Munur á milli breytinga „Grágás/Baugatal“
(Enginn munur)
|
Núverandi breyting frá og með 21. júlí 2024 kl. 22:03
1.
Fjórir eru lögbaugar. Einn er þrímerkingur, annar tvítugauri, þriði tvímerkingur, fjórði tólfeyringur. Höfuðbaugi fylgja sex aurar — baugþak, og þveiti átta hins fimmta tigar. Tvítugaura fylgja hálf mörk — baugþak, og þveiti tvö hins fjórða tigar. Tvímerkingi fylgja þrír aurar — baugþak, og þveiti tuttugu og fjögur. Tólfeyringi fylgja tveir aurar — baugþak, og þveiti sextán. Að hinum mesta baugi eru þrír menn bæði baugbætendur og baugþiggjendur, faðir og sonur og bróðir. Að tvítugaura eru fjórir menn bæði baugbætendur og baugþiggjendur, föðurfaðir og sonarsonur, móðurfaðir og dóttursonur. Að tvímerkingi eru enn fjórir menn bæði baugbætendur og baugþiggjendur, föðurbróðir og bróðursonur, móðurbróðir og systursonur. Tólfeyring skulu taka bræðrungar og systkinasönir og systrungar, og svo gjalda. Þar eru baugar farnir.
Þeir menn, er hinum vegna manni eru firnari en bræðrungar, eða systkinasönir eða systrungar, skulu taka mörk af jafnnánum frændum vegandans. Næstabræðrar vegandans skulu bæta næstabræðrum hins vegna örtug hins sétta eyris. Þeir menn, er eru manni firnari veganda en næstabræðra, skulu gjalda hálfan fjórða eyri jafnnánum frændum hins vegna. Annarrabræðra hins vegna skulu taka örtug hins þriðja eyris af annarrabræðrum veganda. Þeir menn er eru manni firnari veganda en svo skulu bæta hálfum öðrum eyri jafnnánum frændum hins vegna. Þriðjabræðra hins vegna skulu taka einn eyri af þriðjabræðrum veganda. Þar fellur saktala.
En þær eru allar lýritnæmar sakir er eyris bót kemur til eða meiri. Ef óhelgir menn eru vegnir, og um telur-at þar til sakbóta.
Nú hafa fleiri menn að vígi verið en einn. Þá skal sækjandi kjósa mann til veganda að dómi eða að sætt fyrir sættarmönnum, þann er hann vill þeirra manna er að vígi voru, og skal hann í þess ætt telja til sakbóta. En ef hann ger eigi kjósa mann til, og um telur-at þá til sakbóta.
Ef vígsakaraðili sættist á víg fyrir alþingislof fram, þá á hann ekki að hafa að niðgjöldum við aðra frændur. Því aðeins skal vígsakaraðili baug taka ef hann á eigi vígsbætur að taka, og svo ef hann tekur eigi fé til meiri sýknu vegandanum en sá sé fjörbaugsmaður, þá á hann að hafa baugbót. Aðilinn ræður sig af baugbótum ef hann færir vígsökina miður til laga, eða til minni sáttar en þá mundi hann ef hann skyldi féið hafa, og ber það kviður.
Ef yngri maður vegur mann en tólf vetra gamall, enda verði engi annar maður sannur að ráðum, þá á aðilinn einn öll niðgjöldin.
Ef víg verður ólýst eða ranglýst, og er þó jöfn heimting til sakbóta, og svo þótt vígsökin verði ónýt, ef engar metast óhelgisvarnir. Nú verður vegandi sekur eða drepinn, og er þó slík heimting þá til niðgjalda sem áður.
