir skilja það undir þar. Sókn skal hér eigi fyrr upp hefja en á hinu þriðja alþingi þaðan frá er vígið spyrst út hingað, nema vegandi komi fyrr út.

Sakarsækjandi skal spyrja með votta að Lögbergi að þingfesti vegandans, og svo að þingfesti þeirra manna er að vígi því voru sem hann vill sótt hafa. Hann skal og spyrja með votta ef aðrir menn vili nokkurir sækja vegandann eða þá menn er hann vill sækja um vígs aðvist. Nú ef þeir eru allir úr einum fjórðungi er sóttir eru, þá skulu sakir koma í þann fjórðungsdóm sem þeir eru úr fjórðungi. En ef sakasækjendur eru allir úr einum fjórðungi, en hinir úr fleirum fjórðungum er fyrir sökum eru hafðir, og skulu þá sakir koma í þann fjórðungsdóm sem sækjendur eru úr fjórðungi.

Ef engi maður gengur við þingfesti þeirra manna er sóttir eru, en sækjendur sé eigi allir úr einum fjórðungi, þá skulu þeir er sækja hluta með sér í hvern fjórðungsdóm sakirnar skulu koma, þeirra er sækjendur sé úr fjórðungi. En ef þeir menn ganga við þingfesti þeirra manna er sóttir eru, og eigi úr einum fjórðungi, og skulu sækjendur þá enn hluta í hvern fjórðungsdóm sakir skulu koma, þeirra er hinir eru úr fjórðungi er sóttir eru.

108. UM LÝSING AÐ LÖGBERGI.

Sækjandi skal og lýsa sök að Lögbergi um erlendisvíg á hönd vegandanum og kveða á í hvers konungs veldi hann vó manninn, og lýsa til sóknar og sektar fullrar jafnt sem aðra vígsök. Ef vígið hefir verið í Noregskonungs veldi eða Danakonungs eða Svíakonungs, þá skal sækjandi leiða fram fimm menn, vora landa, og þá menn tvo af þeim fimm er í þess konungs veldi væri þá er vígið var vegið eða síðan hefði þar verið. Hlýðir þó að þeir sé þrír er hér á landi væri jafnan kyrrir, en allir skulu að tengdum réttir. Þeir menn fimm skulu svo að orði kveða að dómi, og vinna eiða áður, „að þessi maður var veginn í því konungsveldi,“ og nefna hinn vegna, „en þessi maður var þar þá, er nú er hér sóttur, N., og leggjum vér það undir þegnskap vorn, og berum vér þann fangakvið hér í dóm fram“.

109.

Sakarverjandi skal og fram leiða fimm menn, og skal hann þá jafnmjög vanda sem áður var tínt. Þeir skulu það leggja undir þegnskap sinn að hinn vegni væri eigi fjörvi sínu að firr að sá maður væri í því konungsveldi. Nú eru þess eigi efni, þá skulu þeir það leggja undir þegnskap sinn að hann færi með konungi eða ríkismanni, og mátti eigi sjálfur ráða för sinni, en hinn vegni yrði fyrir því flóði. Nú eru eigi þess efni, þá skulu þeir það leggja undir þegnskap sinn að vegandinn verði þá fé sitt eða fjör er hinn féll. Nú eru eigi þess efni, þá skulu þeir það leggja undir þegnskap sinn að hinn vegni væri á úthlaupsskipi er hann var drepinn, og skulu þeir þann fangakvið nokkurn bera í dóm fram og fara svo sínu máli sem áður var tínt. En ef fangakviður þessi kemur þar engi fram til varnar, þá sekst vegandinn.

110. UM VESTURLANDAVÍG.

Ef maður verður veginn á Vesturlöndum, fyrir norðan Valland, og eru þá jafnréttir sannaðarmenn allir þeir er verið hafa í nokkurs konungs veldi þeirra, þá er vígið var eða síðan, í Englakonungs veldi eða Bretakonungs eða Skotakonungs eða Írakonungs eða Suðureyingakonungs veldi. Nú verður maður veginn fyrir sunnan Danaveldi, og eru þá jafnréttir sannaðarmenn þeir allir er þá voru í nokkurs þeirra konungs veldi eða síðan er vígið var vegið. Svo skal þar hið sama fara um þau víg hvortveggju að sókn og vörn og að öllu annars sem um erlendisvíg, og svo um sár ef maður fær þar.

Ef maður fær sár, eða verður hann lostinn erlendis, og varðar það skóggang, og á hann hér þó sókn til síns máls þó að hann sæki þar um að lögum, nema því að einu að hann sættist þar á alsáttum, og skal hann svo hér að sókn fara um sár þau er hann fékk austur og vörn sem um erlendisvíg, fyrir það utan að hann sækir um hrör.

Nýmæli: Ef maður verður ræntur erlendis fé sínu, og skal þá hér enn við hin sömu gögn sækja um ránið, og svo verja.