Baugar allir skulu uppi vera hvegi margir er bætendur eru eða hvegi er margir viðtakendur eru, og skal engi maður meirum baugum bæta en taka. Hinn mesta baug skal taka faðir og sonur og bróðir hins vegna manns, og taka af föður og syni og bróður veganda, og skal mörk taka hvor þeirra úr bauginum og tvo aura þaks og þveiti sextán, enda skal svo hver hinna gjalda, ef þeir eru allir til hvorirtveggju. Nú er einn sonur hins vegna manns en bræður margir, og skulu bræður þó eina mörk taka, og eina synir þótt þeir sé margir en bróðir einn, enda skulu veganda frændur svo skipta gjaldinu með sér þótt eigi sé jafnmargir bræður sem synir. Ef bæði lifir samfeðri bróðir og annar sammæðri bróðir hins vegna, þá skal sammæðri bróðir taka úr mörkinni tvo hluti en samfeðri þrjá, enda skal hann einn hafa þak og þveiti. Faðir skal taka tvo hluti baugs ef eigi er sonur til, og sonur tvo hluti ef eigi er faðir til. Nú lifir einn skapþiggjandi að höfuðbaugi, hvergi þeirra er er, og skal hann fullan baug taka með þaki og þveitum. Nú lifir hvorki hins vegna manns faðir né sonur, og lifa þó bræður bæði samfeðra og sammæðra sumir. Þá skulu sammæðra bræður taka tvo hluti baugs en samfeðra bræður þrjá hluti, enda skulu þeir hafa þak og þveitin öll. Nú lifir faðir eða sonur og sá einn bróðir er sammæðri er. Þá skal hann taka af bauginum fullan bróðurhluta, svo sem hann sé samfeðri, ef annar einn er þeirra til. En ef bæði er til faðir og sonur og sá einn bróðir er sammæðri er, þá skal bróðir taka af bauginum hálfum vegnum penningi miður en hálfan sétta eyri og einn eyri þaks og þveiti átta. Nú er engi skapþiggjandi til að höfuðbaugi nema bróðir sammæðri. Þá skal hann taka bauginn fullan og þak en engi þveitin. En ef eigi eru skapbætendur til höfuðbaugs, þá skulu viðtakendur allir jafnt missa af jöfnu fé, svo ávallt sem þeir eru til taldir.
Annar baugur er tvítugauri, en þann baug skal taka föðurfaðir og sonarsonur, móðurfaðir og dóttursonur hins vegna, og taka af fjórum mönnum þeim er jafnnánir eru veganda. Þann baug skal fimmdeila með þeim, og skal föðurfaðir og sonarsonur hafa þrjá hluti baugs og þökin og þveitin öll, en móðurfaðir og dóttursonur tvo hluti. Nú ef annar einn er til, föðurfaðir eða sonarsonur, en hinir báðir, og svo þótt annar einn sé þeirra til, móðurfaðir eða dóttursonur, en þessir báðir, þá skal þó svo bauginum til skipta sem áður var um tínt, enda heita það bauggildi er þeir menn taka er karlsift eru komnir. En það heita nefgildi er þeir menn taka er kvensift eru komnir. Þótt allmargir sé sonarsynir eða dóttursynir, og taka-t þeir þá meira hlut baugsins en áður, og svo þar er aðrir baugþiggjendur eru, þá skal jafnt hverfa í alla knérunna þótt einn maður sé úr öðrum knérunni en úr öðrum allmargir, ef þeir eru hvorirtveggju úr nefgildi eða hvorirtveggju úr bauggildi.
Nú eru engir skapþiggjendur að tvítugaura nema föðurfaðir eða sonarsonur, og skal hann fullan baug taka með þaki og þveitum. En ef engir eru til nema móðurfaðir eða dóttursonur, þá skulu þeir þó taka fullan baug og þaktan en engi þveiti.
Tvímerking hins vegna: Föðurbróðir og bróðursonur, móðurbróðir og systursonur skulu taka af þeim mönnum fjórum er jafnnánir eru veganda, og skal móðurbróðir og systursonur hafa tvo hluti baugs en föðurbróðir og bróðursonur þrjá hluti, enda skulu þeir hafa þak og þveiti. Nú ef föðurbróðir eða bróðursonur er til baugs einn, þá skal hann þó baug taka fullan með þaki og þveitum. En ef móðurbróðir eða systursonur er einn til baugs, þá skal hann þó fullan baug taka og þaktan en þveiti engi. Að því hófi skal þeim baug skipta í nefgildi sem tvítugaura.