Of erlendisráð þau er maður ræður um mann fjörráðum eða áljótsráðum, og varðar það eigi hér við lög ef eigi kemur fram, en skóggang ef fram kemur. Erlendisdrep og erlendisáljótsráð eða fjörráð fram komin, það skal allt sækja við tylftarkvið, og taka hér eigi fyrr til sóknar en um erlendisvíg.

Nú verða varnir þær til þessa mála er metast eigu, er erlendis hafa gerst, og skal fangakvið þar til hafa í öllum stöðum. En ef þær varnir verða til er hér hafa gerst, og skal þá hafa til fimm búa kvið á þingi.

111. UM VÍG Á GRÆNALANDI.

Ef maður verður veginn á Grænalandi, og skal það hér enn sækja sem önnur erlendisvíg, fyrir það fram að eigi er skylt að sannaðarmenn hafi út þar verið, hvortki þá né síðan. Að tengdum aðeins skal þá vanda.

Ef aðilinn er á Grænlandi, og sættist hann þar á víg eða sækir um, og er þá eigi hér sókn til. Nú er eigi aðili út þar, og sækir annar maður þar til fullra laga, og á aðili þó að sækja um björg þess manns hér, og þarf hann eigi að taka þær sakir af öðrum mönnum. En ef annar maður sækir út þar en aðilinn, og eigi til fullra laga, og er þá sókn hér til.

112. UM ÞAÐ EF MAÐUR VERÐUR SEKUR Á GRÆNALANDI.

Ef maður verður sekur á Grænalandi, og er hver þeirra manna sekur hér er þar er sekur. En svo skal hér sækja um björg hans hins sekja manns, er út þar varð sekur fullri sekt, sem hann yrði hér sekur á vorþingi, þar til er sagt er til sektar hans á alþingi. Svo skal maður verja sök þá hér um víg það að leiða fram að dómi fimm vora landa, þá er það leggi undir þegnskap sinn að hinn vegni væri eigi fjörvi sínu að firr að sá maður væri þar, eða það ella að sjá maður ætti fé sitt að verja eða fjör.

113. UM FULLRÉTTISORÐ.

Ef maður mælir við mann áþéttarorð það er fullrétti mest, það varðar fjörbaugsgarð, hvort sem hann mælir við mann áheyranda eða afheyranda, enda á hann rétt úr fé hans ef hann verður sekur um, en það eru átta aurar hins fimmta tigar lögaura. Það er fullréttisorð ef maður mælir við annan það er eigi má færa til góðs, og skal svo hvert orð vera sem mælt er, en ekki skal að skáldskaparmáli ráða.

Hálfrétti er það orð er færa má til hvorstveggja, góðs og ills. Það á eigi að standa á meðal manna svo að það varði við lög, nema griðmaður mæli við bónda eða þræll við frjálsan mann. Þeir skulu svo sækja um orð það sem fullrétti sé við þá mælt. Það á griðmaður að hafa til varnar fyrir sig, ef hann mælir hálfrétti við bónda, að fara úr griði sínu og hafa ekki vistar sinnar, og fellur þá niður sök við hann. En ef griðmaður mælir fullrétti við bónda, þá varðar honum það fjörbaugsgarð, enda skal hann þó ekki hafa vistar sinnar.

Ef fullrétti er mælt við mann, og heyrir hann á, þá skal hann nefna votta að orðinu og nefna sér það vætti að lögum að njóta og neyta. Ef menn segjast úr því vætti, og varðar þeim það þriggja marka útlegð. Sök þeirri skal stefna heiman og kveðja fimm búa á þingi, enda eru þeir þó í vættinu og jafnskyldir þá að bera sem áður.

Ef maður mælir svo áþéttarorð við mann að þeir eru tveir saman, og er þá eigi kostur að nefna votta að. Þá skal hann hefna orði orðs, ef hann vill, og mæla þá jafnillt að móti að ósekju. Nú segir annar hvor í frá og hælist, og er það þá bakmæli og varðar fjörbaugsgarð, og skal sækja við tylftarkvið. Ef hinn þriði maður heyrir á orð þeirra, eða þeir einir er eigi eru vottbærir þó að fleiri sé, þá er kostur að sækja við tylftarkvið. Ef maður mælir við mann á helguðu þingi [K: á alþingi], og eykst þá réttur manns hálfu. Ef maður mælir við mann afheyranda, og á sá kost er við er mælt að sækja til hins þriðja þings [K: þriðja alþingis] þaðan frá er hann fregn, hvort sem hann vill við tylftarkvið eða við heyrinorð fimm landeiganda, þeirra er réttir sé í kviðum að hrörum við aðilja, hvort sem mælt var fyrir öllum saman eða fyrir sérhverjum þeirra, og skulu þeir það leggja undir þegnskap sinn að dómi að þeir heyrðu það mál úr hans munni.