Tólfeyring skulu taka bræðrungar og systkinasynir og systrungar hins vegna, og taka af þeim mönnum öllum er jafnnánir eru veganda. Þann baug skal enn fimmdeila með þeim, og skulu bræðrungar taka þrjá hluti baugs og þak og þveiti en systrungar og systkinasynir tvo hluti baugs. Þótt einn sé bræðrungur en allmargir systrungar eða systkinasynir, þá skal hann þó taka allan bræðrungshlut. Nú er systrungur einn en allmargir bræðrungar, og skal hann hafa allan systrunga hlut. Jafnmikið skulu systkinasynir taka af því nefgildi sem systrungar. En ef engi er til nema bræðrungur einn, og skal hann þó taka baug fullan með þaki og þveitum. Nú er engi þeirra til nema systrungur einn, þá skal hann þó taka baug fullan og þak með og þveitin engi.
Nú eru engir skapþiggjendur til að þrímerkingi, en skapbætendur sé til. Þá skal föðurfaðir og sonarsonur, móðurfaðir og dóttursonur taka höfuðbaug skerðan hálfri mörk, og skal þeim baug svo skipta í nefgildi sem tvítugaura. Sinn baug skulu þeir taka með þaki og þveitum, en aldregi skal skerðum baugi þak fylgja né þveiti. Nú eru engir til nánari baugþiggjendur en föðurbróðir og bróðursonur [og móðurbróðir] og systursonur. Þá skulu þeir taka þrjá bauga. Sinn baug skulu þeir taka með þveitum fullan og þaktan, en höfuðbaug skerðan mörk, en tvítugaura skerðan hálfri mörk. Þá eru allir baugar tvímerkingar. Því aðeins skulu þeir svo taka ef nokkurir eru skapbætendur að hverjum baugi, enda skulu þeir jafnt taka þótt nefgildingar einir sé til tökunnar eða svo til gjaldsins.
En ef engir lifa í bauggildi hins vegna nema bræðrungar eða systrungar eða systkinasynir, en skapbætendur sé til í öllum stöðum, þá skulu þeir taka fjóra bauga. Sinn baug skulu þeir taka fullan og þak með og þveiti. Þeir skulu og taka höfuðbaug skerðan hálfu. Þá verður þar hinn mesti baugur að minnsta baugi. Þeir skulu enn taka tólf aura að föðurföður baugi, tólf aura að bróðursonar baugi. Þá er tvítugauri skerður mörk, en tvímerkingur hálfri mörk. Engum baugi skal þak né þveiti fylgja nema bræðrungabaugi. Þá bauga alla skal fimmdeila, og skulu þrír hlutir hverfa undir bræðrunga en tveir hlutir í nefgildi. Nú er bræðrungur einn til en engvir systrungar né systkinasynir. Þá skal hann þó taka alla bauga sem áður. Nú er systrungur einn til, en engir bræðrungar, og skal hann þó taka alla bauga.
Ef engir lifa baugþiggjendur nema faðir eða sonur eða bróðir, en allir sé til veganda frændur, þeir er baugum skulu bæta, en þá er sem allir sé til ef nokkurir eru skapbætendur að hverjum baugi, og skal þá faðir og sonur og bróðir taka alla bauga fulla, hvort sem þeir eru allir til eða einn þeirra. Þeir skulu svo skipta öðrum baugum með sér sem sínum baugi, og skal höfuðbaugi einum þak og þveiti fylgja.
Nú lifa engir menn í bauggildi hins dauða nema föðurfaðir eða sonarsonur, móðurfaðir eða dóttursonur, en allir lifa í bauggildi veganda. Þá skulu þeir, hvort sem þeir eru allir til eða einn, taka alla bauga fulla nema höfuðbaug einn, hann skal fella hálfri mörk. Engum baugi skal þak né þveiti fylgja nema tvítugaura.
Nú lifa engir í bauggildi hins vegna nema föðurbróðir eða bróðursonur, móðurbróðir eða systursonur, en bætendur eru til í öllum stöðum. Þá skulu þeir taka alla bauga, hvort sem þeir eru allir til eða sumir. Höfuðbaug skulu þeir taka skerðan mörk, en tvítugaura hafa hálfri mörk. Sinn baug skulu þeir fullan taka og svo bræðrungabaug. Engum baugi skal þak né þveiti fylgja nema tvímerkingi.
En ef engir eru nánari baugþiggjendur til en bræðrungar, þá skal fara sem fyrr var um tínt. Nú eru viðtakendur til að höfuðbaugi og að tvímerkingi en engir að tvítugaura. Þá skal hann hverfa með mesta baugi ef bætendur eru til. En ef sá baugur er nokkur, er hvorki sé til skapbætendur né skapþiggjendur, og fellur sá baugur þá niður.
Frændur veganda eru baugs skapbætendur, og svo að hverjum baugi sem þeir eru til taldir. Bauggildismenn veganda skulu þeim mun meira hlut reiða baugs hvers heldur en nefgildismenn, sem þeir taka meira hlut er bauggildismenn eru hins dauða heldur en nefgildismenn. Og svo skulu þeir því gjaldi öllu skipta með sér er frændur eru veganda, hvort sem þeir eru til baugs hvers fleiri eða færri, og slíkum hlut halda upp að öllum reislum, þótt nefgildingar einir sé. Skapbætendur hins vegna, frændur, skulu skipta viðtökunni með sér í öllum stöðum.
Nú eru engir skapbætendur til höfuðbaugs, en viðtakendur eru til. Þá skal vegandi bæta höfuðbaugi fullum með þaki og þveitum, ef hann er sýkn og samlendur, enda skal-at hann fleirum baugum bæta. En ef hann er eigi til, þá skulu þeir bæta baugum tveim, er taldir eru til tvítugaura, sínum baugi fullum og höfuðbaugi skerðum hálfri mörk. Nú eru engir nánari bætendur en föðurbróðir og bróðursonur, móðurbróðir og systursonur, þá skulu þeir bæta baugum þrem, sínum baugi fullum, og tveim mörkum að þrímerkingi og tveim mörkum að tvítugaura, ef viðtakendur eru til. Ef engir eru nánari baugbætendur en bræðrungar, þá skulu þeir bæta baugum fjórum ef viðtakendur eru til, og tólf aurum að hverjum baugi. Engum baugi skal þak fylgja né þveiti nema bræðrungabaugi.
Nú lifa engir í bauggildi nema faðir og sonur og bróðir. Þá skulu þeir bæta baugum öllum fullum ef viðtakendur eru til, og skal höfuðbaug einn þekja. En ef engir eru bætendur til nema föðurfaðir og sonarsonur, móðurfaðir og dóttursonur, þá skulu þeir bæta baugum fjórum. Höfuðbaugi skal bæta skerðum hálfri mörk, en þrem fullum, og þekja tvítugaura einn, ef viðtakendur eru til allra. Nú eru engir bætendur til nema föðurbróðir og bróðursonur, móðurbróðir og systursonur, en allir lifa í bauggildi hins vegna. Þá skulu þeir bæta baugum fjórum. Þeir skulu bæta tveim mörkum að höfuðbaugi og tveim mörkum að tvítugaura, en fullum sínum baugi, og þekja þann einn, en tólf aura að minnsta baugi. Nú lifa bætendur að mesta baugi og minnsta, en viðtakendur eru til í öllum stöðum. Þá skal faðir og sonur og bróðir bæta baugum þrem fullum. Höfuðbaugi einum skal þak og þveiti fylgja. Nú er engi þeirra til nema bróðir sammæðri, og skal hann þá jafnt allri bót upp halda nema þveitum.