114. UM ÞAÐ EF MAÐUR BREGÐUR MANNI BRIGSLUM.

Ef maður bregður manni brigslum og mælir áljót þótt hann segi satt, og varðar það fjörbaugsgarð, og skal sækja við [K: fimm manna heyrinorð eða] tylftarkvið ef hann heyrir eigi á, en við vottorð ef hann heyrir.

Ef maður gefur manni nafn annað en hann eigi, og varðar það fjörbaugsgarð ef hinn vill reiðast við. Svo er og ef maður reiðir auknefni til háðungar honum, og varðar það fjörbaugsgarð og skal það hvorttveggja sækja við tylftarkvið. Ef maður [K: mælir við mann háðung eða] gerir ýki um mann, og varðar það fjörbaugsgarð. [K: Skal sækja við tylftarkvið.] Það er ýki ef maður segir það frá öðrum manni eða frá eign hans nokkurri er eigi má vera, og gerir það til háðungar honum.

Ef maður gerir níð um mann, og varðar það fjörbaugsgarð, og skal sækja við tylftarkvið. Það eru níð ef maður sker tréníð manni, eða rístur eða reisir manni níðstöng. [K: Skal sækja við tylftarkvið.]

Þau eru orð þrjú, ef svo mjög versna málsendar manna, er skóggang varða öll, ef maður kallar mann ragan eða stroðinn eða sorðinn, og skal svo sækja sem önnur fullréttisorð, enda á maður vígt í gegn þeim orðum þrimur. Jafnlengi á maður vígt um orð sem um konur, og til hins næsta alþingis hvorttveggja, og fellur sá maður óheilagur, er þessi orð mælir, fyrir öllum þeim mönnum er hinum fylgja til vettvangs, er þessi orð voru við mælt.

115. UM SKÁLDSKAP.

Hvortki á maður að yrkja um mann lof né löst. Skal-a maður reiðast við fjórðungi vísu nema lastmæli sé í. Ef maður yrkir tvö orð, en annar önnur tvö, og ráða þeir báðir samt um, og varðar skóggang hvorumtveggja [K: ef löstur er í eða háðung]. En ef eigi er háðung í, þá varðar þriggja marka útlegð. Nú yrkir maður fleira um, og varðar það fjörbaugsgarð þótt eigi sé háðung í. Ef maður yrkir hálfa vísu um mann, þá er löstur er í eða háðung [K: eða lof það er hann yrkir til háðungar], og varðar það skóggang. Nú ef hann kveður eða kennir öðrum, og er það þá önnur sök og varðar enn skóggang, enda varðar svo þeim er nemur þann verka og reiðir til háðungar manni. Sú reiðing varðar skóggang er til háðungar mest. Stefnusök er um skáldskap og sókn til hins þriðja alþingis þaðan frá er aðili spyr, og skal kveðja til, hvort sem vill, níu heimilisbúa á þingi þess er sóttur er eða ella tylftarkviðar. Skóggang varðar meðförin sem verkinn, og skiptir engu hvort fyrr er sótt, og skal við hin sömu gögn sækja bæði. Skóggang varðar þó að maður yrki um dauðan mann kristinn eða kveði það er um hann er ort til lýta eða til háðungar, og fer svo sök sú sem vígsök.

Ef maður hefir orð það í skáldskap er annar maður á vígt um [K: að hann sé ragur eða stroðinn], enda hefni hann vígi eða áverkum, og skal sá þá um illmæli sækja til bjargar sér. Ef maður kveður níð um mann að Lögbergi, og varðar það skóggang, enda fellur sá óheilagur til þess alþingis er næst er eftir fyrir honum og þeim mönnum er honum fylgja til, og skal hann kveðja til vettvangsbúa um það hvort hinn hafi kveðið níð það honum til háðungar eða eigi.

Ef maður yrkir níð eða háðung um konung Svía eða Dana eða Norðmanna, og varðar það skóggang og eiga húskarlar þeirra sakirnar. En ef þeir eru eigi hér staddir eða vilja þeir eigi sækja, þá á sök sá er vill.

Ef maður yrkir mansöng um konu, og varðar það skóggang. Kona á sök ef hún er tvítug eða eldri. En ef hún er yngri, eða vill hún eigi sækja láta, þá á lögráðandi hennar sökina.

Ef maður kveður skáldskap til háðungar manni, þótt um annan mann sé ort, eða snýr hann á hönd honum nokkuru orði, og varðar skóggang, og skal svo sækja sem um skáldskap annan.

Ef maður yrkir víðáttuskáldskap, þá á hver maður þess kost er vill að dragast undir og stefna um, þótt kviður beri það að hinn hafi eigi um þann ort er sækir um, en það beri þó kviður að hann hafi ort, og varðar þó skóggang um víðáttuskáldskap. Það er víðáttuskáldskapur er maður yrkir um engi mann einkum, enda fer það þó um hérað innan, og varðar skóggang.

116. UM SKÁLDSKAP AÐ SÆKJA.

Þar er maður vill stefna um skáldskap, þá skal hann kveða fyrir vottum sínum áður svo að heyri lögfastir menn ef þeir eru í hjá og þeir menn er í túni eru fyrir, helming vísu eða lengra í þeim stað, og nefna síðan votta og stefna.

Þá er sá maður kemur að dómi er um skáldskap sækir, þá skal hann nefna sér votta að því að hann býður guða þeim er hann hefir kvaddan tylftarkviðar, eða búum ef hann hefir þá kvadda, að heyra á skáldskap þann er hann hefir stefnt um og kveður þar í dóm fram, og síðan skal hann kveða áður hann segi sök fram. Þar er maður stefnir einum manni tveimur sökum um skáldskapinn, annarri um verka en annarri um meðför, í hinum sama stað, og er þá kostur að kveða einu sinni skáldskap þann er hann stefnir um þó að tvær sé sakirnar og svo stefnurnar. Enda er rétt að kveða einu sinni í dóm fram þó að tvær sé sakirnar, ef hann stefndi svo um.

Ef maður lýsir að þinglausnum á hönd manni um skáldskap til sóknar annað sumar, þá skal hann kveða að Lögbergi fyrr en hann lýsi um, enda er hann þá eigi skyldur nema hann vili að kveða hið síðara sumarið að Lögbergi, ef hann kvað hið fyrra.

Þó að eitt orð sé ort um mann, og fari þó helmingur saman eða lengra, og er þá kostur að sækja um. Svo er og þó að fjórir menn yrki helming vísu eða átta menn yrki alla vísu, og yrki eitt orð hver þeirra, þá varðar það skóggang öllum þeim ef þeir ráða allir saman um, og skal sækja sem um annan skáldskap.

117. UM HÝVÍG.

Svo er mælt ef maður vegur fyrir manni þræl eða ambátt, að það heita hývíg og varða fjörbaugsgarð. En svo skal sækja sem um önnur víg, fyrir það utan að á þingi skal búa kveðja. Þó að fleiri menn sé að vígi þræls eða ambáttar, og sekst einn maður á víginu, og skal drottinn hins vegna manns kjósa mann til veganda úr flokki þeirra. Ef maður sekst um vígið, þá á sækjandi úr fé hans gjöld þræls síns, slík sem búar virða við bók. Þá er sá maður vegur þræl manns er þingheyjandi er fyrir bú þess manns er þrælinn átti, þó að hann sé eigi þar vistum ef hann er svo að skuldleik, og sekst hann þá eigi á víginu. En gjalda skal hann þrælinn hinum er átti, svo sem heimilisbúar þess fimm virða, og hafa boðið gjöld á hálfum mánaði hinum næsta. En ef hann býður eigi svo gjöldin, og varðar honum þá fjörbaugsgarð.

Þræll verður óheilagur ef hann mælir við mann fullrétti eða gerir hálfrétti. En þá gerir maður hálfrétti við annan mann, ef gerir þá réttarstaði er fjörbaugsgarð varða. Ef drottinn þræls verður staddur við víg hans, og verður sá óheilagur er vegur fyrir þeim er á þrælinn, og fyrir þeim mönnum öllum er þingheyjendur eru fyrir bú hans, nema þræll hafi til óhelgi sér gert. Á þeim vettvangi eiga menn að hefna þræls er hann fellur, en eigi lengur en svo.

Ef þræll hleypur undir vopn manna fyrir drottin sinn og fær af því bana, og varðar þá skóggang víg hans. Ef drottinn vegur sjálfur þrælinn, og varðar honum eigi við lög, nema hann vegi á löghelgum tíðum eða um langaföstu. Þá varðar fjörbaugsgarð, og skal stefna heiman og kveðja til níu búa á þingi, og á guði sá sök þá, er vegandinn er í þingi með. En ef hann vill eigi sótt hafa, þá á sök hver er vill. Ekki varðar honum víg þræls nærgi er hann vegur hann, ef hann vegur hann um þær sakir er frjáls maður félli óheilagur fyrir slíkar. Ef sá maður hefir guðorð er þræl sinn vegur, þá eiga samþingisgoðar hans sök þá.