Sú er og kona ein er bæði skal baugi bæta og baug taka, ef hún er einberni, en sú kona heitir baugrýgur. En hún er dóttir hins dauða, enda sé eigi skapþiggjandi til höfuðbaugs en bætendur lifi, þá skal hún taka þrímerking sem sonur ef hún tók eigi fullsætti að vígsbótum, til þess er hún er gift, enda skulu frændur á lengur taka. Nú er hún dóttir veganda, en engi er skapbætandi til höfuðbaugs, en viðtakendur sé til. Þá skal hún bæta þrímerkingi sem sonur, til þess er hún kemur í vers hvílu, en þá kastar hún gjöldum í kné frændum.
Þeir menn eru og fimm er sakaukar heita. Einn er sonur þýborinn eða laungetinn, annar er stjúpsonur, enda námágar þrír, ef maður á móður hins vegna eða dóttur eða systur. Þeir skulu taka allir saman tólf aura og fimm penninga vegna, og taka svo hvort sem er einn þeirra eða allir, og jafnmikinn hlut hver þeirra við annan, og taka af þeim mönnum fimm er jafntengdir eru veganda, og jafnmiklu skulu þeir þá bæta þótt einn þeirra sé til gjaldsins sem allir. En ef þeir eru engir til aðrirtveggju, þá fellur sú sakbót niður. En ef þeir menn eru engir til sakbóta er manni sé firnari en bræðrungar hinum vegna, þá skulu næstabræðrungar taka þeirra hlut, og þriðjungi minna en hinir, en sinn hlut allan.
Nú hvargi þess eftir bauga er engvir eru til að taka sakbót, þá skulu hinir skyldri ávallt, þeir er næstir eru hinum, taka fullan þeirra hlut. En ef þeir eru eigi til, þá skulu hinir firnari, og taka hinna hlut þriðjungi skerðan að síns föðurbótum, ef bætendur eru til. Ef skapbætendur nokkurir eru eigi til eftir bauga, þá skulu hinir skyldri bæta allri bót. Nú eru engir hinir skyldri, þá skulu hinir firnari reiða þeirra bætur er eigi voru til, þriðjungi skerðan að síns föðurbótum. En niður fellur sú bót er hvergi eru til. Jafnt skulu bætur allar hverfa í alla knérunna, þær er eftir bauga eru.
Ef leysingur er veginn, þá skulu tólf aurar að mesta baugi en tveir aurar að baugþaki. En að öðrum baugi tíu aurar og fjórir örtugar að baugþaki. En að þriðja baugi mörk og eyrir að baugþaki. En að minnsta baugi sex aurar en tveir örtugar að baugþaki.
Þrælbaugar skulu þar vera er þrælar eru skapþiggjendur. Nú skal hina minnstu bauga segja, er þræll skal þræli bæta. Þar eru þveiti tuttugu og þrjú að höfuðbaugi en sjö þveiti að baugþaki. En að föðurföðurbaugi tuttugu þveiti og þrjú að baugþaki. Að föðurbróðurbaugi fimmtán þveiti og þrjú að baugþaki. Að bræðrungabaugi skulu tólf þveiti og tvö að baugþaki. Þar skulu og vera að sakbótum eftir bauga átta þveiti og þriðjungur hins fimmta þveitis, og hálft fjórða þveiti, og þriðjungur hins þriðja þveitis, og hálft annað þveiti. Eitt þveiti skulu taka þriðjabræðra, og svo gjalda, enda verður sú sakbót minnst. Þar aðeins skulu þrælar bæta, er þeir hafa úrkost til er bæta skulu.
Þeir menn eru enn fjórir er náir eru kallaðir þótt lifi. Ef maður er hengdur eða kyrktur eða settur í gröf eða í sker eða heftur á fjalli eða í flæðarmáli. Þar heitir gálgnár og grafnár og skernár og fjallnár. Þá menn alla skal jafnt aftur gjalda niðgjöldum, sem þeir sé vegnir, þótt þeir lifi.