Ef maður drepur þræl manns óvænishögg, og varða það níu aurar, og á drottinn sex aura þess fjár en þræll þrjá. Það fé allt skal gjalda í gripum, og skal taka til sinn lögmetanda hvor þeirra. Nú ber maður þræl manns lamabarning, þá skal hann gjalda verð þrælsins, slíkt sem búar meta við bók, þeim manni er þrælinn átti. Ef þræll verður ómagi af bardögum þeim, og skal gjalda honum og fyrir það jafnmikið fé sem búar virða ómaga. Ef þrælar manna ljóstast, þá skal sá er lýstur annan gjalda sex aura drottninum en þrjá þrælinum ef hann á úrkost til, en ekki ellegar. En ef þrælar manna vegast, og á sá þá þrjá kosti er þann þræl á er vegið hefir. Sá er einn að gjalda þrælinn sem búar virða. En sá er annar að gjalda þrælinn, þann sem veginn er, hálfum gjöldum, en gjalda þann er vó hinn fyrir gjöldin hálf á fjórtán nóttum hinum næstum. Sá er hinn þriði kostur að láta sekjast þrælinn um vígið. En ef einn maður á þræla þá er vegast, og skipar hann þá sem hann vill. Ef þrælar manna berjast lamabarning, þá skulu eigendur báðir fénýta hinn heila og báðir fram færa hinn lamda.

Rétt á þræll meira um einn hlut en frjáls maður. Þræll á vígt um konu sína þótt hún sé ambátt, en frjáls maður á eigi vígt um ambátt þótt hún sé hans kona.

118. UM SKÓGARMANNAVÍG.

Það er mælt ef skógarmannavíg verða að svo skal fara sem nú mun hér talið. Þar er menn taka skógarmann, og skulu þeir eigi lengra með hann fara en ördrag þaðan frá er þeir eigu að vega að honum. Þeir skulu hræ hylja þar er hvortki sé akur né eng, og eigi þar er vötn þau sé er til bæja falli, og lengra frá garði manns en ördrag. Ef þeir hylja eigi hræ skógarmanns, og varðar þeim það þriggja marka sekt. En ef þeir vega þar að skógarmanni er frá er skilt, og varðar það þriggja marka sekt, og á dómur að dæma það að þeir færi skógarmanninn á brott á fjórtán nóttum hinum næstum, og á sá maður sök þá er land á. En því að einu sekjast þeir á meðför skógarmanns, þó að þeir fari lengra með hann en ördrag, ef þeir kasa hann í annars manns landi en þeir tóku hann.

En ef þeir vilja færa skógarmann til handa þeim er sekti hann, og er þeim það rétt, og skulu þeir bundinn færa og bjóða lið sitt að fylgja þangað til sem hann vill að honum vega. Ef sá er sekti lætur undan ganga skógarmanninn, og varðar honum það skóggang, og eigu þeir menn sök þá er honum færðu manninn, enda er hann af björgum öllum við aðra menn um skógarmanninn. Ef sá maður er sekti sendir skógarmann á hendur öðrum mönnum, eða bergur hann honum í nokkuru, þá er hann af björg allri við alla menn aðra, enda varðar honum skóggang, og á hver er vill að sækja hann um það að hann hafi borgið skógarmanni þeim er hann sekti sjálfur, vísvitandi, og láta varða skóggang, og telja hann af björgum öllum skógarmannsins, og telja sér sakirnar.

Engi maður sekst á því þó að mat gefi skógarmanni, þá er menn færa hann hinum er sekti.

Þar er menn vega skógarmann, og á sá gjöld að taka er fyrstur kom vopnum á hann. En ef þeir elta hann á vopn eða á foröð, og eiga þeir þá allir jöfnum höndum gjöldin, enda svo ef þeir færa hinum er sekti, og skulu þeir hluta hver þeirra heimta skal.

119. UM ÞAÐ EF SKÓGARMENN HLAUPA Í AUÐNAHÚS.

Ef skógarmenn hlaupa í auðnahús eða í sel óbyggð, og eigu menn þá að brjóta hús þau, ef vilja, til þeirra, eða brenna, ef þeir mega eigi sækja þá annan veg. Gjalda skulu þeir hús hinum er átti, svo sem búar fimm virða við bók. Ef skógarmenn hlaupa í hús þau fyrir mönnum, er sýknir menn eru inni fyrir, þá eiga þeir er eftir sækja að beiða hina sýknu menn útgöngu. En ef þeir vilja eigi út ganga, og varðar þeim það skóggang ef skógarmönnum verður björg að. Þó að maður brjóti hús til skógarmanna, og verður hús óheilagt, og svo sýknir menn ef fyrir skógarmönnum standa, en gjalda skal þeim auvislabætur sem búar fimm virða, er hús átti, ef þeir ganga eigi út.

Eigi skal brenna þau hús til skógarmanna er eigi eru auðnahús.

Ef skógarmenn hafa jafnmikið lið eða meira sem hinir er inni eru með þeim, og ná þeir eigi útgöngu fyrir skógarmönnum, og varðar þeim þá eigi við lög innivistin ef þeir fá þann bjargkvið að þeir mætti eigi ganga eða þörði þeir eigi.

Ef þrælar eða lögskuldarmenn vega skógarmann, þá eiga þeir menn gjöldin að taka er fé eigu að þeim mönnum er vógu skógarmann.