Svo er mælt að það sumar skal niðgjaldaheimting upp hefja er vígsökin er sett eða sótt, eða hana skyldi sækja, og er þá rétt að lýsa þegar til sóknar á hendur þeim mönnum öllum er spurt hafa vígið. Sækjandi skal að dómi telja frændsemi með þeim er sóttur er og veganda, og með sér og hinum vegna. Síðan skal hann nefna votta „að því vætti,“ skal hann kveða, „að eg legg það undir þegnskap minn að sú er frændsemistala sönn og rétt með oss hvorumtveggjum, er nú er talið, en þær sakir með okkur N.N.“ Hann skal og hafa sannaðarmenn tvo, þá er það leggi undir þegnskap sinn að þeir hyggi þá frændsemistölu rétta, en fer um þau mál að öðru sem um önnur févíti.
Rétt er og að stefna heiman til sakbóta. En ef sá telur annan jafnskyldan eða skyldra, er sóttur er, þá skal hann telja þá frændsemi fyrir sækjanda og vinna eið að, enda skal þá dæma slíkt á hönd hverjum þeirra sem lög ber til, enda skulu tryggðir koma hvervetna að móti sakbótum. Eigi verður ella heimting til þeirra.
Ef lýritnæmar sakar eru með mönnum óbættar, þá skal frændi veganda hvergi deila samvistu við hins vegna frænda, nema því aðeins ef hann hefir þar vist áður eða gisting svo tekið að hann vissi eigi hins í það sinn þangað von. En ef sá gerir eigi svo, þá á hinn kost að verja honum lýriti samvistuna. En ef hann fer eigi á brott, þá varðar honum fjörbaugsgarð, og skal þeirri sök stefna heiman og kveðja til heimilisbúa níu á þingi þess er sóttur er, að bera um það hvort hann hafi hafða samvistu við hinn síðan er lýriti var varið eða eigi, og skal þó sanna frændsemi sem áður var tínt.
Ef maður rýfur tryggðir þar er bætt er sakbótum, þá eykst þar réttur hvers manns hálfu við þann þeirra er bættu, enda skal á þau mál engi sættast fyrir lof fram.
Ef menn eru eigi fulltíða eða af landi farnir, þeir er bætur eigu að taka, þá skulu þeir heimta sitt að þeim, er þeirra hlut tóku. En ef þá var skerðum bótum bætt, og skulu veganda frændur það gjalda er af yrði.
Nú voru veganda frændur eigi fulltíða, eða voru þeir erlendis þá er baugum var bætt, þá skulu þeir gjalda það er til þeirra kom, þá er þeir eru fulltíða, eða koma út og skipta svo til sem nú var tínt.
Það er silfur sakgilt í baugum, og svo í þökum og þveitum, er eigi sé verra heldur en var lögsilfur hið forna, það er tíu penningar gera eyri, og meiri sé silfurs litur á en messingar og þoli skor, og sé jafnt utan sem innan. Enda er rétt að gjalda það í lögaurum öllum.
2. GRIÐAMÁL.
„Allir vitu atburði um missætti þeirra N.N. og N.N., en nú eru vinir þeirra við komnir og vilja þá sætta. Nú selur N.N. N.N. grið til sáttarstefnu þeirrar er þeir hafa á kveðið fyrir sig og sinn erfingja, og alla þá menn er hann á griðum fyrir að selja. En N.N. tekur grið af N.N. sér til handa og sínum erfingjum, og öllum þeim mönnum er hann þarf grið til handa að taka. En nú er Guð sjálfur þeirra fyrstur, er bastur er, og allir helgir menn og allur heilagur dómur, páfi að Rómi og patríarki, konungur vor og biskupar órir, og bóklærðir menn allir og allt kristið fólk. Eg nefni tólf menn í grið þessi á millum þeirra N.N. og N.N., er nú standa tveim megin að málum,“ og skal nefna þá tólf menn.