120. AÐ LÝSA SKÓGARMANNSVÍGI.

Lýsa skal maður samdægris ef hann vegur skógarmann og segja til þess lögföstum manni. En ef hann segir eigi samdægris til, þá má hann eigi heimta gjöld skógarmannsins. En því aðeins skal það morð vera, skógarmannsdrepið, ef kviður ber það að hann vildi leyna því.

Skógarmenn allir eigu að vega aðra skógarmenn til sýknu sér ef þeir vilja, nema því aðeins ef þeir urðu sekir um þjófsakir eða vígsakir, eða þær sakir nokkurar er eigi á að sættast á fyrir lof fram, nema einkaleyfis sé til beðið.

Ef skógarmaður hefir vegið annan skógarmann til sýknu sér, þá skal hann ganga til húss, þar er honum þykir sér óhætt vera, og segja til lögföstum manni að hann hefir skógarmann vegið, og sýna hræ. Þá skal hann vera skógarmaður óæll og ferjandi og eiga eigi útkvæmt. En ef maður vegur tvo skógarmenn, þá er hann fjörbaugsmaður. En ef hann vegur hinn þriðja, þá er hann alsýkn, og svo þó að hann vegi einn þann skógarmann er hin meiri gjöld eru á, og skal hann þó alsýkn. Vega mega fleiri menn og skógarmanni til sýknu en hann sjálfur, og skal þá hver þeirra lýsa fyrir fimm búum, þeim er næstir eru hræjum, að þeir vilja þeim manni til sýknu hafa vegið, og nefna hann, og hafa það fyrir skógarmannsgjöld. Við þá eina er skógarmaður sýkn er spurt hafa þá sýknu hans sem til er vegið, áður en lýst er að Lögbergi, og skal segja hið næsta sumar eftir til hverrar sýknu vegið er.

Þar er þræll verður skógarmaður um víg drottins síns eða drottningar eða fóstra eða barna þeirra, enda taki menn hann innan fjórðungs, þá skulu þeir færa hann til handa þeim er sekti skógarmanninn, en sá skal höggva af skógarmanninum hendur eða fætur að gatnamóti og láta lifa síðan meðan vill. En ef sækjandi vill eigi svo bana skógarmanni þeim, sem nú er tínt, og varðar honum það fjörbaugsgarð, og eigu þeir menn þá sök við hann er færðu honum skógarmanninn. Ef aðrir menn drepa skógarmann þann til heljar innan fjórðungs og vilja eigi færa þeim er sekti, ef þeir máttu sækja hann annan veg en vopnum, og varðar það fjörbaugsgarð, og eiga þeir menn sök er sektu skógarmanninn, og skal kveðja til níu búa á þingi til þeirra saka. Utanfjórðungsmenn eiga að gera hvort sem þeir vilja að meiða skógarmann þann á þessa lund sem sá skyldi er sekti, eða færa honum ella. Ef þeir vilja eigi færa, þá eru þeir skyldir að pína hann til sagna og hafa við það fimm búa, þá er næstir eru. Þeim varðar fjörbaugsgarð er pína hann, ef þeir segja eigi satt frá orðum hans, og skal kveðja til níu búa á þingi. Svo hið sama skal fara um skuldarmann þann er að lögum er í skuld tekinn og að Lögbergi er til sagt síðan.

Eigi er manni skylt að drepa skógarmann þótt hann hitti hann að máli, ef hann tekur hann eigi og ræður honum ei bjargráð. Sá maður er vegið hefir skógarmann, hann skal lýsa sök í þingbrekku á vorþingi eða að Lögbergi til skógarmannsgjalda, mörk lögaura, á hönd goða þeim er hann er í þingi með og samþingisgoðum hans og öllum þingmönnum þeirra, lýsa til gjalda og til útgöngu. Hann skal hafa þá menn tvo með sér, er leggi undir þegnskap sinn að þeir voru kennendur að þeim skógarmanni, og sá maður var þar veginn sem hann segir. En ef hann hefir eigi sannaðarmenn til, þá skal hann kveðja til heimilisbúa sína fimm að bera um það hvort sá maður væri þar veginn eða eigi. Dómur á að dæma mörk lögaura á hönd goðunum öllum og þingmönnum þeirra, jafnmikið úr þeirri mörk af hverjum þeirra þriggja, og dæma eindaga á fé því við guðann, hvern fyrir búðardurum hvers þeirra, þá er menn hafa um nótt verið á hinu næsta vorþingi eftir, er áður hefir lýst verið á þingi. Ef sá goði nokkur á sér eigi búð, þá skal hann gjalda fé það að búð samþingisgoða síns. Guðar skulu heimta að þingmönnum fé það, en þeir skulu láta fylgja þingfararkaupum.