Síðan skal sá maður er fyrir griðum mælir nefna votta tvo eða fleiri „að því vætti, að þessi grið er nú eru nefnd skulu vera full og föst allra manna á milli, þeirra er hér koma í mannsöfnuð þenna, og meðan menn eru hér lengst á mannfundi þessum, og hver maður kemur heim til síns heima, og þótt oftar verði fundir lagðir til mála þeirra, þá skulu þó grið halda til þess er svo er málum þeirra lokið sem þau megu best lúkast. Nú heldur jörð griðum upp, en himinn varðar fyrir ofan en hafið rauða fyrir utan, er liggur um lönd öll þau er vér höfum tíðindi af. En á milli þessa endimarka, er nú hefi eg hér talt fyrir mönnum, þrífist sá maður hvergi er þessi grið rýfur er eg hefi hér nefnd, og bindi hann sér svo höfga byrð að hann komist aldregi undan, en það er Guðdrottins gremi og griðbíts nafn. En þeir menn allir hafi Guðs miskunn er griðum halda vel, og allra heilagra árnaðarorð til allrar þurftar sinnar við almáttkan Guð. Sé Guð hollur þeim er heldur griðum, en gramur þeim er grið rýfur, hollur þeim er heldur, hafið heilir grið selst.“
Það eru forn lög á landi óru, ef maður verður sekur um griðarof, að þeir menn tólf er í grið eru nefndir eigu að taka rétt úr fé hans, átta aura hins fimmta tigar. En það eru lög í Noregi, og alla danska tungu, ef maður þyrmir eigi griðum, að sá maður er útlagur fyrir endilangan Noreg fram, og fer bæði löndum sínum og lausafé og skal aldregi í land koma síðan.
3. TRYGGÐAMÁL.
„Sakar voru á milli þeirra N.N. og N.N., en nú eru þær settar og fé bættar sem metendur mátu og teljendur töldu og dómur dæmdi og þiggjendur þágu og þaðan báru með fé fullu og fram komnum eyri, þeim í hönd selt er hafa skyldi.
Þið skuluð vera menn sáttir og samværir að öldri og að áti, á þingi og á þjóðstefnu, að kirkna sókn og í konungshúsi, og hvervetna þess er manna fundir verða, þá skuluð þið svo samsáttir sem aldregi hæfist þetta ykkar á meðal. Þið skuluð deila kníf og kjötstykki, og alla hluti ykkar í milli sem frændur en eigi sem fjandur. Ef sakar gerast síðan á milli þeirra, annað en það er vel er, það skal fé bæta en eigi flein rjóða. En sá ykkar er gengur á gervar sáttir eða vegur á veittar tryggðir, þá skal hann svo víða vargur rækur og rekinn sem menn víðast varga reka, kristnir menn kirkjur sækja, heiðnir menn hof blóta, eldur upp brennur, jörð grær, mögur móður kallar og móðir mög fæðir, aldir elda kynda, skip skríður, skildir blíkja, sól skín, snæ leggur, Finnur skríður, fura vex, valur flýgur vorlangan dag, stendur honum byr beinn undir báða vængi, himinn hverfur, heimur er byggður, vindur þýtur, vötn til sævar falla, karlar korni sá. Hann skal firrast kirkjur og kristna menn, Guðs hús og guma, heim hvern nema helvíti.
Nú haldið þið báðir á bók einni, enda liggur nú fé á bók er N.N. bætir fyrir sig og sinn erfingja, alinn og óborinn, getinn og ógetinn, nefndan og ónefndan. N.N. tekur tryggðir, en N.N. veitir ævintryggðir þar æ skulu haldast, meðan mold er og menn lifa.
Nú eru þeir N.N. og N.N. sáttir og sammála hvar sem þeir hittast á landi eða legi, skipi eða á skíði, í hafi eða á hestsbaki, árar miðla eða austskotu, þóftu eða þilju ef þarfar gervast, jafnsáttur hvor við annan sem faðir við son eða sonur við föður í samförum öllum. Nú leggja þeir hendur sínar saman, N.N. og N.N. Haldið vel tryggðir að vilja Krists og allra manna þeirra er nú heyrðu tryggðamál. Hafi sá hylli Guðs er heldur tryggðir en sá reiði er rýfur réttar tryggðir, en hylli sá er heldur. Hafið heilir sæst, en vér sém vottar er við erum staddir.“