Ef maður vegur skógarmann nokkurn, þeirra fjögurra er hin meiri gjöld eru á, og skal hann þó lýsa sök þá að Lögbergi á hönd goðum þeim öllum í þingin fornu, þau er þá voru í þeim fjórðungi sem hann er í, er þingin voru óslitin, og þriðjungsmönnum þeirra öllum, til skógarmannsgjalda, þriggja marka lögaura, og lýsa til þess fjórðungsdóms er hann er sjálfur úr fjórðungi, og skal hann svo gögn öll til færa sem til annarra skógarmannsgjalda. Og skal fé dæmast að gjalda annað sumar, miðvikudag í mitt þing, í bónda kirkjugarði. Það varðar fjörbaugsgarð ef eigi gelst.

Ef menn sjá skógarmann er þeir fara leiðar sinnar, og varðar þeim eigi við lög þó að þeir taki hann eigi ef þeir eiga ekki við hann. En ef þeir eiga við hann kaup eða önnur mök nokkur, eða ráða honum ráð þau er hann sé þá nær lífi sínu en áður, og er það björg við hann, og varðar það fjörbaugsgarð. Það eru allt skógarmannsbjargir er menn gera við hann eða ráða honum það er hann er þá lífi sínu nær en áður, hvort sem það er nokkuru meira eða minna er til þess mest.

Eigi skulu menn brenna hús til skógarmanna, þau er fénaður manna er inni, og þó að engir sé menn í sýknir, eða þeir nái eigi skógarmönnum á annan veg, og skal þeygi brenna húsin að heldur. En ef þeir brenna húsin þó að fé manna sé inni, og skal svo sækja sem aðra brennu. Nú bjóða þeir eigi þeim manni er hús átti, það er þeir hafa brotið eða brennt, bætur slíkar sem búar fimm meta húsið, á hálfum mánaði hinum næsta, og skal sækja sem um aðra brennu, en um spellvirki ef brotið er.

121. TRYGGÐAMÁL OG GRIÐAMÁL.

„Allir vitu atburði um missætti þeirra N. N-sonar og N. N-sonar, og nú eru til komnir vinir þeirra og vilja sætta þá. Nú selur N. N-son grið til sáttarstefnu þeirrar er þeir hafa á kveðið fyrir sig og fyrir sinn erfingja og alla þá menn er hann á griðum fyrir að halda, en N. N-son tekur grið af N. N-syni sér til handa og sínum erfingjum og öllum þeim mönnum er hann þarf grið til handa að taka. En nú er Guð sjálfur fyrstur í griðum þeirra, er bastur er, og allir helgir menn og allur heilagur dómur, páfi að Rómi og patríarki, konungur vor og biskupar vorir og bóklærðir menn allir og allt kristið fólk.

Eg nefni tólf menn í grið á milli þeirra N. N-sonar og N. N-sonar, er nú standa tveim megum að málum,“ og skal nefna þá menn tólf. Síðan skal sá er fyrir griðum mælir nefna votta tvo eða fleiri „að því vætti, að þessi grið sem nú eru nefnd skulu vera full og föst allra manna á meðal, þeirra er hér koma í mannsafnað þenna, og meðan menn eru hér lengst á mannfundi þessum, og hver maður kemur heim til síns heimilis. Og þó að oftar verði fundir lagðir til mála þeirra, þá skulu þó þessi grið halda þar til er lokið er málum þeirra svo sem þau megu best lúkast. Nú heldur jörð griðum upp en himinn varðar fyrir ofan, en hafið rauða fyrir utan er liggur um lönd öll, þau er vér höfum tíðindi af. En á meðal þessa endimarka, er nú hefi eg talið hér fyrir mönnum, þrífist sá maður hvergi er þessi grið rýfur er eg hefi hér nefnd, og bindi sér svo höfga byrði að hann komist aldregi undan, en það er Guðs drottins gremi og griðbíts nafn. En þeir menn allir hafi Guðs miskunn er vel halda griðum og árnaðarorð allra heilagra til allrar þurftar sinnar við allsvaldanda Guð. Sé Guð hollur þeim er heldur griðum en gramur þeim er rýfur, hollur þeim er heldur, og hafið heilir grið selst.“

Það eru forn lög á landi voru, ef maður verður sekur um griðarof, að þeir menn tólf er í grið voru nefndir, eiga rétt að taka úr fé hans, átta aura hins fimmta tigar. En það eru lög í Noregi og á alla danska tungu, ef maður þyrmir eigi griðum, að sá er útlagur fyrir endilangan Noreg, og fer bæði löndum sínum og lausafé, og skal aldregi í land koma síðan.

122.

„Það er upphaf að þessu máli að eg set grið og frið á milli þeirra N. og N. Sé Kristur fyrstur í griðum, því að hann er bestur, og sankta María móðir hans, konungar helgir og biskupar, lærðir menn og lögmenn og allir hinir bestu menn. Set eg grið og fullan frið, fégrið og fjörgrið í öllum stöðum nefndum, svo lengi sem vér verðum á sáttir að vilja Guðs og að vitni þeirra manna er nú heyra á griðamál. Sá er griðníðingur er griðum spillir, rækur og rekinn frá Guði og öllum Guðs mönnum, en sá er griðum heldur og settum friði hafi Guðs vingan og góðra manna utan enda. Höfum allir Guðs hylli og höldum vel griðum.“

123.

„Vendræði gerðust þeirra á meðal, N. N-sonar og N. N-sonar, sem þér vituð skyn á. Nú hafa vinir þeirra til komið og vilja sætta þá, og nú eru sett grið með þeim. Sá er fyrstur í griðum er bastur er, Kristur drottinn, og allur heilagur dómur, biskupar vorir og bóklærðir menn, bændur og öll alþýða. Hafi sá hylli Guðs er heldur griðum, en sá maður er gengur á grið þessi beri slíka byrði sem hann bindur sér, en það er Guðdrottins gremi og griðníðings nafn. Hafið hylli Guðs og haldið vel griðum.“

124.

„Það er upphaf máls míns að eg set grið og frið hér á meðal manna. Sé Kristur í griðum með oss og Krists helgir, konungar vorir og biskupar, lærðir menn og lögmenn og allir hinir bestu menn. Set eg grið og fullan frið, fégrið og fjörgrið í öllum stöðum nefndum og ónefndum, svo lengi sem vér urðum á sáttir að vitni Guðs og heilagra manna. Set eg grið þessi fyrir oss og fyrir vora frændur alla, bæði nefnda og ónefnda með handfesti vorri.

Sá er griðníðingur er griðum spillir, rækur og rekinn frá Guði og góðum mönnum öllum. En sá er griðum heldur og settum friði hafi Guðs vingan og góðra manna utan enda. Höfum allir Guðs hylli og höldum vel griðum.“

125.

„Sakar voru með þeim N. N-syni og N. N-syni. En nú eru þær sakir settar, og skal þær fé bæta svo sem góðir menn og göfgir hafa gert með fullum eyri og fram komnum, þeim í hönd seldum er hafa skulu. En ef þeirra verða sakir á meðal enn héðan frá, þá skal þær fé bæta en eigi flein rjóða. Sá þeirra er gengur á gerva sátt eða vegur á veittar tryggðir eða ræður um við ráðbana annars, hann skal svo víða vargur heita sem víðast er veröld byggð og vera hvarvetna rækur og rekinn um allan heim hvar sem hann verður staðinn á hverju dægri.

Nú liggur fé á bók er N. bætir fyrir sig og fyrir sinn erfingja, borinn og óborinn, og tekur þar í mót aldartryggðir og ævintryggðir er æ skulu haldast meðan mold er og menn lifa. En nú skulu þeir vera svo sáttir og samværir, hvar sem þeir finnast lands eða lagar, að samförum öllum og samvistum og að öllum viðurskiptum, sem faðir við son eða sonur við föður. Nú leggi þeir hendur sínar saman og haldi vel tryggðir, svo sem fyrir er mælt, að vilja Krists og að vitni þeirra manna er heyrðu tryggðamál. Sé Guð almáttigur þeim hollur er vel heldur tryggðir en gramur þeim er rýfur. Hollur þeim er heldur, og hafið heilir sæst.“

126.

„Sakar hafa gerst á meðal þeirra N. N-sonar og N. N-sonar, en nú eru þær sakir settar og fé bættar, svo sem metendur mátu og dómendur dæmdu, teljendur töldu, gefendur gáfu, þiggjendur þágu og þaðan báru, með fé fullu og fram komnum eyri, þeim í hönd selt er hafa skyldu. En ef þeirra verða enn sakir á millum, þá skal þær fé bæta en eigi flein rjóða. En ef annartveggi þeirra verður svo óður að hann gengur á gerva sætt og vegur á veittar tryggðir, þá skal sá rekinn vera frá Guði og frá allri Guðs kristni, svo víða sem menn varga reka, kristnir menn kirkjur sækja, heiðnir menn hof blóta, móðir mög fæðir, mögur móður kallar, eldar upp brenna, Finnur skríður, fura vex, valur flýgur vorlangan dag og standi byr undir báða vængi.

Nú er það fé lagt á bók er N. bætir fyrir sig og fyrir sinn erfingja, getinn og ógetinn, borinn og óborinn, nefndan og ónefndan, og tekur hann þar tryggðir í gegn af N., ævintryggðir og aldartryggðir, þær er æ skulu haldast meðan öld er og menn lifa. Nú skulu þeir vera menn sáttir og sammála hvar sem þeir finnast, á landi eða á vatni, skipi eða skíði, hafi eða hestsbaki, ár að miðla eða austskotu, þilju eða þóftu ef þarfir gerast, kníf eða kjötstykki saman, sáttur hvor við annan sem faðir við son eða sonur við föður. Leggið nú saman hendur ykkrar og verið menn sáttir að vitni Guðs og alls heilags dóms og þeirra manna allra er þetta mál heyrðu.“